Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ostrur eru síur sem sía næringuna úr sjó eða vatni og lifa víða um heim. Sums staðar mynda þær mikil rif og veita öðrum lífverum mikilvægt skjól.
Ostrur eru síur sem sía næringuna úr sjó eða vatni og lifa víða um heim. Sums staðar mynda þær mikil rif og veita öðrum lífverum mikilvægt skjól.
Mynd / Ben Stern
Á faglegum nótum 22. ágúst 2022

Eignarréttur skapar skynsamlega hvata

Höfundur: Sigurgeir B. Kristgeirsson

Skynsamlegt skipulag skiptir miklu um framþróun. Stærsta skref mannkyns var þegar menn tóku sér fasta búsetu, hófu að yrkja jörðina og nytja búfé. Þar með hófst landbúnaðarbyltingin fyrir um 11.500 árum.

Landbúnaður verður ekki stundaður nema með skýrum eignarrétti lands og búfjár en hann er forsenda þeirrar þróunar sem við njótum góðs af í dag.
Skipulag mannlegs samfélags skiptir miklu um velferð fólks en það er líka auðvelt að brjóta það niður eins og dæmin sanna.

Í Norður- og Suður-Kóreu býr sama fólkið, jafnvel sömu fjölskyldurnar, hvort sínum megin við landamærin. Trúin, siðirnir, fólkið var það sama fyrir rúmum 70 árum en þá skildu leiðir. Kommúnismi, þar sem ríkið á allt, tók við norðanmegin en lýðræðislegt fyrirkomulag með eignarrétti einstaklinga sunnanmegin. Ekki þarf að upplýsa lesendur um stöðu þessara þjóða. Þjóðarframleiðsla S-Kóreu á mann er svipuð og í Evrópusambandinu og almennt eru aðstæður þjóðarinnar góðar. Íbúar N-Kóreu búa aftur á móti við fátækt og ömurlegar aðstæður. Rangt skipulag er því ekki lengi að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilu þjóðirnar.

Michael DeAlessi er með doktorsgráðu í hagfræði og hefur aðallega fjallað um fiskveiðar. Hann er nú rannsóknarprófessor við University of Washington, á vesturströnd Bandaríkjanna.
Michael DeAlessi

Dr. Michael DeAlessi er rannsóknarprófessor við University of Washington, á vesturströnd Bandaríkjanna. Hann hefur aðallega fengist við að rannsaka skipulag fiskveiða og áhrif þeirra á samfélög og fólkið sem þau byggja.

Hann var staddur hér á landi í vor til að kynna sér íslenskan sjávarútveg betur. Tilgangur ferðarinnar var að reyna að meta áhrif fiskveiðistjórnunar á lífskjör þjóða og samfélaga sem byggja á sjávarútvegi og reyna að þróa mælistiku sem mælir árangur fiskveiðistjórnunar á hag fólks. Hann þekkir vel til sjávarútvegs í Bandaríkjunum, Nýja- Sjálandi og Indónesíu, svo nokkur ríki séu nefnd.

Eignarréttur ostruveiðimanna í Willapa Bay

Michael DeAlessi birti fyrir nokkrum árum áhugaverða rannsókn um þróun ostruveiða í Willapa Bay í Washingtonríki, sem er flói á vesturströnd Bandaríkjanna. Stutta og einfalda sagan er þessi: Við landnám vesturstrandarinnar, um miðja 19. öldina, uppgötvuðu landnemar í Willapa Bay gnægð ostra í flóanum og hófu þegar veiðar.

Willapa Bay í Washington-ríki.

Ekki leið á löngu þar til ofveiði varð og ávinningurinn minnkaði. Þar sem Washingtonríki hafði ekki verið stofnað, þá slógu landnemarnir eign sinni á flóann og skiptu honum á milli sín, líkt og landnemar gerðu við landnám Íslands. Þar með gátu þeir stýrt veiði sinni og nýtingu en um leið útilokað aðra frá veiðum. Washingtonríki var stofnað 1889 en þá voru ostruveiðimennirnir byrjaðir að leita leiða við að rækta ostrurnar, hlúa að búsvæðum hennar og um leið hrygningu. En ríkið hélt áfram að þróast með frekara landnámi. Skógarhögg hófst og sögunarmyllur risu upp með ánum sem féllu í flóann með tilheyrandi mengun.

Ostrurnar eru síur, það er að segja, þær sía næringuna úr sjónum. Um leið og affall sögunarmyllanna og önnur mengun barst í flóann minnkaði vöxtur og viðkoma ostranna með tilheyrandi tjóni fyrir ostrubændurna. Þeir tóku sig saman og töluðu fyrir því við þingmenn á þingi Washingtonríkis að sett yrðu lög sem takmörkuðu heimildir manna til að menga árnar. Þeir væru að rýra eignarrétt ostrubændanna. Það tókst og þingið bannaði þeim sem bjuggu við árnar að losa úrgang í þær. Á tiltölulega skömmum tíma jókst ,,framleiðsla“ ostrubændanna á ný og tekjur þeirra og afkoma batnaði ostruframleiðslu í Bandaríkjunum.

Á þeirri einni og hálfri öld sem liðin er frá því að ostruveiðimennirnir slógu eign sinni á flóann og hófu ostrubúskap þá er Willapa Bay nú eitt af hreinustu hafsvæðum Bandaríkjanna og ostruframleiðslan nemur nú um 25% allrar ostruframleiðslu í Bandaríkjunum. Ostrubændur í Willapa Bay reka nú myndarleg bú og dæmi eru um að fimmta kynslóð ostrubænda sé nú að yrkja ostrubúin. En auðvitað hafa skipst á skin og skúrir í þeim búskap eins og öðrum.

Chesapeake Bay, án eignarréttar

Michael DeAlessi benti á algera andstæðu þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í Willapa Bay, en hún er á austurströnd Bandaríkjanna.

Chesapeake Bay á austurströnd Bandaríkjanna.

Í Chesapeake Bay, flóa sem liggur að ríkjunum Maryland, Virginíu og Delawere, skammt frá höfuðborginni, Washington, voru fengsælustu ostrumið Bandaríkjanna, mun betri en í Willapa Bay. Í flóann falla margar ár eins og í Willapa Bay. Ostrur voru fyrst veiddar á smábátum á grunnsævi en síðar á seglbátum seint á 19. öldinni, sem drógu plóga. Smám saman fjölgaði bátum, ágreiningur jókst en öllum var ljóst að takmarka þurfti veiðina. Deilurnar leiddu meðal annars til skotbardaga milli sjómanna frá mismunandi ríkjum undir lok 19. aldarinnar. Þing ríkjanna settu mismunandi lög um ostruveiðar þar sem veiðar voru takmarkaðar með ýmsum hætti, t.d. með háum sköttum, veiðibönnum eða öðrum aðferðum en ekkert virkaði.

Með vélbátavæðingu upp úr 1900 jukust afköstin en aflinn dróst að sama skapi mjög mikið saman. Ríkin tóku sig saman og leyfðu veiðar með vélarafli tvo daga vikunnar en hina dagana þurftu fiskimennirnir að nota segl. Þetta fyrirkomulag er enn við lýði í dag en aflinn er nánast enginn. Bátarnir eru örfáir og fiskimennirnir eru fátækir.

Börnin vilja ekki taka við útgerð foreldranna enda ekki hægt að framfleyta fjölskyldu af þeim.

En það var ekki bara að sóknarstýringin mistókst. Mengun fór að berast með vatni í ánum sem féllu í flóann frá borgunum í kring og ýmiss konar iðnaði. Ostrusjómennirnir sáu að afleiðingarnar voru þær sömu og á vesturströndinni, mengun hafði alvarlegar afleiðingar á vöxt og viðgang ostranna í flóanum, og höfðuðu mál á hendur ríkjunum.

Árið 1919 felldi Hæstiréttur Bandaríkjanna dóm í málinu þar sem réttur ríkjanna var staðfestur um að þau mættu dæla skólpi í árnar og þar með sjóinn og menga búsvæði ostranna.

Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Undanfarna áratugi hafa margvíslegir sjúkdómar herjað á ostrurnar í Chesapeake Bay og ostrustofninn er innan við 1% af því sem hann var í lok 19. aldar. Hvort tveggja er enn við lýði, sóknarstýring báta sem mega sækja ostrumiðin á seglbátum með aðferðum í lok 19. aldar og enn er dælt í sjóinn mengun sem hleypir af stað sjúkdómum og eyðileggur búsvæði ostranna.

Það vinna ekki allir en þjóðin er betur sett

„Í öllum löndum, atvinnugreinum eða íþróttum vinna einhverjir og aðrir tapa,“ segir Michael DeAlessi.

„Þannig er það líka með eignarrétt. Hvatarnir skipta mestu máli. Þeir verða að vera réttir. Við sjáum hvernig skipulag fiskveiða í Nýja-Sjálandi, sem byggir á eignarrétti sem ég þekki vel, er miklu ábatasamara en skipulag fiskveiða annarra þjóða, t.d. í Indónesíu.

Munurinn milli landanna er að rétturinn til fiskveiða er mun skýrari á Nýja-Sjálandi en í Indónesíu. Fólkið er ekki öðruvísi, það er skipulag fiskveiða sem inniheldur rétta hvata sem skiptir mestu máli. Fiskimenn þar sem eignarréttur er vel skilgreindur eru mun betur settir en þar sem hann er það ekki.

Þeir leggja mun meira til þjóðarbúsins en þeir sem búa við lélegt skipulag. Það er einfaldlega þannig að eignarréttur skapar skynsamlega hvata.“

Skylt efni: ostrur

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...