Hagnýtur upplýsingavefur fyrir viðskipti með líflömb
Sara María Ásgeirsdóttir, nemi á öðru ári í búfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, vann lokaverkefni sem fólst í því að búa til vef með yfirliti yfir þau sauðfjárbú sem hafa leyfi til að selja líflömb.
Þar koma einnig fram ýmsar upplýsingar fyrir hvert og eitt; til dæmis sláturupplýsingar síðasta árs, gerð, fita og fallþungi – og útlitseinkenni fjárins.
Vantar fleiri bú
Sara segist vonast eftir að fleiri bú komi inn í verkefnið, en könnun sem hún gerði áður en hún hóf vinnu við það gaf til kynna að bændur væru áhugasamir.
„Áður en ég byrjaði að vinna í þessu setti ég inn könnun inn á Facebook-hóp fyrir sauðfjárbændur til að athuga áhugann fyrir svona vef. Viðbrögðin voru þó nokkur og svöruðu þar um 30 sölubændur sem sögðust hafa áhuga á að taka þátt og rúmlega 170 kaupendur.
Þrátt fyrir þennan áhuga hafa einungis 11 bændur sent mér upplýsingar og vilja taka þátt, þannig að eftir eru 126 söluaðilar sem ekki hafa haft samband.“
Tímafrekt að afla sér upplýsinga
Alls hafa 137 bú í fjórum sauðfjárveikihólfum leyfi til sölu á líflömbum í dag, samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun.
Að sögn Söru segir það sig sjálft að fyrir þá sem þekkja lítið til slíkra viðskipta, tekur talsverðan tíma að afla sér upplýsinga um búin með því að hafa samband við hvert og eitt – og það sé einmitt kveikjan að verkefninu.
Slík var einmitt raunin með hana og mann hennar, Gest Má Þorsteinsson, þegar þau tóku við sauðfjárbúi foreldra hennar á Hóli í Lýtingsstaðahreppi árið 2018.
Nýtt blóð í stofninn
„Okkur langaði til að koma með nýtt blóð inn í stofninn og kynbæta eftir okkar sérvisku. Þá komst ég að því að einu upplýsingarnar sem hægt var að nálgast um sölubúin voru einungis nöfn bændanna og heimilisfang og svo ýmist símanúmer eða netfang til að hafa samband.
Þá kviknaði sú hugmynd hjá mér að hafa þetta allt aðgengilegt á einni heimasíðu þar sem væri hægt að kynna sér búin og hafa svo samband við bændurna í framhaldi ef áhugi er fyrir að kaupa,“ segir Sara.
Verkefnið hafi aðallega falist í því að hafa samband við alla bændurna sem eru með söluleyfi og bjóða þeim þátttöku.
„Sendur var tölvupóstur á alla á listanum, sett innlegg inn á Facebook-hópa fyrir sauðfjárbændur og einnig fóru nokkrar kvöldstundir í að hringja í bændur af listanum. Það sem bændurnir þurftu að gera til að taka þátt var að senda mér þær upplýsingar í tölvupósti sem þeir vildu hafa á síðunni umsínbúogégsásvoumað færa þær inn á heimasíðuna.“
Sláturupplýsingar og lífdómar
Hjá hverju búi eru, sem fyrr segir, ýmsar hagnýtar upplýsingar við val á líflömbum, eins og sláturupplýsingar síðasta árs, gerð, fita og fallþungi.
„Einnig er talsvert um að meðaltal lífdóma síðasta árs sé tilgreint, hvort stofninn sé hyrntur eða kollóttur, litafjölbreytileiki og svo eru nokkrir sem létu vel valdar myndir fylgja með sem gerir þetta enn þá skemmtilegra,“ segir Sara, sem sá sjálf um að hanna og setja vefinn upp.
Vefurinn aðgengilegur öllum
Vefurinn er í rauninni klár og er aðgengilegur öllum á liflomb.123. is. En ekkert mál er að bæta við búum og þurfa bændur þá einungis að setja sig í samband við mig og óska eftir því. Bæjunum sem hafa fallist á þátttöku er skipt niður á varnarhólfin sem þau eru í. „Þegar upplýsingarnar eru orðnar svona aðgengilegar og allar á sama stað, ímynda ég mér að kaupendur eigi auðveldara með að taka ákvörðun um hvar þeir vilji versla sér líflömb eftir því hvað þeir vilja kynbæta og leggja áherslur á í sínum stofni, til dæmis gerð, frjósemi, liti, hornafar og svo framvegis.“