Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Gutti 22-207 frá Kollsá við Hrútafjörð.
Gutti 22-207 frá Kollsá við Hrútafjörð.
Á faglegum nótum 19. apríl 2024

Afkvæmarannsóknir hjá bændum 2023

Höfundur: Árni B. Bragason, ráðgjafi á búfjárræktar- og þjónustusviði RML

Haustið 2023 var gerð upp 71 afkvæmarannsókn hjá bændum sem töldust styrkhæfar. Í heild voru afkvæmahóparnir 720 og þar af eiga veturgamlir hrútar 424 afkvæmahópa.

Árni B. Bragason.

Umfangið er örlítið meira en haustið 2022 en þá voru búin 62 og afkvæmahóparnir 713. Samantekt yfir niðurstöður styrkhæfra afkvæmarannsókna sem framkvæmdar voru af bændum veturinn 2022 til 2023 er að finna á heimasíðu RML undir liðnum Forrit og skýrsluhald.

Að vanda eru niðurstöður birtar eftir sýslum og stutt umsögn fylgir um niðurstöður fyrir hvert bú. Hafa ber í huga að erfitt er að bera hrútana saman á milli afkvæmarannsókna. Hins vegar er ekki ólíklegt að hrútur sem sker sig mikið úr í samanburði innan bús muni einnig sýna yfirburði í öðrum hjörðum.

Í afkvæmarannsóknum fyrir sæðingastöðvarnar hefur einmitt verið reynt að etja saman yfirburðahrútum frá fleiri en einu búi til að styrkja samanburðinn og auka öryggi á niðurstöðunum.

Reglur um styrkhæfar afkvæmarannsóknir 2023:
  • Að lágmarki 5 hrútar í samanburði og þar af a.m.k. 4 veturgamlir (fæddir 2022).
  • Hver hrútur eigi að lágmarki 8 afkvæmi af sama kyni ómmæld og stiguð og a.m.k. 15 afkvæmi með kjötmatsupplýsingar.
  • Hrútarnir skulu notaðir á sem jafnasta ærhópa þar sem aldur er blandaður. Ekki er tekinn gildur afkvæmadómur hrúta sem eingöngu eru notaðir á veturgamlar ær nema allir hrútarnir í samanburðinum séu notaðir á veturgamlar ær (gemlinga).
  • Að gengið sé frá uppgjöri afkvæmarannsóknar í Fjárvís.is.
  • Styrkupphæð miðar við 6.000 krónur á hvern veturgamlan hrút.

Þór 19-307 í Innri-Múla á Barðaströnd sýnir líkt og haustin 2021 og 2022 fáheyrða yfirburði í öllum þáttum. Hann hefur verið einn besti hrúturinn á sínu heimabúi undanfarin ár en samt með öfluga keppinauta. Þór er sonur Spaks 16-302 sem stóð á toppnum á búinu í afkvæma- rannsóknum 2017-2019 og sýndi jafnan mikla yfirburði. Spakur 16-302 faðir Þórs var aðkeyptur frá Broddanesi 1 en móðir Þórs er sonardóttir Sigurfara 09-860 frá Smáhömrum. Þór er frábær lambafaðir eins og hann á kyn til. Hrúturinn í öðru sæti heitir einnig Þór. Hann hefur númerið 20-398 og er á Gilsbakka í Hvítársíðu. Hann er sonur Mjölnis 16-828 frá Efri-Fitjum. Þór 20-398 hefur staðið efstur í afkvæmarann- sóknum á Gils- bakka síðastliðin þrjú haust. Móðir hans er dóttir Kára 10-904 frá Ásgarði. Sá þriðji í röðinni er Biti 21-708 frá Sandfellshaga 1. Hann er undan Berki 17-842 frá Kjalvararstöðum og móðurfaðir hans er Svimi 14-956 frá Ytri-Skógum. Hersir 22-255 frá Garði í Þistilfirði er sá veturgamli hyrndi hrútur sem kemst lengst upp þennan metorðastiga í töflu 1. Hann er sonur Hnokka 19-874 frá Garði sem var mikið notaður þau tvö ár sem hann var á stöðvunum.

Gutti 22-207 frá Kollsá fer fremstur í flokki kollóttra jafnaldra sinna í sömu töflu. Í föðurætt rekur hann ættir sínar m.a. til Fálka 17-821 frá Bassastöðum en móðurfaðir er Hnallur 12-934 frá Broddanesi 1.

Þegar raðað er eftir kjötmatseinkunn stendur efstur veturgamall hrútur í Ytra-Vallholti í Skagafirði, Frakkur 22-488. Hann sýnir gríðarlega mikla yfirburði í kjötmatshlutanum á sínu heimabúi. Að auki er hann arfhreinn fyrir H154 arfgerðinni en í Ytra- Vallholti hefur mikið tillit verið tekið til riðuarfgerða við val á ásetningi um árabil. Annar í röðinni er fullorðinn hrútur í Hriflu í Þingeyjarsveit, Krókur 19-069. Hann er sonarsonur Hroka 15-969 frá Hesti og dóttursonur Dranga 15-989 frá Hriflu. Sá þriðji er Valur 22-364 frá Sauðafelli í Dölum. Þessi kollur er sonarsonur Fennis 19-857 frá Heydalsá og dóttursonur Fálka 17-821 frá Bassastöðum.

Hrútar sem skila miklum yfirburðum í fallþunga eru allrar athygli verðir á hverju búi því viðbótarkíló skilar fleiri krónum í budduna en svolítið hærri gerð.

Verðmætastir eru að sjálfsögðu gripir sem ná frábærum árangri í öllum þremur þáttunum sem heildareinkunn er reiknuð út frá. Þór 19-307 frá Innri- Múla er dæmi um slíkan grip enda má finna hann ofarlega í öllum töflunum. Púki 20-011 frá Sauðanesi á Langanesi nær hæstu fallþungaeinkunn í samanburði fyrir félaga sína. Fallþungi sláturlamba undan Púka er 1,9 kg hærri en meðalfallþunginn í rannsókninni á Sauðanesi. Meðalaldur sláturlamba í rannsókninni er tæpir 135 dagar. Sláturlömb undan Púka eru aðeins undir þeim aldri. Þau hafa þyngst um 150 grömm á dag sem er frábær vaxtarhraði. Faðir Púka kemur frá Hagalandi í Þistilfirði, dóttursonur Saums 12-915 frá Ytri-Skógum. Í móðurætt rekur hann ættir sínar mikið í heimaféð á Sauðanesi.

Í töflu fjögur má sjá þá stöðvahrúta sem áttu flesta syni sem tóku þátt í afkvæmarannsóknum á síðasta ári. Galli 20-875 frá Hesti á 22 syni en aðeins einn sona hans nær þó að standa efstur í heildareinkunn á sínu heimabúi. Næstur kemur Glitnir 19-848 frá Efri-Fitjum með 17 syni og 3 þeirra ná að standa efstir í heildareinkunn á heimabúum. Glitnir átti einnig næstflesta syni á síðasta ári og greinilegt að margir sona hans eru að standi sig vel sem lambafeður. Kapall 16-869 frá Hvoli á 15 syni en enginn þeirra nær að standa efstur. Næstur er svo Rammi 18-834 frá Hesti með 14 syni og greinilegt að synir hans reynast vel því hér er aðeins um eldri hrúta á ræða. Viðar 17-844 frá Bergsstöðum átti langflesta syni í sambærilegri töflu á síðasta ári. Hann á enn 13 syni og þar af standa 3 þeirra efstir á sínum heimabúum. Synir Viðars eru margir prýðilegir lambafeður. Það verður samt aldrei of oft varað við erfðagallanum bógkreppu sem um helmingur þeirra er væntanlega að dreifa til afkomenda sinna þó leynt fari. Hjá kollóttu hrútunum á Dolli 19-864 frá Miðdalsgröf 13 syni í afkvæmarannsóknunum. Einn þeirra stendur efstur á sínu heimabúi. Næstur kemur Fálki 17-821 frá Bassastöðum með 10 syni sem allt eru eldri hrútar. Tveir þeirra standa efstir á sínum heimabúum að þessu sinni.

Afkvæmarannsóknir hjá bændum hafa gegnt mikilvægu hlutverki í ræktunarstarfinu í sauðfjárrækt um árabil. Margoft hafa niðurstöður úr einstökum rannsóknum beint kastljósinu að efnilegum hrútum sem síðar hafa endað sem stöðvahrútar. Riðuarfgerð lamba mun væntanlega ráða mestu við ásetningsval á mörgum búum á allra næstu árum. Þá hafa bændur verið hvattir til að skipta hrútum ört út, sérstaklega þar sem keyra á hratt á innleiðingu ARR genasamsætunnar, til þess að forðast of mikla aukningu á skyldleikarækt.

Því er enn mikilvægara en áður að vanda valið á þeim hrútum sem fá áframhaldandi notkun og eru vel skipulagðar afkvæmarannsóknir ein besta leiðin til að velja af kostgæfni hvaða hrútar ættu að fá áframhaldandi notkun.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...