Greinargerð um endurskoðun dýraheilbrigðislöggjafarinnar
Þann 23. maí 2016 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að endurskoða lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lög nr. 54/1990 um innflutning dýra og lög nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
Í nefndina voru skipuð:
- Halldór Runólfsson, ráðgjafi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, formaður, skipaður án tilnefningar,
- Guðný Helga Björnsdóttir, bóndi, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands,
- Þorvaldur H. Þórðarson, dýralæknir, tilnefndur af Dýralæknafélagi Íslands,
- Auður Lilja Arnþórsdóttir, dýralæknir, tilnefnd af Matvælastofnun,
Baldur Arnar Sigmundsson, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu mun starfa með hópnum.
Samkvæmt skipunarbréfi starfshópsins kemur fram að markmið endurskoðunarinnar sé að búa til ein heildarlög um heilbrigði dýra, sem hafi þann tilgang að bæta almennt heilbrigði búfjár og gæludýra hér á landi hvað alla sjúkdóma varðar, en ekki eingöngu smitsjúkdóma. Jafnframt að verjast komu nýs smitefnis til landsins, hindra að það berist í dýr og breiðist út. Skoða ætti hvort endurskoðuð lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr ættu aðeins að taka á réttindum og skyldum starfsstétta sem heyra undir lögin, m.a. hvort ákvæði þyrfti að vera um sérstakt stjórnvald/siðanefnd varðandi störf dýralækna (Veterinary Statutory Body) auk skilgreininga á hlutverki yfirdýralæknis, sérgreina-, héraðs- og eftirlitsdýralækna. Fjölmargar reglugerðir hafa verið settar með stoð í umræddum lögum og sumar þeirra þyrfti einnig að endurskoða í kjölfar endurskoðunar laganna. Dæmi um atriði sem þarf að skoða er stefna varðandi eftirlit, varnir, viðbrögð og aðgerðir gegn dýrasjúkdómum og kostnað sem af þessu hlýst, sem getur orðið umtalsverður ef nýr og skæður dýrasjúkdómur bærist til landsins.
Markmið með endurskoðun
Ofangreind lög eru að stofni til orðin 20 – 25 ára gömul og talsverðar breytingar hafa verið gerðar á þeim og sum ákvæði þeirra orðin úrelt. Umtalsverðar breytingar hafa orðið á umhverfi landbúnaðarins á þessum tíma. Búum í hefðbundnum búskap hefur fækkað og þau sem eftir standa hafa stækkað. Í svína- og alifuglarækt eru m.a. stór bú eða fyrirtæki, sem reka eldishús og afurðastöðvar. Ef til þess kæmi að smitsjúkdómur, sem nú ber að bregðast við með niðurskurði og greiðslu skaðabóta, bærist inn í þessi stórbú, þá yrði kostnaður ríkissjóðs gífurlegur. Skoða þarf þessa breyttu stöðu. Breytingar hafa verið gerðar á þjónustu dýralækna við dýr og dýraeigendur. Opinberum dýralæknum hefur fækkað, en sjálfstætt starfandi fjölgað. Embætti yfirdýralæknis var lagt niður og það sameinað öðrum stofnunum í Matvælastofnun fyrir 10 árum. Opinberir dýralæknar eru nú eingöngu í opinberum stjórnsýslu- og eftirlitsstörfum og hlutverk þeirra við öflun erlendra markaða fyrir landbúnaðar- og sjávarafurðir er orðið æ þýðingameira.
Með endurskoðun ofangreindra laga er stefnt að því að semja frumvarp til laga um einn lagabálk sem fjallaði um dýr og heilbrigðisþjónustu við dýr og tæki til allra þeirra málaflokka sem núgildandi lög fjalla um. Lög nr. 55/2013 um velferð dýra eru ekki til skoðunar, enda aðeins verið í gildi síðan í ársbyrjun 2014.
Aðalmarkmiðið er að setja lög í þessum málaflokki sem tækju mið af því besta sem er að finna í lagasetningum annara landa sem tryggðu eins og framast væri unnt að viðhalda og bæta hina góðu heilbrigðisstöðu íslenskra dýra.
Þarfagreining
Til að ná settum markmiðum er nauðsynlegt að kynna sér vel lagaumhverfið sem gildir í þessum málaflokki í nágrannalöndum okkar. Sem dæmi má nefna að nauðsynlegt er að skoða skilgreiningu sjúkdóma sem ríkinu ber að bregðast við með sérstökum aðgerðum svo sem niðurskurði og skaðabótum og þá hvernig útreikningum þeirra er háttað, en einnig verði skilgreint hvaða sjúkdómar dýraeigendur verði að bera hluta kostnaðar eða allann af aðgerðum.
Verkáætlun og lokaskil
Þar sem endurskoðun þessara laga er umfangsmikil, má búast við að hún taki eitt til tvö ár.
Starfshópurinn mun hafa fundar- og vinnuaðstöðu í ráðuneytinu og verður ráðherra og yfirmönnum ráðuneytisins haldið upplýstum um framvinduna. Nú er unnið að gagnaöflun og undirbúningi að sérstakri skýrslu þar sem fram koma allar helstu forsendur fyrir gerð draga að frumvarpi til laga um dýraheilbrigði, sem stefnt er að að verði tilbúin á vormánuðum 2017. Síðan yrði skýrslan sett í víðtækan umsagnarferil, sem yrði bæði með formlegum hætti og einnig óformlegum hætti þar sem forsendur nýrrar dýraheilbrigðislöggjafar yrði birt á vef ráðuneytisins og öllum gert mögulegt að koma fram með athugasemdir.
Á síðari hluta ársins 2017 yrði unnið úr umsögnum og frumvarp til laga samið, ásamt vandaðri greinargerð um vinnslu frumvarpsins, helstu athugasemdum og mati fjármálaráðuneytisins á fjárhagslegum áhrifum samþykktar löggjafarinnar.
Í upphafi ársins 2018 er stefnt að því að frumvarpið væri tilbúið fyrir ráðherra til að mæla með frumvarpinu á Alþingi og að lokinni umfjöllun Alþingis væri vonast til að hægt væri að samþykkja ný lög á vorþingi 2018.