Eicher-dráttarvélar
Bræðurnir Joseph og Albert Eicher hófu framleiðslu á Eicher-dráttarvélum árið 1936 í litlu þorpi skammt frá München í Bæjaralandi í Þýskalandi.
Framleiðslan gekk vel og á næstu fimm árum framleiddu þeir ríflega eitt þúsund litla og fremur einfalda traktora með vélum frá Deutz.
Eftir lok heimsstyrjaldarinnar seinni hófu bræðurnir framleiðslu á eigin díselvélum í sínar dráttarvélar og seinna fyrir dráttarvélaframleiðandann Votan. Upp úr 1970 eignaðist kanadíski armur Massey-Ferguson stóran hlut í Eicher og var þá farið að nota Perkins-vélar í traktorana. Framleiðslan jókst jafnt og þétt og um 1990 var fjöldi Eicher-véla orðinn 120.000 og um 2.000 vélar framleiddar á ári.
Árið 1959 setti fyrirtækið upp verksmiðju á Indlandi þar sem vélarnar eru framleiddar enn í dag. Vélar framleiddar fyrir Evrópumarkað eru aðallega litlir traktorar sem notaðir eru í vínrækt og sérhannaðir til þess að passa milli raða af vínviðarplöntum.