Ekki stærsta sexhjólið á markaðnum, en gott vinnutæki
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Í síðasta mánuði tók ég að mér að sjá um ísaksturskeppni á lítilli tjörn uppi á Mosfellsheiði. Til að hægt sé að halda svona keppni er ekki verra að hafa fjórhjól eða sexhjól með snjótönn til að marka brautina og þeir í Stormi buðust til að lána mér sexhjól til verksins.
Ég var ekki seinn að þiggja boðið og fékk hjólið afhent kvöldið fyrir keppni á litlum vörubíl sem Stormur á.
Mikill munur frá gamla 500cc. Polaris sexhjólinu sem prófað var 2010
Þann 21. október 2010 skrifaði ég hér í Bændablaðið um Polaris 500cc. sexhjól sem skilaði því verkefni sem ég lagði fyrir hjólið vel og örugglega.
Nýja hjólið sem nú var prófað er með stærri vél og í stað keðju á því gamla er nýja hjólið komið með drifbúnað í formi drifhásinga og drifskafta. Þrátt fyrir að drifsköft séu þunglamalegur búnaður hentar þetta betur, sérstaklega viðhaldslega séð. Framfjöðrunin er með rúmlega 20 cm slaglengd og afturfjöðrun á báðum afturöxlunum hefur um 24 cm slaglengd. Á pallinn má setja 340 kg burð. Hef séð snilldarlega smíðað búr á palli eins og er á þessu hjóli fyrir sauðfé sem var að vísu með aðeins stærri vél fulla af kindum.
Gott vinnutæki sem létti mikið undir vinnu við keppnishaldið
Þyngdin á hjólinu án nokkurs aukabúnaðar er 495 kg, en prufuhjólið var með snjótönn sem varla vegur mikið meira en 40–50 kg. Þessa snjótönn er auðvelt fyrir einn mann að setja á og taka af sem þurfti til að hægt væri að keyra sexhjólið upp á pallbílinn og taka það af honum.
Snjótönnin er tengd í spilið svo hægt sé að setja tönnina niður og lyfta upp. Vilji maður breyta skurðinum á tönninni þarf maður að fara af hjólinu og færa til handvirkt. Með þennan útbúnað var keppnisbrautin rudd og einnig æfingabraut fyrir keppendurna og var hjólið ekki í neinum vandræðum með það. Einnig kom pallurinn sér vel þegar flytja þurfti inn á svellið fánastangir og sjúkrabúnað björgunarsveitarinnar sem sá um sjúkragæslu á keppninni.
Mikið flot í snjónum og aldrei vandamál með grip
Ýmislegan annan búnað þurfti að flytja inn á svellið þar sem verið var að kvikmynda keppnina út af stuttmynd sem verið er að gera. Nýttist sexhjólið vel kvikmyndagerðarmönnunum þar sem flotið í dekkjunum var gott. Aldrei var neitt vandamál að keyra sexhjólið í mjúkum snjónum, þó að keppnishjólin hafi verið að sökkva í krapann var sexhjólið bæði með ökumann og tökumann og tönnina á sem alls hefur væntanlega verið nálægt 800 kg. Allavega voru kvikmyndamennirnir ánægðir með hjólið og sögðu þetta hafa virkilega hjálpað þeim og létt undir langan tökudag.
Fínt vinnutæki á góðu verði
Þetta sexhjól er með dráttarvélaskráningu og má því aka á vegum. Það er ólíkt gamla 500 hjólinu sem ég prófaði 2010 sem var með torfæruskráningu og ekki ætlað til aksturs í umferð.
Verð Polaris Sportsman 6X6 Big Boss 570LE er 2.650.000, hjólið kemur þar af leiðandi með fullan ljósabúnað, stefnuljós og bremsuljós rétt eins og önnur farartæki sem ætluð eru í umferð. Réttindi til að aka hjólinu eru dráttarvélaréttindi eða bílpróf.
Ýmsan aukabúnað er hægt að setja á Polaris hjól, sem dæmi:
Byssufestingar á rúm 18.000, snjótönnin kostar 199.000, rúða fyrir framan ökumanninn kostar um 20.000 og veltibogi er á rétt innan við 50.000, ýmislegt annað er hægt að fá á hjólið og um að gera að spyrja sölumanninn séu einhverjar óskir um aukabúnað.
Helstu mál og upplýsingar:
Bensíntankur 25,5 L
Hæð 1.444 mm
Breidd 1.245 mm
Lengd 2.950 mm