Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Kúm líður vel úti á beit og aukin hreyfing hefur ýmis jákvæð áhrif á líkamsstarfsemi þeirra.
Kúm líður vel úti á beit og aukin hreyfing hefur ýmis jákvæð áhrif á líkamsstarfsemi þeirra.
Mynd / Halla Eygló Sveinsdóttir
Á faglegum nótum 17. apríl 2024

Beit mjólkurkúa

Höfundur: Baldur Örn Samúelsson, ráðunautur í fóðrun.

Öllum nautgripum, að undanskildum graðnautum, er skylt að komast á beit á grónu landi í að minnsta kosti 8 vikur á hverju ári.

Að setja mjólkurkýr út á sumrin hefur vissar áskoranir íförmeðsérog verið mismunandi eftir aðstæðum. Vel má hins vegar sigrast á þeim með góðu skipulagi og útsjónarsemi því
ýmis ávinningur er af beitinni.

Áskoranir

Helstu áskoranirnar þegar mjólkurkúm er beitt er að oft vill nytin lækka og lenda sumir í að frumutalan hækkar en með góðum undirbúningi og beitarstjórnun má koma að mestu í veg fyrir þessi áhrif. Fóðureining á beit ætti að vera ódýrari en í verkuðu gróffóðri því ekki er búið að kosta til heyskap og geymslu á gróffóðrinu og gæti þessi sparnaður jafnvel réttlætt lítillega lækkun á nyt.

Beit virðist hafa jákvæð áhrif á fitu í mjólk svo það getur fengist verðmætari mjólk þegar hluti fóðrunarinnar er fenginn með beit. Búast má við hækkaðri frumutölu fyrstu dagana eftir að útivist hefst því þetta er breyting fyrir gripina og sumir eru viðkvæmari fyrir breytingum en aðrir.

Hægt er að lágmarka þetta með því að aðlaga gripina að beitinni og fóðurbreytingunni með því að setja kýrnar út að vori nokkru áður en beitin er tilbúin og þá á eldri tún með fullri innigjöf. Við upphaf beitar er aukin hætta á að kýr í hárri nyt fái graskrampa sem orsakast af magnesíumskorti, hægt er að koma í veg fyrir hann með því að gefa magnesíumrík steinefni fjórum vikum fyrir beit og fjórar fyrstu vikur beitarinnar, með steinefnablöndu eða – stampi/fötu.

Beitargróður og vatn

Góð beitartún innihalda blöndu af lystugum og orkuríkum grastegundum en við horfum ekki á alveg sömu grastegundir í almennri túnrækt og beitartúnrækt. Vallarrýgresi, vallarfoxgras, hávingull og rauðsmári eru góð beitar- og túnræktargrös og að hafa vallarsveifgras og hvítsmára í beitartúnum styrkja svörðinn og eykur þol gegn traðki. Vallarfoxgras í hreinrækt er ekki heppilegt vegna gisins svarðar og lítils endurvaxtar. Kýr velja gjarnan smára í beit og bindur hann köfnunarefni úr andrúmslofti en gæta þarf þess að smári þolir illa súran jarðveg og þarf sýrustig jarðvegsins helst að vera yfir pH 6.

Ekki er ráðlegt að byrja að beita fyrr en grösin hafa komist yfir 10 cm hæð því þá þurfa kýrnar að fara yfir stærra svæði til að fá nóg í sig og ná ekki að hámarka átið. Til að halda uppi afurðum ættu gripirnir líka að hafa aðgang að verkuðu fóðri allan beitartímann til að lágmarka áhrif af fóðurbreytingum sem geta orðið þegar skipt er á milli beitarhólfa.

Meginhráefni mjólkur er vatn og þurfa kýr því stöðugt aðgengi að fersku vatni en vatnsþarfir mjólkurkúa geta verið 70-110 lítrar á dag eftir því hve nytháar þær eru. Er því gott aðgengi að fersku vatni nauðsynlegt í beitarhólfum.

Beitarskipulag

Þrjú helstu beitarkerfin eru stöðug beit, randabeit og skiptibeit.

Stöðug beit er þegar kúnum er beitt á sama svæðið samfellt í nokkurn tíma, nýting beitarinnar verður þá töluvert lakari samanborið við randabeit og skiptibeit en er ekki eins vinnufrek. Vegna verri nýtingar þarf stærra svæði til að halda góðum afurðum og þegar líður á beitartímann þurfa gripirnir viðbótarfóður með beitinni til að halda uppi afurðum.

Randabeit er þegar gripunum er skammtað ákveðið magn af nýrri og ferskri beit með léttum rafstreng. Randabeit er oftast nýtt þegar beitin er gæðamikil og verðmæt, t.d. oft þegar grænfóður er beitt svo sem fóðurkál eða næpur. Nauðsynlegt er að allir gripir komist að beitinni í einu og betra að röndin sé lengri og mjórri frekar en stutt og breiðari svo nýtingin verði betri. Hægt er að randabeita hefðbundin tún og grænfóður með góðan endurvöxt en þá er rétt að friða þann part með rafstreng sem er búið að beita.

Skiptibeit er þegar beitarlandinu er skipt niður í passlega stór hólf sem er beitt síðan koll af kolli í stuttan tíma í senn, helst 1-3 daga. Kýrnar fá með þessu móti alltaf hæfilega sprottna beit, á meðan fær grasið í hinum hólfunum frið til að spretta. Ráðlegt er að setja gripina í beitarhólfið þegar grashæðin er komin upp í 12-15 cm og hætta beit þegar grashæðin er komin niður í 5-8 cm. Í byrjun beitartímans er þó rétt að byrja í grashæðinni 8-10 cm. Hafa verður í huga að í hvert skipti sem beitarhólf er beitt minnkar nýtingin en gera má ráð fyrir að í hvert skipti sem kúm er boðið sama landið minnkar átið um 7-10%. Einnig þarf að gera ráð fyrir að þurfa að stækka beitarhólfin eftir því sem líður á sumarið þegar grassprettan minnkar og gripunum verið beitt oft á sama landið, þá er líka einnig hægt að bæta við grænfóðurbeit. Skiptibeitin er vinnufrekari en stöðuga beitin en skilar betri nýtingu og jafnari gæðum beitar sem skilar betri og jafnari dagsnyt kúnna.

Áburðarþörf og viðhald beitar

Bera þarf nokkuð minna af áburði á beitartún en hefðbundin tún og gott er að miða við að bera um það bil 60-70 kg/ha af köfnunarefni, 5-10 kg/ha af fosfór og 0-20 kg/ha af kalí. Ef borið er á of mikill áburður á beitartún getur styrkur einstaka næringarefna orðið of hár í byrjun beitartímabilsins sem getur orsakað vandamál. Of hár styrkur kalís getur aukið líkur á graskrampa og of hár styrkur köfnunarefnis getur valdið nítríteitrun og/eða þembu. Fyrirbyggja má nítríteitrun og þembu með því að hleypa kúnum ekki út svöngum á þannig beit.

Með tímanum fara beitarhólfin að verða toppótt sem dregur úr áhuga kúnna á beitinni. Þarf þá að fara yfir túnin með hagasláttuvél bæði til að taka toppana og til að hindra að illgresi sái sér. Mikilvægt er að dreifa ekki úr kúadellunum í bithaganum því það spillir beitinni og er því mikilvægt að hagasláttuvélin sé með landhjólum og slegið sé ekki of nærri jörð.

Gönguleiðir og mjaltaþjónar

Mikilvægt er að huga vel að gönguleiðum að beitinni, þær þurfa að vera greiðar, sléttar og passlega mjúkar til að allar kýrnar komist sem auðveldast að beitinni. Gróf möl hentar ekki í undirlag þar sem stakir steinar geta sært klaufir kúnna. Gras er besta undirlagið en það má ekki vaðast upp, það þekkist að nýta gervigras á álagssvæðum.

Gæta þarf þess að það séu ekki flöskuhálsar líkt og þröng hlið þar sem þau eru líklegri til að vaðast upp í bleytutíð. Mikilvægt er að beitarhólfin séu ekki langt frá fjósinu, þá sérstaklega hjá mjaltaþjónafjósum.

Beitarhólfin ættu ekki að vera lengra en 500-1000 m frá mjaltaþjónafjósi. Best er að kýrnar hafi frjálsan aðgang að fjósinu svo þær geti leitað skjóls ef þær þurfa þess, þar ættu þær einnig að hafa aðgang að verkuðu fóðri. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir mjaltaþjónafjós svo kýrnar komist inn að láta mjólka sig og fengið kjarnfóður.

Hægt er að nýta beitina til að lokka í mjaltir á morgnana ef flokkunarhlið hleypir kúnum út eftir morgunmjaltir. Með flokkunarhliðum mætti flokka hjörðina eftir nyt og senda gripina á mismunandi beitarhólf til að hámarka nýtingu beitarinnar og halda uppi afurðum.

Útivist

Kúm líður vel úti á beit og aukin hreyfing hefur ýmis jákvæð áhrif á líkamsstarfsemi þeirra. Við sjáum jákvæð áhrif á liði, vöðva, fætur og klaufir. Ónæmiskerfi líkamans styrkist sem minnkar líkur á smiti og sjúkdómum, einnig er tíðni spenastiga lág og eykur útivistin hreysti gripanna. Það er því eftir töluverðu að slægjast með vel heppnaðri sumarbeit.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...