Helstu niðurstöður notendakönnunar og næstu skref
Í tengslum við stefnumótun fyrir skýrsluhaldskerfi Bændasamtakanna var, í byrjun febrúar, send út könnun fyrir notendur Fjárvís.
Könnunin var unnin í samvinnu við fagráð í sauðfjárrækt og miðaði að því að kanna afstöðu notenda til kerfisins og þróun þess til framtíðar.
Uppsetning á könnuninni og þátttaka
Könnunin var sett upp þannig að fyrst voru nokkrar grunnspurningar s.s. bústærð, staðsetning, aldur, kyn og tegund bús. Þar á eftir komu spurningar varðandi notkun og áherslur varðandi þróun á Fjárvís. Sérstaklega var spurt út út í notkun á Lamb Snjallforriti. Könnunin var sett þannig upp að fjöldi spurninga var mismunandi eftir því hvernig menn svöruðu ákveðnum lykilspurningum. Ekki var gerð krafa um svör við öllum spurningum þannig að hægt var að hoppa yfir spurningar, þó langflestir hafi valið að svara öllum spurningum.
Könnunin var auglýst á heimasíðu RML, á samfélagsmiðlum auk þess sem sendur var fjölpóstur í gegnum Bændatorg á skráða notendur Fjárvís. Alls svöruðu 418 notendur könnuninni. Ef það er sett í samhengi við fjölda skráðra notenda eru það rúmlega 25%. Það ber þó að taka fram að ekki er hægt að meta þetta nákvæmlega þar sem eflaust hafa einhverjir nýtt sér það að fleiri en einn aðili gat tekið könnunina í gegnum sama Fjárvís aðgang.
Niðurstöður: Notkun á Fjárvís
Þátttakendur dreifðust nokkuð jafnt yfir landið ef horft er til dreifingu sauðfjárbænda á landinu. Flest búin voru á bilinu 101-300 kindur en heilt yfir var rétt rúmlega helmingur þátttakenda með bústærð stærri en 300 kindur. Flestir þátttakendur voru á aldrinum 51-67 ára en næstflestir á bilinu 31-50 ára. Rúmlega 9% þátttakenda voru yngri en 30 ára og tæplega 10% voru eldri en 67 ára. Fleiri karlar en konur tóku þátt og rétt rúmlega helmingur búanna hafði ekki tekjur af annarri atvinnustarfsemi á búinu.
Almennt voru þátttakendur á því að Fjárvís væri einfalt í notkun, eða 88% af þeim sem svöruðu þeirri spurningu. Þeir sem töldu Fjárvís flókið og ónotendavænt nefndu helstu ástæður fyrir því að kerfið væri þungt í notkun og/eða að uppsetningin á því væri flókin.
Hvað varðar notkun á einstökum hlutum Fjárvís þá var mest notkun í kringum haustupplýsingar og úrvinnslu úr þeim, s.s. að lesa inn sláturupplýsingar, skrá lífþunga lamba og dóma á haustin og vinna úr þeim strax með því að nýta sér kjötmatsskýrslur og önnur sambærileg yfirlit þar sem bornir eru saman hrútarnir á búinu, en mikill meirihluti þátttakenda merkti við þessa þætti. Minni áhersla virðist vera á að skoða skýrslur þar sem verið er að bera saman t.d. hrúta innan fjárræktarfélags eða afurðir innan fjárræktarfélags, eða á landsvísu. Þess ber þó að geta að almennt virðist sá hópur sem tók þátt í könnuninni vera nokkuð virkur notendahópur Fjárvís því einungis 30% af þátttakendunum sögðust eingöngu nota Fjárvís til að skila vor- og haustbók en að jafnaði virtist a.m.k helmingur þátttakenda vera að nota meirihluta skráningar- og skýrslumöguleika, þó í mismiklum mæli. Langflestir töldu Fjárvís vera mjög mikilvægt, bæði sem bústjórnartæki og sem hjálpartæki í ræktunarstarfinu.
Áherslur í þróun
Þegar kom að spurningum er sneru að áherslum í þróun þá höfðu þátttakendur nokkuð skýra sýn á hvert stefna ætti. Meirihluti þátttakenda taldi mikilvægast að leggja áherslu á að hægt væri að vinna í Fjárvís í gegnum snjalltæki. Almennt töldu menn einnig mikilvægt að Fjárvís gæti unnið með jaðartækjum (s.s. örmerkjalesurum), væri einfaldað í notkun og að lögð væri áhersla á frekari gagnasöfnun.
Fæstir völdu þann möguleika að auka ætti framboð af skýrslum og úttektum. Margir völdu að skila inn frjálsu svari er kom að áherslum í þróun og studdu þau svör við niðurstöður úr fyrri spurningum hvað varðar notkun á snjalltækjum og tengingu við örmerkjalesara þannig að Fjárvís væri skilvirkara vinnutæki í fjárhúsunum bæði til skráningar og úrvinnslu. Mjög margir nefndu líka einföldun á ákveðnum skráningarþáttum, þá kom lyfja- og sjúkdómaskráning oftast upp.
Notkun á Lamb Snjallforriti
Eins og áður hefur komið fram var spurt um notkun á Lamb Snjallforriti. Af þeim sem svöruðu könnuninni voru 40 sem sögðust vera notendur að Lamb Snjallforriti eða tæplega 10% af þátttakendum. Rúmlega 11% þátttakenda sögðust hins vegar hafa prófað Lamb Snjallforrit en væru ekki lengur notendur, flestir gáfu upp þá ástæðu að þeir teldu forritið ekki hafa nýst sér sem skyldi. Notendur Lamb Snjallforrits voru langoftast að nýta sér pörun við örmerki, skráningu á sauðburði og þungaskráningu á haustin og nefndu þá jafnframt þessa þætti sem helstu kosti við forritið.
Næstu skref
Út frá niðurstöðum notenda könnunar Fjárvís má draga þá ályktun að sauðfjárbændur kalli sterkt eftir því að Fjárvís þróist úr því að vera fyrst og fremst skráningarkerfi yfir í að vera verkfæri sem bændur geta notað sem vinnutæki við dagleg störf með notkun í gegnum snjalltæki og með samskiptum við jaðartæki s.s. örmerkjalesara. Sú krafa kemur sterkast fram hjá yngri bændum á stærri búum.
Sú útgáfa af Fjárvís sem notendur vinna með í dag var opnuð í mars árið 2015. Forritið eins og það er í dag er barn síns tíma og hefur ekki náð að fylgja eftir þeirri þróun sem hefur orðið t.d. í því hugbúnaðarumhverfi sem Fjárvís er forritað í. Tíð mannaskipti á forriturum sem unnið hafa að Fjárvís hefur einnig gert það að verkum að ekki hefur náðst nægjanlega góð samfella í þróun á forritinu. Fyrir ári síðan var samið við Stefnu hugbúnaðarhús um vinnu við Fjárvís, fyrst til reynslu en síðan til áframhaldandi vinnu við skýrsluhaldskerfið í ljósi þess frábæra árangurs sem sú vinna hefur skilað. Á síðasta ári var lögð áhersla á það að klára ýmis verkefni sem hafa setið á hakanum í lengri eða skemmri tíma. Einnig var lögð mikil vinna í að geta lesið inn arfgerðagreiningar úr átaksverkefnum í riðuarfgerða- greiningum inn í Fjárvís og að gera notendum kleift að vinna með þær. Nú í byrjun þessa árs var áhersla lögð á að aðlaga kerfið að nýjungum í vinnslu kynbótamats og birtingar á þeim. Það er hins vegar ljóst að nauðsynlegt er að fara í uppfærslu á kerfinu áður en lagt er í frekari vinnu við þróun. Því verður lögð áhersla á það næstu vikur að uppfæra forritunarmál Fjárvís. Það þýðir að öll nýsmíði verður tímabundið lögð til hliðar. Sem dæmi um það má nefna að ný útgáfa af vorbókum verður að bíða þar til uppfærsla hefur verið gerð þannig að nýjar vorbækur koma ekki núna heldur fyrir árið 2024.
Það er auðvitað leiðinlegt að þurfa að láta löngu tímabærar breytingar bíða örlítið lengur en áætlað var en á hinn bóginn mun uppfærsla á Fjárvís í nýjasta hugbúnaðarumhverfi gefa okkur möguleika á að gera ýmsa hluti sem ekki eru mögulegir í Fjárvís eins og það er í dag, s.s. að gera Fjárvís skalanlegt í snjalltæki og að gera það sveigjanlegra að kröfum um aukna gagnaöflun, og nútímalegri framsetningu. Þess ber einnig að geta að síðustu mánuði hefur verið unnið markvisst að því að koma á virkum samskiptum við jaðartæki, s.s. örmerkjalesara, til að koma til móts við þá sauðfjárbændur sem nýta sér þá tækni.
Við viljum að lokum þakka þeim notendum Fjárvís sem tóku þátt í könnuninni fyrir sitt framlag. Það er gríðarlega mikilvægt að fá að heyra sjónarmið ykkar hvað varðar framtíð í þróun Fjárvís. Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi helstu niðurstöður úr könnuninni en auðvitað kom ýmislegt annað fram sem að sjálfsögðu verður tekið með í hugmyndabankann fyrir framtíðarþróun á Fjárvís. Þess ber einni að geta að margt kom fram í könnuninni sem snerti breiðara svið en forritið sjálft, t.d. áherslur í ræktunarstarfi. Þeim athugasemdum og tillögum hefur verið komið áfram til þeirra sem vinna að þeim verkefnum.
Stefnt verður að því að gera sambærilegar notendakannanir fyrir Huppu og Jörð í vor og í sumar þannig að notendur þeirra forrita fái einnig tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi áframhaldandi þróun skýrsluhaldsforritanna.