Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Halldóra í góðum hópi hænsnfugla.
Halldóra í góðum hópi hænsnfugla.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 13. október 2023

Sameinuð erum við sterkari

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Á ársfundi Byggðastofnunar, sem haldinn var í lok apríl sl., var Halldóra Kristín Hauksdóttir settur nýr stjórnarformaður, eftir fjögurra ára setu sem varaformaður stjórnar.

Halldóra Kristín, sem er starfandi lögfræðingur velferðarsviðs Akureyrar, stendur einnig vaktina sem bæði eggjabóndi í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd og formaður Félags eggjabænda auk þess að vera í stjórn Bændasamtaka Íslands.

„Hjá Bændasamtökunum hef ég átt kost á því að taka þátt í og móta þær mikilvægu breytingar sem þar hafa átt sér stað,“ segir Halldóra. „Mér hefur fundist ánægjulegt að horfa á þær verða að veruleika og sjá samtökin vaxa og dafna – verða aftur raunverulegur málsvari allra bænda á Íslandi.“ Bendir hún á að sameinaðir séu bændur svo miklu sterkari heldur en hver grein í sínu horni. Íslenskur landbúnaður sé burðarás er kemur að búsetu fólks í dreifðum byggðum auk þess að vera sú atvinnugrein sem snýst um að yrkja landið og rækta dýr og grænmeti til manneldis eða annarra nytja. Hver framtíð og þróun íslensks landbúnaðar verður, er háð þeim starfsskilyrðum sem ríkisvaldið skapi.

Yfirgripsmikil og kostnaðarsöm aðgerð

Nýverið gekk í gildi reglugerð þess efnis að allar hænur skyldu hafðar í lausagöngu og vinnur nú Matvælastofnun að úttekt allra búa sem hafa starfsleyfi til frumframleiðslu eggja. Er þetta mikill áfangi sem hefur dregist heldur lengi, en Evrópusambandið innleiddi kröfuna árið 2012.

Aðspurð segir Halldóra ágætlega hafa verið tekið í þessa skipan í hópi eggjabænda, en þó sé um bæði stórfellda og kostnaðarsama framkvæmd að ræða á húsnæði þeirra.
Hefur skipunin því miður orðið til þess að minni framleiðendur hafi hætt búskap vegna þess mikla kostnaðar sem af henni leiddi, en starfandi eru eggjabændur alls tólf talsins. Með það í huga verður að benda á að til viðbótar hafi nú öll aðföng við framleiðslu hækkað verulega og nær ómögulegt er að eggjaverð haldist óbreytt þó tilmæli sé um slíkt frá ráðamönnum. Eggjaframleiðslan sem slík sé hins vegar í góðu gengi og það helsta sem myndi hafa áhrif á hana væri ef farið yrði út í breytingar á tollum. „Heilt yfir tel ég þessa skipan þó af hinu góða, sérstaklega ef litið er til dýravelferðar, segir Halldóra, en í lausagöngunni búa hænurnar við meira athafnafrelsi, meira rými og sýna þá frekar sitt náttúrlega atferli.“

Halldóra ásamt sonum sínum fyrir utan eggjabú fjölskyldunnar, Grænegg.

Aðbúnaðarskilyrði og heilbrigði stofns

Það hefur komið fram í umræðunni að mismunandi fyrirkomulag sé á breytingum húsnæðis er kemur að lausagöngu hænsnfugla. Algengust eru svokölluð pallakerfi þar sem hreiðrin eru höfð í miðjunni en fuglarnir fari á milli hæða. Aðrir kjósa að hafa hluta gólfs upphækkaðan og þá hefðbundið gólfkerfi á einni hæð.

Halldóra, sem stendur að eggjabúinu Grænegg í samfloti við mág sinn og fjölskyldu, er vel kunnug þessum rekstri. Upphaflega voru foreldrar hennar eggjabændur og er gaman að segja frá því að þau voru fyrst allra í greininni til þess að hljóta vistvæna vottun fyrir framleiðslu sína.

„Í dag er þessi vistvæna vottun ekki lengur til, en þeir sem hlutu hana urðu að uppfylla ákveðin skilyrði reglugerða um aðbúnað. Einnig voru hænurnar allar í lausagöngu, sem eins og áður sagði, í dag er orðin skylda.“

Halldóra var kosin formaður Félags eggjabænda nú í vor. Telur hún sérstöðu íslenskra eggjabænda vera allnokkra og þá helst fólgna í heilbrigði stofnsins. Vel er staðið að vörnum gegn sjúkdómum, en innflutningur varpstofnsins kemur þar við sögu. „Flutt eru inn frjó egg sem koma frá erlendu kynbótabúi sem koma síðan á einangrunar- og útungunarstöð sem staðsett er á Hvanneyri, en þá fugla köllum við foreldrafugla. Kynslóðin sem kemur undan þessum fuglum fer svo á sérstök bú sem hafa heimild til að unga út og endurselja eggjabúum. Þannig erum við í raun með tvöfalt kerfi sem býður upp á að hægt sé að bregðast við ef eitthvað kemur upp á.“

Halldóra nefnir einnig hversu vel sé staðið að eftirliti með fóðri og þá heilbrigði varpfuglanna. „Eftirlitið er sérstaklega gott og reglulega tekin sýni bæði úr fóðri, eggjum og úrgangi. Bændur fá heimsóknir frá sérfræð- ingum Matvælastofnunar jafnt og þétt og þurfa að lúta ströngum skilyrðum þeirra um heilbrigði og aðbúnað dýranna, auðvitað með tilheyrandi kostnaði.“

Allt lagt á borðið með ávinning að leiðarljósi

Er talið berst að stöðu hennar sem nýsettum stjórnarformanni Byggðastofnunar kemur skýrt fram að hún hefur brennandi áhuga á málefnum landsbyggðarinnar. Stefnumótun og eftirfylgni verkefna þar innan eru henni ofarlega í huga enda telur hún Byggðastofnun búa yfir ómetanlegum mannauð til þess að takast á við hin ýmsu verkefni.

Hrósar hún samstarfsfólki sínu sem hún segir afar lausnamiðað og er full tilhlökkunar varðandi áframhaldandi samstarf. „Við komumst lengst þegar við vinnum saman, ræðum málin og leggjum allt á borðið, með það fyrir augum að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það hefur mér fundist einkenna störf Byggðastofnunar,“ heldur hún áfram. „Að lögð hefur verið fram góð vinna hjá stjórn og starfsmönnum stofnunarinnar að stefnumörkun, sem verður leiðarljós okkar á næstunni.

En framtíðarsýn stofnunarinnar er blómleg byggð um land allt.“

Halldóra og mágur hennar reka saman Grænegg, vistvænt bú þar sem allar hænur eru hafðar í lausagöngu.

Brothættar byggðir

Halldóra tekur skýrt fram að hennar áherslumál, líkt og hjá forvera hennar, Magnúsi B. Jónssyni, séu verkefni tengd eflingu byggðar og atvinnulífs, enda mikilvægt að tryggja jöfn tækifæri allra landsmanna til atvinnu og búsetu. Hagkvæmt sé að byggð dragist ekki meira saman en orðið er og þær auðlindir sem til eru á landsvísu skuli nýta. Þarna kemur verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, að málum, en það verkefni hófst fyrir rúmum áratug.

Hefur ávinningurinn af því verið afar margþættur á jákvæðan hátt, en meginmarkmið verkefnisins er að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og í sveitum landsins. Heilmikil tækifæri felast með þátttöku byggða í verkefninu og tekur þá m.a. til þátttöku og frumkvæði íbúa sem geta leitt af sér aukin lífsgæði.

Byggðastofnun hefur í gegnum tíðina unnið ötullega að ómetanlegum rannsóknum og gagnasöfnun í þágu byggðamála. Segir Halldóra verkefni Brothættra byggða vera meðal þeirra sem njóta góðs af og vonandi að verkefnið nái til fleiri byggða, stækki enn fremur þar sem þarf á að halda. Áhugavert er að líta á mælaborð vefsíðu Byggðastofnunar þar sem er að finna hagnýtt yfirlit yfir ýmis byggðatengd gögn. Bjóða stillingarnar til dæmis upp á val um ákveðin svæði, ár eða tímabil auk þess sem mælaborðið veitir meðal annars upplýsingar um íbúafjölda sveitarfélaga innan byggðakjarna, þróun byggða, fasteignagjöld, skiptingu íbúa eftir ríkisfangi eða tekjum svo eitthvað sé nefnt.

Caption

Nýsköpun í landbúnaði og búsetutengdir styrkir

Þau eru mörg hjartans málin sem eru Halldóru hugleikin og þá ekki síst hvernig leita má leiða til nýsköpunar í dreifbýli með jákvæðum aðgerðum á borð við hagstæð lán og búsetutengda þróunarstyrki.

Þá lítur hún til kynslóðaskipta í landbúnaði og hvernig Byggðastofnun geti greitt fyrir slíku enda fjármagnskosturinn mikill.

Hefur stofnunin, í samvinnu við unga bændur unnið að því að greina helstu hindranir fyrir lánaskilyrðum og hvar Byggðastofnun gæti komið að úrbótum og eða fjármögnun, enda mikill vilji til úrlausnar sem auðveldar kynslóðaskipti í landbúnaði til framtíðar.

„Ég vil nota tækifærið,“ lýkur Halldóra máli sínu, „og vekja athygli á málþingi sem haldið verður á Raufarhöfn þann 5. október.

Tilefnið er vegna þess að nú eru rúm tíu ár liðin frá því að verkefnið Brothættar byggðir hóf þar göngu sína með verkefni er fékk nafnið Raufarhöfn og framtíðin. Þar munum við líta yfir farinn veg en ekki síður horfa til framtíðar og sjá ávinninginn af verkefninu Brothættar byggðir. Í því felst loforð um að vinna með íbúum og hagsmunaaðilum til að tryggja að áhyggjuefni þeirra og metnaðarmál hafi bein áhrif á þá valkosti sem teknir verða til skoðunar í verkefnum.“

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...