Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Víti er sprengigígur á Kröflusvæðinu sem varð til við gufusprengingar eftir að bergkvika braut sér leið inn í jarðhitakerfið í upphafi Mývatnselda 1724-1729.
Víti er sprengigígur á Kröflusvæðinu sem varð til við gufusprengingar eftir að bergkvika braut sér leið inn í jarðhitakerfið í upphafi Mývatnselda 1724-1729.
Mynd / VH
Í deiglunni 24. apríl 2023

Borað í bergkvikuna

Höfundur: Vilmundur Hansen

Krafla er virkt eldstöðvakerfi skammt frá Mývatni og þar stendur ein elsta gufuaflsvirkjun landsins. Kerfið er um eitt hundrað kílómetra langt og tíu kílómetra breitt og eitt mest rannsakaða eldfjallasvæði í heimi. Verkefnið Krafla Magma Testbed (KMT) felst í að bora ofan í bergkvikuna við Kröflu og koma þar fyrir mælitækjum til að öðlast aukna þekkingu á tengslum jarðhita og bergkviku og kanna möguleika á nýtingu þess mikla varma sem í kvikunni felst. Verkefnið er gríðarlega umfangsmikið og fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Gert er ráð fyrir að boraðar verði tvær holur við Kröflu sem tengjast rannsóknum á mörkum jarðhita og bráðinnar bergkvikunnar. Önnur nær ofan í bergkvikuna. Mynd / GEORG.

Auk þess að gera rannsóknir á bergkvikunni stendur til að byggja upp alþjóðlega rannsóknarmiðstöð í jarðhitafræðum með aðstöðu fyrir vísindamenn við Kröflu, fræðslumiðstöð og efla samstarf við skóla og íbúa nærumhverfisins.

Fjallið Krafla og umhverfi þess flokkast sem megineldstöð sem þýðir að þar gjósi reglulega úr kvikuhólfi eða hólfum undir svæðinu. Síðustu gos við Kröflu urðu á árunum 1975 til 1984 en talið er að gosskeið sem enn stendur yfir hafi byrjað fyrir um 3000 árum.

Stjórn og aðstandendur Krafla Magma Testbed verkefnisins. Anette Mortensen, Landsvirkjun, John Ludden, formaður stjórnar KMT verkefnisins, Bjarni Pálsson, Landsvirkjun, Hjalti Páll Ingólfsson, framkvæmdastjóri GEORG, John Eichelberger, háskólanum í Fairbanks, Alaska, Paolo Papale, INGV Ítalíu, Amel Barich, GEORG, Björn Þór Guðmundsson, GEORG, Freysteinn Sigmundsson, Háskóla Íslands, Vordís Eiríksdóttir, Landsvirkjun, Yan Lavallee, Ludwig Maximilian háskólanum í München og Jónas Ketilsson, Landsvirkjun.

Krafla Magna Testbed

Hjalti Páll Ingólfsson, framkvæmdastjóri GEORG, rannsóknaklasa í jarðhita.

Hjalti Páll Ingólfsson, framkvæmdastjóri GEORG, rannsóknaklasa í jarðhita, sem rekur verkefnisstofu fyrir verkefnið. GEORG er samstarfsvettvangur 24 fyrirtækja og stofnana, bæði innlendra og erlendra.

„Verkefnið er gríðarlega metnaðarfullt og kostnaðarsamt og í dag er gert ráð fyrir að það muni kosta rúmlega 120 milljón dollara þegar allt er talið. Því þurfa margir að koma að verkefninu til að fjármagna það og ein besta samlíking við umfang þess er að það sé svipað og þegar ákveðið var að senda Hubble sjónaukann á sporbaug um jörðu á sínum tíma.“

Hjalti segir að stefnt sé að því að rannsóknarniðurstöður sem fáist vegna verkefnisins verði almennt opnar og því eigi vísindamenn um allan heim að geta notfært sér þær í sínum rannsóknum.

„Eins er stefnt að því að rannsóknarinnviðirnir sem byggðir verða upp í Kröflu verði gerðir aðgengilegir vísindasamfélaginu í gegnum ákveðið umsóknaferli. Þannig verði rannsóknahópum gert kleift að koma hingað norður og nýta innviðina og gera rannsóknir sem samræmast vísindastefnu KMT.“

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands.

Einstakar rannsóknir

„Rannsóknirnar sem stefnt er að við Kröflu eru einstakar á heimsvísu,“ segir dr. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, „það sem meira er, þá er svæðið eina svæðið í heimi þar sem hægt er að framkvæma þær. Ástæðan fyrir því er að Landsvirkjun boraði ofan í kvikuhólf árið 2009 á rétt tæplega tveggja kílómetra dýpi. Kvikuhólfið var talsvert grynnra undir yfirborðinu en búist hafði verið við og í dag eini jaðar kvikuhólfs í heiminum sem er hægt að staðsetja með mikilli nákvæmni þar sem góðar aðstæður eru til frekari rannsókna. Við stefnum að því að bora tvær rannsóknarholur niður að mörkum jarðhita og bráðinnar bergkviku og koma þar fyrir mælitækjum. Önnur þeirra mun ná niður í efsta lag kvikunnar og meðal annars mæla hitastig þar og upp í rætur jarðhitakerfisins. Búist er við að hitinn sé allt að 900o á Celsíus og kvikan fljótandi. Í seinni holunni verða gerðar rannsóknir til

að greina betur möguleika á beinni nýtingu varmans sem í kvikunni er og þeim tæknilegu áskorunum sem því fylgja.“

Gamall draumur

John Eichelberger, prófessor við háskólann í Fairbanks í Alaska.

Dr. John Eichelberger, prófessor í eldfjallafræði við háskólann í Fairbanks í Alaska, segir að hann hafi lengi dreymt um að bora ofan í bergkvikuna. „Ég gerði tilraun til þess á Havaí fyrir mörgum árum en það mistókst. Aðallega vegna þess hversu erfitt er að staðsetja kvikuna neðan jarðar. Þegar ég frétti að slíkt hefði verið gert og það fyrir tilviljun við Kröflu fór ég strax að skoða málið og sá að aðstæður þar voru einstakar til slíkra rannsókna þar sem vitað var hvar kvika lá og grunnt niður á hana.“

Eichelberger, sem er einn af hugmyndafræðingunum á bak við Krafla Magma Testbed verkefnið, segir að niðurstöðurnar sem úr því munu fást komi til með að breyta kennslubókum framtíðarinnar í jarðfræði.

Lán í óláni

Landsvirkjun hefur nýtingarrétt á jarðhita á Kröflusvæðinu og rekur virkjunina.

Dr. Bjarni Pálsson, forstöðumaður þróunar jarðvarma hjá Landsvirkjun.

Krafla er ein elsta gufuaflsstöð landsins með 60 MW í uppsett afl. Dr. Bjarni Pálsson, forstöðumaður þróunar jarðvarma hjá Landsvirkjun, segir að fyrirtækið styðji verkefnið meðal annars með því að veita KMT aðgang að svæðinu og rannsóknaniðurstöðum sem fyrirtækið hefur öðlast við borun á yfir 40 háhitaborholum á svæðinu undanfarna hálfa öld.

„Við boruðum fyrir tilviljun niður í kviku fyrir nokkrum árum og í stað þess að loka holunni leyfðum við henni að blása og framkvæmdum þær rannsóknir sem hægt var að gera. Í framhaldinu fórum við að skoða mælingar úr eldri holum og niðurstaðan var sú að þetta var líklega ekki í fyrsta sinn sem það hefur gerst. Segja má að það hafi verið lán í óláni að bora í kvikuna því þrátt fyrir að holan eða holurnar hafi ekki nýst vitum við hvar þær eru og mögulegt að í framtíðinni sé hægt að vinna úr þeim mikla og umhverfisvæna orku.“

Bjarni segir að svo það verði mögulegt verði að rannsaka virkjunarmöguleikana vel og að ef allt gengur upp megi gera ráð fyrir að holur sem boraðar verða í jarðlög nærri kvikuinnskoti muni geta skilað allt að tíu sinnum meiri orku en þær holur sem virkjaðar eru í dag.

Sjálfskaparvíti varð til vegna yfirþrýstings og samfalls í borholu KG-04 við Kröflu.

Nærumhverfið

Vordís Eiríksdóttir, jarðeðlisfræðingur og forstöðumaður jarðvamareksturs hjá Landsvirkjun.

Vordís Eiríksdóttir, jarðeðlisfræðingur og forstöðumaður jarðvarmareksturs hjá Landsvirkjun, segir að ekki sé nóg með að rannsóknirnar sem á að gera séu spennandi heldur sé ekki síður áhugavert að taka þátt í þeim verkefnum sem tengjast nærumhverfinu og sveitunum í kring.

„Hér gætu skapast tækifæri til að setja upp fræðslumiðstöð í jarðfræði og rannsóknamiðstöð í jarðhita- og eldgosafræði. Samhliða því er hugmyndin að vinna með skólum á svæðinu og gefa börnum tækifæri á að koma og kynnast jarðfræði og þeirri starfsemi sem hér fer fram. Á sama tíma vonumst við til að almennur áhugi á Kröflusvæðinu aukist og að hingað sæki fleiri ferðamenn og að það hafi jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu í sveitinni.“

Skylt efni: Krafla

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...