Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Grænfóður: helstu tegundir og yrki síðustu fimm árin
Mynd / Eiríkur Loftsson
Á faglegum nótum 30. apríl 2024

Grænfóður: helstu tegundir og yrki síðustu fimm árin

Höfundur: Elena Westerhoff og Þórey Gylfadóttir, ráðunautar í jarðrækt.

Næst á dagskrá í umfjöllun um notkun á tegundum og yrkjum er samantekt á sáðu grænfóðri síðustu fimm ár.

Grænfóður eru sumar- eða vetrareinærar gróffóðurjurtir sem nýttar eru til beitar eða sláttar. Í þessum hópi eru tegundir með ólíka eiginleika sem ýmist eru notaðar einar og sér eða í blöndum, en af gögnum má ætla að árið 2023 hafi einn þriðji af grænfóðri sem sáð var, verið sáð í blöndum. Einnig má sjá á gögnum úr forritinu Jörð að nokkur munur er á milli landshluta og/eða svæða hversu algengt er að blanda saman tegundum grænfóðurs við sáningu auk þess sem aðeins er munur á nýjungagirni, en þessi munur skýrist án efa af því hvar kúabúskapur er ríkjandi. Hægt er að setja saman ólíkar tegundir í grænfóðurblöndur, allt eftir því hverju verið er að sækjast eftir varðandi notkunina. Líkt og var með samantekt á notkun á tegundum og yrkjum grasa (í 6. tölublaði) þá byggir þessi tölulega samantekt á skráningum úr forritinu Jörð og gera þarf fyrirvara um nákvæmni skráninga þar.

Grænfóður er helst notað til beitar snemma sumars, á haustin og í skjólsáningar. Þær fimm tegundir grænfóðurs sem mest hefur verið notað af síðustu fimm árin eru fóðurrepja, einært rýgresi, hafrar, ertur, bygg og fóðurmergkál, sjá töflu 1. Fóðurrepjan og einæra rýgresið eru með afgerandi mesta notkun öll árin og þar á eftir koma hafrar með nokkuð stöðuga notkun líkt og byggið sem er þó minna notað en hafrarnir, og loks eru það ertur og fóðurmergkál sem skipta með sér fimmta sætinu eftir árum.

Tafla 1. Taflan sýnir hlutfall (%) þeirra fimm tegunda sem mest eru notaðar, fóðurrepja, einært rýgresi, hafrar, ertur, bygg og fóðurmergkál, sem hlutfall af heildarnotkun fyrir hvert ár fyrir sig. Hlutfall yrkja er sýnt af hverri tegund sem eru í riti Nytjaplöntur á Íslandi sem Landbúnaðarháskóli Íslands gefur út.

Hægt er að segja að vetrarfóðurrepjan sé besta grænfóðrið fyrir haustbeit, með annarri beit með. Mergkálið getur gefið mjög mikla uppskeru í góðum árum en það þarf að taka tillit til þess að ekki er endilega öll uppskeran að nýtast í beitinni og því spurning hvort skynsamlegt sé að horfa sérstaklega til þess að fá sem allra mestu uppskeruna, sérstaklega ef ræktunaröryggið er minna. Ef horft er nánar á fóðurrepjuna og notkun á einstöku yrkjum á þessu fimm ára tímabili þá sést að yrkin Hobson og Barcoli eru með afgerandi mesta notkun öll árin og svo kemur Ringo þar á eftir en þó með umtalsvert minni notkun, sjá mynd 1. Gott er að sjá að þau yrki sem mest er verið að nota séu með umsögn í ritinu Nytjaplöntum á Íslandi þar sem bændur geta séð hvernig tiltekin yrki hafa reynst í yrkjatilraunum. Á mynd 1 sést einnig að örlítið hefur verið notað af sumarafbrigðum en þau eru alla jafna fljótari af stað en vetrarafbrigðin en spretta jafnframt fljótt úr sér og blómgast frekar lendi þau í frosti.

Mynd 1. Notkun á yrkjum af fóðurrepju á árunum 2019-2023 sem hlutfall af heildarnotkun á fóðurrepju hvert ár. Sjá má skiptingu á yrkjum eftir því hvort umsögn er um þau í Nytjaplöntur á Íslandi eða ekki.

Næst á eftir fóðurrepjunni í notkun kemur einært rýgresi. Af því eru bæði til vetrar- og sumarafbrigði auk þess sem þau geta verið tví- eða ferlitna. Ferlitna afbrigðin eru með stærri frumum og hlutfallslega minni stoðvef en tvílitna afbrigðin og því eru þau yfirleitt með hærri meltanleika og hærra fóðrunarvirði en tvílitna afbrigðin. Tvílitna yrkin eru almennt með hærra þurrefni og þolnari en þau fjórlitna. Vetrarafbrigðin skríða seinna en sumarafbrigðin og halda almennt fóðurgildi sínu nokkuð vel. Sumarafbrigðin eru alla jafna fljótari til eftir sáningu og betra er að hafa varann á og passa að það spretti ekki um of vegna fóðurgæða en vetrarafbrigðin þola frekar að sláttur dragist þegar horft er á fóðurgæði og lystugleika. Í þessu sambandi þarf að horfa til sambandsins milli uppskerumagns og fóðurgæða þannig að ekki sé verið að fórna fóðurgæðum fyrir mjög mikið uppskerumagn. Ef nýta á einært rýgresi til beitar er hægt að blanda saman sumar- og vetrarafbrigðum til að nýta sér mismuninn hvað varðar hversu fljót þau eru til eftir sáningu. Sumarafbrigðin standa sig oft betur þar sem illgresisálag er þar sem þau eru fljótari en vetrarafbrigðin og keppa því betur við illgresið. Í sumum árum á einæra rýgresið erfitt uppdráttar að vori en tekur þó oft við sér eftir slátt og því er ekki endilega ráðlegt að bíða með slátt þó svo að útlitið sé ekki gott. Dregið saman getum við sagt að sumarafbrigðin gefi oft meiri þurrefnisuppskeru en vetrarafbrigðin sem hafa aftur á móti meira fóðrunarvirði, bæði hærri meltanleika og prótein. Vaxtarhraði sumarafbrigða er meiri en vetrarafbrigða í frumvexti en vaxtarhraði vetrarrýgresis er meiri en sumarrýgresis í endurvexti.

Mynd 2. Notkun á yrkjum af einæru rýgresi á árnum 2019-2023 sem hlutfall af heildarnotkun þess hvert ár. Tvær súlur eru fyrir hvert ár, önnur fyrir sumarafbrigði og hin fyrir vetrarafbrigði. Sjá má skiptingu á yrkju eftir því hvort umsögn er um þau í Nytjaplöntur á Íslandi eða ekki.

Þau yrki sem mest eru notuð öll árin af einæru rýgresi, eru vetrarafbrigðið Barmultra og sumarafbrigðið Barspectra en þar á eftir í notkun er nokkuð mikill breytileiki milli ára hvaða yrki er í þriðja til áttunda sæti er varðar notkun. Þau átta yrki sem skipta með sér þessum sætum eru vetrarafbrigðin Meroa, Danergo og Turgo og sumarafbrigðin Swale, Bartigra, Lemnos og Speedyl en hlutfall þessara yrkja sveiflast frá tæplegu 1% upp í tæp 8% yfir þetta fimm ára tímabil. Gott er að sjá að hlutfall þeirra yrkja sem ekki eru á lista í Nytjaplöntur á Íslandi er lágt öll árin og notkun á þeim fer aldrei yfir 3% en það er vetrarafbrigðið Sikem sem 2019 náði 2,7%.

Bæði er hægt að rækta hafra til þroska og til sláttar/beitar og ef nýta á þá til sláttar er mikilvægt að nota yrki sem hafa þá eiginleika að vera seinsprottnir og skríða seint. Undanfarin fimm ár hefur yrkið Belinda verið með langmesta notkunina ef undan er skilið árið 2022 en þá fór notkunin á því niður fyrir 50% af sáðum höfrum og það ár var yrkið Nike mest notað og það var einnig með rúmlega 20% notkun af sáðum höfrum árið 2023. Árin 2019-2021skiptast yrkin Nike og Akseli á að vera í öðru og þriðja sætinu. Einstaka ár koma inn yrki sem ekki eru á Nytjaplöntulistanum en þau sem koma fyrir oftar en einu sinni yfir þetta fimm ára tímabil og voru með þónokkra notkun eitthvert af því árum eru yrkin Aspen og Matty.

Einærar tegundir eru notaðar í skjólsáningar en með því að skjólsá má ná uppskeru sáðársins af einæru tegundunum. Aðeins er misjafnt hvernig staðið er að skjólsáningum en mikilvægt er að velja tegund og yrki sem veita grassáningunni ekki harða samkeppni. Mest er verið að nota hafra, bygg og einært rýgresi en rýgresið veitir grassáningunni mikla samkeppni þar sem það þéttir sig mikið og því eru hafrar eða bygg betri kostur þó svo að rýgresið myndi hafa vinninginn út frá fóðurgildinu. Bygg er kannski heldur fljótara en hafrar, og efnaríkara, en ef nota á bygg í skjólsáningu er mikilvægt að slá það fyrr en ef um hafra væri að ræða, bæði til að opna svörðinn fyrir grassáninguna en ekki síður til að koma í veg fyrir að títur verði vandamál í fóðrinu. Eitthvað hefur rúgur verið notaður sem grænfóður en gott getur verið að sá rýgresi með vegna endurvaxtar þess þar sem það nýtir allan vaxtartímann. Ertur eru einærar belgjurtir sem eru notaðar sem grænfóður eða sem hluti af heilsæðisræktun og þá oft með repju og t.d. byggi. Þær hafa verið taldar frekar óöruggar í ræktun en geta verið góð viðbót. 

Almennt varðandi verkun á grænfóðri þá má segja að mikilvægt sé að reyna að láta það þorna aðeins og að því marki að ekki verði safatap með frárennsli því þá eru næringarefni að tapast, og að nota íblöndunarefni og þá ekki síst vegna þess að hætta getur verið á jarðvegsmengun þegar grænfóður er hirf af velli, sem truflar verkunina. 

Enn og aftur hvetjum við bændur til að kynna sér vel eiginleika þeirra tegunda og yrkja sem í boði eru og minnum á mikilvægi þess að nota reynd yrki þar sem mikil vinna, tími og fjármagn liggur í endurrækt og því sárt að hún lukkist illa af því að fræið sem valið er hentar ekki eða illa aðstæðum.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...