Heimsókn í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum og Hólsgerði í Eyjafirði
Árlega hittast þátttakendur og leiðbeinendur í Loftslagsvænum landbúnaði á einhverju þátttökubúanna. Þetta er mikilvægur þáttur í verkefninu þar sem bændur læra hver af öðrum og fá fræðslu frá ráðgjöfum um þætti sem geta haft áhrif á búreksturinn.
Í sumar buðu Aðalbjörg Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson þátttakendum í heimsókn að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum og Sigríður Bjarnadóttir og Brynjar Skúlason gerðu slíkt hið sama í Hólsgerði í Eyjafirði. Þátttakendur velja á hvorn staðinn þeir mæta, eftir því sem hentar betur hvað varðar staðsetningu og tímasetningu.
Loftslagsvænn landbúnaður
Loftslagsvænn landbúnaður er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Lands og skógar, matvælaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Markmið hans er að auka þekkingu bænda á loftslags- og um- hverfismálum, með fræðslu og ráðgjöf. Bændur setja sér markmið og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og vegna landnýtingar, ásamt því að auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Í verkefninu eru nú 56 þátttökubú í sauðfjárrækt, nautgriparækt og nú í haust bættust við grænmetisbændur sem stunda útiræktun grænmetis. Í loftslagsvænum landbúnaði er leitast við að minnka kolefnissporið samhliða því að hagræða í rekstri.
Stóra-Mörk undir Eyjafjöllum
Í Stóru-Mörk er búið með nautgripi, bæði til mjólkur- og kjötframleiðslu en einnig með sauðfé og enn fremur er þar rekin ferðaþjónusta. Bændurnir þar hafa verið þátttakendur í Loftslagsvænum landbúnaði frá árinu 2020 og unnið að markmiðum sem m.a. miða að því að minnka notkun tilbúins áburðar án þess að skerða magn uppskeru og fóðurgæði, sá niturbindandi plöntum í allar nýræktir á búinu og minnka olíunotkun.
Í Stóru-Mörk er unnið mjög öflugt landgræðslustarf og hlutu þau sem þar búa m.a. landgræðsluverðlaunin 2021. Þau hafa markvisst unnið að því að bæta ástand illa gróins lands og nú er markmið þeirra að endurheimta birkiskóg á Merkurnesi.
Dagurinn byrjaði á því að Aðalbjörg og Eyvindur sögðu frá búrekstrinum, sögu bæjarins og þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir í sínum rekstri. Þau hafa nýverið sameinað jarðirnar og reksturinn í Stóru-Mörk I og III. Þau hafa verið mjög öflug í uppgræðslu og Stóra- Mörk er eitt af fáum búum sem hefur verið í verkefninu Bændur græða landið frá upphafi. Fyrir hádegi var mikil áhersla lögð á túnrækt og uppgræðslu, hvað hægt sé að gera til þess að auka og bæta uppskeru. Ráðunautar lögðu m.a. áherslu á að bændur taki jarðvegssýni til þess að þekkja samsetningu og sýrustig jarðvegarins, velji rétt yrki og noti smára til þess að auka niturbindingu í jarðveginum.
Eftir hádegi var Símonarskógur í landi Dalssels skoðaður þar sem skógræktarfulltrúi sýndi umhirðu í nýskógrækt, m.a. snyrtingu og toppaklippingar.
Síðan var farið á Geitasand á Rangárvöllum þar sem fjallað var um áhrif ólíkra tegunda og samsetningar af lífrænum áburði á uppgræðslu, en þar eru í gangi tilraunir þar sem borin eru saman áhrif mismunandi lífrænna efna á gróðurframvindu á rýrum mel.
Hólsgerði í Eyjafirði
Í Hólsgerði er rekið sauðfjárbú og þar er þess utan mjög mikil áhersla lögð á skógrækt, þá sérstaklega nytjaskógrækt en einnig eru skjólbelti mikið notuð til þess að skýla búfé og ræktarlandi.
Frá því að Sigríður og Brynjar fluttu í Hólsgerði hefur fjölskyldan verið samhent í að rækta skóg, en skógræktarsvæðið var að hluta frekar rýrt og illa farið vegna ofbeitar en er nú skógi vaxið. Þau hafa verið þátttakendur í Loftslagsvænum landbúnaði frá árinu 2020. Þau hafa m.a. sett sér markmið um bætta nýtingu á búfjáráburði, ræktun smára í túnum og fara sparlega með olíu ásamt því að auka afurðir með góðri frjósemi og beit.
Í Eyjafirði byrjaði dagurinn með heimsókn í jarðgerðarstöðina Moltu þar sem Kristján Ólafsson framkvæmdastjóri og Hermann Ingi Gunnarsson, sem hefur mikla reynslu og þekkingu af notkun moltu í túnrækt, sýndu hópnum framleiðsluferlið og ræddu um notkun moltunnar.
Þegar komið var í Hólsgerði tóku Brynjar og Sigríður á móti hópnum og buðu upp á ketilkaffi á meðan þau sögðu frá bænum, sögu hans, rekstri og umhverfis- og loftslagsaðgerðum. Brynjar er menntaður skógfræðingur og hefur mikla þekkingu ásamt reynslu af skógrækt, sem hann miðlaði til þátttakenda. Hann kynnti allt ferli skógræktar, s.s. gróðursetningu, áburðargjöf, umhirðu og nýtingu skógarafurða, en þau hjónin eru m.a. að undirbúa að klæða íbúðarhúsið á jörðinni með veggskífum úr trjám sem þau hafa ræktað.