Chamberlain – eitt sinn mest selda dráttarvél í Ástralíu
Fyrstu Chamberlain-traktorarnir komu á markað árið 1949. Það ár smíðuðu feðgar, faðir og tveir synir, ellefu dráttarvélar í yfirgefinni skotfæraverksmiðju og notuðu ættarnafn sitt til að markaðssetja framleiðsluna.
Í upphafi gengu traktorarnir fyrir tvígengisvél sem brenndi steinolíu og hönnuð var af Phil Irving sem seinna gat sér gott orð fyrir hönnun á vélum fyrir mótorhjól. Steinolíuvélin í Chamberlain-traktorunum reyndist ekki vel og og árið 1952 var skipt yfir í dísilvél. Við tóku vélar frá General Motors og voru þær notaðar í allar stærri týpur fram til 1967.
Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar hóf Chamberlain að framleiða minni traktora með Perkins-vél. Vélarnar voru þriggja gíra og með háu og lágu drifi og nutu gríðarlegra vinsælda og seldust yfir 20.000 slíkar á næstu 20 árum.
Dæmi um þrautseigju Perkins-vélanna er að árið 1955 tók ein slík þátt í rúmlega 9.600 kílómetra Ástralíurallíi þar sem hún kom 30 öðrum traktorum til bjargar sem höfðu fest sig í sandi eða bilað. Tveimur árum seinna var sama Chamberlain-traktornum ekið tæplega 18 þúsund kílómetra á ellefu dögum. Góð ending það.
Meðalframleiðsla fyrirtækisins var 3000 dráttarvélar á ári sem taldist lítið á þeim tíma. Árið 1970 keypti landbúnaðartækjaframleiðandinn John Deere 49% hlut í Chamberlain og var þá farið að nota sams konar vélar í báðar gerðir dráttarvéla. Árið 1986 tók John Deere alfarið við rekstrinum. Skömmu seinna var framleiðslu Chamberlain-traktora hætt þrátt fyrir að framleiðsla á varahlutum í eldri vélar héldi áfram í nokkur ár.