Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Snorri Páll Harðarson að undirbúa mjólkun í Hvammi í Eyjafirði.
Snorri Páll Harðarson að undirbúa mjólkun í Hvammi í Eyjafirði.
Mynd / Myndir úr safni / HKr.
Á faglegum nótum 10. október 2017

Hagkvæmar mjaltir – fimm skref í rétta átt

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Mikilvægasta, verðmætasta og kostnaðarsamasta verkið á hverju kúabúi eru mjaltirnar og skiptir þar engu hvort mjaltaþjónn er notaður eða mjólkað með hefðbundnum hætti. 
 
Á öllum kúabúum er notaður mikill tími í vinnuna sem tengjast mjöltum og þrátt fyrir að þetta sé mikilvægasta verk hvers kúabónda, þá er hægt að spara vinnuna og kostnaðinn við mjaltir án þess að það gangi út yfir gæði mjaltanna eða bitni á júgurheilbrigði. Eins og greint var frá í síðasta Bændablaði þá geta þau kúabú sem nota mjaltaþjóna ekki framleitt mjólk jafn hagkvæmt og bú sem nota hefbundna mjaltatækni, en þau geta þó nálgast framleiðslukostnað hinna kúabúanna, sé rétt staðið að nýtingu mjaltaþjónanna og vel staðið að öðrum verkum svo sem fjósverkum og bústjórn. Að sama skapi geta þeir sem mjólka með hefðbundnum mjaltatækjum náð enn betri árangri og aukinni hagkvæmni með því að yfirfara mjaltirnar á búum sínum.
 
Farðu yfir stöðuna á þínu búi
 
Til þess að geta bent á leiðir til hagræðingar við mjaltir þarf fyrst að skoða vel hver staðan er í dag á viðkomandi búi. Hér þarf að bera saman við önnur bú mismunandi verkþætti og lykiltölur og má þar t.d. nefna fjölda mjólkaðra kúa á hverja klukkustund, fjölda mjólkaðra kúa á hvert mjaltatæki/mjaltaþjón á klukkustund, hve margar kýr hver starfsmaður getur mjólkað á klukkustund, mjaltatíma á hverja kú, meðal mjólkurflæði, mesta mjólkurflæði og fleira mætti nefna. Eitt af því sem gefur ekki rétta mynd við samanburð mjalta, ef viðkomandi er með mjaltaþjón, er fjöldi mjalta pr. kú pr. dag. Það er afar algengur misskilningur að sú tala segi mikið um nýtingu mjaltaþjóns, en mun meira máli skiptir að horfa á framleiðslugetu mjaltaþjónsins innan sólarhringsins í lítrum talið. Það sem etv. mestu máli skiptir, þegar verið er að skoða leiðir til þess að draga úr kostnaði við mjaltirnar, er að geta stuðst við tölur um mjaltirnar innan hvers bús og etv. síður á milli búa. Samanburður við aðra er alltaf góður en þar sem aðstæður eru svo gríðarlega ólíkar á milli búa er best að geta stuðst við eigin gögn og eigin tölur.
 
Skrefin fimm
 
Til þess að auðvelda kúabændum að skoða eigin tölur og skoða eigin aðstæður með bætta hagræðingu í huga má nota eftirfarandi fimm skref til þess að meta eigin aðstæður.
 
1. Kýrnar sjálfar
 
Allra mikilvægasti þátturinn til þess að geta mjólkað með góðum hætti er að hafa hreinar kýr. Það er útilokað að geta mjólkað með hagkvæmum hætti ef kýrnar koma óhreinar til mjalta og á þetta bæði við um hefðbundnar mjaltir og mjaltaþjóna. 
 
Aukatíma við þrif, óhreinir spenaendar með tilheyrandi smithættu fyrir kýrnar og ótal fleiri atriði mætti nefna sem tengjast óhreinum spenum. Ef fleiri en 5% af kúnum eru með spena og spenaenda sem eru óhreinir þá er eitthvað að legusvæðum eða gangsvæðum kúnna eða umönnun kúnna er ábótavant s.s. varðandi klippingu, notkun á undirburði, hreinsun legusvæða o.þ.h. Hér geta verið margar skýringar sem valda því að kýrnar koma ekki hreinar til mjalta og því þarf hver og einn að meta stöðuna á sínu búi og finna sína leið.
 
Séu margar kýr mjólkaðar er mikill kostur að geta skipt þeim niður í hópa eftir því hvort þær þurfi sérstaka athygli og tíma eða ekki. Þeir sem nota mjaltaþjóna þekkja vel velferðarsvæðin sem nýtast fyrir þær kýr sem þurfa sérstaka athygli en þar sem notuð er hefðbundin mjaltatækni er kostur t.d. að mjólka sérstaklega kýr sem fara í fötu, seigmjólkandi eða eru „vandræðagripir“. Séu þessar kýr hafðar saman í hóp, þá ganga mjaltirnar á hinum kúnum miklu betur og fyrr fyrir sig.
 
2. Góð mjaltatæki
 
Á mörgum kúabúum má vafalaust finna tæknilegar stillingar mjaltatækjanna sem má bæta svo mjaltirnar gangi vel fyrir sig. Þetta geta verið atriði eins og hvenær tækin fara af kúnum eftir mjaltir, soghæð, stillingar sogskipta og margt fleira mætti nefna. 
 
Það skiptir auðvitað höfuðmáli að mjaltatæknin virki rétt á hverjum tíma og sé rétt stillt. Þess utan er mikilvægt að nota rétt spenagúmmí fyrir þá hjörð sem er verið að mjólka og miðað við þær kröfur og óskir sem gerðar eru til mjalta á viðkomandi kúabúi. Þetta á auðvitað við bæði á kúabúum með hefðbundna mjaltatækni og þar sem mjaltaþjónar eru notaðir.
 
3. Eins mjaltir
 
Ef það er eitthvað sem kúm líkar vel við þá er það reglusemi í kringum mjaltirnar. Eins framkvæmdar mjaltir, óháð því hver mjólkar, er nokkuð sem fellur kúm best. Þessa „kröfu“ kúnna er auðvitað auðveldara að uppfylla með mjaltaþjóni en þar sem mjólkað er með hefðbundnum hætti enda vinna mjaltaþjónar alltaf eins. 
 
Á hinum búunum þarf á móti að setja sér fastar reglur varðandi mjaltirnar og sérstaklega varðandi undirbúning kúnna og hvernig tækin eru sett á kýrnar, en þessir þættir eru oftast breytilegir á milli einstaklinga þar sem ekki er nógu gott skipulag á mjöltunum. Rétt er að taka skýrt fram að maður nær ekki hagkvæmari mjöltum bara með því að vera fljótur að setja tækin á kúna heldur með því að vera með gott skipulag á mjöltunum og gott verklag við mjaltirnar.
 
Það er með öðrum orðum gríðarlega mikilvægt að staðla vinnubrögðin við mjaltirnar og það er langeinfaldast að gera með því að skrifa niður lýsingu á því hvernig á að mjólka. „Hér mjólkum við svona“ gæti leiðbeiningin kallast og svo er þar skrifað niður hvernig á að standa að mjöltum og það niður í minnstu smáatriði eins og t.d. hve oft og hvernig hver speni og spenaendi er þrifinn, hve langan tíma á að nota í að örva kýrnar fyrir mjaltir, í hvaða röð spenahylkin eru sett á kýrnar osfrv. Sumum kann að finnast þetta hálf undarlegt, en tilfellið er að sé þetta gert þá skilar það árangri og stöðugleika við mjaltirnar. Hér skiptir t.d. miklu máli að kýrnar upplifi undirbúning mjaltanna eins, óháð þeim sem mjólkar og að það líði alltaf sami tími frá upphafi undirbúnings kúnna fyrir mjaltir og til þess tíma er tækin eru sett á.
 
Ef til stendur að gera svona skriflega lýsingu hefur okkur reynst best að taka myndir af verkferlunum og prenta svo út með skriflegum leiðbeiningum með. Þetta gerir lýsinguna á vinnunni við mjaltirnar skýrari.
 
4. Umferð kúnna
 
Kúm á að líða vel þegar þær eru mjólkaðar og þær eiga að geta treyst því að þegar þær mjólkast þá geti þær verið öruggar og afslappaðar og á þetta að sjálfsögðu við um allar gerðir mjaltatækni. Til þess að ná þessari ró kúnna er mikilvægt að öll ytri aðstaða sé í góðu lagi. Þannig séu t.d. bæði inngangar og útgangar frá mjaltaaðstöðunni rúmgóðir, kúnum sé ekki ætlað að ganga á hálu gólfi. Þeim sé ekki ætlað að ganga um mishæðir eða tröppur, göngusvæðin séu björt og vel upplýst. Að það sé hljóðlátt við mjaltirnar og að hróp og köll séu ekki viðhöfð á mjaltasvæði. Að þeim sé ekki ætlað að taka krappar beygjur og ekki ganga um mörg ólík hlið til þess að komast til eða frá mjöltunum. Rólegar kýr selja betur og bæta hagkvæmni mjaltanna umfram hinar sem eru stressaðar vegna illa hannaðs umhverfis.
 
Það getur verið góð aðferð að bóndinn gangi sjálfur sömu leið og hann ætlar kúm sínum að ganga til og frá mjöltum. Skoðaðu leiðina og settu þig í spor þunglamalegs dýrs sem sér auk þess ekki sérlega vel. Er eitthvað á leiðinni sem gæti truflað ferðina og ef svo er, er hægt að bæta úr?
 
5. Lykiltölur hagkvæmra mjalta
 
Síðast en ekki síst þarf hver kúabóndi að meta eigin mjaltir og skoða eigin gögn til þess að geta lært af eigin reynslu og bætt hagkvæmnina. 
 
Flest mjaltakerfi eru nú til dags með einhverskonar tölvubúnað sem geta gefið margskonar upplýsingar um mjaltirnar. 
 
Skrifaðu hjá þér nokkrar lykiltölur þinna mjalta og settu á tússtöflu upp á vegg. 
Skoðaðu svo sömu tölur einu sinni í viku og notaðu reynsluna til þess að bæta árangur þinn og þinna kúa. Þetta skiptir verulegu máli og sér í lagi ef gerðar eru einhverjar breytingar t.d. á tæknilegum stillingum, skipt um spenagúmmí, breytt einhverju í umhverfi kúnna o.s.frv. 
 
Eigi að meta raunveruleg áhrif þess að gerðar séu breytingar, þá þarf að hafa eitthvað viðmið til þess að bera niðurstöðurnar við. Eins og áður segir er ekki auðvelt að bera saman tölur á milli búa þar sem breytileikinn er svo mikill og þess vegna er best að skoða eigin tölur.
 
Framansögðu til viðbótar má benda á greinina „Aukin afköst við mjaltir“ sem birtist í 4. tbl. Bændablaðsins á þessu ári en í þeirri grein er einnig bent á ýmsar leiðir til þess að auka hagkvæmni mjaltanna.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...