Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Valtra N175 Direct er vandaður traktor frá finnska dráttarvélaframleiðandanum sem hefur getið sér gott orðspor á Íslandi. Hér býður tölvukerfið upp á
mikla möguleika og notkunin er almennt rökrétt. Steingrátt lakkið fer dráttarvélinni vel, en hún fæst í fleiri litum.
Valtra N175 Direct er vandaður traktor frá finnska dráttarvélaframleiðandanum sem hefur getið sér gott orðspor á Íslandi. Hér býður tölvukerfið upp á mikla möguleika og notkunin er almennt rökrétt. Steingrátt lakkið fer dráttarvélinni vel, en hún fæst í fleiri litum.
Mynd / ÁL
Líf og starf 23. janúar 2023

Tæknilegur Finni

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk að prufa nýjan traktor á dögunum sem Aflvélar flytja inn. Eins og flestar betri dráttarvélar á markaðnum í dag, þá er margt mjög líkt því sem samkeppnin hefur upp á að bjóða.

Hins vegar eru nokkur atriði – stór og smá – sem gera þessa vél mjög áhugaverða. Eintakið í þessum prufuakstri var útbúið fullkomnum tölvubúnaði sem ætlaður er til að auðvelda mikla vinnu og er átt við allar stillingar í gegnum svokallaðan Smart Touch snertiskjá. Vélarnar af N línunni myndu teljast rúmlega meðalstórar og er hægt að bera þær saman við Massey Ferguson 6S.

Þegar gengið er aftan að Valtra N, þá gæti þetta verið hvaða traktor sem er, enda eru þeir flestir ekkert nema dekkin, húsið og ámoksturstækin. Þegar horft er á húddið fer þó ekki á milli mála að um er að ræða græju frá finnska dráttarvélaframleiðandanum. Líkt og hjá flestum tegundum dráttarvéla, þá er systkinasvipur Valtra véla mjög sterkur og er ekki víst að allir sjái strax hvort um er að ræða vél af G, N eða T línunni.

Ökumannshúsið er góður staður til að vera á. Sætið dempar vel högg úr öllum áttum og berst nær enginn utanaðkomandi hávaði inn í húsið.

Sæti fjaðrar í allar áttir

Ökumannshúsið er hinn viðkunnanlegasti staður. Sætið fer vel með notandann þar sem það fjaðrar ekki bara upp og niður, heldur líka fram og aftur og til beggja hliða. Þegar setið er í tæki – sem eðli sínu samkvæmt veltist til og frá – er gott að geta einangrað skrokkinn frá mestu höggunum.

Áðurnefnd hliðarhreyfing er ekki mjög algeng í dráttarvélasætum, en breytir hins vegar mjög miklu hvað varðar þægindi.

Traktorinn er notalegur í akstri, þökk sé áðurnefndu sæti, ökumannshúsi á loftpúðafjöðrun, framhásingu á loftpúðum og mikilli hljóðeinangrun. Hún kemst upp í 57 km hraða, en í þjóðvegaakstri er vélin afar stöðug og geta farþegi og ökumaður spjallað í rólegheitunum. Stiglaus skiptingin gerir alla notkun yfirvegaða og fyrirsjáanlega. Þegar vélin er sett í gír gerist ekkert fyrr en notandinn ýtir á olíugjöfina eða hraðastýringuna. Í fínvinnu eru engir rykkir og er kúplingin óþörf nema fyrir sérvitringa.

Innrarýmið virðist vera vandað og allt sem notandinn snertir er úr góðum efnum. Stýrið er leðurklætt og eru möguleikar á stillingum miklir. Fljótlegt er að halla stýrinu að sér eða ýta í burtu til að auka aðgengi, þar sem nóg er að stíga á fótstig til að losa festinguna. Armpúðinn hægra megin er klæddur dökku rúskinni, en á honum sjást auðveldlega óhreinindi. Líklegt er þó að framleiðandinn hafi valið stama klæðningu, þar sem öll stjórntækin eru framan við áðurnefndan stólarm.

Útsýnið er gott með þakglugga í beinu framhaldi af framrúðunni. Allar akstursupplýsingar eru á skjánum við gluggapóstinn, á meðan allri virkni vélarinnar er stýrt í gegnum snertiskjáinn framan við stjórnborðið.

Takkaflóð og snertiskjár

Við fyrstu sýn virðist takkaflóðið á stjórnborðinu vera yfirþyrmandi, og eru eflaust einhverjir sem vilja bara gömlu vökvastangirnar.

Snertiskjárinn gerir hins vegar allt mun auðveldara þar sem hugbúnaðurinn er sérlega viðmótsþýður. Nýir notendur munu klárlega þurfa markvissa yfirlegu til að átta sig á hvernig hlutirnir virka, en þar sem bæði notendahandbókin og kerfið eru á íslensku og öll uppsetningin greinilega mjög rökrétt, ættu flestir að geta nýtt sér möguleikana sem boðið er upp á. Fljótlegt er t.d. að velja mismunandi virkni fyrir nær alla hnappana og er auðvelt að forrita aðgerðaraðir í nokkra takka.

Síðarnefndi eiginleikinn gerir notandanum til að mynda kleift að ýta bara á einn hnapp þegar snúa þarf við í jarðvinnu (eða hverju sem er) í stað þess að endurtaka alltaf nokkrar hreyfingar og þurfa að einbeita sér að gera allt á réttum tíma og í réttri röð.

Smart Touch snertiskjárinn býður upp á ótal möguleika.

Innbyggð vog

Traktorinn í þessum prufuakstri var útbúinn vog í ámoksturstækjunum sem tengist við tölvuna. Notandinn getur því auðveldlega séð hversu þungt hvert hlass er og tölvan sér um að leggja þetta allt saman og telja hversu oft er lyft.

Bændur gætu þá til að mynda séð hversu þungar rúllurnar eru og séð meðalþyngd; og verktakar gætu haldið utan um hversu þungu hlassi er mokað á hvern bíl. Þegar kemur að því að senda verkyfirlit eða reikning er hægt að færa gögnin yfir í heimilistölvu.

Tölvan býður líka upp á forstilltar hreyfingar. Með því er hægt að skilgreina hámarks og lágmarks hæð ámoksturstækja og skóflu sem minnkar álagið á notandann í miklum mokstri. Einnig er hægt að láta skófluna hristast með því að ýta á takka.

Tölur

Helstu mál Valtra N175 eru: þyngd 6.500 án ámoksturstækja, hæð 2.960 mm, breidd 3.660 mm, lengd 5.405 mm. Afl vélarinnar er 165 hö og 680 Nm, en með aflauka fer það upp í 201 hö og 800 Nm.

Verð Valtra í N línunni er frá 14.200.000 krónum án vsk., en sú sem tekin var fyrir að þessu sinni myndi kosta 22.700.000 krónur án vsk. miðað við gengi € = 152 ISK.

Í stuttu máli

Þessi vél er vel útbúin og hefur Valtra orðstír fyrir áreiðanleika og að virka vel við kaldar aðstæður.

Þrátt fyrir mikinn tölvubúnað er notkunin afar rökrétt og munu þeir sem hafa metnað fyrir að læra á kerfið hafa fjölbreytta möguleika í höndum sér. Þeir sem vilja ekki nýta sér kosti rafeindareikna geta notað þennan traktor eins og hvern annan, en ættu þó frekar að kaupa ódýrari týpu með eldri tækni.

Sérstakar þakkir fá bændurnir á Kotlaugum sem lögðu til dráttarvélina í þennan prufuakstur.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...