Eru nautgripirnir vel upplýstir?
Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com
Undanfarin ár hefur nýjum eða verulega breyttum fjósum fjölgað verulega á Íslandi samhliða örri útbreiðslu á mjaltaþjónum. Á sama tíma hefur allur aðbúnaður nautgripa á kúabúum landsins breyst mikið og er Ísland í dag á margan hátt leiðandi land þegar kemur að góðum aðbúnaði nautgripa.
Ein af grunnþörfum nautgripa er að hafa gott „vinnuljós“ þegar þeir sinna „störfum“ sínum á kúabúum um allan heim, en „störfin“ felast fyrir flesta nautgripi auðvitað í því að éta, drekka nóg af vatni, hreyfa sig og hvílast svo vel þess á milli svo þeir vaxi vel og dafni og fyrir kýrnar bætist svo mjólkurframleiðslan við.
Fyrir nokkrum áratugum var lýsing í fjósum fyrst og fremst hönnuð með þarfir starfsfólksins sjálfs í huga, þ.e. mannfólksins, og helstu viðmið um lýsingarþörf í fjósum voru miðuð við þeirra þarfir. Í dag er þessu í raun öfugt farið og kröfurnar eru miðaðar við þarfir nautgripanna og svo þarf starfsfólkið að aðlaga sig að þeirri lýsingu sem best hentar nautgripum.
Góð og rétt lýsing hjá kúm er grunnforsenda þess að þær geti framleitt nóg af mjólk, haldi góðri frjósemi og líði almennt vel og fullyrða má að stór hluti kúabænda í heiminum í dag geri sér afar vel grein fyrir þessu. Þegar talið berst hins vegar að uppeldisaðstöðu nautgripa er staðan þó oft önnur og of víða ekki nægilega hugað að lýsingu fyrir hina ungu og ört vaxandi gripi, hvort sem þeir eru ætlaðir til viðhalds á mjólkurkúastofni eða til kjötframleiðslu.
Í íslensku reglugerðinni um velferð nautgripa er sérstaklega komið inn á kröfur varðandi lýsingu hjá nautgripum og þar segir:
„Nautgripum sem eru innandyra skal tryggð birta. Ljós skulu þannig staðsett að þau valdi gripum ekki óþægindum. Lýsing skal að lág-marki taka mið af dagsljósi á hverjum tíma. Mögulegt skal vera að kveikja ljós þannig að hægt sé að fylgjast með öllum gripum. Óheimilt er að hafa stöðuga sterka lýsingu á legusvæði allan sólarhringinn, ratljóst skal vera hjá mjólkurkúm þann tíma sólarhringsins sem birtu nýtur ekki við“.
Í þessar reglugerð eru þó því miður ekki sett viðmið varðandi birtumagn lýsingarinnar en það var í eldri reglugerð sem sú nýja leysti af hólmi. Í flestum nágrannalöndum okkar hafa stjórnvöld sett slík viðmið og virðast flestar viðmiðanir taka mið af þeim reglum sem um málið gilda í Danmörku, en í töflu 1 sem hér fylgir eru þau viðmið með minni háttar aðlögun að íslenskum aðstæðum eftir greinarhöfund.
Lýsing hefur áhrif á framleiðsluna
Framangreind viðmið um lýsingu byggja á ótal rannsóknum á áhrifum lýsingar á nautgripi og hafa rannsóknir sýnt að með réttri og góðri lýsingu í fjósum má auka mjólkurframleiðsluna um allt að 5%. Skýringin á þessu samhengi felst í því hvernig ljós hefur áhrif á vakastarfsemi nautgripa en bæði dagsbirta og rafræn lýsing hefur áhrif á hana, en þegar augu nautgripa nema minni birtu virkjast losun á vakanum melatonin og með auknu magni þess fær líkaminn skilaboð um það að sé nótt. Það hefur svo önnur og víðtækari áhrif á margskonar starfsemi í líkamanum og m.a. á aðra vaka sem stýra eða hafa áhrif á framleiðslu og frjósemi. Sé magnið af melatonin minna, hefur það svo öfug áhrif á líkamsstarfsemina og ýtir það m.a. undir þroska eggbús og frjósemistengdum vökum sem gera m.a. beiðsli skýrari og kraftmeiri. Þessi breyting á vakastarfseminni hefur svo jákvæð áhrif á bæði júgurþroska hjá kvígum og hefur bein framleiðsluaukandi áhrif á það þegar mjólkurframleiðslan hefst.
Ljóstvistur (Ljósadíóða - LED).
Í danskri rannsókn, þar sem kýr voru vel upplýstar í 16 tíma á dag, jókst mjólkurframleiðsla þeirra um 5% í samanburði við kýr sem ekki voru hýstar við góða lýsingu yfir vetrarmánuðina. Það er mikilvægt að taka fram í þessu samhengi að þessi áhrif koma einungis fram ef kýrnar fá líka gott næði og samfelldan myrkan tíma á hverjum sólarhring. Þetta getur því gert það að verkum að hanna þarf fjós þannig að birtumagnið í fjósinu sé mismikið eftir því hvar kýrnar eru í því á hverjum tíma og á þetta sér í lagi við um mjaltaþjónafjós.
Geldu kýrnar þurfa birtunæði
Um geldu kýrnar gildir svo það þveröfuga á við kýr í mjólkurframleiðslu. Geldar kýr þurfa næði til að hvílast og undirbúa sig undir komandi mjólkurframleiðslu og ef birtumagnið hjá þeim er takmarkað við 8 tíma á dag, þá sýndi danska rannsóknin að þá hafði það mikil mjólkurframleiðsluaukandi áhrif. Alls jókst nyt kúnna um 3,5 kíló af mjólk á dag hjá tilraunahópnum sem var hýstur við 8 tíma birtumagn í samanburði við tilraunahóp geldra kúa sem voru hýstar við 16 tíma birtumagn. Þá hafa rannsóknir sýnt að ef geldu kýrnar ná að hvílast vel í geldstöðunni, er í raun hægt að draga úr þeim tíma sem þær þurfa til geldstöðu. Áður fyrr miðuðu flestir við að hafa geldstöðu kúa í 8 vikur en í dag er vel hægt að draga úr henni og hafa hana bara í 6 vikur án þess að það hafi nokkur áhrif á kúna eða mjólkurframleiðsluna, þ.e. að því gefnu að rétt sé staðið að geldstöðunni.
Kvígur sýna beiðsli fyrr
Að sama skapi þá skiptir það höfuðmáli fyrir frjósemi, sérstaklega hjá kvígum, að vera með rétt birtumagn í þeirri aðstöðu sem kvígurnar eru hýstar í. Danskar tölur sýna að ef kvígur eru hýstar þar sem gætir amk. 12 tíma góðrar birtu þá verða þær um viku fyrr kynþroska en þær sem haldnar eru við myrkari skilyrði og er því með lýsingunni einni saman hægt að fá kvígur til að bera fyrr en ella. Það sem meira er þá gengu kvígurnar þar sem meiri birtu gætti styttra með eða um nærri eina viku að jafnaði og skýrist það af hagstæðari vakastarfsemi í kvígunum. Ein af skýringunum á þessu er bæði breytt vakastarfsemi hjá kvígunum en einnig aukið át þeirra samhliða betri birtuskilyrðum.
Lýsingahönnun
Þegar kemur að vali á ljósgjafa þarf að leita til fagfólks á þessu sviði enda þarf að taka mið af birtuskilyrðum og endurkasti ljóss í fjósinu, en þar hafa áhrif litir og gerð á veggjum og lofti, staðsetningar á innréttingum og fleira. Það er því ekki sjálfgefið að ein gerð af ljósi sem virkar vel í einu fjósi, virki líka vel í öðru fjósi.
Í dag eru líklega flest fyrirtæki sem selja ljósgjafa með lýsingahönnuði í vinnu, eða geta leitað til slíkra, sem geta aðstoðað við lýsingahönnunina og oftast er þessi þjónusta innifalin í kaupverði á ljósgjöfum. Þá eru ljósgjafar með mismunandi liti, bakspegla og skerma sem hefur líka áhrif á lýsinguna og þekkja líklega flestir muninn á köldu ljós og heitu en þetta hefur einnig áhrif á þrif og líðan gripanna. Að endingu má svo minna á að lýsingin ætti alltaf að vera sjálfvirk sé þess nokkur kostur, þ.e. sú lýsing sem tengist grunnþörfum gripanna. Þá er mannshöndin ekki að koma þar nærri og hræra að óþörfu í ljósastillingunum!
Þrífa reglulega
Ein af grunnforsendum þess að viðhalda góðri lýsingu í fjósum er að hugsa vel um ljósin sjálf. Þau eru oftast skítsækin og dregst að þeim bæði ryk, flugur og fleira sem dregur úr ljósgæfni þeirra þegar líður á. Það þarf því að huga að þrifum á ljósum með reglubundnum hætti og að lágmarki einu sinni á ári ætti að þrífa ljósin, helst á haustin áður en raunverulega fer að reyna á notkun þeirra.
Ljóstvistar lýsa vel upp
Notkun á ljóstvistum eða LED (Light Emitting Diode) er nú orðin mikil í fjósum um allan heim, en stutt er síðan hægt var að fjárfesta í svona ljósgjafa á viðráðanlegu verði enda kostuðu ljóstvistar mikið fyrir ekki nema um áratug. Í dag geta bændur bæði skipt út glóperum, flúorperum eða halógenperum fyrir ljóstvistaljósgjafa og þarf oft ekki einusinni að skipta um ljósið sjálft heldur einungis peruna sem slíka. Stundum er þó betra að skipta um perustæðið eða ljósið sjálft, en það fer auðvitað eftir aðstæðum. Heilt yfir er lýsingin með ljóstvistum afar góð, auðstillanleg og ódýr í rekstri en rafmagnskostnaður með ljóstvista í samanburði við t.d. glóperu er 5-6 falt lægri og þá endast ljóstvistaljósgjafar mun lengur og oft er uppgefin ending þeirra 15-20 þúsund klukkustundir og allt upp í 50 þúsund klukkustundir.
Einfalt að mæla
Ef þú hefur áhuga á að mæla nákvæmlega lýsinguna þá er það gert með þar til gerðum ljósmæli. Einfaldan búnað má nálgast með því að hlaða niður snjallsímaforriti fyrir mælingu á lýsingu en svo er einnig hægt að kaupa lúx-mæli fyrir örfá þúsund. Við mælinguna er rétt að minna á að framkvæma hana í um eins metra hæð og júgurhæð þar sem það á við.