Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Appelsínur og annað þeim skylt
Á faglegum nótum 4. desember 2014

Appelsínur og annað þeim skylt

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Nú þegar hlýnun veðurfars um alla jörð er viðurkennd staðreynd er varla seinna vænna fyrir okkur hér á norðurslóðum að fara að huga að einhverjum berjagróðri sem gæti leyst krækiberin okkar og bláberin af hólmi þegar hitabeltisloftslagið fer að þjarma að þeim fyrir alvöru.

Sú hætta vomir yfir að hálendisauðnirnar okkar, með því óhefta víðsýni sem við notum til að lokka til okkar fjársterka ferðamenn, verði komnar á kaf í myrkviði hitabeltisskóga sem ekki nokkur sauðkind ræður við að halda í skefjum. Þá er nú gott að eiga að jafn fjölbreytta og gjöfula plöntuættkvísl sem appelsínurnar og öll hennar systkini og frændsystkini eru af: Sítrusættkvíslina. Að minnsta kosti sakar það okkur ekki að vera viðbúin.

Mörg nöfn – ruglingur

En að öllum galsa slepptum, þá eru ættingjar og skyldulið appelsínanna afar skemmtilegur hópur sem grasafræðingum hefur enn ekki tekist að skrá og skilgreina þannig að leikmenn geti fundið í því heila brú. Bara á listanum yfir þau fræðiheiti sem hafa komið fram eru 240 númer, þ.e. áætlaðar sjálfstæðar tegundir, og samheitin eru annað eins. Með átta punkta letri og venjulegu línubili spannar þessi nafnaromsa fimm dálka ef hún er sett upp tvídálka á þrjú A4-blöð. Mikið er samt unnið í því að reyna að einfalda þessa óreiðu með því að skanna inn genamengi einstakra tegunda, sem menn héldu að væru, en sítrusávextir hafa verið svo lengi í ræktun að æ ofan í æ skýtur upp genum og öðrum erfðaþáttum sem menn áttu ekki von á. Þá verður ástandið rétt eins og vindhviða hafi komist í safnið, svo að allt verður að tína saman aftur, raða og skoða upp á nýtt.

Uppruni og fyrstu kynni

Ættkvíslin Citrus mun vera upprunnin á svæðinu sem nú nær yfir suðurhluta Asíu og um hina horfnu landbrú sem eitt sinn tengdi núverandi Indónesíu, Papúa Nýju-Gíneu og Ástralíu saman. Eiginlega hefur ekki tekist að finna neina tegund, eina eða fleiri, sem kemur heim og saman við þá sítrusávexti sem við þekkjum. En í skógum Papúa Nýju-Gíneu og í Ástralíu vaxa samt tegundir sem minna mjög á hina fjarskyldu, ræktuðu ættingja sína og geta í sumum tilvikum frjóvgast gagnkvæmt við þá. En aldin þeirra ná samt hvorki stærð né bragði hinna ræktuðu sítrusa. Sjálft ættkvíslarheitið Citrus tóku Rómverjar upp eftir Grikkjum sem líktu fyrstu sítrusávöxtunum sem bárust inn á menningarsvæðið við Miðjarðarhaf við könglana á Líbanonsedrusviði. Lögun og lykt þótti þeim álíka. Þessi fyrsti sítrusávöxtur var tegundin Citrus medica, sem kallast pomerans á nágrannamálum okkar. Úr berki hennar er unnið súkkat, sem áður fyrr þótti ómissandi í ýmiss konar bakkelsi. Af því er íslenska nafnið súkkatsítróna dregið. Enska heitið á þessari tegund er citron. Það hefur ruglað marga sem fara eftir enskum bökunaruppskriftum. Súkkatsítrónan er annars fremur röm og þurr á bragðið. Hún var notuð í lyfjagerð og eitt afbrigði hennar, 'Ethrog‘, skiptir máli í helgisiðum gyðinga. Annað tilbrigði hennar er fingursítrónan, sem hefur hið skemmtilega latínuheiti 'Sarcodactylis‘, þ.e. „skopfingur“, og notuð er í ýmiss konar snyrtivörur. Hún vex ekki í einum hnetti eins og aðrir sítrusávextir, heldur í totum sem leita í allar áttir út frá aldinbotninum, oft æði skopleg á að sjá. Súkkatsítrónan var einráð á okkar menningarsvæði allt þar til arabar fóru að færa hvern sítrusávöxtinn á fætur öðrum austan úr þeim löndum S-Asíu sem þeir náðu til með boðskap spámannsins Múhameðs þúsund árum síðar.

Og þá erum við komin að þeim sítrusávöxtum sem við þekkjum best þar sem þeir liggja í ávaxtaborðum stórmarkaðanna. Það eru appelsínur, sítrónur, greipaldin, límónur, mandarínur og endrum og eins kúmkvöt.

Appelsínuhópurinn

Appelsínur mynda stóran hóp sem venjulega er kallaður Citrus × sinensis eða „Citrus sinensis-hópurinn“. Hann skiptist í fjölda yrkja sem eru mjög mismunandi að útliti, eðli og gerð. Í íslenskum stórmörkuðum, og heimsmarkaðinum yfirleitt, eru fremur fá af þessum yrkjum í boði. Satt að segja finnst mér úrvalið vera mun fábreyttara nú en þegar Silli og Valdi auglýstu „af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá“ og deildu af innflutningi sínum með Finnsbúð á Ísafirði og öðrum smákaupmönnum hringinn í kring um landið. Þá komu ávextirnir með skipum frá Evrópu. Oftast bara fyrir jólin og appelsínurnar voru undantekningarlaust ný uppskera frá Miðjarðarhafsströnd Evrópu.

Steinlausar nafla-appelsínur frá Portúgal, Valencia-appelsínur frá Spáni og blóðappelsínur frá Sikiley. Allar sætar og safaríkar. Nú fá viðskiptavinir sjaldan að vita hvað þau yrki heita sem í boði eru eða hvaðan þau koma. Æði oft er bara val um eina sort sem komin getur verið úr mun fjarlægari löndum. Stundum jafnvel lagerpínd og uppskorin fyrir eðlilegan þroskunartíma. Appelsínur og aðra sítrusávexti þarf að lesa af trjánum þegar þeir eru nákvæmlega fullþroskaðir.

Af lit og stærð er nefnilega ekki hægt að lesa þroskann. Það verður að smakka og fylgjast með. Sítrusávextir eftirþroskast ekki líkt og epli eftir að búið er að taka þau af trjánum. Þá má geyma í nokkrar vikur, jafnvel í mánuði eftir uppskeru. Helst í kæli.

Sítrónur

Sítrónur eru annar hópur sítrusávaxta. Taldar vera sjálfstæð tegund, Citrus × limon. En til hægðarauka fyrir yfirlit og skipulag er nú frekar farið að tala um „Citrus-limon-hópinn“ vegna þess að sítrónur eiga það til að frjóvgast til og frá við aðra hópa sítrustrjáa og afkomendurnir geta þá orðið af ýmsu tagi, en yfirleitt gagnslausir. Oftast þroska þó sítrónur og aðrir sítrusávextir fræ án utanaðkomandi frjóvgunar. Það kallast geldæxlun og er t.d. algeng meðal reynitegunda. Eiginlega er það klónun og afkomendurnir því allir af sama tagi og móðirin. En samt verða ávallt til einhverjar breytingar, svo að af sítrónum eru nokkrar sortir til í ræktun. En lítill munur er á þeim annar en útlitið og þroskunartíminn.

Slembilukka á Barbados

Greipaldin, fræðiheiti Citrus × paradisi, varð fyrir einhverja slembilukku til á eynni Barbados snemma á átjándu öld. Þar frjóvguðust saman appelsínusort sem hafði komið fram á Jamaíku og stórgerður pómeló-sítrus frá Indónesíu. Þetta var eiginlega fyrsta nýjungin sem nútímafólk varð vitni að innan sítrusávaxtanna. Greipaldintréð hagaði sér dálítið öðruvísi en foreldrarnir, því að aldinin þroskuðust í klösum líkt og vínþrúgur. Þaðan stafar enska heitið, sem svo hefur náð heimsyfirráðum, m.a. í íslensku. Og greipaldin eru lengi að þroskast. Frá blómgun að fullbúnum ávexti líða fimmtán til nítján mánuðir. Það reynir á þolinmæðina hjá þeim sem rækta aðra sítrusávexti sem ekki þurfa nema átta til tíu mánuði frá blómgun í þroska. Eftir að greipaldinið kom fram byrjuðu menn að fikta við að gera fleiri blendinga sítrustegunda. Úr því hafa komið nokkrar greipaldinsortir og „ljóti“ sítrusávöxturinn 'Ugli‘ sem stundum sést hér í ávaxtaborðunum.

Límónur og litlu systurnar

Límónur, Citrus × aurantifolia, eru smærri en sítrónur. Hafa samt svipaða lögun en aldinbörkurinn og aldinkjötið er sérkennilega grænt. Þær eru einkum notaðar í matargerð og til að fríska upp á drykki. Fáir geta stýft þær úr hnefa, svo súrar eru þær.

Mandarínur, klementínur og tangerínur eru náskyldar og mjög svipaðar að útliti og eiginleikum. Þær rekja fræðingar til tegundarinnar Citrus × reticulata. Mandarínurnar eru smágerðastar og bragðsætastar í þessum hópi. Tangerínurnar stærstar en klementínurnar alltaf steinlausar. Allar hafa lausan börk sem auðvelt er að flysja af með berum höndunum.

Beisku krúttin

Smágerðustu sítrusávextirnir sem stundum fást hérlendis eru kúmkvöt. Þau koma af ræktuðu afbrigði runnans Citrus japonica og sem slík kölluð beiskjuber á íslensku. Kúmkvötin eru varla stærri en vínber og borðuð heil með berki og öllu. Þau eru dálítið sætbeisk, en frískandi á bragðið. Einnig er hægt að fá kúmkvöt niðursoðin í sykurlegi. Þannig eru þau oftast notuð í austurlenska ábætisrétti. Kúmkvat er eiginlega eini sítrusávöxturinn sem hægt er að rækta með árangri sem pottablóm hér á landi. Fræin spíra vel og plantan sem upp vex er algjör eftirgerð móðurinnar, líkt og græðlingur. Þarf bjarta og hlýja stofu en eftir að búið er að tína þroskuð aldinin af á haustin getur hún staðið fremur þurrt og á svalari stað fram í mars. Þá er henni umpottað, rætur og greinar snyrt til að halda henni í sömu stærð ár eftir ár.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...