Flutningur nautgripa stöðvaður vegna ófullnægjandi skráninga
Eitt meginmarkmiðið í nýrri matvælalöggjöf er að unnt sé að rekja feril matvæla eitt skref áfram og eitt skref afturábak. Rekjanleiki nautakjöts byggir á að skráningar gripa séu áreiðanlegar og réttar. Fyrsti hlekkur matvælakeðjunnar er hjá bændum og því er mikilvægt að bændur standi rétt að merkingum og skráningum gripa sinna.
Í gildi eru reglur um einstaklingsmerkingar búfjár sem kveða á um að skrá skuli nautgripi eigi síðar en 20 dögum frá burði, skrá skuli flutning gripa frá einum stað til annars og að skrá skuli afdrif gripa. Skráning allra þessara upplýsinga er á ábyrgð bænda. Skráninga- og skýrsluhaldskerfið HUPPA tekur við öllum þessum upplýsingum um nautgripi og er það kerfi öllum bændum aðgengilegt. Þeir sem e.t.v. hafa ekki aðgang að HUPPU er bent á að hafa samband við Bændasamtök Íslands með ósk um aðgang.
Annar hlekkur matvæla-keðjunnar er hjá sláturleyfishöfum og er því brýnt að sláturleyfishafar fari vandlega yfir merkingar þeirra gripa sem þeir taka til slátrunar í því skyni að sannreyna rekjanleika sláturgripa. Til þess þurfa starfsmenn sláturhúsa að kanna hvort viðkomandi gripur hafi verið skráður í HUPPU, hvort gripur sé rétt skráður hjá innleggjanda/framleiðanda og eftir atvikum hvort flutningur grips hafi verið skráður frá fæðingarbúi að búi innleggjanda/framleiðanda. Komi gripur í sláturhús sem ekki hefur verið skráður, gripur skráður á annað bú en hann var sóttur frá eða gripur ómerktur, er sláturhúsi óheimilt að láta afurðir slíkra gripa fara á markað. Í slíkum tilvikum skulu starfsmenn sláturhúsa gera eftirlitsdýralækni viðvart og taka viðkomandi grip út úr hefðbundinni framleiðslulínu hússins. Matvælastofnun getur heimilað að afurðir af slíkum grip fari á markað geti búfjáreigandi sýnt fram á uppruna hans. Stofnunin gerir þó ávallt kröfu til þess að ófullnægjandi skráningum sé komið í fullnægjandi horf áður en slíkar afurðir eru settar á markað.
Undanfarna mánuði hefur Matvælastofnun kannað virkni og áreiðanleika skráninga bænda á nautgripum sínum annars vegar og hins vegar skráningar sláturgagna frá sláturleyfishöfum eftir slátrun nautgripa. Ástæða þótti til að skoða með rafrænu eftirliti nánar almenna virkni skráninga þar sem sjá mátti í gripalistum bænda nokkurn fjölda nauta á lífi sem orðin væru eldri en 45 mánaða gömul. Við þá skoðun kom í ljós að nokkuð er um að mjög gamlar kvígur finnist einnig í gripalistum bænda.
Við skoðun á virkni og áreiðanleika gripaskráninga bænda hefur verið farið yfir skráningar í hjarðbók sem færðar eru í gagnagrunninn HUPPU. Við skoðun á sláturgögnum hafa verið skoðaðar þær villur sem fram hafa komið í sláturgögnum frá sláturhúsum.
Vegna þessa hefur Matvælastofnun frá byrjun apríl 2014 sent um 90 bændum bréf þar sem viðtakendur hafa verið hvattir til að koma skráningum gripa sinna í rétt horf. Flestir hafa brugðist vel við og lagfært skráningar sínar og því ekki tilefni til frekari afskipta stofnunarinnar. Reynsla okkar er sú að margir þessara bænda höfðu ekki áttað sig á að þeir þyrftu að staðfesta slátrun gripa sinna en þess í stað talið að eftir að gripir væru farnir úr þeirra höndum þyrftu þeir ekki að annast frekari skráningar þeirra vegna. Svo er þó ekki heldur þarf hver framleiðandi að opna HUPPU og staðfesta slátrun hvers grips. Þetta skýrir að nokkru leyti fjölda gamalla nauta sem fundust í gripalistum. Í þeim tilfellum þegar sjá má óeðlilega gamlar kvígur í gripalistum bænda getur sama skýring átt við, hafi kvígu verið slátrað ungri. Ástæðan getur þó eins verið sú að burðarskráningar séu ekki eins og vera skyldi.
Af þeim 90 býlum sem Matvælastofnun hefur hvatt til að lagfæra skráningar sínar hefur stofnunin þó þurft að leggja flutningsbann á nokkurn fjölda býla þar sem ekki var orðið við ítrekuðum tilmælum um úrbætur. Alls eru búin sem fengið hafa flutningsbann/sláturbann af þessum ástæðum tuttugu. Matvælastofnun mun í framhaldi þessa almennt leggja aukna áherslu á eftirlit með réttri skráningu gripa við skoðun búa með nautgripi.
Þrátt fyrir að gera hafi þurft athugasemdir við þann fjölda sem hér greinir sýnir þó samanburður á skráningum bænda á liðnum árum að skráningar hafa batnað umtalsvert á síðustu misserum og er það vel. Það sýnir að langflestir bændur vilja hafa skráningar gripa sinna í góðu lagi.