Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Haustgróðursetning trjágróðurs
Á faglegum nótum 9. október 2014

Haustgróðursetning trjágróðurs

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Nú haustar að. Tré og runnar hafa lokið sumarvexti og komin í það ástand að flytja sumaraflann niður í rætur. Við það tekur rótarvöxtur við sér. Þetta er tíminn þegar rótarvöxtur trjágróðurs er í hámarki.

Þess vegna er haustgróðursetning trjáa og runna afar heppileg aðgerð. Plönturnar ná fljótar að festa rætur og verða mun betur búnar undir vöxt næsta sumars og nýta komandi vaxtartíma til meiri fullnustu heldur en þær sem settar eru niður að vori til. Í þokkabót fær garðræktandinn rýmra svigrúm til annarra vorverka í garðinum og losnar við áhyggjur af þurrki og vorhretum á nýgróðursett tré.

Tíminn til að gróðursetja tré að hausti er frá lokum ágústmánaðar og eiginlega allur veturinn, svo framarlega að mold sé það þíð að hægt sé að stinga upp plöntur og grafa holur með handverkfærum. Besti tíminn er samt upp úr miðjum september og út október meðan moldin hefur enn í sér megnið af sumarylnum. Jafnvel lengur þegar aðstæður leyfa og frost hefur ekki hlaupið í jörð. Hér fjalla ég um gróðursetningu í görðum eða ræktuðu landi. Við gróðursetningu skógarplantna er beitt öðru verklagi og viðmiðunum sem betra er að kynna sér í þeim skógræktarleiðbeiningum sem finna má í skógræktarlesmáli á vefnum og í bókum og bæklingum.

Ýmislegt þarf að hafa í huga þegar gróðursetning trjágróðurs er á dagskránni. Í fyrsta lagi er það jarðvinnslan og það umhverfi sem plöntunum er ætlað að vaxa í til frambúðar. Jarðvinnslan er fyrst og fremst „holan“ fyrir tréð. Hér áður fyrr, og þess gætir reyndar enn, var reiknað með að grafa sextíu til áttatíu sentímetra djúpan „brunn“ til að koma plöntuhnausunum fyrir. Oft var holan ekki mikið víðari en dýptin.

Gjarna var hún fyllt í botninn með gömlum búfjáráburði sem hulinn var með þunnu moldarlagi áður en hnausnum var komið fyrir. Þegar um aspir var að ræða þótti líka tilhlýðilegt að „sökkva“ rótarhálsinum um tuttugu og jafnvel þrjátíu sentímetrum dýpra niður í moldina en trén stóðu áður í gróðrarstöð eða uppeldisreit. Þetta átti að skorða plöntuna betur og fá aspirnar til að skjóta úr nýjum rótum á bolnum ofan við hinn upprunalega rótarháls.

En mikið hefur verið rannsakað undanfarið hvernig best sé að gróðursetja tré. Einkum hvað beri að varast. Djúpar, þröngar holur í óunninn jarðveg valda því að trén eru lengur að senda rætur út til hliðanna og hafa tilhneigingu til að kúldrast í holu sinni líkt og tappi í flösku, og þess vegna hættara við stormfalli í stórviðrum. Að setja tré dýpra niður en þau stóðu í gróðrarstöðinni, þ.e. að sökkva rótarhálsinum, veldur því að trén tapa toppleiðaranum svo að hliðargreinar ofarlega á bolnum byrja að berjast um að taka stöðu hans. Við það missa trén sitt eðlilega vaxtarlag og þegar lengra dregur fram er hætta á að kjarnaviðurinn fari að fúna, þannig að trén verða smátt og smátt hol að innan.

Í nágrannalöndunum hallast menn nú frekar að því að stinga upp nokkuð góðan hring þar sem tré eiga að standa. Þvermál hringsins er haft tveir metrar eða meira eftir stærð trésins. Dýptin er ekki höfð meiri en tvær skófludýptir. Moldin síðan vel losuð í sundur og í hana jafnvel bætt dálitlu af grófum sandi, ef jarðvegurinn er mjög þéttur, og lífrænum massa eins og moltu eða gömlum, vel brunnum búfjáráburði til að hvetja örverulífið. Í miðju þessarar kringlu er svo gerð grunn gróp allan hringinn með örlítilli upphækkun í miðjunni. Þeim megin við þessa upphækkun sem ríkjandi vindátt kemur úr er rekinn niður staur sem látinn er ná rembingsfast og vel niður í óhreyft jarðvegslag neðan við holuna.

Því næst er tréð sett með rótarhnausinn ofan á miðjubinginn og greitt úr rótunum til allra hliða. Ef um pottaræktaðar plöntur er að ræða er reynt að greiða úr rótunum eins og hægt er. Hafi ræturnar myndað hringvöxt í pottinum þarf oft að klippa á þær til að binda endi á hringvöxtinn og beina rótarvextinum til hliðar. Að þessu búnu er fyllt á með moldinni sem í kring er og þess er gætt að rótarhálsinn færist ekki í kaf. Moldinni er þjappað þéttingsfast milli rótanna, vökvað og rakað þannig að tréð standi í ögn upphækkuðum bing. Ofan á þennan bing er svo gott að hreykja moltu eða vel brunnu taði. Svæðinu er haldið graslausu næstu árin en þarna má gróðursetja blómplöntur sem þekja jarðveginn og hindra grasvöxt.

Tréð þarf að festa við staurinn með breiðu bandi sem öruggt er að ekki særi börkinn. Bandinu er brugðið í „áttu“ (∞) þannig að það krossleggist á milli bols og staurs og síðan er það fest við staurinn. Uppristar hjólbarðaslöngur eða aflagðar nælonsokkabuxur henta ágætlega, en svo má kaupa sérstök bönd sem ætluð eru til þessara nota. Bandið á ekki að geta runnið til á bolnum en það á að gefa aðeins eftir þegar vindurinn gnauðar á. Staurinn þarf ekki að vera lengri en svo að hann haldi rótarsvæðinu tryggilega föstu í jarðveginum. Hann á ekki að bera tréð sjálft uppi. Þegar um grenitegundir með hnaus er að ræða er hægt að setja grófa möl í netpoka (kartöflupoka) og leggja ofan á hnausinn í stað staurs til að fergja ræturnar og halda þeim föstum.

Að gróðursetja tré á þennan hátt tryggir að trén fái gott loftflæði niður í rótarkrónuna og fyrirbyggir að þau standi í vatnsósa jarðvegi. Í raun á þessi aðferð líka við um runnagróður nema að runna er í góðu lagi að setja nokkru dýpra en þeir stóðu í uppeldinu.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...