Auka þarf framleiðslu lífrænna búvara
Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson
Samfara aukinni eftirspurn eftir lífrænt vottuðum afurðum víða um heim færist í vöxt að ríkisstjórnir beiti hvetjandi aðgerðum til að auka framleiðsluna.
Þessi þróun er neytendadrifin vegna þeirra kosta sem lífræn framleiðsla felur í sér, svo sem vegna þess að ekki er notaður tilbúinn áburður, hvorki eiturefni né erfðabreyttar lífverur, velferð búfjár er í hávegum höfð, áhersla er lögð á umhverfisvernd og dregið er úr orkunotkun og útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Evrópuhópur fundaði í Hollandi
Dagana 4.–7. apríl sl. fundaði Evrópuhópur lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM EU Group) í ráðstefnumiðstöðinni Landgoed de Horst við Driebergen skammt frá Utrect í Hollandi. Sem fulltrúi Bændasamtaka Íslands, VOR – verndun og ræktun, félags framleiðenda í lífrænum búskap, og Vottunarstofunnar Tún ehf., sat ég bæði aðalfund og stjórnarfund hópsins og auk þess 10. evrópsku lífrænu ráðstefnuna (10th European Organic Congress) sem haldin var á sama stað. Fundina tvo sátu um 40 manns frá flestum þeim Evrópulöndum sem eru aðildarríki Evrópusambandsins eða á Evrópska efnahagssvæðinu.
Formaður nýrrar stjórnar var kjörinn Christopher Stopes frá Bretlandi. Framkvæmdastjórinn, Marco Schlüter frá Þýskalandi, sem hefur stýrt uppbyggingu skrifstofu hópsins í Brussel með prýði í rúman áratug lét af störfum en við tók Eduardo Cuoco frá Ítalíu sem hefur unnið mikið í þágu lífræns landbúnaðar um árabil.
Á meðal umræðuefna á stjórnarfundinum var væntanleg ný reglugerð frá Evrópusambandinu um lífrænan landbúnað sem ekki er talin auðvelda aðlögun, m.a. vegna skorts á sveigjanleika. Mikil vinna er í gangi við að fá fram úrbætur á ýmsum ákvæðum textans sem lögfræðingar hafa einnig gagnrýnt. Eftir að hafa unnið að þessum málum vel á annan áratug er mér ljóst að markaðsbandalag sem vill að allir dansi í takt, án tillits til skilyrða á borð við loftslag og landgæði, er og verður erfitt viðureignar nema stefnubreyting komi þar til. Þessi harða afstaða er reyndar vel þekkt í sambandi við aðildarumsóknina að ESB.
Mikið var rætt um stefnumótun lífræna geirans allt til 2030. Þótt lífrænum bændum hafi fjölgað mikið á undanförnum 30 árum er hlutfall lífrænt vottaðra búvara í Evrópu tæplega 6% og aukinni eftirspurn er mætt með innflutningi, svipað og hér á landi, en hér er lífræna framleiðslan aðeins um 1%. Það metnaðarfulla markmið hefur verið sett fyrir álfuna að stefna að 50% fyrir 2030.
Afbragðs ráðstefna
Lífrænu ráðstefnuna sátu 200 þátttakendur og komust ekki allir að sem vildu enda var dagskráin mjög athyglisverð.
Fyrirlesarar og þátttakendur í pallborðsumræðum voru allir áheyrilegir og allt skipulag og stjórn umræðna var með stakri prýði. Þarna talaði margt fólk sem er í fylkingarbrjósti lífrænu hreyfingarinnar í Evrópu. Fulltrúi frá Evrópusambandinu var mættur svo og bændasamtakanna COPA-COGECA, talsmenn vottunarstofa, vísindamenn sem vinna að þróun lífrænna búskaparhátta og fulltrúar ýmissa stofnana í Evrópu sem vinna með raunhæfum hætti, líkt og lífræna hreyfingin, að raunverulegri sjálfbærri þróun. Landbúnaðarráðherra Hollands, Martijn van Dam, flutti ágætt ávarp og er hann áhugasamur um að efla lífræna ræktun þar í landi.
Kreppa í evrópskum landbúnaði
Mikla athygli vakti erindi dr. Aurélie Trouve, hagfræðings frá París, sem sagði að nú ríkti kreppa í evrópskum landbúnaði. Bændur, sérstaklega á fjölskyldubúunum, sem væru kjölfestan, ættu mjög í vök að verjast.Hún taldi afurðaverð vera of lágt.Verið væri að vísa ýmiss konar umhverfiskostnaði á komandi kynslóðir, ekki væri hugað nægilega að gæðum matvæla sem gæti komið niður á heilsu neytenda og aukið byrðar heilbrigðiskerfisins, og bændur væru ekki að fá sanngjörn laun fyrir vinnu sína. Hugarfarsbreyting þyrfti að koma til og gæti hugmyndafræði lífrænu hreyfingarinnar orðið uppbyggjandi veganesti við mótun framtíðarstefnu í evrópskum landbúnaði.
Ekki vakti síður athygli erindi Susan George, sem er bandarísk að uppruna en býr í Bretlandi. Hún lýsti þeirri ógn sem lífrænum landbúnaði, og reyndar öllum landbúnaði í Evrópu, stafar af svokölluðum TTIT-viðskiptasamningi á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Umræðum væri fram haldið með leynd, algjörlega óviðunandi þar sem upplýst lýðræðissamfélög ættu í hlut.
Í lokin fengum við magnað erindi frá Geoff Tansey frá Bretlandi sem er þekktur fyrir bækur sínar um matvælaframleiðslu, fæðuöryggi o.fl. Hann sagði fjölþjóðafyrirtæki á borð við Monsanto, Syngenta og DuPont tröllríða fæðuframleiðslu í heiminum með ósjálfbærum hætti. Þá væru fjárfestar og auðmenn að hrifsa til sín bújarðir víða um heim (land grabbing). Varðveita þyrfti fjölskyldubúskap og smábændur, sem tryggja fæðuöryggi víða um heim, og byggja upp vistvæna og lífræna búskaparhætti án tafar ef ekki ætti illa að fara.
Lífrænt býli heimsótt
Holland er í meðallagi miðað við Evrópu í heild með um 3% matvæla á markaði með lífræna vottun. Fremst fara Danmörk með tæp 8% en Sviss, Austurríki og Svíþjóð fylgja fast á eftir. Glöggt kom fram í máli landbúnaðarráðherrans á ráðstefnunni að fyrirsjáanleg sé mjög aukin eftirspurn neytenda og því beri að auka framleiðslu lífrænna búvara án tafar í stað þess að treysta mikið á innflutning með tilheyrandi kolefnisfótspori.
Við heimsóttum vel upp byggt og snyrtilegt lífrænt býli á Flevolandi, norðaustur af Amsterdam, þar sem í sáðskiptarækt á 270 hekturum eru kartöflur, gulrætur, rauðrófur, laukur, gras með smára o.fl. Áður voru þar einnig nautgripir en nú eru þeir á öðru lífrænu býli í samstarfi þannig að þangað fer gras og smári til fóðrunar en mykja kemur til baka í staðinn. Auk búskaparins er rekinn vistlegur veitingastaður í gróðurhúsi þar sem afurðir af báðum býlunum eru uppistaðan í matnum sem í boði er. Þar með eru drykkir, m.a. úr rauðrófusafa sem bragðaðist vel. Þagar við vorum stödd þar 6. apríl var óvenju blautt um og ekkert var farið að vinna að vorverkum á ökrunum. Helst lá á að setja niður kartöflur en til bóta er að jarðvegurinn er sendinn og þornar fljótt á vorin. Búið er vel tæknivætt og eru tölvustýrðar dráttarvélar m.a. notaðar við plægingu á haustin en spildurnar eru stórar og ferhyrndar. Þó er um 20 manns í vinnu á búunum þegar flest er, svo sem við uppskerustörf og vinnslu afurða. Aðspurður sagði bóndinn að lífræni búskapurinn væri framtíðin, það væri engin spurning.
Jákvætt framlag búnaðarsamnings
Svo sem greint var frá hér í blaðinu 25. febrúar sl. er gert ráð fyrir stórlega auknu framlagi næstu 10 árin til aðlögunarstuðnings við bændur sem vilja taka upp lífræna framleiðsluhætti. Að frumkvæði Jóns Bjarnasonar, fv. landbúnaðarráðherra, voru samdar ítarlegar úthlutunarreglur fyrir slíkan stuðning, að norskri fyrirmynd, haustið 2010, og unnið eftir þeim um fimm ára skeið, 2011–2015. Fáeinir bændur nutu stuðningsins, sem að vísu var stórlega skertur vegna þess að allt of litlir fjármunir voru eyrnamerktir þessum lið á fjárlögum. Nú er von til þess að betur takist til.
En það er fleira í nýja búnaðarsamningnum sem stuðlar að markvissri aðlögun að lífrænum búskaparháttum. Má þar m.a. nefna stuðning við leiðbeiningarþjónustu hjá RML svo sem við mat á hæfni jarða til lífræns búskapar og markaðslegar forsendur slíkra breytinga. Þá eru sérstök ákvæði í samningnum um mat á gróðurauðlindum, og þar með beitarþoli, sem að mínum dómi marka ákveðin tímamót og koma m.a. lífrænum sauðfjárbændum til góða. Þar er fyrirhugað að byggja upp víðtækt og markvisst vöktunarkerfi, sívöktun með rannsóknum á framvindu gróðurs og jarðvegs á mörgum, ákveðnum stöðum bæði í heimalöndum og í afréttum um land allt.
Niðurstöður þessara rannsókna, ásamt öllum niðurstöðum beitilandarannsókna um áratuga skeið, verða síðan væntanlega lagðar til grundvallar við mat á þeirri verðmætu beitarauðlind sem felst í hinum náttúrulega úthaga. Að vissu marki eru fyrirmyndir í sjávarútvegi þar sem stofnstærðir eru metnar, þótt með öðrum hætti sé, svo sem með „togararalli “ o.fl.
Markvissari stefna
Nýjar franskar rannsóknir hafa sýnt að framleiðsla eiturefna, sem t.d. eru notuð til varnar gegn plöntusjúkdómum og við eyðingu illgresis, er mun kostnaðarsamari en áður var talið, þar með fyrir umhverfið. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er farið að leggja „grænan virðisaukaskatt“ á tilbúinn áburð og plöntuvarnarefni til að mynda sjóði sem eiga að fjármagna rannsóknir og þróun í þágu lífrænna og annarra sjálfbærra búskaparhátta. Reikna má með að Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum hraði opinberri stefnumörkun þar sem áherslur verða færðar frá efna- og lyfjavæddum nútímalandbúnaði yfir í mun sjálfbærari framleiðslukerfi á borð við lífrænan landbúnað.
Þann verulega aukna stuðning, sem tilgreindur er í hinum nýja búnaðarsamningi, má túlka sem lið í ákveðinni stefnumótun en hún þarf að verða markvissari. Góðan grunn að markvissri stefnu í þessa veru er reyndar að finna í skýrslu frá nefnd Alþingis frá september 2011 sem þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum stóðu að. Í þeirri skýrslu , „Efling græns hagkerfis á Íslandi“, eru bæði skýr markmið og drög að aðgerðaáætlun, m.a. fyrir lífrænan landbúnað.
Nú er rétti tíminn til að taka þessi mál fastari tökum og svara kalli neytenda eftir lífrænt vottuðum landbúnaðarvörum, helst innlendum.
Höfundurinn,
dr. Ólafur R. Dýrmundsson,
er fulltrúi í Evrópuhópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga og veitir m.a. ráðgjöf um lífræna búskaparhætti
(oldyrm@gmail.com).