Á faglegum nótum 10. desember 2024
Allt er nú til
Höfundur: Snorri Sigurðsson
Eins og fram kom í síðasta tölublaði Bændablaðsins var hin heimsfræga EuroTier-landbúnaðarsýning haldin í nóvember.
Þessi sýning er ein sú stærsta á sínu sviði í heiminum og haldin annað hvert ár.
Í ár voru rúmlega 2.000 fyrirtæki að kynna vörur sínar og þjónustu og fyrir vikið var framboðið af tæknilegum lausnum í landbúnaði gríðarlegt, allt frá hefðbundum tæknilegum lausnum fyrir nútímabúskap upp í afar framandi og jafnvel allt að því undarlega tækni.
Verður hér gerð grein fyrir örfáum af þessum framandi nýjungum sem komu fram á þessari sýningu.
„Vigta“ kýrnar með myndavélinni á símanum Fyrirtækið Tool AI var einnig með aðra áhugaverða nýjung en hún byggir einnig á notkun myndavélar símans og tengingu við gervigreind. Sérstakur hugbúnaður getur núna gefið mjög góða vísbendingu um þunga grips með því einu að mynda gripinn frá nokkrum sjónarhornum. Bóndinn getur því fengið mat á þunga gripa með einföldum hætti og með skekkjumörkum upp á einungis 5%.
Eyrnaskynjari fylgist með Á sýningunni voru nokkur fyrirtæki að kynna möguleikann á því að nýta skynjara, sem settur er í eyru kálfa og kúa, til þess að fylgjast með heilsufari þeirra og þrifum. CowManager GmbH, var eitt þeirra en með því að setja lítinn tölvukubb í eyru gripanna getur kerfið skráð niður líkamshita og hreyfingu og byggt á gagnasafni tölvunnar getur kerfið, reiknað út frá hinum söfnuðu gögnum, gefið bóndanum upplýsingar um heilbrigði, frjósemi, fóðrun og atferli. Þessi tækni hefur verið í boði í nokkur ár fyrir fullorðna gripi en með því að setja svona skynjara í kálfa gefst bændum færi á því að bregðast snöggt við ef eitthvað bjátar á. Nýjungin í þessari tækni nú felst í raun í því að hugbúnaðurinn sem reiknar út frá mældum gögnum er margfalt öflugri nú en áður, en eitt aðalvandamálið við að greina stafrænt heilsufar kálfa er sú staðreynd að hitastig þeirra breytist nokkuð hratt á uppeldistímanum svo áður fyrr komu oft rangar niðurstöður út frá greiningum. Nú er öryggið orðið mun meira og tæknin því einkar áhugaverð.
Fuglafæla með gervigreind Gervigreind hefur svo sannarlega hafið innreið sína inn í landbúnað en líklega þó mest til þess að bæta bústjórn með því að aðstoða bændur við að fá yfirsýn og geta tekið ákvarðanir byggðar á miklu magni gagna eins og lausnir Tool AI bera með sér. Fyrirtækið iCHASE ákvað hins vegar að fara aðrar leiðir í notkun gervigreindar og notar hana til þess að hrekja smáfugla á braut með tæki sínu AI Bird Repeller. Fuglar í búfjárhúsum geta nefnilega verið mikil plága og kostað bændur mikið fóður og svo fylgja fuglum mikil óþrif. Tæknin byggir á því að tölva stýrir eftirlitsmyndavél sem getur hreyfst í allar áttir. Hugbúnaðurinn greinir svo það sem á skjánum er, og ef um fugl er að ræða skýtur hann laserljósi á fuglinn sem fælist við það og flýgur upp. Tölvan safnar svo upplýsingum um það hve oft kerfið hefur fælt burtu fugla og hver árangurinn er, sem fyrirtækið sjálft segir að sé 70%. Já, allt er nú til.
Sjálfkeyrandi hænsnakofi Ef marka má fjölmargar uppfærslur á samfélagsmiðlum er vinsælt í dag að vera með nokkrar hænur í bakgarðinum. Á sumrin ættu allar hænur að fá aðgengi að útisvæði en ef það er á sama staðnum veðst það fljótt upp enda hænur afar góðar í því að róta í jarðveginum í leit að einhverju bitastæðu. Lausnin á þessu er að vera með útibúr á hjólum en hingað til hafa búr sem þessi verið færð handvirkt. Nú hefur fyrirtækið Ukkö fundið skemmtilega lausn á þessu en það er einfaldlega sjálfkeyrandi hænsnakofi sem fyrirtækið kallar Rova Barn Micro. Kofinn, sem bæði er með fóðrunar-, drykkjar-, varp- og svefnaðstöðu, er knúinn rafmagnsmótor sem einfaldlega sér um að færa kofann til um túnið með reglulegu millibili svo grasið tætist ekki of mikið upp.
Heyfóðrunarleikfang Margir eigendur hesta kannast vel við netfóðrun hesta, þ.e. þegar hey er sett í eins konar netpoka til þess að draga úr áthraða hestanna og um leið að gefa þeim eitthvað að dunda við. Nú er í raun komin sambærileg lausn sem líka má nota fyrir nautgripi. Það er fyrirtækið Kerbl sem framleiðir þetta heyfóðrunarleikfang, sem er bæði markaðssett fyrir hross og nautgripi. Um er að ræða ílát úr plasti sem alsett er götum þar sem hey stingst út. Boltinn er svo hengdur upp í stíu gripanna og geta þeir þá bæði leikið sér að því að hreyfa boltann og sleikt eða nagað út heytuggur við og við.
Þjarkur fyllir fóðurblandarann Það var auðvitað bara tímaspurs- mál hvenær kæmi raunhæf sjálfkeyrandi vél fyrir bændur, en undanfarin ár hafa hinar ýmsu gerðir af þjörkum komið á markað svo sem skítasköfuþjarkar, fóðursópar og fóðrunarþjarkar. Allt saman sjálfkeyrandi tæki sem sérhönnuð eru fyrir búskap. Nú hefur fyrirtækið ManuRob frumsýnt hina sjálfkeyrandi vél LaodIX en vélin er sérstaklega aðlöguð að vinnu á kúabúum og getur sjálfvirkt ekið um fóðuraðstöðu og sótt bæði vothey og þurrvörur og mokað ofan í fóðurblandara og kemur mannshönd þar hvergi nærri. Annars voru fleiri áhugaverðar lausnir á þessu sviði einnig kynntar eins og t.d. Weidemann liðléttingur sem eltir bóndann, t.d. ef verið er að vinna utandyra við girðingarvinnu og hafa þarf girðingarefni við hendina í skóflu liðléttingsins svo dæmi sé tekið. Þá getur bóndinn s.s. haft litla fjarstýringu á sér og með því að styðja á hnapp á henni, „eltir“ liðléttingurinn fjarstýringuna sjálfvirkt.
Með þráðlausa skynjara í vömbinni Eins og fram kom hér að framan voru þó nokkur fyrirtæki að kynna búnað sem getur fylgst með heilsufari nautgripa með eyrnamerkjum en svo voru líka fyrirtæki að kynna búnað sem fylgist með atferli og heilsufari innan frá. Moonsyst var eitt þeirra en það fyrirtæki selur sérstaka skynjara sem settir eru í vömb kúa. Þaðan er svo fylgst með þáttum eins og áti, sýrustigi vambar, hitastigi gripsins, hreyfingu, beiðsli og almennu heilsufari. Búnaðurinn sendir upplýsingar um þessa þætti í fjóstölvuna sem svo lætur bóndann vita ef eitthvað er að eða ef t.d. þarf að sæða viðkomandi grip. Þessir skynjarar geta, umfram skynjara sem t.d. eru settir í eyru gripa, á hálsólar eða fætur, sem sagt betur gefið upplýsingar um ástand fóðrunar og meltingar.
Eyrnaskjól fyrir kálfa Eyrnaskjól fyrir kálfa verða nú líklega ekki söluvara á Íslandi en þar sem þetta er einkar áhugavert fær þessi nýjung að fljóta hér með. Það er fyrirtækið AKROH Industries B.V. sem er með þessi sérstöku eyrnaskjól fyrir kálfana en þau eru sérstaklega fyrir bændur sem eru með kálfana úti og í aðstæðum þar sem frost getur farið niður í allt að -45 gráður. Þó nautgripir þrífist í raun afar vel í frosti, þá eiga kálfar í vandræðum í hörkugaddi og þá er hætta á að eyrun hreinlega frjósi og skaddist af þeim völdum. Þess vegna eru núna til sölu svona eyrnaskjól og raunar, þegar leitað er að efninu á veraldarvefnum, má finna fjölmörg fyrirtæki sem framleiða sambærilegan búnað.
Leghálsmyndavél Eitt af því sem er fylgifiskur þess að nota kyngreint sæði er að í þeim sæðingastráum sem notuð eru, eru mun færri sáðfrumur en venjulega. Þetta er einfaldlega vegna þess að þegar kyngreining fer fram er nærri helmingi sæðisins hent, enda ekki verið að sækjast eftir öðru hvoru kyninu. Fyrir vikið hefur fanghlutfall verið heldur lægra en ella, en með notkun á leghálsmyndavél geta frjótæknar, eða aðrir sem sæða, sætt kvígur og kýr með enn betri nákvæmni en áður og hreinlega lagt sæðið á kórréttan stað af miklu öryggi. Svona myndavélar, sem búnar eru skörpum skjá og ljósum við myndavélaopið, sýna einnig ótrúlega vel inn í móðurlífið og geta notendur tækisins því einnig séð skjótt hvort eitthvað er að og sem þarf þá að bregðast við. Þessi tæki hafa í raun verið á markaðinum í allnokkurn tíma en fyrst núna er verðið á þeim orðið slíkt að það er á færi flestra sem við þetta starfa að fjárfesta í svona tæki enda fást myndavélarnar með öllum búnaði frá um 30.000 krónum.
Gasdrifinn traktor Undanfarin ár hefur mikil þróun átt sér stað hjá framleiðendum dráttarvéla í þeirri viðleitni að gera þá minna háða jarðefnaeldsneyti. Rafmagnsdrifnar dráttarvélar virðast eiga enn nokkuð langt í land vegna gríðarlegs þunga þeirra og því hafa margir horft til nýtingar á hauggasi. Lausnir byggðar á nýtingu á metani hafa raunar verið til lengi en raunverulegur valkostur fyrir bændur hefur vart verið til staðar fyrr en nú. Á sýningunni í ár var kynning á sérstakri hönnun dráttarvélarinnar New Holland 8970, sem hefur verið útbúin þannig að hún er með gastanka á frambúnaði vélarinnar og er auðvelt að skipta um tanka og spara þannig tíma í stað þess að fylla á vélina. Lausnin er einstaklega áhugaverð, enda gætu líklega flestir bændur landsins þá einfaldlega framleitt sitt eigið eldsneyti með því að afgasa búfjáráburðinn sem fellur til á búum þeirra.
Kúa-fótboltaspil Ekki það að fótboltaspil hafi verið sérstaklega í kynningu á sýningunni, né til sölu, en ekki er hægt að sleppa því að nefna útfærslu á þessu hefðbundna borðspili sem hingað til hefur verið sett plast-leikmönnum en núna kúm.