Grænfóðurtilraunir á Hvanneyri vorið 2015
Höfundur: Ríkharð Brynjólfsson
Eins og undanfarin ár var sáð í grænfóðurtilraunir á Hvanneyri vorið 2015. Eins og menn muna var vorið afar kalt, en þó varð tilraunalandið nægilega þurrt til vinnslu í byrjun maí. Ákveðið var að sá tvisvar, 6. maí og hálfum mánuði seinna, sem varð 22. maí. Í tilraununum var sáð þeim stofnum af rýgresi og vetrarrepju sem voru á markaði.
Allt gekk mjög hægt í byrjun. Eftir fyrri sáðtímann tók það repjuna 3 vikur að sýna minnsta spírunarvott en rýgresið 4 vikur. Þetta ætti að vera uppskriftin að því að vetrarrepja „breytist“ í sumarrepju og blómstri mjög fljótt. Sú varð þó ekki raunin, það var aðeins sá gamli og góði Barcoli sem blómstraði, en þó ekki meira en oft hefur verið, og a.m.k. ekki áberandi meira eftir fyrri sáðtímann en hinn seinni. Illgresi (mest skurfa) var ekki til trafala að marki, en reyndi þó greinilega mest á Akela, sem er mjög lágvaxið, og Dasas sem er viðkvæmast af rýgresinu.
Mynd 1. Uppskera repjustofna 2015 og skipting í líffæri.
Uppskera repju
Við fyrri sáðtímann var repjan slegin 27. ágúst en 4. september eftir þann seinni. Uppskera stofnanna, sem og hvernig hún skiptist í stöngla, blaðstilka og blöðkur er sýnd á 1. mynd. Reynslan kennir að kýr á randbeit nýta blöðkurnar og í einhverjum mæli blaðstilka, en stönglar troðast undir. Það skal tekið fram að við seinni sláttutímann var einn Barcolireitur afbrigðilega uppskerumikill; án hans var meðaluppskera Barcoli mjög lík annarra afbrigða.
Mynd 2. Uppskera rýgresis 2015. S= sumarrýgresi, V= vetrarrýgresi, 2X tvílitna.
Uppskera rýgresis
Heildaruppskera rýgresisstofna og skipting í 1. og 2. slátt er sýnd á 2. mynd. Dasas er áberandi lakast eftir fyrri sáðtímann; var nokkurn tíma að komast uppúr illgresi(skurfu). Bartigra er uppskerumest þótt ekki muni miklu.
Eftir fyrri sáningu eru aðeins 35 dagar milli slátta, og meðalspretta á dag 60–70 kg þe/ha, en eftir seinni sáðtímann liðu 45 dagar milli slátta og meðalsprettan á dag 40–50 kg þe/ha. Það er í stíl fyrri reynslu að því fyrr sem rýgresi er slegið, því örari endurvexti má búast við; þar kemur líklega hvort tveggja til, minni inngeislun og lægra hitastig.
Rýgresi heldur áfram að spretta fram eftir hausti, 23. september var kominn dálítill hýjungur eftir slátt 4. september. Hann virtist mestur á Barmultra og einföld uppskerumæling gaf 3,5 hkg þe/ha. Á þessu góða hausti hélt sprettan sýnilega áfram, en var ekki mæld.
Lærdómurinn
Ef draga á ályktun um repju er sú helst að þar sem aðrir stofnar blómstra miklu síður en Barcoli ætti notkun hans að hverfa, en Delta og Hobson að taka við ef vænta má illgresis, en Akela að auki ef land er illgresislaust. Sömuleiðis að kuldatíð eftir sáningu valdi ekki blómgun þessara stofna. Þess vegna er óhætt að sá vetrarrepju snemma til að hafa beit fyrir kýr miðsumars. Þegar repjan var slegin eftir seinni sáðtímann var blaðmassinn 2,5–3 tonn af þurrefni á hektara (250-300 g/m2) líkt og áður hefur verið mælt. Meira en helmingur uppskerunnar mun troðast undir við randbeit kúa, og spurning hvort ekki er vert að prófa svokallaða 0-beit, slá repjuna og gefa á fóðurborð, ekki síst sem hluti heilfóðurs.
Dasas var seinast til að komast uppúr illgresi af vetrarrýgresi eins og oft hefur sýnt sig og Swale af sumarrýgresi. Þessir stofnar eru tvílitna en aðrir ferlitna. Tvílitna stofnar eru almennt fíngerðari en ferlitna.
Af rýgresi næst hvort sínum megin við 7000 kg þe/ha. Í báðum tilraunum ber Bartigra hæst. Tilraun A var slegin seinna en skyldi vegna bleytutíðar, en reynslan er að það sem á vantar í fyrra slætti skilar sér í þeim seinni. Það er engin ástæða til að draga sáningu rýgresis og í öllum venjulegum árum má slá tvisvar (eða slá og beita) og fá að auki einhverja beit að hausti.