Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá
Höfundur: Vilmundur Hansen
Vinsældir ávaxtatrjáa hafa aukist mikið undanfarin ár og er það draumur margra að rækta sína eigin ávexti í garðinum jafnvel þótt uppskeran sé lítil og mörgum þykir nóg ef trén blómstra. Þau ávaxtatré sem reynst hafa nógu harðger til að rækta utan dyra hér á landi eru epla-, peru-, plómu- og kirsuberjatré.
Fyrirsögnin á greininni er gamalt slagorð fyrir verslanir Silla og Valda sem voru víða um Reykjavík fyrir fjörutíu árum eða svo. Á þeim tíma þótti lúxus að fá ávexti um jólin og talað var um eplalykt í húsum. Upphafleg mun um Biblíutilvitnun vera að ræða úr Matteusarguðspjalli og ætlað að vara við falsspámönnum. Fyrirsögnin hefur ekkert með greinina að gera annað en að orðið ávextir kemur þar fram og mér finnst slagorðið flott fyrirsögn.
Ávaxtatrjám þarf að velja góðan stað í garðinum, í skjóli og þar sem sólar nýtur, til dæmis við suðurvegg. Til að vel takist með ræktunina þarf að velja yrki sem reynst hefur vel. Yrki eru plöntur sem fjölgað er kynlaust og allir afkomendur eru sömu arfgerðar og móðurplantan. Plöntur eru valdar til ræktunar vegna sérstakra eiginleika, hversu harðgerðar þær eru eða vegna mikillar uppskeru, bragðgæða eða blómfegurðar.
Undantekningarlaust ágædd
Ávaxtatré sem seld eru hér eru undantekningarlaust ágrædd. Það þýðir að ofanjarðarhlutinn, sem er framræktað yrki, er grætt á rót af villitré. Ástæðan fyrir þessu er sú að rót framræktaðra yrkja er lélegri en villirætur. Rætur villitrjánna eru mismunandi og kallast rótarstofnar. Ágræðslan er yfirleitt gerð í 20 sentímetra hæð frá rótarhálsinum.
Sendinn jarðvegur og vel framræstur
Æskilegt er að blanda hæfilegu magni af lífrænum áburði í jarðveg fyrir ávaxtatré. Einnig þarf framræsla að vera góð og gott að jarðvegurinn sé eilítið sendinn. Þegar ávaxtatré er plantað skal gera svolítinn kúf á jarðveginn og planta trénu þannig að það standi aðeins ofar en jarðvegurinn í kring. Nauðsynlegt er að setja staur niður með trénu til að styðja við það fyrstu árin. Eftir að ávaxtatré hafa komið sér fyrir eru þau nægjusöm og nóg að kasta nokkrum kornum af áburði í jarðveginn í kringum þau tvisvar til þrisvar yfir sumarið. Gott er að vökva þau reglulega í þurrkatíð, sérstaklega á meðan aldinin eru að vaxa. Ávaxtatré þola vel klippingu en óþarfi er að klippa þau mikið nema hugmyndin sé að móta þau sérstaklega. Hæfilegt bil á milli trjáa er þrír til fimm metrar.
Tvö yrki nauðsynleg til að fá ávöxt
Ávaxtatré geta verið sjálffrjóvgandi eða ekki og sum eru það sem kallað er hálfsjálffrjóvgandi. Ef um er að ræða tré sem ekki frjóvga sig sjálf verður að hafa að minnsta kosti tvö tré af ólíkum yrkjum til að frjóvgun geti átt sér stað. Þetta stafar af því að tré sem eru af sama yrki eru í raun sama planta sem fjölgað hefur verið kynlaust.
Blómgist ávaxtatré mikið getur reynst nauðsynlegt að fjarlægja nokkra aldinvísa úr hverjum blómklasa til að aldinin verði færri en stærri.
Epli (Malus domestica). Upprunalegur vaxtarstaður epla er Kasakstan og fjalllendi Mið-Asíu. Fjöldi yrkja er talinn í þúsundum og skiptast þau í villi-, matar- og skrautepli. Í náttúrulegum heimkynnum sínum ná eplatré átta metra hæð. Ræktuð eplatré eru undantekningarlaust ágrædd. Algengustu rótarstofnar epla kallast M27, M9 og M26 en gerð rótarstofnsins ákvarðar hæð trésins.
Frægasta epli sögunnar er án efa eplið sem Adam og Eva eiga að hafa borðað af og er kennt við skilningstréð. Ólíklegt er þó að um sé að ræða epli á frummáli því litlar líkur eru á að eplatré hafi vaxið á söguslóðum Biblíunnar. Aftur á móti er erfitt að segja fyrir víst hvað óx í paradís sköpunarsögunnar. Annað frægt epli er það sem stóð í stúlkunni í ævintýrinu um Mjallhvíti og ekki má gleyma þrætueplinu súra sem dafnar svo vel hér á landi. Reynslan af eplayrkjunum er mismunandi en mörg þeirra lofa góðu. Dæmi um yrki sem hafa reynst vel eru Sävstaholm, Carroll, Haugmann, Melba, Quinte og Huvitus. Epli eru yfirleitt ekki sjálffrjóvgandi en þó eru undantekningar á því. Dæmi um sjálffrjóvgandi yrki eru Sunset og Scrumptious. Auk þess eru til yrki sem eru hálfsjálffrjóvgandi sem þýðir að þau geta frjóvgað sig sjálf en eru betri með öðrum tegundum. Dæmi um það eru Transparente Blanche og James Grieve. Einnig eru til yrki með þrjá litninga en þau eru ónothæf til að frjóvga með. Þar má nefna Close, Gravenstein og Jonagold. Öll þessi yrki hafa reynst harðgerð hér á landi. Á svokölluðum fjölskyldutrjám eru fleiri en eitt yrki grædd á eina rót og þannig næst uppskera yfir lengri tíma og fjölbreytni í bragði og lit. Gallinn við fjölskyldutré er að ef eitt yrkið er mjög kraftmikið getur það vaxið fram úr öðrum og orðið ráðandi. Til að eplatré, sem ekki frjóvga sig sjálf, frjóvgist þarf að minnsta kosti tvö ólík yrki sem blómstra á svipuðum tíma. Yfirleitt sjá flugur um frjóvgunina en þeir sem vilja vera alveg vissir um að hún takist bera frjókornin á milli blómanna á trjánum með mjúkum pensli eða fjöður.
Pera (Pyrus communis). Upprunnin í Mið-Asíu, er náskyld epli og ræktunin svipuð. Nær allt að tólf metra hæð. Pera er viðkvæmari en epli en getur þrifist ágætlega á skjólgóðum og sólríkum stað. Heimildir eru um ræktun á perum í Kína meira en þúsund árum fyrir upphaf okkar tímatals. Áður en tóbak barst til Evrópu frá Nýja heiminum reyktu Evrópubúar þurrkað perulauf. Líkt og síder er búinn til úr eplum er búinn til drykkur úr perum sem kallast perrý. Yrki sem reynst hafa vel hér eru Skånsk sukkerpære, sem er upprunnin í Svíþjóð. Hún er harðgerð, blómstrar snemma og þroskar aldin utandyra. Herrapæra og Broket July eru upprunnar í Frakklandi og eru sæmilega harðgerðar á góðum stað. Grev Moltke er frá Danmörku og hefur myndað aldin utandyra hér. Pepi er frá Eistlandi og lofar góðu. Ekkert af þessum yrkjum er sjálffrjóvgandi fyrir utan Pepi sem hugsanlega er sjálffrjóvgandi. Grev Moltke er þriggja litninga og getur því ekki frjóvgað önnur tré.
Plóma (Prunus domestica). Upprunnin í Mið-Asíu þar sem tréð nær tíu metra hæð. Plómur eru annaðhvort sjálffrjóvgandi eða ekki. Yrkin sem hér eru í ræktun eru hvoru tveggja. Opal, sem er frá Svíþjóð, er sjálffrjóvgandi, þroskar aldin um miðjan september og er þokkalega harðgert. Czar er sjálffrjóvgandi breskt yrki sem hefur reynst nokkuð harðgert og þroskar aldin snemma í september. Edda frá Noregi. Ekki sjálffrjóvgandi, þroskar um miðjan september. Lofar góðu. Hermann er sjálffrjóvgandi yrki frá Svíþjóð sem myndar aldin snemma og lofar góðu. Plómur eru losandi séu nokkrar borðaðar í einu.
Súrkirsuber (Prunus cerasus). Upprunaleg heimkynni í Kákasus og Vestur-Asíu þar sem tréð nær allt að fimm metra hæð en er oft runnavaxið og því sjaldan klippt. Oft flokkað í tvær undirtegundir, morell (P. cerasuas var. austera) og amarell (P. carasus var. caproniana). Aldin af amarell eru yfirleitt sætari en af morell. Súrkirsuber eru með harðgerðustu ávaxtatrjám sem völ er á en aldinin eru ekki góð til átu. Bæði til sjálf- og ósjálffrjóvgandi yrki. Blómfalleg og henta sem skrauttré.Yrkin Fanal og Skyggemorell eru bæði upprunnin í Þýskalandi, harðgerð, sjálffrjóvgandi og þroska aldin í september. Nordia er sænskt að uppruna, sjálffrjóvgandi og lofar góðu þrátt fyrir takmarkaða reynslu.
Sætkirsuber/fuglakirsuber
(Prunus avium). Upprunnið í Mið-Asíu og getur náð allt að tuttugu metra hæð en má halda niðri með klippingu. Yrki bæði sjálf- og ósjálffrjóvgandi. Harðgerð en viðkvæmari en súrkirsuber. Þrífast best í frjósömum og vel framræstum jarðvegi. Yrkin sem reynst hafa best hér á landi eru öll frá Kanada og þroska aldin í ágúst. Stella og Sunburst eru sjálffrjóvgandi en Sue ekki. Í Japan flykkist fólk út í almenningsgarða með teppi, stóla, borð og nesti á vorin þegar kirsuberjatrén blómstra og haldnar eru veislur í tilefni blómgunar þeirra.