Vilhjálmur og Elínborg handhafar verðlauna
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir og Vilhjálmur Lúðvíksson hlutu garðyrkjuverðlaun á sérstakri hátíðardagskrá Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi sem stóð fyrir opnu húsi á sumardaginn fyrsta.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra færði þeim Elínborgu Erlu og Vilhjálmi verðlaunin.Elínborg Erla hlaut hvatningaverðlaun en hún er, garðyrkjuframleiðandi á Breiðargerði í Skagafirði. Hún útskrifaðist sem garðyrkjufræðingur úr Garðyrkjuskólanum 2020. Í Skagafirði stundar hún lífræna útiræktun á grænmeti auk þess að vera með ræktun í þremur gróðurhúsum.
Þar að auki er skógrækt á jörð hennar á um 50 hektara svæði samkvæmt samningi við Skógræktina og gróðursettar um 10 þúsund plöntur á ári. Heiðursverðlaun garðyrkjunnar í ár fékk Vilhjálmur Lúðvíksson, verkfræðingur. Vilhjálmur er stúdent frá MR 1961 og hélt svo til Bandaríkjanna þar sem hann lauk doktorsprófi í efnaverkfræði.
Vilhjálmur gegndi stöðu framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs ríkisins og síðar RANNÍS um langt árabil. Auk þess gegndi hann fjölda trúnaðarstarfa fyrir stjórnvöld sem fulltrúi í nefndum og ráðum, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Hann hefur einnig sinnt ritstörfum meðfram öðrum störfum og ritstýrði m.a. Riti Landverndar, bakgrunnsskýrslum á úttektum OECD á vísinda- og tæknistefnu Íslendinga og Garðyrkjuriti Garðyrkjufélags Íslands.