Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Fylgir þú reglum um hestahald
Á faglegum nótum 31. október 2014

Fylgir þú reglum um hestahald

Höfundur: MAST

Í þessari grein skal fram haldið skrifum um einstakar búfjártegundir hvað viðkemur dýraeftirliti. Ný reglugerð um velferð hrossa 910/2014 hefur nú litið dagsins ljós. Auk þess eru reglugerðir um skráningar og merkingar hrossa undir við eftirlit auk laga um velferð dýra og búfjárhald.

Hér verður einungis stiklað á stóru varðandi einstaka þætti gildandi reglugerða og þá helst þá þætti sem koma á borð okkar dýraeftirlitsmanna.

Úttekt og eftirlit

Umráðamanni hrossa ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum hrossum og öllum þeim stöðum þar sem hross eru haldin.

Umráðamanni hrossahalds eða fyrirsvarsmanni eftirfarandi starfsemi ber að tilkynna Matvælastofnun um starfsemina. Á þetta við um Landsmót hestamanna, Íslandsmót í hestaíþróttum, tæknivæddar þjálfunarstöðvar, endurhæfingarstöðvar fyrir hross, tamningastöðvar, hestahald þar sem framkvæmd er blóðtaka, hestaleigur og reiðskóla. Alla slíka fyrirhugaða starfsemi þarf að tilkynna til Matvælastofnunar eigi síðar en 30 dögum áður en starfsemi á að hefjast.

Umráðamanni hestaleigu og reiðskóla ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum hvenær sem þurfa þykir.

Hreyfing og félagslegt atferli

Innréttingar hesthúsa skulu tryggja hrossum næði til að hvílast og nærast án stöðugs áreitis og/eða yfirgangs frá öðrum hrossum. Innréttingar mega ekki byrgja hrossum sýn til annarra hrossa á húsi. Óheimilt er að setja rafstreng á innréttingar í hesthúsum.

Hross á húsi skulu fá hreyfingu eða aðra útivist að lágmarki í eina klukkustund á dag, nema sjúkdómar eða veður hamli. Óheimilt er að hafa hross ein á húsi eða í beitarhólfum. Undanþegnar eru skammtímaráðstafanir, styttri en 5 dagar og tímabundin útiganga stóðhesta, allt að einn mánuður.

Fóðrun, beit og brynning

Hross skulu hafa aðgang að fóðri a.m.k. tvisvar á sólarhring og skal aðgangur að gróffóðri aldrei vera minni en sem svarar til 4 kg af þurru heyi, daglega fyrir hvert hross. 

Hross skulu hafa aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni eða snjó. Óheimilt er að hafa hross án vatns lengur en 6 klst., og án fóðurs lengur en 14 klst. Óheimilt er að hafa folaldshryssur án vatns eða fóðurs lengur en 2 klst.

Hross skulu hafa aðgang að beit í a.m.k. tvo mánuði á tímabilinu 1. júní til 1. október. Hross á útigangi skulu hafa, jafnframt annarri fóðrun, aðgang að beit nema snjóalög hamli.

Hross skulu alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum (holdastig 3). Koma skal í veg fyrir að undirlag vaðist upp þar sem hrossum er gefið utan dyra. Þar sem 40 hross eða fleiri eru fóðruð á útigangi skal flokka hrossin eftir fóðurþörfum. Fóðrun skal hagað þannig að öll hross í hverjum hópi komist að fóðrinu samtímis.

Heilbrigði og forvarnir

Umráðamaður skal fylgjast með holdafari og heilbrigði hrossa í hans umsjá. Hann skal koma í veg fyrir ormasmit og hann skal tryggja að hrossin líði ekki fyrir vanhirðu hvað varðar hreinleika, ytri óværu og ósnyrta hófa.

Eftirlit

Daglegt eftirlit skal hafa með hrossum sem haldin eru á húsi. Vikulegt eftirlit hið minnsta skal hafa með hrossum sem ganga úti á beit eða gjöf. Undanþegin eru hross á afrétti á sprettutíma.
Umráðamaður stóðhests skal hafa daglegt eftirlit með stóðhestagirðingu.

Aðbúnaður

Stíur í hesthúsum skulu vera það stórar og breiðar að hross geti auðveldlega legið og snúið sér við í þeim (4,0 fermetrar, hross þriggja vetra og eldri og 3,0 fermetrar folöld og tryppi, yngri en þriggja vetra). Bása má einungis nota tímabundið og óheimilt er að hross sé bundið lengur en 5 daga samfellt, hvort heldur er í stíu eða á bás. Steypt gólf í stíum og básum skulu klædd gúmmímottum eða öðru mjúku efni. Bil undir milligerði í stíum skal ekki vera meira en 4 sm. Þar sem ekki er hreinsað daglega skal borið undir hrossin til að koma í veg fyrir bleytu og hálku og þannig viðhaldið að hrossin haldist hrein og þurr.

Á hest­húsum skulu vera gluggar sem tryggja að öll hross í húsinu njóti dagsbirtu. Önnur lýsing skal vera næg svo ávallt sé hægt að fylgjast með hrossunum.

Loftræsting skal vera góð og koma skal í veg fyrir dragsúg, óheimilt er að hafa hross í stöðugum hávaða.

Slysavarnir

Innréttingar í hesthúsum  skulu þannig gerðar að ekki skapist hætta á að hestar festi þar fætur eða höfuð. Gólf skulu vera með stömu yfirborði og ganga skal frá niðurföllum, taðþróm og haughúsum  þannig að ekki skapist hætta á slysum. Frágangur dyra og ganga skal vera þannig að fljótlegt sé að rýma hesthús  í neyðartilvikum. Eldvarnir skulu vera í samræmi við byggingarreglugerð og reglugerð um slökkvitæki.
Fóðurbætisgeymslur skulu tryggilega varðar fyrir aðgangi hrossa.

Girðingar skulu vera traustar og þannig gerðar að þær valdi ekki slysum. Forðast skal að nota ristahlið á girðingar umhverfis hrossahólf eða þar sem umferð hrossa er mikil. Áhöld/drasl sem veldur slysahættu á að fjarlægja.

Gerði

Hvert hross sem haldið er á húsi skal hafa að lágmarki 20 fermetra rými í útigerði en þó má gerði við hesthús aldrei vera minna en 100 fermetrar og skemmsta hlið ekki styttri en 5 metrar. Undirlag í gerðum skal vera þannig að hross vilji og geti velt sér. Afrennsli skal vera gott þannig að ekki myndist svað í vætutíð og skipta skal um yfirborðslag eftir þörfum. Hross sem haldin eru daglangt í gerðum eða öðrum beitarlausum hólfum þurfa áður nefnt rými og aðgang að vatni. Óheimilt er að nota gaddavír eða háspenntar rafgirðingar í gerði. Þó má nota þunnan rafmagnsborða staðsettan ofarlega í gerðum fyrir stóðhesta.

Útigangur

Þar sem hross eru höfð á útigangi skal vera aðstaða til að reka þau í aðhald svo hægt sé að sinna eftirliti, umhirðu og meðferð.

Hross sem ganga úti skulu getað leitað skjóls fyrir veðri og vindum. Þar sem fullnægjandi náttúrulegt skjól er ekki fyrir hendi skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem mynda skjól úr helstu áttum. Við eftirlit og mat á aðbúnaði hrossa á útigangi skal litið heildstætt á þá þætti sem hafa áhrif á velferð hjarðarinnar svo sem fóðurástand, landgæði, skjól og veðurfar á svæðinu.

Smitvarnir og umhverfi

Hesthús og umhverfi þeirra skal vera þrifalegt m.a. skal frágangur taðhauga vera með þeim hætti að ekki valdi óþrifnaði.

Í hesthúsum skal vera aðstaða til þrifa á fótabúnaði og höndum eða viðeigandi hlífðarfatnaður. Þar sem hross eru þjálfuð á vatnsbrettum eða í sundlaugum skal gæta sérstakra smitvarna. Hindra skal að sjúkdómsvaldandi bakteríur vaxi í vatni sem notað er við slíka þjálfun með grófhreinsun vatnsins og klórun eða annarri efnameðhöndlun og halda yfir það dagbók. Í dagbókina skal einnig skrá hvaða hross eru þjálfuð með þessum hætti og heilbrigði þeirra. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum í allt að tvo ár.

Sjúkdóma- og lyfjaskráningar

Hesteiganda ber að halda skrá yfir sjúkdóma og lyfjanotkun í hrossin og geta framvísað henni við eftirlit.
Einstaklingsmerkingar og hjarðbók

Öll hross skal örmerkja. Öll ásetningsfolöld skulu örmerkt fyrir 10 mánaða aldur. Umráðmenn hrossa eru einnig ábyrgir fyrir skráningu upplýsinga um hrossin í hjarðbók (WorldFeng).

Í dag hefur stærstur hluti hrossastofnsins verið örmerktur en örmerkið er eina gilda einstaklingsmerkingin. Við örmerkingu á leiðin að vera vís í hjarðbókina. Nokkuð er um að uppfærslu vanti á WorldFeng; ganga frá sölu, fella út gripi o.s.frv. sem er á ábyrgð hesteiganda.

Rými

Skemmsta hlið stíu skal ekki vera styttri en 150 sm fyrir folöld og trippi, og ekki styttri en 180 sm fyrir hross þriggja vetra og eldri. Stíur skulu ekki vera minni að flatarmáli en hér segir:

Hross, þriggja vetra og eldri 4,0 fermetrar.

Folöld og trippi, yngri en þriggja vetra 3,0 fermetrar.

Básar til tímabundinnar notkunar:
Lengd  165 sm
Breidd 110 sm

Dýraeftirlitsmenn:
Guðlaugur V. Antonsson, vesturumdæmi.
Einar Kári Magnússon, norðvesturumdæmi.
Sigtryggur Veigar Herbertsson, norðausturumdæmi.
Ásdís Helga Bjarnadóttir, austurumdæmi.
Óðinn Örn Jóhannsson, suðurumdæmi.
Elín Bergsdóttir, suðvesturumdæmi.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...