Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Geitur – hafur, huðna og kið
Á faglegum nótum 18. maí 2016

Geitur – hafur, huðna og kið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Víðast þar sem geitur eru aldar sem búfé er mjólkin úr þeim ekki síður og jafnvel enn mikilvægari fæða en kjötið. Geitur á Íslandi eru um eitt þúsund og telst stofninn í útrýmingarhættu samkvæmt skilgreiningu FAO.

Samkvæmt áætlun Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) finnast rúmlega 900 milljón geitur í heiminum. Ríflega helmingur þeirra er í Asíu og þriðjungur í Afríku. Í Evrópu er flestar geitur að finna í Grikklandi, Spáni, Rússlandi og Rúmeníu.

Í tölum FAO frá 2011 skiptist fjöldi geita eftir heimsálfum þannig að tæplega 540 milljón geitur voru í Asíu, rúmlega 276 milljón í Afríku, tæplega 40 milljón samanlagt í Suður- og Norður-Ameríku, um 20 milljón í Evrópu og 5 milljón í Eyjaálfunni. Tölurnar eru gróft áætlaðar því að víðast þar sem geitur eru algengar sem búfé er skýrsluhald af skornum skammti.

Sé horft til einstakra landa er áætlað að geitur séu flestar í Kína, um 150 milljón, 62 milljón í Pakistan, um 60 milljón í Nígeríu, 50 milljón í Bangladesh, 25 miljón í Íran og Eþíópíu og sitt hvor 18 milljónin í Indónesíu og Malí.Stærsta hluta þess geitakjöts sem framleitt er í heiminum er neytt á heimamarkaði. Ástralía, Eþíópía, Kína, Pakistan og Frakkland eru þau lönd sem flytja út mest af geitakjöti. Bandaríkin, lönd Evrópusambandsins sem heild, Kína, Katar og Hong Kong flytja aftur á móti mest inn.

Geitur á Íslandi árið 2016 eru tæplega eitt þúsund og kallast hafur, huðna og kið.

Ættkvíslin Capra

Ættkvíslinni Capra telur níu tegundir villtra og taminna geita. Tamdar geitur kallast C. aegagrus hircus á latínu en forverar þeirra, villigeitur, C. aegagrus. Aðrar tegundir innan ættkvíslarinnar eru vestur kákasusgeitur, C. caucasica og undirtegund hennar sem sem kallast austur kákasusgeitin, C. caucasica cylindricornis. Markhor geitur, C. falconeri, í Mið-Asíu, Ibex, C. ibex, í Alpafjöllum, Nubian, C. nubiana, sem finnast í austurlöndum nær, Alsír, Ísrael, Egyptalandi, Jemen og Súdan. Spænskar geitur, C. pyrenaica, í Pýreneafjöllum, síberíu geitur, C. sibirica, í Mið Asíu og walia geitur, C. walie, sem stundum eru flokkaðar sem undirtegund C. ibex.

Í Klettafjöllum Norður-Ameríku finnst dýr sem er náskylt og svipar til geita og kallast klettafjallageit þrátt fyrir að teljast til ættkvíslar sem heitir Oreamnos. Klettafjallageitin, Oreamnos americanus, er eina núlifandi tegundin innan þeirrar ættkvíslar.

Geitur eru einstaklega fótvissar og með gott jafnvægi enda er búsvæði villtra geita í fjalllendi og í bröttum klettum. Þær eru spretthraðar, hoppa hátt og eiga auðvelt með að smeygja sér um þröngar skorur. Geitur eru einu jórturdýrin sem geta klifrað upp í tré. Auk þess sem þær eiga auðvelt með að standa á afturfótunum þegar þær bíta upp fyrir sig og þegar hafrar berjast um yfirráð hjarða. Hafurinn með stærstu hornin er efstur í goggunarröð hjarðanna.

Mjólk og húðir

Víðast þar sem geitur eru aldar sem búfé er mjólkin úr þeim ekki síður og jafnvel enn mikilvæg fæða en kjötið. Áætluð framleiðsla hennar á heimsvísu er talin vera um 16 milljón tonn en hún hefur farið minnkandi undanfarin ár.

Indverjar og íbúar Bangladesh, Pakistan og hirðingjar í Afríku reiða sig mest á geitamjólk sem fæðu. Af Evrópuþjóðum nýta Frakkar, Spánverjar og Grikkir mjólkina mest og aðallega til framleiðslu á geitaosti.

Húðir geita eru nýttar í tjöld, burðarpoka og bein og sinar í listmuni. Fitan sem ljósmeti og tað og spörð í eldivið og áburð. Vegna styrkleika fótanna eru tamdar geitur prýðileg burðar- og dráttardýr.

Eitt fyrsta húsdýrið

Fornleifar benda til að sambúð manna og geita hefjist fyrir tíu þúsund árum og þær því með fyrstu dýrum sem menn halda sem búfé. Ævafornar hellaristur benda til að fornmenn hafi skreytt sig með geitahornum og dansað með þau kringum varðeld.

Forverar nútíma aligeita koma frá Suðaustur-Asíu og Krít og kallast persíu- eða besoargeitur. Talið er að geitahald hefjist í fjallendi Íran og breiðist þaðan út.

Geitur eru algeng mótíf á leirmunum, innsiglum og öðrum minjum frá Austurlöndum nær og löndunum við Miðjarðarhaf. Við fornleifarannsóknir á Krít hafa fundist fjögur þúsund ára gamlir leirvasar og skartgripir með myndum af geitum.

Geitur bárust til nýja heimsins með Evrópubúum í kjölfar landfundanna í Mið- og Suður-Ameríku og fólksflutninga Evrópubúa til Norður-Ameríku enda geitur oft hafðar með á löngum sjóferðum sem uppspretta mjólkur og kjöts.

Í grafhýsi eins af faraóum Egypta til forna fundust bein af 2000 geitum.

Bíta upp fyrir sig

Geitur eru klauf- og jórturdýr. Ólíkt sauðkindinni leita geitur á beit að gróðri upp fyrir sig og éta frekar lauf trjáa, börk en lággróður. Geitur eru ekki matvandar og geta vel lifað á hvaða gróðri sem er í boði á hverjum tíma.

Nútíma aligeitur eru minni en villtir forverar þeirra og ullin er fjölbreyttari að lengd, lit og áferð. Snoppan er styttri og eyrun meira lafandi. Ólíkt augasteini flestra spendýra, sem er hnöttóttur, er augasteinn geita sporöskjulagaður og láréttur eins og í kolkröbbum. Lögun augasteinsins gerir að verkum að sjónsvið þeirra er vítt. Geitur bíta oft á nóttinni og eru því taldar hafa góða nætursjón.

Yfirleitt eru bæði kynin hyrnd en til eru afbrigði þar sem huðnan er kollótt. Sé hafurinn kollóttur er hann yfirleit líka ófrjór. Skegg geithafra lengist með aldrinum.

Geitur eru hóflega félagslyndar og halda hópinn í litlum hjörðum og almennt taldar greindar og útsjónarsamar og forvitnar skepnur.

Tugir ræktunarafbrigða

Erfðamengi geita er fjölbreytt og fjöldi ræktunarafbrigða telja yfir 200 og skiptast í dýr sem alin eru vegna kjötsins, mjólkurinnar eða ullarinar eða alls í senn. Dæmi um ræktunarafbrigðið eru Abaza sem kemur frá Tyrklandi og gefur af sér bæði mjólk og kjöt. Alpageitur sem finnast í Evrópu eru aðallega aldar vegna mjólkurinnar sem notuð er til ostagerðar. Í Bretlandi er afbrigði sem kallast Angola-Nubian og ræktað vegna ullarinnar. Í Ástralíu er til smákyn sem aðallega er haft sem gæludýr. Jamnapari er algengt mjólkurafbrigði á Indlandi og í Kína er svonefnt Zhongwei-afbrigði sem ræktað vegna ullarinnar og húðanna.

Stærð og þyngd fullvaxinna geita er mismunandi eftir kyni og afbrigðum, frá 10 og upp í rúmlega 100 kíló.

Meðgöngutími geita er mis­mun­andi milli kynja en að meðaltali 170 dagar en 150 dagar hjá íslenskum geitum. Að meðgöngunni lokinni ber huðnan yfirleitt einu kiði sem er á spena í um það bil sex mánuði.

Kynþroski geita er mismunandi eftir kynjum. Huðnur ná oft kynþroska eins og hálfs til tveggja og hálfs árs gamlar en hafrar þriggja og hálfs til fjögurra ára. Íslenskar geitur ná kynþroska við lægri aldur, jafnvel hálfs árs eða á fyrsta ári.

Náttúrulegur líftími geita er 10 til 22 ár en vitað er um tamdar geitur sem hafa náð 25 ára aldri.

Tamdar geitur sem sleppa út í náttúruna eru fljótar að aðlagast lífi villigeita sem er sjaldgæft meðal húsdýra að köttum undanskildum. Í Ástralíu er að finna þúsundir geitahjarða sem eru afkomendur taminna geita sem sluppu frá eigendum sínum.

Litaheiti geita

Litur geita er afar fjölbreyttur og þær geta verið hvítar, rjómagular, svartar, gráar, brúnar og flekkóttar. Íslensk litaheiti geita eru margs konar og má þar nefna svarkápótt, gráflekkótt og golsuflekkótt.

Uppruni geitaheitisins

Nafn geita á ensku er goat og mun það orð eiga uppruna í fornenska geita heitinu gāt. Á forngermönsku kölluðust geitur gaitaz og þaðan munu þýska heitið Geiß og íslenska heitið geit vera upprunnið. Nafnið mun upphaflega vera samheiti á huðnum.

Trúarbrögð, goðsagnir og þjóðtrú

Geitur koma fyrir í trúarbrögðum og goðsögnum víða um heim. Í norrænni goðafræði er sagt frá því að Þór hafi átt vagn sem var dreginn af tveimur höfrum sem hétu Tanngnjóstur og Tanngrisnir. Hafrarnir voru þeirrar rómantísku náttúru haldnir að Þór gat drepið þá og étið svo oft sem hann vildi. Að átinu loknu safnaði hann beinum hafranna saman á húðirnar og sveiflaði hamrinum Mjölni yfir. Við það lifnuðu geithafarnir við og voru jafn góðir og áður.

Í einni sögu um Þór og hafrana segir að þrumuguðinn hafi boðið hjónum að borða með sér af þeim. Eftir að Þór lífgaði hafrana við kom í ljós að bein á fæti annars hafursins var sprungið eftir að reynt var að ná mergnum úr því. Þór varð hamstola af reiði og ætlaði að drepa hjónin í hefndarskyni. Hjónin báðust vægðar og felst Þór að lokum á að taka börn þeirra, Þjálfa og Röskvu, sér til þjónustu og fylgja þau honum síðan.

Ekki er ósennileg að skandínavíska jólageitin eigi uppruna sinn í geithöfum Þórs. Auk þess sem til siðs var og slátra geitum Skandinavíu um vetrarsólstöður er einnig hefð fyrir því að vefa geithafra úr stráum. Ikea á Íslandi, og líklega víðar, hefur þann sið að setja upp stóra geit úr hálmi við verslun sína á jólaföstunni. Tvisvar hefur komið fyrir að kviknað hafði í þessu geitum og þær brunnið að því sem virðist af sjálfsdáðum. Verði slíkt að vana er fljótlega hægt að fara að tala um Burning Goat festival á Ísland.

Gríski nautnaguðinn og flautu­leikarinn Pan er sagður vera maður með horn að efri hluta en geithafur að neðri hluta.

Geitur eru eitt af dýrunum í kínverska stjörnuhringnum. Þar segir að þeir sem fæddir eru á ári geitarinnar séu feimnir, skapandi fullkomnunarsinnar.

Í Íslenzkum þjóðháttum Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili segir að geitalifur hafi þótt góð til að fæla burt drauga, ófreskjur og næturvofur. Þar segir einnig að við blóðsótt hafi þótt ráð að gefa karlmönnum hafrahland en kvenmönnum geitahland að drekka.

Geitur í kristni

Djöfullinn í kristni á miðöldum var oft settur fram í geitarlíki eða sem maður með hafurslegt andlit, niðurmótt hökuskegg og há kollvik sem minna á horn. Viðlíka hugmyndir lifa reyndar góðu lífi enn í dag í bókmenntum, kvikmyndum og hreyfingum sem kenna sig við satanisma.

Eina skýringuna á þessum tengslum geita og skrattans kann að vera að finni í Matteusarguðspjalli 25:31-41 þar sem fjallað er um endurkomu mannssonarins og hvernig hann skilur sauðina frá höfrunum og dæmir þá fyrir gjörðir sínar.

„Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. [ . . . .] Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.“

Landnámsgeitur

Almennt er talið að geitur hafi fylgt landnámsmönnum sem búfé þegar þeir komu hingað fyrst frá Noregi.

Í Landnámu segir að Hafur-Björn hafi með liði sínu farið vestur til Grindavíkur og sest að þar. „Björn dreymdi um nótt, at bergbúi kæmi at honum ok bauð at gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir þat kom hafr til geita hans, ok tímgaðist þá svá skjótt fé hans, at hann varð skjótt vellauðigr. Síðan var hann Hafr-Björn kallaðr.“ Merki Grindavíkur í dag er geithafur.

Þegar Hallfreður, faðir Hrafnkels Freysgoða kom til landsins var hann um hríð í dal sem fékk nafnið Geitdalur eystri eftir að hann flutti burt þaðan. „…. en honum varð þar eftir göltur og hafur. Og hin sama dag, sem Hallfreður var á brott, hljóp skriða á húsið og tíndust þessir gripir og heitir það síðan Geitdalur.

Í Helgakviðu Hundingsbana II er hetjuskapur hans mærður en hugleysi óvina hans líkt við geitur sem standa frammi fyrir úlfi. Í Gull Þóris sögu segir að tveimur gráum huðnu­kiðum hafi verið stolið frá Þóri á Þórustöðum í Þorskafirði.

Fleiri bæjarnöfn á landinu eru kennd við geitfé en nokkurt annað búfé auk þess sem fjöldi annarra örnefna hér eru kennd við geitfé. Má þar nefna Geitafell, Geitafjall, Geitagil, Geitvík, Geitey og Geitland, Hafrafell, Hafragil, Hafursá, Hafursstaði og Hafursey, Kiðafell, Kiðagil og Kiðaberg.

Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram að landnám geita hafi hafist með pöpum sem dvöldust hér fyrir eiginlegt landnám. Eitthvað af þessum geitum hefur týnst og fjölgað sér og að villtar geitur hafi því verið til staðar í landinu við komu norrænna manna.

Kýr fátæka fólksins

Geitur hafa frá upphafi verið einangraðar hér á landi og stofninn því haldist alveg óbreyttur frá landnámi þeirra. Stofninn er því mjög hreinn og skyldleikarækt töluvert vandamál. Fjöldi þeirra var um tíma svo lítill að við lá að íslenski geitastofninn dæi út.

Við talningu geita árið 1885 var stofninn kominn niður undir 60 dýr og árið 1960 taldi hann færri en 100 dýr. Geitur á Íslandi árið 2016 eru tæplega eitt þúsund.

Á þeim svæðum á landinu þar sem geitur voru haldnar sem búfé voru þær stundum kallaðar kýr fátæka fólksins enda geta þær lifað á rýru landi og kjarnminna heyi en önnur húsdýr. Góð mjólkurgeit gefur af sér milli 200 og 300 lítra af mjólk á ári og gefur af sér mjólk í ellefu mánuði á ári.

Ull geita skiptist í tvennt, ytri eða vindhárin kallast stý en innri hárin fiða, svipað og tog og þel sauðkinda, og er hún kembd af þeim en ekki rúin. Fiðan af íslensku geitunum er mjög fín og líkist Kasmír-geitum.

Árið 1986 voru íslenskar geitur fluttar til Skotlands1986 þar sem þær voru notaðar, ásamt þremur öðrum kynjum við ræktun nýs kyns, The Scottish Cashmere Goat.  Fínleikinn í ull þess kyns er komin frá íslensku geitunum og gott dæmi um nýtingu á sérstæðum erfðaeiginleika sem ekki hefur haft hagnýtt gildi enn sem komið er hér á landi.

Árið 1991 var Geitfjárræktarfélag Íslands stofnað af áhugafólki um ræktun íslensku geitarinnar og markmið félagsins er að stuðla að verndun íslensku geitarinnar og markaðssetningu geitaafurða.

Í útrýmingarhættu samkvæmt skilgreiningu FAO

Haustið 2010 var hleypt af stokkunum verkefni sem miðar að því að safna hafrasæði til frystingar og nýtingar. Tilgangur verkefnisins er að sporna við skyldleikarækt í stofninum og auka erfðabreytileika hans.

Síðustu 50 ár hefur verið greitt svokallað stofnverndarframlag til viðhalds íslenska geitastofnsins. Greitt er fyrir hverja skýrslufærða geit upphæð sem nemur um það bil fóður kostnaði hennar. Íslenska geitin er skráða í  bæði Ark of Taste og Presidium hjá Slow Food enda góð aðferð til að viðhalda búfjárkyni að nýta það til framleiðslu gæðaafurða.

Íslenskar geitur léku aukahlutverk í einum þætti hinnar geysivinsælu þáttaröð Game of Thrones þar sem þær voru drepnar af dreka. Íslenski geitastofninn er eini íslenski búfjárstofninn sem telst í hættu eftir skilgreiningu FAO á dýrum í útrýmingarhættu. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...