Hin víðfeðma víðiættkvísl
Frá nyrstu ströndum Norðurhjarans og niður til sígrænna skóga SA-Asíu og Mexíkó má finna fulltrúa víðiættkvíslarinnar, Salix. Sem svo aftur, ásamt öspum og kesjum teljast til víðiættbálksins, Saliceae, innan hinnar eiginlegu Víðiættar, Salicaceae, sem svo innifelur um hálfan sjötta tug annarra ættkvísla.
Hið latneska ættkvíslarheiti útleggst eiginlega „undanfari“, „sá sem alltaf er á undan“ eða „sá sem hleypur alla af sér“. Norræna víðisheitið er skylt orðinu viðjar, þ.e. „það sem bindur saman og heldur í skefjum“.
Tegundafjöldi á reiki
Til víðiættkvíslarinnar teljast eitthvað á milli 450 til 650 tegundir, allt eftir því hvernig eða hvaða grasafræðingar skilgreina. Og verið er að reyna að koma einhverju skikki á að flokka ættkvíslina kerfisbundið niður í mismunandi hópa eftir erfðaupplagi og eiginleikum. En engin niðurstaða hefur fengist í þeim efnum. Alltaf kemur eitthvað uppá sem slær allt út af laginu sem á undan hefur verið gert, því víðitegundirnar virða ekkert velsæmi og æxlast hver með annarri eins og ekkert sé, þannig að sífellt eru að koma fram nýir kynblendingar, sem stundum verða að sjálfstæðum tegundum og erfðaefnið rótast fram og til baka eins og sandur í brimróti. Erfitt er að halda skýru yfirliti við slíkar aðstæður, svo að líklega er best að vera ekki mikið að velta fyrir sér þröngum skilgreiningum á víðislektinu vilji menn halda sönsum.
Grasvíðir á köldum klaka
Engin ættkvísl trjágróðurs hefur tileinkað sér jafn margbreytilega og mismunandi vaxtarstaði og víðiættkvíslin. Um allt Ísland vex hinn lágvaxni grasvíðir, Salix herbacea, sem einnig kallast smjörvíðir eða smjörlauf. Kjörlendi hans eru kargir melkragar og deigar flesjur, snjódældir, mýrakollar og mólendi frá sjávarmáli og upp til hæstu fjalla. Hann er jarðlægur og oftast, í fljótu bragði, lítið áberandi í landslaginu. En þegar að er gáð setur hann nú samt svip sinn á íslenska sumarlandið með áberandi rauðum kvenreklum og á haustin verður hann skærgulur.
Grasvíðirinn vex um allt Norðurhvel, jafnt í háfjöllum Norður-Ameríku sem fjallaklösum Evrasíu. Engin önnur trjátegund hefur jafn víðáttumikla útbreiðslu eða skiptir meira máli fyrir beit villifjár, gemsa og steingeita, sem elta hann upp til hæstu fjallatinda. Og hann þolir beitina vel, því skepnurnar lesa bara í sig blöðin en greinarnar mara því sem næst í hálfu kafi, jarðfastar í þeim jarðvegi sem þeim hefur tekist að tylla sér í.
Roðavíðir í sól og sumaryl
Og svo farið sé öfganna á milli, þá er hinn suðræni roðavíðir, Salix tetrasperma, (á kínversku „fjögurra sona víðir“) sem uppruna sinn á við bakka fljótanna sem renna um Indlandsskaga ágæt andstæða grasvíðisins. Hann verður státlegt tré sem heldur sínum grænu, lensulaga laufum milli monsúntímabilanna og vex afar hratt í hlýju loftslaginu. Eins og flestum öðrum víðitegundum er auðvelt að fjölga honum með græðlingum. Þess vegna er hann mikið ræktaður og skilar góðu timbri á örfáum árum. Hæðarvöxtur roðavíðisins er um tveir metrar á ári og hann nær því um fjögurra til sex metra hæð á tveim til þrem árum.
Við 15 til 20 metra hæð dregur úr hæðarvextinum. Árhringirnir, þ.e. gildnunin af vor og haustvextinum, eru að meðaltali um 2 til 3 sentímetrar á þykkt. Í þéttbýlum löndum þar sem lítið er orðið eftir af skógunum sem upphaflega þjónuðu þjóðunum sem þau byggðu, skiptir roðavíðirinn miklu máli vegna þess hve hratt hann vex og hversu timbur hans má nota á marga vegu. Allt frá húsbyggingum, amboðum og áhöldum eða til eldiviðar. Viðurinn er rauðleitur, þar af nafnið, og þjáll til smíða. Hann endist furðu vel af víðiviði að vera ef loft leikur um hann.
Steinaldarfólk og landnámsmenn
Fyrir frumbyggja Vestur- og Norður-Evrópu skipti víðirinn miklu máli. Eftir því sem ísaldarjökullinn hopaði skriðu víðitegundirnar norður með jökulsporðinum. Með þeim fylgdu veiðidýr og úr víðigreinum mátti gera flest sem þurfti til að reisa nýjar byggðir. Úr leir og víðigreinum byggðu menn sér íveruhús.
Víðigreinar voru notaðar til að reisa kvíar og varnargerði fyrir búfénaðinn. Úr víðitágum mátti gera körfur, gildrur, reipi og jafnvel net. Svo var víðirinn auðfenginn eldiviður.
Viðibörkur og víðilauf voru sítiltækur lyfjaskápur sem sækja mátti í til að lækna með sár, verki og annan vesaldóm. Víðireklar voru kærkomnir vorboðar og vítamíntilskot. Þeir eru sætir og nærandi grænmeti þann tíma sem þeir bjóðast og skipta enn máli fyrir frumbyggjaþjóðir á norðurslóðum beggja vegna úthafanna.
Víðir mun líka hafa verið einhvers virði á Íslandi framan af landnámstíð ef marka má frásögn Flóamannasögu af viðskiptum Hrafns Þorviðarsonar og Atla Hallsteinssonar vegna viðarhöggs í „Víðiskógi“. Það er örnefni og mun hafa staðið hér rétt austan og sunnan við mig í Flóanum. Átökum þeirra í Orustudal lyktaði með falli Atla, en heimildir hvað um Víðiskóg varð síðan þrýtur þar í sögunni.
Pálmar á Íslandi
Eigi þessi saga við rök að styðjast hefur víðiskógurinn í Flóanum fyrst og fremst verið gulvíðir. Gulvíðirinn, Salix phylicifolia, er stórvaxnastur íslensku víðitegundanna fjögurra og sá eini þeirra sem getur myndað hávaxið stóð. Víða er hann mjög áberandi í landslagi á stórum svæðum, einkum á síðustu árum þar sem beit hefur lagst af í úthaga. Varla hefur hann samt verið mikilvægur smíðaviður á tímum Hrafns og Atla, en hann mátti nota sem árefti og til kolagerðar. Kannski hafa hagleiksmenn líka geta gert úr honum smáhluti, tunnugjarðir, bönd og búsáhöld. Sums staðar, einkum austan lands og norðan, hefur gulvíðirinn verið kallaður pálmavíðir. Líklega hefur það heiti komið inn í íslensku í pápískri tíð og tengt páskaritúölum kirkjunnar. Gulvíðgreinar voru látnar laufgast um páskaleytið og síðan bornar til kirkju sem tákngervingur þeirra pálmagreina sem Kristi var fagnað með á pálmasunnudegi. Í nágrannalöndunum er pálmanafnið einkum notað um viðjuna, en hún óx ekki hér á þeim tíma. Í Færeyjum, sem á Íslandi, er pálmaheitið bundið við gulvíði.
Aðrar íslenskar víðitegundir eru fjallavíðir, Salix arctica, sem er jarðlægur smárunni sem gjarna vex við seytlur á klettasnösum og meðfram lækjarfarvegum. Og loðvíðirinn, Salix lanata, sem líklega flestir þekkja, oft undir heitinu grávíðir, vex við margskonar aðstæður um allt land. Á sandflesjum er hann mikil vörn gegn uppfoki. Fjöldi annarra víðitegunda hefur verið fluttur hingað til lands á undanförnum áratugum. Margar þeirra hafa kunnað það vel við sig að þær hafa sáð sér út og sest að af sjálfsdáðum í íslenska gróðurríkinu. Sem dæmi um þær má nefna alaskavíði, viðju og selju. Allar geta þær orðið að nokkuð státlegum trjám, seljan þó einna helst.
Seljan, Salix caprea, sker sig úr vegna þess að henni er ekki auðvelt að fjölga með græðlingum og tilhneiging hennar er að verða nokkuð bolmikið tré sem getur sem slík náð mun hærri aldri en aðrar víðitegundir á landi hér. Elstu seljutrén hér á landi eru komin nokkuð á níunda áratuginn. Það telst hár aldur þegar víðir á í hlut, því yfirleitt velta víðibolir við fimmtán til tuttugu ára aldur en endurnýjast af nýjum sprotum sem vaxa upp frá rót.
Allra meina bót
Allar víðitegundir eru sérbýlistré, það þýðir að einstaklingarnir eru einkynja og koma annað hvort með karlkyns eða kvenkyns blóm. Blómin eru í reklum sem springa út á vorin, nokkru fyrir laufgun. Frjóvgun á sér fyrst og fremst stað með býflugum og humlum sem sækja í blómin. Víðiblóm skipta því miklu máli fyrir býræktina og það helst venjulega í hendur að víðirinn byrjar að blómgast á þeim tíma sem bý og humlur vakna af vetrardvalanum. Karlreklarnir detta af strax eftir blómgun en kvenreklar þroskast áfram og mynda fræ sem byrjar að „rjúka“ þegar vel er komið fram á sumarið. Þ.e. að fræin fara að svífa um, borin uppi af svifhárum. Viðkoman frá hverri plöntu skiptir milljónum og þekur jörð meira eða minna og safnast fyrir í „sköflum“ þar sem fræin lenda í vindvari. En aðeins brotabrot af þeim nær að vaxa upp í nýja einstaklinga. Fræull víði- og aspategunda kallast kotún. Það orð er, eitt fárra, vitnisburður um keltneskan málarf í íslensku.
En víðitegundir, og reyndar aspir líka, búa yfir öðru leyndarmáli en ofgnótt fræja til að tryggja brautargengi sitt. Hver planta framleiðir og ber í sér hátt magn af víðisýru, öðru nafni salicisýru, sem eflir mótstöðuafl hennar gegn óblíðu umhverfi og sem vörn fyrir afbeit dýra. Víðsýran er beisk og röm en gerir það að verkum að plönturnar spjara sig betur í stressi og er eiginlega þeirra lífselexír. Hún veldur því líka að víðitegundir frá tiltölulega suðlægum slóðum dafna hér betur en vænta hefði mátt vegna uppruna þeirra. Líklega eru gljávíðir og körfuvíðir góð dæmi um þetta hér á landi. Hvorugur þeirra myndi spjara sig hér ef ekki væri fyrir hátt hlutfall af víðisýru í plöntunum. Það er einmitt vegna víðisýrunnar sem víðir hefur verið í miklum metum alþýðulækna. Seyði af víði, uppsuða, smyrsl, bakstrar og tinktúrur lina verki og græða sár. Og mönnum hefur tekist að búa til „gerfi-víðisýru“, sem kallast á apótekaramáli acetylsalici-sýra, og er uppistaðan í aspiríni og magnýltöflum.
Til að örva rótarvöxt græðlinga má gera lög úr hnefafylli af uppspændum víðiberki og láta græðlinga standa í honum yfir nótt áður en þeim er stungið en það flýtir mikið fyrir rætingu þeirra. Vökvun með stöðnu víðiseyði hefur oft geta vakið slappar plöntur til lífsins aftur. – Stundum getur jafnvel mulin og uppleyst magnýltafla gert það sama ef víðir er ekki við höndina!
Surtur að sunnan
En eitt er það kvikindi sem hefur komist uppá að nota víðisýruna sér til varnar. Það er bjöllutegundin asparglytta sem nýlega hefur borist til landsins og veldur því að blöð aspa og víðitegunda sortna þegar líður á sumarið vegna þess að hún hefur sogið úr þeim lífskraftinn. Hún safnar í sig víðisýrunni til að gera sig svo bragðvonda að fuglar eða önnur heppileg rándýr líta ekki við henni. Því fjölgar henni ört hérlendis og er líklega komin vítt um land. Erlendis á hún samt nokkra óvini sem halda henni í skefjum, en þeir hafa enn ekki borist hingað. Það er samt bót í máli að asparglyttan virðist vera nokkuð lofthrædd og fer ekki mikið hærra upp í trjágróðurinn en sem svarar til einni mannhæð eða svo. Hún vinnur því ekki mikið tjón á uppvöxnum trjám og runnum. En getur alveg gert útaf við uppvaxandi ungviði, hvort sem það eru græðlingar, rótarskot eða fræplöntur.