Áttatíu milljarða útflutningstekjur Grindvíkinga í húfi
Gunnar Tómasson er framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík en Þorbjörn er eitt af stærri fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi.
Hann er Grindvíkingur í húð og hár, dyggur lesandi Bændablaðsins, alinn upp í sjávarútvegi og björgunarsveitunum og tók þátt í björgunarstarfi í eldgosinu í Eyjum. Hann var forseti Slysavarnarfélags Íslands þegar landssamtökin sameinuðust Hjálparsveitum skáta og Flugbjörgunarsveitinni árið 1999 undir merkjum Landsbjargar og sat um tíu ára skeið í Almannavarnaráði. Hann hefur því víðtæka þekkingu og reynslu og við fengum hann til að segja okkur frá sinni sýn á stöðuna.
Saga og áhrif eldsumbrota á Reykjanesi
Eldsumbrotin á Reykjanesi, sem hófust með túristaeldgosi í Fagradalsfjalli þann 19. mars 2021, hafa nú tekið aðra stefnu. Á vísindavefnum segir að á síðustu 3.500 árum hafi þrjú gosskeið, sem stóðu í 400–500 ár, gengið yfir svæðið með 600–800 ára goshléum. Enginn veit með vissu hvernig þessi eldsumbrot munu haga sér, færast um svæðið eða hvenær þeim lýkur.
Öllum eru ljósar afleiðingar á íbúa Grindavíkur. Þeir hafa þurft að yfirgefa heimili sín og lifað í von og ótta um hvort þau geti snúið aftur eða þurft að yfirgefa samfélag sitt fyrir fullt og allt. „Menn komast ekki í bumbuboltann sinn, hittast ekki á samkomustöðum sínum í smá sögur eða kíkja í heimsókn til fjölskyldu og ættingja á leiðinni heim úr vinnu. Það er horfið og allir sakna þess,“ sagði einn Grindvíkingur.
Í nýsamþykktum lögum um aðstoð við Grindvíkinga kemur fram að áætlað virði alls íbúðarhúsnæðis í Grindavík sé um 61 milljarður króna. En hvernig er staða atvinnulífs og fyrirtækja núna og hvernig sjá atvinnurekendur framtíðina?
Atvinnulífið er undirstaða velferðar
Flestir, en alls ekki allir, gera sér grein fyrir að atvinnulíf er forsenda búsetu í nútímasamfélagi. Atvinnulífið er uppspretta tekna einstaklinga, sveitarfélaga og ríkissjóðs og þar með velferðar þjóða. Auknar tekjur atvinnulífsins standa undir hærri tekjum allra og öfugt, en það erum við einmitt að upplifa í Grindavík. Íbúarnir hafa flúið, tímabundið að minnsta kosti, atvinnulífið höktir og aflar minni tekna, skatttekjur Grindavíkurbæjar eru í fullkominni óvissu og útgjöld ríkissjóðs aukast.
Í Grindavík eru skráðir 144 lögaðilar, það er að segja fyrirtæki sem stunda atvinnustarfsemi. Þetta eru sjávarútvegsfyrirtæki, ferðaþjónusta, eins og t.d. Bláa Lónið, orku- og dreifingarfyrirtæki sem tengjast Svartsengi, fiskeldisfyrirtæki og ýmis önnur framleiðslu- og þjónustufyrirtæki.
– En hvernig er það, hefur verið tekið saman yfirlit um verðmæti sem fólgin eru í atvinnulífi Grindavíkur og þá á ég ekki bara við sjávarútvegsins, heldur allrar atvinnustarfseminnar í heild? „Nei, ég veit ekki hvað þetta er mikið í heildina en ég veit að hjá okkur í Þorbirninum er verðmæti húsa, tækja og búnaðar auk birgða sem staðsettar eru í Grindavík um 10,5 milljarðar króna. Heildarútflutningsverðmæti allra fyrirtækja í Grindavík er gróflega áætlað um 80 milljarðar króna,“ segir Gunnar og bætir við: „En hugsaðu þér bara afleiðingarnar af því ef Bláa Lónið yrði fyrir því tjóni að það nýttist ekki lengur. Þá myndum við sjá mun færri ferðamenn koma til landsins sem hefði áhrif á alla ferðaþjónustuna, flugfélög, hótel, veitingastaði, bílaleigur og svo má lengi telja. Þetta myndi hafa gríðarleg áhrif á tekjuöflun þjóðarinnar.“
Gríðarleg verðmæti atvinnuhúsnæðis, tækja og búnaðar
Með lauslegri skoðun á ársreikningum stærstu fyrirtækjanna sem staðsett eru í Grindavík, þar með talin fyrirtækin í Svartsengi, eru verðmæti bygginga, tækja og búnaðar sem staðsett eru á hættusvæðinu nokkru meiri en 60 milljarðar króna, trúlega nærri 100 milljörðum. Heildarverðmæti íbúða og atvinnutækja eru þá á bilinu 120–160 milljarðar og þá eru ótaldir innviðir eins og vegir, höfnin, veitukerfi bæjarins, byggingar sveitarfélags og ríkis og fleira. Burtséð frá öllum verðmætum, segir Gunnar að allur tími fari núna í að huga að fyrirtækinu og starfsfólkinu. „Við erum með allt okkar í Grindavík, vinnsluhús, vélar, umbúðir, geymslur og annað sem þarf til fiskvinnslu og útgerðar. En fiskvinnsla og veiðar eru ekki bara tæki og tól. Þekking starfsfólks og stjórnenda á veiðum, framleiðslunni, sölu og markaðssetningu skiptir verulegu máli. Þekking er mjög fljót að tapast ef fyrirtæki sundrast. Við erum með samninga við viðskiptavini um afhendingu afurða sem nú eru allir í óvissu. Við þurfum því að geta komist til Grindavíkur en um leið verðum við að huga að aðstæðum sem náttúran skapar okkur og ekki taka óþarfa áhættu. En þetta er ekki einfalt.
Við verðum að dansa línudans á milli þess að halda starfsemi okkar gangandi og tryggja öryggi allra.“
Ábyrgð atvinnulífsins
Ábyrgð forsvarsmanna fyrirtækja er mikil og augljós. Eins og í Eyjum forðum þegar forsvarsmenn fyrirtækjanna neituðu að flytja tæki og tól í burtu og hófu síðan starfsemi í óþökk yfirvalda, þá fóru hjól atvinnulífsins að snúast og fólkið að snúa heim. En hér standa Grindvíkingar trúlega í miðjum atburði eða atburðum sem ekki er vitað hvernig þróast.
– En hvernig sér Gunnar framtíð atvinnulífs í Grindavík? ,,Til skamms tíma þurfum við að halda áfram starfsemi. Við þurfum að fá að nýta hús og tæki til framleiðslu, við þurfum að fá starfsfólk til vinnslu og helst að fá að vera í Grindavík. Því höfum við verið í viðræðum við Almannavarnir og lögreglustjórann á Suðurnesjum um að fá að hafa ákveðið skipulag á starfsemi okkar í samræmi við þróun þessara atburða. Við þurfum að vita og samræma hvernig við bregðumst við og skipta upp í litakóða eins og jarðfræðingar gera með hættusvæði eldgosa. Á grænu getum við unnið, á gulu erum við í viðbragðsstöðu og á rauðu, þá yfirgefum við svæðið. Við þurfum að þjálfa fólkið í viðbrögðum við hvernig á að yfirgefa ef hættumerki berast.
Þetta yrði allt að tengjast áhættumati sérfræðinga okkar sem hafa staðið sig vel. Þannig viljum við lifa með þessu í þeirri von að atburðirnir hætti eða færi sig annað.“
Eftiráspekin er ekki enn komin
En lítum til baka til 10. nóvember þegar Grindavík var rýmd í kjölfar kvikuhlaups sem svaraði rennsli tuttugu Þjórsáa undir bænum.
– Hvað getum við lært af þessari reynslu? „Ég held að við getum ekki talað un neina eftiráspeki enn þá. Við erum enn stödd í þessum atburði, hvort sem við teljum hvert gos sem einn atburð eða samhangandi sem Reykjaneselda sem standa kannski í 100–300 ár. Er það einn atburður? Það eru svo margar túlkanir í þessu og við náum ekki utan um þetta þar sem enginn hefur gengið í gegnum neitt þessu líkt áður. Við erum enn að átta okkur á þessu öllu saman þannig að í mínum huga er eftiráspekin ekki enn til. Við erum öll að læra,“ segir Gunnar.
Víðtækari samhæfingu skortir
– En hvernig er það með heimamenn í Grindavík, fá þeir að koma nægjanlega að skipulagningu og ákvörðunum sem teknar eru af stjórnvöldum? „Ég er á því að bæjaryfirvöld í Grindavík hefðu átt að koma meira að ákvörðunum sem teknar hafa verið. En það er ekki bara það. Ég frétti það fyrir nokkru að Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð, sem var stofnuð 2004 til að samhæfa og samræma aðgerðir allra viðbragðsaðila landsins, bæði opinberra, sjálfboðaliða, þjónustuaðila og fyrirtækja sem að björgunarmálum koma, hefði ekki verið virkjuð þegar almannavarnaástand skapaðist í Grindavík í nóvember síðastliðinn.
En svo allt í einu í þessu almannavarnaástandi sem virkilega krefst samræmingar á aðgerðum þá er Björgunarmiðstöðin ekki nýtt. Við verðum að virkja Björgunarmiðstöðina, þennan lærdóm verðum við að draga af atburðum síðustu vikna. Inn í þessa samræmingarmiðstöð hefði stjórn bæjarfélagsins átt að koma og þannig yrði verkefnum deilt og þannig yrðu allir viðbragðsaðilar upplýstir jafnóðum um það sem væri að gerast í gegnum samræmingarmiðstöðina. Björgunarmiðstöðin ætti líka að annast reglubundnar upplýsingar og halda upplýsingafundi fyrir almenning. Það myndi létta verulega á fámennu liði Almannavarna og lögreglu,“ segir Gunnar.
Hafa ber í huga að viðtalið var tekið í lok febrúar og þá var svipuð kvika komin í kvikuhólfið undir Svartsengi og fyrir síðasta gos. Viku seinna, þegar blaðið kemur út, getur því margt hafa gerst. Það lýsir vel því óvissuástandi sem atvinnurekendur í Grindavík búa við.
(Þáverandi forsvarsmenn hennar neituðu að flytja vélar félagsins upp á land í gosinu sem hófst 23. janúar 1973 og hófu síðan bræðslu í fiskimjölsverksmiðjunni þann 16. febrúar, þrem vikum eftir að gosið hófst.)