Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Á faglegum nótum 6. janúar 2020
Fyrsta metandráttarvélin frá New Holland kemur á markaðinn 2020
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Dráttarvélaframleiðandinn New Holland hefur kynnt fyrstu metanknúnu T6 METHANE POWER dráttarvél fyrirtækisins sem kemur á markað 2020. Til að byrja með verður vélin framleidd í takmörkuðu magni svo enn er óvíst hvenær hún verður á boðstólum hjá umboðsaðilanum Kraftvélum á Íslandi.
Miklar væntingar hafa verið bundnar við metanvæðingu dráttarvéla sem gæti aukið sjálfbærni í sveitum þar sem einnig er mögulegt að framleiða metangas. Metan er víða framleitt í sveitum i Þýskalandi og Danmörku svo einhver ríki séu nefnd, en það er þá ýmist notað til húshitunar eða keyrslu ljósavéla til raforkuframleiðslu.
Það virðist sannarlega tími til kominn að menn fari að taka við sér í framleiðslu á ökutækjum sem ganga fyrir gasi. Fyrsta nothæfa ökutækið með sprengihreyfli sem gekk fyrir gasi var hannað af Frakkanum Etienne Lenoir árið 1860. Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar hugðust Sovétríkin gasvæða samgöngur og atvinnutæki og hönnuðu mikið net gasstöðva. Lítið framboð af gasi á þeim tíma kom þó í veg fyrir að þetta verkefni næði almennilegu flugi.
Metangas mengar 80% minna en dísilolía
Venjulegt metangas sem þjappað er til notkunar á bíla, eða svonefnt „Compressed natural gas - CNG“, er þjappað 200 til 250 falt miðað við gas í óþjöppuðu ástandi, eða nálægt 3.000–3.600 psi. Þó slíkt dugi ágætlega á fólksbíla, þá þyrfti ansi umfangsmikla tanka ef nota ætti CNG gas á dráttarvélar eða önnur vinnutæki sem starfa þurfa lengi fjarri áfyllingarstöð. Það þyrfti t.d. þrisvar til fjórum sinnum meira pláss í tönkum til að aka sömu vegalengd á gasknúnum bíl og á dísilbíl.
New Holland T6 er einungis útbúin fyrir CNG gas en til að auka drægni er hægt að fá vélina með aukatank að framan þar sem venjulega er pláss fyrir þyngdarklossa eða balllest. Einnig er hægt að fá aukatank að aftan. Að öðru leyti eru gastankar á sama stað og olíutankar á hefðbundnum vélum. Vinnslutími T6 dráttarvélanna óbreyttra er því nokkuð takmarkaðri en dísilknúinna dráttarvéla af sömu stærð, en þær geta þó hentað vel þar sem áfyllingarstöð er í nágrenninu. Rekstrarkostnaður á metangasvélinni er hins vegar sagður um 30% lægri en á hefðbundinni dísilvél. Að öðru leyti hefur vélin sömu eiginleika og dísilknúna dráttarvélin.
Fyrsta nothæfa ökutækið með sprengihreyfli sem gekk fyrir gasi var hannað af Frakkanum Etienne Lenoir árið 1860.
Nýr mótor sem byggir á 20 ára reynslu í smíði gasvéla
Mótorinn er glænýr NEF 6,7 lítra sem er sagður sérhannaður af FPT Industrial fyrir landbúnaðarnotkun. Byggt er á 20 ára reynslu við þróun og smíði yfir 50.000 gasknúinna mótora. Mótorinn skilar 180 hestöflum og er með tog upp á 740 Newtonmetra sem þykir ansi gott. Þá skilar mótorinn aðeins 1% af sótögnum miðað við hefðbundna dísilvél og um 10% minna af CO2 og sáralítið af öðrum mengandi lofttegundum. Í heild losar gasknúni mótorinn um 80% minna af mengandi lofttegundum en sambærilegi dísilmótorinn þótt gasknúni mótorinn sé í grunninn byggður á dísilmótor.
Aukin drægni næst með fljótandi gasi
Til að ná mikilli drægni eða keyrslutíma á vélum og trukkum er æskilegt að minnka rúmtakið á gasinu verulega og koma því í fljótandi ástand. Þá verður til það sem kallað er fljótandi gas eða „Liquefied natural gas -LNG.“ Til að hægt sé að koma gasi í fljótandi form þarf að kæla það niður í mínus 161,5° á Celsíus og ná þannig 600 faldri þjöppun. Slík aðferð er gjarnan notuð við flutning á gasi t.d. með skipum. Þá er staðan orðin áþekk hvað drægni varðar og hjá dísilknúnum ökutækjum miðað við ásættanlegt rúmtak eldsneytisgeyma. Til að nota fljótandi gas þarf sérstakar átöppunardælur. Þar sem innviðir fyrir venjulegt gas eru afar takmarkaðir á Íslandi er trúlega enn langt í land að hér verði sköpuð skilyrði fyrir notkun á fljótandi gasi.
Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar hugðust Sovétríkin gasvæða samgöngur og atvinnutæki og hönnuðu mikið net gasstöðva. Lítið framboð af gasi á þeim tíma kom þó í veg fyrir að þetta verkefni næði almennilegu flugi.
Framtaksleysi í innviðauppbyggingu fyrir gas
Varðandi nýtingu á gasi í ökutæki á Íslandi reynir á aðgerðir stjórnvalda, en þar hefur ríkt alvarlegt stefnuleysi á liðnum árum. Lítil sem engin áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu innviða fyrir gasknúin ökutæki. Öll áherslan hefur verið lögð á innviðauppbyggingu fyrir rafbíla þó vitað sé að mesti árangurinn í að draga úr losun koltvísýrings fengist af að skipta um orkugjafa fyrir dísilknúna trukka, rútur, strætisvagna og vinnutæki. Auk þess eru gasknúin ökutæki mun ódýrari í framleiðslu og innkaupum en rafknúin og orkan mun ódýrari en olía og víðast líka ódýrari en rafmagn. Svo ekki sé talað um þann ávinning sem fæst með brennslu á gasi sem skilar sáralítilli mengun, en eyðir um leið út gasinu sjálfu sem annars er mjög áhrifamikil gróðurhúsagastegund.
Ávinningurinn margfaldast ef notast yrði við lífrænt gas (Biogas) sem framleitt væri í landbúnaði. Þar næst líka annar ávinningur þegar t.d. kúamykja er nýtt við gasframleiðsluna, en mykjan verður mun betri áburður á eftir. Svo ekki sé talað um sparnað á gjaldeyri, bæði við eldsneytis- og áburðarkaup.
Rafknúnar stórar dráttarvélar eru ekki í sjónmáli
Sérfræðingar sem Bændablaðið hefur rætt við telja litlar sem engar líkur á að rafknúin tæki muni leysa af stórar dráttarvélar í náinni framtíð. Þar séu neikvæðu þættirnir einfaldlega illyfirstíganlegir varðandi rafhlöðurnar og endurhleðslutíma á orkunni. Þá yrðu slíkar vélar mjög dýrar í framleiðslu. Mun líklegra er talið að trukkar og stórar dráttarvélar, og önnur stór vinnutæki verði útbúin fyrir fljótandi metangas. Rafmagn hefur samt reynst vel í liðléttingum og minni vinnuvélum sem ekki þurfa að vera í notkun heilu dagana langt frá hleðslustað.
17 milljónir gasknúinna ökutækja á götum heimsins
Samkvæmt heimasíðu rússneska gasfyrirtækisins Gazprom eru um 17 milljón gasknúin ökutæki í umferðinni í heiminum í dag og fer ört fjölgandi. Leiðandi fyrirtæki í bílaframleiðslu bjóða öll upp á gasknúna bíla, þar með taldir framleiðendurnir Volvo, Audi, Chevrolet, Daimler-Benz, Iveco, MAN, Opel, Peugeot, Citroen, Scania, Fiat, Volkswagen, Ford, Honda, Toyota auk fyrirtækja eins og Ssangyoung, Seat og fleiri. Hafa gasknúnir fólksbílar notið mikillar hylli meðal þeirra sem þá hafa prófað hér á landi. Þeir eru hljóðlátari en dísilbílar og mun ódýrari í rekstri.