Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Íslandskort með útbreiðslu völvuleiðanna.
Íslandskort með útbreiðslu völvuleiðanna.
Mynd / SÆ
Menning 12. desember 2023

„Voru eldri en alheimurinn og vissu allt“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Völvuleiði er ný bók sr. Sigurðar Ægissonar, sóknarprests á Siglufirði, og kemur út hjá bókaútgáfunni Hólum.

Sigurður Ægisson. Mynd / Hólar

Sigurður segir í formála að hann hafi byrjað að grúska í upplýsingum um völvur og völvuleiði austur á Djúpavogi árið 1985 þar sem hann þjónaði. Bókin sé persónuleg rannsóknarsaga, byggð á því sem hann hafi viðað að sér af efni um þetta fyrirbæri á síðustu næstum 40 árum.

Enn hlúð að kumlum

Í íslenskri orðabók er orðið völva útskýrt þannig: „Forspá kona (í heiðnum sið) sem framdi seið og þuldi véfréttir.“ Árni Björnsson þjóðháttafræðingur segir orðið völva dregið af orðinu völur sem merki stafur og völva sé þá sú sem ber seiðstaf. Völvuheitið er forn-norrænt og á sér víða hliðstæður, svo sem í hinum grísku sibyllum. Völvan átti að sjá bæði inn í fortíð og framtíð.

„Að slíkar leifar heiðins dóms mætti enn finna á Íslandi fannst mér einkennilegt, ekki í neikvæðum skilningi þó, heldur í samhengi við kristnu trúna sem verið hafði í landinu allt frá upphafi byggðar, og ráðið flestu í andlegum búskap Íslendinga frá árinu 999 eða 1000, að ég hélt. Og það, að enn væri hlúð að þessum meintu kumlum, sem mér var kunnugt um að tíðkaðist á einhverjum stöðum, fannst mér enn áhugaverðara,“ skrifar Sigurður.

Völvur mikilsvirtar

Hann fjallar um hartnær sjötíu völvuleiði hingað og þangað um landið og setur í sögulegt samhengi að fornu og nýju.

„Ljóst er að völvur höfðu mikið að segja fyrir þjóðfélag manna í heiðni. Meira að segja Óðinn, hinn alvaldi, leitaði til þeirra í upplýsingaöflun sinni, hinna goðsögulegu, vel að merkja; þær voru nefnilega eldri en alheimurinn og vissu allt.“

Hér er, með góðfúslegu leyfi höfundar birtur kafli úr Völvuleiðum: 

Skaftárdalur á Síðu

„Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1909 ritar Brynjúlfur Jónsson (1838–1914) frá Minna-Núpi: „Fyrir ofan tún í Skaftárdal heitir Tumastofa [leiðrétt í næstu árbók í: Tumatorfa]. Í henni er dys, er kallast Tumaleiði. Er nokkurn veginn auðséð, að grafið hefir verið í leiðið. Engin sögn er um Tuma.“

Ari Gíslason (1907–1995) segir í upphafi örnefnaskrár yfir Skaftárdal: „Jörð á Útsíðu næst norðan við Á. Hér hafði Magnús Finnbogason (1874–1959) skrifað örnefni eftir Kristjáni Pálssyni (1891–1974). Ég kom þar 1963, hitti því miður Kristján ekki heima, en kona hans [Þorbjörg Jónsdóttir (1893–1985)] fór yfir örnefni og gerði ýmislegt gleggra, þó betur hefði þurft að gera. Land Skaftárdals er víðáttumikið og margbreytilegt. Bærinn stendur í dalverpi sunnarlega í landareigninni. Vestan við bæ eru Kvíatorfa og Tumatorfa.“ Í eftirmála er þetta: „Örnefnaskrá Skaftárdals var yfirfarin með Kristjáni Pálssyni bónda í Skaftárdal þann 10. sept[ember] 1966. Segir Kristján þetta ennfremur: Á Tumatorfu er völvuleiði. Það snýr frá landnorðri til útsuðurs. Magnús í Skaftárdal sagði, að völvuleiði hefðu þá stefnu.“

Í bók Þórðar Tómassonar, Setið við sagnabrunn, frá 1997, er þetta meðal annars að finna: „Tumaleiði er skammt vestur frá bæ í Skaftárdal og var talið völvuleiði þrátt fyrir nafnið. Stranglega var varað við því að hreyfa við leiðinu. Sveinn Steingrímsson [1874–1964] frá Fossi bjó í Skaftárdal árin 1902–1918. Sonur hans, Ingibergur, var fæddur 1908. Innan við tíu ára aldur tók hann sig eitt sinn til og fór einn síns liðs að Tumaleiði til að grafa í það. Hann stakk upp einn kökk og þá kom yfir hann eitthvað óskýranlegt svo hann stökk í burtu frá leiðinu og kom aldrei síðan nálægt því.

Sumarið 1990 kom hann að Skaftárdal með bróður sínum, Ólafi bónda í Botnum. Ólafur er fæddur 1912. Ingibergur benti honum til Tumaleiðis án þess að líta þangað og fékkst ekki til þess að koma á staðinn. Ólafur fann leiðið og smádæld í það vísar enn til þess hvar Ingibergur stakk upp kökkinn.“

Hinn 13. ágúst 2021 hringdi ég í Oddstein R. Kristjánsson (1928–2022), en hann var fæddur og uppalinn í Skaftárdal og gerðist bóndi þar. Hann var nú á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri. „Leiðin eru tvö,“ sagði hann. Ef gengið væri yfir Tumatorfu væru þau austan við girðinguna, sennilega þó grasi gróin og horfin núna.““

Skylt efni: bókaútgáfa

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...