Fuglinn Hávella
Hávella er fremur lítil kafönd og er eina öndin okkar sem skiptir um ham eftir árstíðum. Útlitsbreytingarnar á steggnum eru sérstaklega dramatískar en hann er nánast alveg ljós á veturna og alveg dökkur á sumrin. Hávella verpir um nær allt land á láglendi og tjörnum niðri við sjó. Hávellur verpa líka inn til landsins og hefur hún verið einkennisfugl hálendisvatna og tjarna.
Vetrarstöðvarnar eru síðan allt í kringum landið, bæði við strendurnar og í stórum hópum talsvert frá landi. Íslenska hávellan er staðfugl að mestu en talið er að einhver hluti þeirra dvelji við Grænland á veturna ásamt því að við Ísland bætast við vetrargestir frá norðlægari löndum. Eitt af helstu einkennum hávellunnar eru áberandi langar miðfjaðrir stéls sem steggurinn lætur standa út í loftið á pörunartíma. Það verða gjarnan mikil læti og miklar erjur milli steggja á pörunartímanum. Steggirnir keppast við að ganga í augun á kollunum með því að synda í kringum þær og kalla í sífellu nafnið sitt há-á-vella.