Máttarstólpi í sögu hrossaræktar á Íslandi
Þorkell Bjarnason starfaði sem hrossaræktarráðunautur í 35 ár, frá 1961-1996 en á þeim tíma tók hrossaræktin miklum framförum.
Bjarni Þorkelsson, sonur Þorkels, hefur nú gefið út bókina Æviskeið, sem er starfssaga föður hans og margháttaður fróðleikur um hrossaræktina á seinni helmingi 20. aldarinnar.
Með ævistarfi sínu lagði Þorkell grundvöll að því ævintýri sem íslensk hrossarækt er löngu orðin, ekki bara á Íslandi heldur um víða veröld. Með ræktendunum og samstarfsmönnum sínum, sem skilmerkilega er fjallað um í bókinni, setti hann hásölum hrossaræktarinnar þá traustu hornsteina sem þeir hvíla nú á.
Bókin er byggð á samtölum og hljóðrituðum viðtölum við Þorkel sem Bjarni tók upp á árunum 2003- 2006 en Þorkell lést það ár. „Þetta er orðin 20 ára meðganga en það skapaðist loks rými hjá mér til að klára bókina eftir að ég hætti að kenna. Ég komst í samband við Eyjólf Jónsson, bókagerðarmann frá Reykjum í Mosfellsbæ, og var hann mér heilladrjúgur liðsmaður í að gera bókina.
Bókin er að mestu leyti byggð á viðtölum við föður minn en það er ýmislegt sem ég skrifa, í samráði við hann, sem er ekki bara byggt á viðtölunum heldur líka viðhorfum hans og ýmsu sem hann hafði sagt við mig um dagana,“ segir Bjarni. Æviskeið er hátt í fjögur hundruð blaðsíður með u.þ.b. 250 ljósmyndum og fylgir bókinni nafna- og myndaskrá sem auðveldar yfirsýn og tryggir notkun hennar og gildi sem uppflettirits um langan aldur.
„Þetta er mest skrifað í fyrstu persónu þar sem Þorkell hefur orðið. Þetta er ekki fræðirit, en geymir fróðleik og nánast ótæmandi upplýsingar um allt sem stendur á bak við það sem við erum að gera í dag í hrossaræktinni. Nokkrir kaflar, sem eru sérmerktir, eru ekki skrifaðir í fyrstu persónu en það eru t.d. ýmsar tilvitnanir í skrif Þorkels, sem hafa verið birtar áður, og palladómar um samferðamennina, ræktendur og meðdómara. Þessu síðastnefnda var raunar ólokið þegar Þorkell féll skyndilega frá í maímánuði 2006,“ segir Bjarni.
Bókin hefst á frásögnum af umhverfi og starfsskilyrðum hrossaræktarinnar frá því að Landsmót var fyrst haldið 1950 og þar til að Þorkell tekur við sem hrossaræktarráðunautur 1961.
Síðan er stórmótasagan rakin, lið fyrir lið, frá ári til árs. Kaflarnir hefjast allir á almennum nótum þar sem fjallað er um viðhorfin og ræktunarstarfið.
Í þessum skrifum er fjallað um hrossaræktarmál í víðu samhengi, eins og kaflaheitin bera með sér: Landslag – loftslag / Aðkoma / Ættbók og þjóðsögur / Mannleg samskipti / Sögulegt landsmót – örlítil forsaga / Afkvæmarannsóknir / Reiðmennskan / Stóðhestastöðin / Viljapróf / Stofnræktarbúin / Útflutningsmálin / Mínir menn / Stöðugleikinn megingæfa / Stofnverndarsjóður / Nýir tímar – Tölva og Blup / Blikur á lofti / Teygni og tímamót / Erlend samskipti / Síðasta landsmótið – uppskeruhátíð / Hringnum lokað.
Sagan er sögð frá sjónarhóli Þorkels, og gerð er grein fyrir meðbyr og andróðri. ,,Ég hef orðið var við mikinn áhuga á bókinni meðal hestamanna sem muna þessa tíð, þá bókstaflega þyrstir í að sjá þessa umfjöllun og yfirlit um gengin spor. Og ég bind sannarlega vonir við að unga og efnilega hestafólkið sem er að taka við keflinu, hafi virkilegan áhuga á því að kynna sér bakgrunn alls þess sem er að gerast í hrossaræktinni nú um stundir,“ segir Bjarni.