Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Feldfjárrækt−sauðfjárrækt
Á faglegum nótum 5. janúar 2017

Feldfjárrækt−sauðfjárrækt

Höfundur: Feldfjárbændur í Skaftárhreppi
Frá árinu 1980 hefur verið stunduð feldfjárrækt í Meðallandi og frá 2010 í Álftaverinu. 
 
Við erum ekki mörg sem stöndum að þessari ræktun en við finnum vissulega fyrir auknum áhuga á ræktun feldfjár. Nokkrir bændur í Rangárþingi ytra og Ásahreppi hafa verið sérstaklega áhugasamir og notað feldhrút með áhugaverðum árangri. Árni Brynjar Bragason ráðunautur skrifaði góða grein í Bændablaðið í byrjun september þar sem hann fer yfir ræktun feldfjár.
 
Feldfjárrækt er eflaust fyrir mörgum nýtt og framandi hugtak í sauðfjárrækt. Nú fyrir fengitíð hafa bændur fengið í hendurnar hrútaskrána 2016. Þar má finna feldhrútinn Lobba 09-839 frá Guðna Már Sveinssyni Melhól í Meðallandi. Lobbi getur gefið mjög áhugaverða einstaklinga til feldræktunar. Það má segja að í gegnum árin hafi Meðalland verið vagga feldfjárræktunar.
 
−Hvað græðum við á feldræktun? 
 
Það er alveg sjáanlegur möguleiki að verðmætasköpun í sauðfjárrækt geti aukist með auknum verðmætum í allar afurðir kindarinnar. Líkt og við erum að gera í dag í kjötframleiðslunni að meta lambið lifandi til að auka þannig líkur á að við séum að rækta sem besta kjöteiginleika. Í feldfjárræktinni leggjum við mat á lambið lifandi til að tryggja sem bestan árangur í að hámarka gæði feldeiginleika.
 
Bestu einstaklingar veljast í ásetning, afurðin, skinnin verða fallegust og verðmætust ef unnið er vel að ræktunarmarkmiðum feldsins. Tilgangurinn með því að lágmarka magn þels í feldrækt er það að gæran verður fallegri og hún þófnar ekki við notkun. 
 
Einn vandi er til staðar í allri íslenskri gæruframleiðslu, það er svo kallaður tvískinnungur en hann er í holdrosanum á gærunni, helst að finna á aftanverðum lærum. Þetta er erfðagalli sem verulega vont er að komast fyrir nema með öflugum rannsóknum, sem eru bæði dýrar og tímafrekar. Þær krefjast þess að gærur, sem rannsakaðar verða, séu einstaklingsmerktar þannig að hægt sé að rekja erfðagallann til foreldra og þannig að byggja gæruræktun á gallalausum einstaklingum.
 
Ullarræktun mikilvægur þáttur 
 
Ullarræktun er líka mikilvægur þáttur og ber að varðveita sem best þá eiginleika ullarinnar til ullarframleiðslu. Í feldfjárrækt viljum við sjá sem minnst þel í ullinni en fíngert langt og lokkað tog skemmtilegt efni til vinnslu á ullarbandi/togbandi. 
Almennt í ull til ullarframleiðslu viljum við sjá dúnmjúkt þykkt þel og fíngert lokkað tog. Allt of algengt er að sjá í dag á sauðfé gróf slétt toghár og gróf allt að því plastkennt þel. Svoleiðis ull er óhæf til allrar vinnslu ullar í flíkur. 
 
Við bændur þekkjum það vel að þegar lömbin koma að á haustin er togið ríkjandi á lambinu og þelið með minna móti en þegar líður á haustið vex þelið og kindinn verður tilbúin til að standa af sér öll heimsins óveður í þykkri hlýrri ullarkápu. 
 
Eitt af ræktunarmarkmiðum á feldfé er að seinka vexti á þeli í ullinni þannig að feldfé er í raun seinna tilbúið undir veturinn ef það á að vera við opið, með aðgang að húsi.
Er það þess virði ef krónunum fjölgar fyrir aðrar afurðir en kjötið, með feldræktun og vandaðri ullarræktun að huga að nýjum vinnuaðferðum heima á búunum í sauðfjárræktinni? Sú vinnuaðferð sem tíðkast við að meta feldeiginleika getur líka komið að góðum notum við mat á gæðaullarframleiðslu.
 
Rúningsaðstaða þarf að vera laus við hey og moð
 
Þegar haustrúningur byrjar er mikilvægt að aðstaða til rúnings sé hrein, laus við allt hey, heymoð og allt sem fest getur í ullinni eftir að hún kemur af kindinni. Lykilatriði þess að við séum með góða vöru til ullarvinnslu er að kindin sé alveg þurr þegar hún er klippt, rúningsmaður hafi auga fyrir því að taka frá strax hnakkaull, kviðull, hár við dindil og neðst á fótum. 
Ef þessi ull fer aldrei saman við reyfið tryggjum við betri gæði í þeirri vöru sem við erum að framleiða. Vandaður frágangur og vönduð vinnubrögð skila betri tekjum á endanum til okkar bænda.
 
Vandi vegna ofsetinna rúningsmanna
 
Eitt stórt vandamál á haustin er það að allir bændur vilja taka á hús féð á sama tíma, þá eru allir rúningsmenn yfirbókaðir og veðráttan er ekki alltaf eins og best er á kosið. Þá lenda margir bændur í því að taka inn blautt fé og ekki tekst að þurrka ullina nægilega vel áður en hún er tekin af kindinni og sett í poka. Þetta þýðir bara eitt,  ullin/varan sem við erum að framleiða verður fyrir óbætanlegum skemmdum. 
 
− Hvernig getum við brugðist við til að hámarka verðmæti þessarar vöru sem við bændur erum að framleiða? Taka féð fyrr á hús? − Koma okkur upp betri aðstöðu með blásurum til að þurrka kindina/ullina fyrir rúning? 
 
− Róm var ekki byggð á einum degi ... við þurfum kannski ekki að rýja allar kindurnar okkar á einum degi eða hvað?
 
Feldfjárræktunin byggist á mjög litlum stofni. En í dag er til kraftmikill hópur fólks með mikinn áhuga fyrir eflingu þessarar óhefðbundnu sauðfjárræktar vegna þeirra eiginleika sem feldræktun gefur til vinnslu ullar og gæru. 
 
Vegna fínleika togsins í feldfjárræktinni er sá möguleiki fyrir hendi að framleiða mjög mjúkt sterkt togband. Við feldfjárbændur höfum þegar látið framleiða fyrir okkur band úr feldfjárull sem er bæði mjúkt, sterkt, gljáandi og skemmtilegt að vinna úr. 
 
Handverksfólk og hönnuðir sýna feldfjárafurðunum mikinn áhuga. Erlendis er feldfjárrækt skilgreind sem ákveðin ræktun líkt og kjötframleiðsla og eru afurðir feldfjár t.d. Gotlandsfjárins, dýr og vönduð gæðaframleiðsla sem er rekjanleg til framleiðanda og einstaklingsmerking er á gærunum þannig að bús- og lambanúmer er sjáanlegt eftir að gæran kemur úr sútun.
 
− Hvernig má velja ær sem eru efnilegar til feldfjárræktar? 
 
Besti kosturinn er að velja ærnar um leið og haustrúningur er framkvæmdur. Þá er gott að sjá hvernig ullarvöxturinn og hreinleiki litar er. Toghárin skulu vera fíngerð og lokkuð, þel sem minnst, áferðin silkimjúk og gljáandi. 
 
Við sem ræktum feldfé á Íslandi erum full eftirvæntingar og vonir okkar eru miklar um að fleiri bætist í ræktendahópinn og leggi í það prufa feldhrútinn Lobba á valdar gráar ær á fengitíð. Ekki er víst að árangurinn verði efnilegt feldlamb, rétt eins og í annari ræktun er ekki gulltryggt að einstaklingarnir passi það vel saman að útkoman verði toppeintak en það er þess virði að prófa.
 
Erlendir feldfjárdómarar. Í haust sem leið fengum við til okkar í feldfjárskoðun danskan feldfjárdómara og feldfjárbónda Mailis Jepsen. Hún hefur dæmt feldfé í Danmörku og Svíþjóð í 40 ár og var hún bjartsýn hvað varðar okkar ræktun og var ánægð með þann árangur sem náðst hefur í íslenskri feldfjárrækt. Með Mailis var Anne Hjelm, varaformaður dönsku feldfjársamtakanna – Gotlam forening – og feldfjárbóndi. Það var virkilega gaman að sjá hvernig þær dæmdu feldeiginleikana og einnig voru þær ósparar á leiðbeiningar og ábendingar til okkar. Það er einlæg von okkar sem stöndum að þessari ræktun að bændur komi að þessu verkefni með opnum huga því við þurfum að leita fleiri leiða til tekjuöflunar í sauðfjárræktinni.
 
Uppbyggingarsjóður Suður­lands og atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið hafa styrkt verkefnið Feldfé – þróunarverkefni. Það hefur gert okkur kleift að fá til okkar felddómara erlendis frá og fara í skoðunarferðir á feldfjárbú í Danmörku. Við erum virkilega þakklát fyrir þennan stuðning því án hans hefði þetta verkefni ekki farið á það flug sem það hefur náð í dag.
 
Bestu kveðjur, 
frá feldfjárbændum í Skaftárhreppi.

4 myndir:

Skylt efni: feldfjárrækt

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...