Sænskættaði töffarinn
Bændablaðið fékk til prufu hinn nýja Volvo EX30 í Ultra útfærslu. Umrætt ökutæki er rafmagnsbíll sem væri hægt að setja í svipaðan stærðarflokk og Volkswagen Polo og Toyota Yaris. Hann er byggður á sama undirvagni og smart #1, sem kom vel út úr prófunum blaðsins í fyrra. Bíllinn í þessum prufuakstri var afturhjóladrifinn.
EX30 er hannaður í nánu samstarfi við Geely, móðurfyrirtæki Volvo. Fyrst um sinn verða þeir framleiddir í Kína, en samkvæmt upplýsingum frá umboðinu mun framleiðslan færast til Belgíu á næstu misserum.
Volvo markaðssetur EX30 sem minnsta jeppann þeirra frá upphafi. Þar er kannski verið að teygja hugtakið nokkuð langt, en formið á honum er svolítið jeppalegt. Þegar bíllinn er skoðaður frá hlið eða að aftan er ekki endilega augljóst að um Volvo er að ræða, en framendinn sver sig hins vegar í ætt við aðra bíla frá sama framleiðanda. Hið eiginlega grill hefur fengið að fjúka, en skálínan og Volvo-merkið með örinni eru til staðar. Þá eru aðalljósin T-laga, sem er eitt sterkasta einkenni nýrra Volvo-bíla í dag.
Aðlaðandi innrétting
Þegar stigið er um borð tekur á móti manni innrétting sem er með þeim smekklegri sem fáanlegar eru í nýjum bílum. Hér hefur verið gætt aðhalds í efnisvali en bætt upp fyrir það með úthugsaðri og aðlaðandi hönnun. Efnin eru með áferð og litum sem sést ekki oft og er plastið að hluta til endurunnið eða auðvelt í endurvinnslu. Ofan á mælaborðinu er svart stíft gúmmíkennt efni og í hurðaspjöldunum er blátt plast með kornóttri áferð og þar fyrir neðan svart plast með áferð sem minnir á frauðplast.
Þótt innréttingin sé dökk þá er létt yfir henni. Þá má hugsanlega þakka hversu vel loftar um miðjustokkinn og þrengir hvergi að farþegunum í framsætunum. Ultra útgáfan er með stórt glerþak yfir farþegarýminu sem hleypir inn mikilli birtu. Því fylgir þó sá ókostur að sólin skín stundum beint á andlit farþeganna nema keypt sé sólhlíf sem er aukahlutur.
Á milli sætanna er glasahaldari sem kemur út úr armhvílunni og er hægt að renna honum inn þegar hann er ekki í notkun. Það er ekki hægt að lyfta armhvílunni til að nálgast lokað hólf en það er gott geymslutrog neðan við glasahaldarana. Hanskahólfið er ekki á hinum hefðbundna stað, heldur í miðri innréttingunni undir margmiðlunarskjánum. Það ber nafn með rentu þar sem það rúmar ekki mikið meira en eitt og hálft par af þykkum skíðahönskum. Til að opna hólfið þarf að ýta á takka á snertiskjánum.
Margmiðlunarkerfið er byggt á Android og tekur enga stund að átta sig á hvar allt er. Boðið er upp á Android Auto en það er óþarft þar sem forrit eins og Spotify og Google Maps eru innbyggð í kerfið. Einfalt er að tengja símann með Blátönn.
Þægileg og rúmgóð sæti
Sætin eru klædd með dökku leðurlíki með bláu taui á sætisbökunum. Miðað við hversu lítill bíll Volvo EX30 er þá fara þau mjög vel með mann. Þau eru stillanleg með rafmagni á fjölmarga vegu. Sætin eru í þægilegri hæð upp á aðgengi inn og úr bílnum að gera.
Aftursætisfarþegarnir þurfa hins vegar að sætta sig við þónokkur þrengsli. Ef framsætin eru mjög aftarlega reynist fótapláss farþeganna að aftan vera í minnsta lagi. Höfuðplássið er ásættanlegt þó þeir hávöxnustu munu reka höfuðið í glerþakið. Náfrændi þessa bíls, smart #1, er með talsvert meira rými í aftursætunum. Farangursgeymslan er hins vegar býsna rúmgóð, eða 318 lítrar, og með stillanlega hæð á gólfinu.
Hljóðlátur og mjúkur
Þegar sest er um borð fer bíllinn sjálfkrafa í gang þegar stigið er á hemlana. Valið er á milli gíra með stöng aftan við stýrið. Ekki er hægt að lýsa akstursupplifuninni öðruvísi en afar afslappandi, þar sem bíllinn er vel hljóðeinangraður og með mjúka fjöðrun. Þá er hljóðkerfið vandað.
Útsýnið er gott og er auðvelt að átta sig á stærð bílsins. Hliðarspeglarnir eru til að mynda ekki alveg í kverkinni við framrúðuna sem minnkar blinda puntinn sem annars væri.
Aksturseiginleikar nýrra rafmagnsbíla eru oftar en ekki afar sambærilegir – þeir eru hljóðlátir og einfaldir í notkun. Það sem skilur helst á milli þeirra er tæknibúnaðurinn og er EX30 útbúinn öflugri akstursaðstoð, þ.e. skynvæddum hraðastilli og akreinavara. Þessi bíll virðist stundum vilja vera of nálægt hvítu línunni í miðjunni sem er uggvænlegt þegar ekið er á móti stórum ökutækjum. Þá er hann stundum óþægilega seinn að bremsa þegar ökutækið fyrir framan hægir á sér. Akstursaðstoðin er ekki alslæm, en það er hægt að hafa hana betri.
Þessi bíll kemur ekki með hefðbundinni fjarstýringu fyrir samlæsingarnar heldur er hann útbúinn lyklalausu aðgengi. Það er ýmist hægt að velja á milli þess að hann fari sjálfkrafa úr lás þegar gengið er að bílnum eða þegar lykillinn eða lyklakortið er borið að skynjara við B-bogann. Því er ekki hægt að taka hann úr lás úr fjarlægð nema með appi sem undirritaður prufaði ekki.
Undirrituðum fannst bíllinn oft fullfljótur að skella í lás þegar gengið var burt frá bílnum og of lengi að fara úr lás þegar gengið er að bílnum. Svo er rauf á hurðarhúninum sem er hægt að ýta á til að stjórna læsingunni, en hún bregst yfirleitt ekki við snertingu nema í annarri eða þriðju tilraun.
Hinar hefðbundnu viðvaranir
Bíllinn getur verið býsna snöggur að ávíta ökumanninn ef horft er á umhverfið en ekki beint á veginn. Það er engin leið að slökkva á þessum viðvörunum en undirritaður fann út það ráð að breiða trefil yfir skynjarann sem fylgist með augunum. Þá fækkaði skömmunum verulega þó þær hættu ekki alveg. Samkvæmt upplýsingum frá umboðinu má búast við uppfærslu á þessu kerfi sem vonandi verður aðeins umburðarlyndara.
Eins og tíðkast í flestum nýjum bílum þá hafa framleiðendur verið skikkaðir til að útbúa ökutækin með viðvörun sem heyrist þegar ekið er yfir hámarkshraða. Yfirleitt er hægt að slökkva á þessum viðvörunum, en það þarf yfirleitt að gera í hvert skipti sem bifreiðin er ræst. Framleiðendur Volvo hafa verið svo séðir að koma fyrir flýtihnappi í stýrinu til að slökkva á þessu pípi, sem er fyrirhafnarlaust að gera í hverri ökuferð.
Að lokum
Core, sem er ódýrasta úfærsla bílsins, kostar frá 6.890.000 krónum. Þar á eftir kemur Plus á 7.290.000 krónur og að lokum Ultra, sem prufaður var hér, á 8.390.000 krónur. Þá var þessi bíll með stærri 69 kílóvattsstunda rafhlöðuna sem kostar 800.000 krónur aukalega. Öll verð eru með vsk. og er hægt að fá 900.000 króna styrk frá Orkusjóði við kaup á bílunum. Helstu mál Volvo EX30 í millímetrum eru: Breidd, 1.836; lengd 4.233; hæð 1.549.
Uppgefin akstursdrægni samkvæmt framleiðanda eru 476 kílómetrar. Það er auðvitað aldrei hægt að búast við slíkri drægni í raunheimum, en í þessum reynsluakstri var hægt að fara í lengri ökuferðir án þess að sligast af drægnikvíða.
Volvo EX30 er vel heppnaður og vandaður borgarbíll á samkeppnishæfu verði ef ekki er valin dýrasta útgáfan. Þeir sem eru í bílahugleiðingum ættu að skoða þennan bíl þegar tekinn er bílasölurúntur.