Fjöldi dýra í landinu
Höfundur: Sverrir Þ. Sverrisson/MAST
Nýjustu tölur yfir fjölda búfjár á landinu sýna almenna fækkun búfjár. Þó er ljóst að ekki eru um fækkun á fjölda dýra á Íslandi að ræða heldur má rekja þetta til ófullnægjandi skila á haustskýrslum og eftirfylgni í kjölfar gildistöku nýrra laga um búfjárhald. Sérstaklega á þetta við um fjölda hrossa og þarf að skoða betur hvernig unnt er að bæta upplýsingar um fjölda hrossa í landinu.
Skil á haustskýrslum 2013 voru ófullnægjandi og bera hagtölur vott um það. Frá árinu 2010 hefur Matvælastofnun safnað upplýsingum um fjölda búfjár á landsvísu og birt á vef og í starfsskýrslum stofnunarinnar. Til ársins 2014 hafði skilum á haustskýrslum verið fylgt eftir af búfjáreftirlitsmönnum sveitarfélaga í desember fram í febrúar ár hvert. Með gildistöku nýrra laga um búfjárhald 1. janúar 2014 fluttist búfjáreftirlitið frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar. Sex dýraeftirlitsmenn hófu störf í stað u.þ.b. 40 búfjáreftirlistmanna (10 - 12 stöðugildi) sem áður höfðu sinnt því starfi. Í lok ársins 2013 var eftirfylgni haustskýrslna ólokið. Fækkun stöðugilda og innleiðing nýs verklags, sem setti eftirlit með velferð dýra í forgang fram yfir eftirfylgni með öflun hagtalna, varð til þess að ekki náðist að fylgja gagnasöfnun eftir með sama hætti og áður.
Matvælastofnun vill ítreka mikilvægi þess að bændur skili upplýsingum um búfjáreign til stofnunarinnar skv. lögum. Stofnunin sendi í síðustu viku bréf til allra þeirra sem skráðir eru eigendur eða umráðamenn búfjár í gagnagrunninum Bústofni þar sem minnt er á að samkvæmt lögum um búfjárhald nr. 38/2013 skulu umráðamenn búfjár skila árlegri haustskýrslu fyrir 20. nóvember n.k. um búfjáreign, fóður og landstærðir. Haustskýrslu skal skila á síðunni www.bustofn.is og er aðgengi fengið með rafrænum lykli (Íslykli). Upplýsingar um Íslykilinn og notkun hans er að finna á Bustofn.is.
Bent er á að sé haustskýrslu ekki skilað innan ofangreinds frests skal Matvælastofnun framkvæma skoðun hjá viðkomandi umráðamanni á hans kostnað. Matvælastofnun bendir á að vorskoðun er ekki lengur framkvæmd en dýraeftirlit er eins og annað eftirlit áhættumiðað þannig að þunga eftirlitsins er beint þangað sem þörfin er mest. Þetta er í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um búfjárhald og lögum um dýravelferð. Matvælastofnun mun því eftirleiðis sannreyna áreiðanleika upplýsinga í almennum eftirlitsheimsóknum auk rafræns eftirlits. Til að bregðast við hugsanlegum vanskráningum á haustskýrslum mun Matvælastofnun leitast við að ráða verktaka sem auk starfsmanna MAST koma til með að heimsækja þá sem ekki sinna skyldum sínum. Slík eftirfylgni verður eins og fram hefur komið á kostnað viðkomandi aðila.
Óskað er eftir að umráðamenn búfjár geri viðvart verði þeir varir við ranga skráningu upplýsinga í gagnagrunninum Bústofni. Eingöngu er einn umráðamaður búfjár skráður á hvert búsnúmer þó fleiri búfjáreigendur geti verið skráðir undir sama búsnúmeri. Nýskráningu umráðamanns búfjár eða breytingar umráðamanna skal tilkynna dýraeftirlitsmanni hjá Matvælastofnun. Einn dýraeftirlitsmaður starfar í hverju umdæmi stofnunarinnar. Ábendingum eða leiðréttingum má einnig koma á framfæri á netfangið mast@mast.is.
Þeim sem þurfa aðstoðar við vegna rafrænna skila stendur til boða þjónusta Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins RML við skil á haustskýrslu. Hafa má samband við RML í síma 516-5000 eða með tölvupósti á netfangið rml@rml.is.