Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Tesla Model X er stór jepplingur með sæti fyrir allt að sjö farþega. Fálkahurðirnar að aftan eru góðar fyrir fólk sem vill sýnast og hestöflin 1.020 koma blóðinu á hreyfingu.
Tesla Model X er stór jepplingur með sæti fyrir allt að sjö farþega. Fálkahurðirnar að aftan eru góðar fyrir fólk sem vill sýnast og hestöflin 1.020 koma blóðinu á hreyfingu.
Mynd / ál
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá kyrrstöðu upp í hundrað kílómetra hraða, þökk sé 1.020 hestöflum.

Að utan er Tesla Model X mjög líkur öðrum bílum frá sama framleiðanda, nema þessi er allur aðeins hærri og bústnari. Bíllinn í þessum prufuakstri var perluhvítur, sem er sami litur og er á langflestum Tesla-bílum hér á landi og er hliðarprófíllinn svipaður og á Tesla Y. Fyrir utan Tesla-merkið að framan er hvergi hægt að sjá að þetta er Model X, hvað þá ofurbíll í Plaid útfærslu.

Prófíllinn er svipaður og á Tesla Y, en þessi bíll er allur hærri og bústnari.

Einfalt upphaf ökuferðar

Þegar gengið er að bílnum með lykil eða Tesla-appið í vasanum opnast bílstjórahurðin sjálfkrafa. Þegar sest er um borð er nóg að ýta á bremsufetilinn og hurðin fellur mjúklega að stöfum. Ökumaðurinn sér um að spenna á sig beltið og þegar ýtt er aftur á hemilinn er bifreiðin komin í gang og í réttan gír. Hérna hefur Tesla tekist að einfalda aðgerð sem undirrituðum hefði aldrei dottið í hug að væri hægt að straumlínulaga.

Bíllinn veit yfirleitt í hvaða gír hann á að fara. Ef radarinn sér fyrirstöðu framan við bílinn við upphaf ökuferðar fer hann í bakkgír og öfugt ef fyrirstaðan er fyrir aftan. Þegar kemur að því að snúa við í þröngu rými eða bakka í stæði er nóg að stöðva bílinn, halda inni hemlafetlinum og byrja að snúa stýrinu og voilà, ökutækið fer í viðeigandi gír. Í þeim fáu tilfellum sem Tesla virðist ekki ná að lesa hugsanir ökumannsins er hægt að velja akstursstefnu með því að renna fingrinum upp eða niður borða á jaðri snertiskjásins, en það er engin eiginleg gírstöng.

Risastór snertiskjár

Innréttingin er svört með mjúku áklæði sem líkist leðri og í hurðaspjöldunum er jafnframt smá grátt tauáklæði. Ólíkt minni Tesla-bílum er þessi með mælaborðsskjá beint framan við ökumanninn. Þar sjást grunnupplýsingar, eins og hvað sjálfstýringin er að hugsa, aksturshraði, gír, hleðsla og fleira.

Tesla hefur útrýmt nánast öllum hnöppum, fyrir utan takka fyrir hættuljósin, hurðir, rúður og stillingar á sætum. Til að setja í samhengi hversu langt Tesla hefur gengið þá er eina leiðin til að opna hanskahólfið í gegnum valmynd á snertiskjánum og er engin stöng fyrir stefnuljósin, heldur takkar í stýrinu.Í miðju mælaborðinu er risaskjár sem er ekki af síðri gæðum en hinir bestu iPadar. Kerfið er svipað því sem fólk þekkir úr öðrum Tesla-bílum og er valmyndin á íslensku. Ýmis forrit eins og Spotify, Netflix og Youtube eru innbyggð í kerfið. Þá er leiðsögukerfið byggt á Google Maps.

Nokkrir bráðskemmtilegir tölvuleikir fylgja með sem er gaman að grípa í á meðan bíllinn er hlaðinn. Þar má nefna kapal, skák og hinn litríka kappakstursleik Beach Buggy Racing 2, sem er keimlíkur Super Mario Kart. Í stað hefðbundinnar leikjafjarstýringu er tölvuleiknum stjórnað með stýrishjólinu og hemlafetlinum. Þær 20 til 30 mínútur sem tekur að hlaða úr 15 upp í 80 prósent hleðslu eru fljótar að hverfa.

Framsætin eru bæði stillanleg með rafmagni og afbragðsþægileg. Undir armhvílunni milli sætanna er djúpt lokað hólf. Þar fyrir framan er hægt að renna fram loki sem hylur bakka og glasahaldara sem er hægt að renna frá til að komast að góðu leynihólfi þar undir. Fremst í miðjustokknum er bakki þar sem hægt er að hafa tvo farsíma í þráðlausri hraðhleðslu.

Innréttingin er naumhyggjan uppmáluð.

Fálkadyrnar að aftan

Til að komast aftur í bílinn þarf að opna fálkadyrnar, sem eru eitt helsta einkenni Tesla Model X. Dyr af þessu tagi hafa sést á sportbílum, eins og DMC DeLorean eða Mercedes Benz 300 SL, en ekki á fjölskyldujeppling. Þetta er ekkert ósvipað skotthlera, nema það er liður á miðri hurðinni sem gerir kleift að opna hana í þrengstu stæðum. Þegar hurðin lokast yfir mann í fyrsta skipti getur upplifunin verið hálf uggvænleg þar sem plássið er ekki geipilegt.

Í þessum bíl var önnur sætaröðin með tvo sjálfstæða stóla sem rúma fullorðið fólk með sóma og er hægt að stilla með rafmagni, en kaupendur geta líka valið þriggja sæta bekk. Aftursætisfarþegarnir eru með sinn eigin skjá þar sem þeir geta stillt miðstöð eða nálgast afþreyingarefni. Á milli stólanna er autt rými og flatt gólf. Í þriðju sætaröðinni er pláss fyrir tvo einstaklinga í minni kantinum. Höfuðplássið er skert og fótaplássið er nánast ekkert, nema þeim sé skáskotið á milli annarrar sætaraðar. Þar að auki minnkar geymsluplássið í skottinu til muna ef öftustu sætin eru uppi. Þegar þau eru niðri er Tesla X með stórt og fínt skott og þökk sé myndarlegum skotthlera er aðgengið til sóma.

Þessi bíll var í sex manna útfærslu sem rúmar fjóra fullorðna og tvö börn.

Aflið engu líkt

Aðalmálið með þennan bíl eru þessi eitt þúsund og tuttugu hestöfl. Samkvæmt framleiðanda á bíllinn að geta náð hundrað kílómetra hraða úr kyrrstöðu á 2,6 sekúndum og vera 9,9 sekúndur með kvartmíluna. Þetta er í raun og veru fullkomlega tilgangslaust afl, en því er ekki að neita að það er bráðskemmtilegt.

Til þess að fá mestu hröðunina þarf að fara í valmynd í skjánum og velja annars vegar „Plaid“ og hins vegar spyrnubrautarstillingu. Þá stígur ökumaðurinn bæði á bremsu og inngjöf í smátíma á meðan loftpúðafjöðrunin lætur bílinn síga niður að framan og lyftast ögn upp að aftan. Þegar bíllinn er tilbúinn kemur grafík í skjáinn sem minnir á gamla kappaksturstölvuleiki og heyrist hljóð líkt og í flugvél sem er að þenja þotuhreyflana.

Þegar bremsunni er sleppt þýtur farartækið á stað og ökumaður og farþegar þrýstast aftur í sætisbökin. Upplifunin er eins og maður getur ímyndað sér að vera skotið áfram með teygjubyssu þar sem blóðþrýstingurinn eykst í höfðinu og öll iðrin virðast færast til. Þrátt fyrir þetta gífurlega afl er allt þetta ferli auðvelt og þarf ekki að búa yfir sérstakri færni í spyrnuakstri. Bíllinn er stöðugur allan tímann, jafnvel þó að vegurinn sé rakur og ekki eggsléttur.

Í venjulegum akstri er Tesla Model X Plaid þægilegur og hljóðlátur lúxusbíll, fyrir utan að hin mikla stærð gerir notkun hans erfiða í þröngum íbúðagötum. Á hærri hraða er gott að virkja akstursaðstoðina með því að tvíklikka á takka í stýrinu. Ökutækið fer sjálfkrafa upp að hámarkshraða á viðkomandi stað, heldur sér á miðri akrein og passar upp á fjarlægðina í næsta bíl.

Skottið er stórt og aðgengið að því til sóma.

Að lokum

Tesla Model X Plaid er í grunninn lúxus-fjölskyldubíll sem er á margan hátt sambærilegur öðrum ökutækjum í sama stærðar- og verðflokki. Þar sem Tesla X ber af er naumhyggjan í allri umgengni og hversu vel tæknin virkar á öllum sviðum. Þá er hið óheyrilega afl og framúrstefnulegu vængjahurðirnar að aftan eitthvað sem þjónar í raun engum praktískum tilgangi en eitthvað sem nýtist eigendum bílsins vilji þeir vekja á sér athygli eða vera með stæla. Tesla X er frábær bifreið fyrir fólk sem hefur engan óhemjuáhuga á bílum en hefur gaman af græjum.

Þegar þetta er ritað kostar grunngerðin af Tesla Model X 15.371.940 krónur með vsk. á meðan Plaid útfærslan fæst fyrir 17.517.140 krónur með vsk. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Tesla-umboðinu í Vatnagörðum eða á vefsíðunni tesla.com.

Skylt efni: prufuakstur

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...

Algjör jaxl utan vega
Vélabásinn 8. ágúst 2024

Algjör jaxl utan vega

Bændablaðið fékk til prufu þriðju kynslóð af Can-Am Outlander fjórhjólinu. Það e...

Fyrir fágaða iðnaðarmenn
Vélabásinn 19. júní 2024

Fyrir fágaða iðnaðarmenn

Bændablaðið fékk til prufu minnsta sendibílinn frá Mercedes Benz í Business Pro ...