Hvaða áhrif hefur vikuleg blóðsöfnun á blóðhag hryssna?
Síðsumars 2022 hófst rannsókn á áhrifum vikulegrar blóðsöfnunar á blóðhag hryssna.
Rannsóknin var gerð að beiðni matvælaráðuneytis og stýrt af Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Vangaveltur hafa verið uppi um það hvort blóðtaka gangi nærri hryssum í blóðsöfnun, og það hvernig blóðhag þeirra sé háttað. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hver áhrif fimm lítra blóðtöku til vinnslu á eCG hormóni úr blóði, vikulega í allt að átta skipti væru á blóðhag hryssnanna.Í tveimur hópum blóðhryssna af Suður- og Norðurlandi voru tekin vikuleg blóðsýni úr þeim hryssum sem safnað var blóði úr og mæld gildi sem gefa mynd af járnbúskap, blóðmyndun og blóðfrumusamsetningu.
Markmið rannsóknarinnar var að skoða langtímaáhrif, þ.e. hvernig viðbrögðum við vikulegri blóðtöku væri háttað. Einnig var markmið með rannsókninni að kanna hvort það væri munur á blóðhagsgildum hryssna á Suðurlandi og Norðurlandi og hvort viðbrögðin við blóðtapi væru ólík á milli þessara tveggja hópa.
Niðurstöðurnar hafa verið gefnar út í skýrslu til matvælaráðuneytis og tveimur ritrýndum vísindagreinum í alþjóðlegum ritum.
Blóðsýnataka
Tvö blóðtökustóð voru til rannsóknar á 12 vikna tímabili frá júlí til október 2022. Annað stóðið var á Norðurlandi og taldi 72 hryssur, hitt stóðið var á Suðurlandi og taldi 127 hryssur. Samkvæmt viðmiði Ísteka um styrk eCG hormóns í blóði var þó ekki safnað blóði úr öllum hryssunum. Enn fremur voru þær hryssur sem ekki var safnað óslitið úr ásamt þeim sem ekki höfðu skráðan aldur ekki teknar með í tölfræðilegar greiningar. Niðurstöðurnar
byggja því á samtals 160 hryssum. Þeir mæliþættir sem helst gefa mynd af viðbrögðum við blóðtapi eru eftirtaldir:
- RBC, gefur til kynna fjölda rauðfrumna í lítra blóðs
- Hgb, gefur upp styrk blóðrauða (haemoglobin)
- Hct mælir blóðfrumnahlutfall og er einkum notað við mat á blóðleysi hjá hrossum
- MCV gefur til kynna meðalrúmmál/ stærð rauðfrumna
- MCH er meðalgildi blóðrauða í rauðfrumum
- MCHC er meðalstyrkur blóðrauða í rauðfrumum að teknu tilliti til rúmmáls þeirra
- RDW gefur upp dreifni í rauð- frumnastærð í hundraðshlutum (%)
Klínísk viðmið blóðfrumnahlutfalls (Hct) um blóðleysi hafa ekki verið skilgreind fyrir fylfullar hryssur og heldur ekki íslenska hestinn. Þannig var notast við lægsta eðlilega blóðfrumnahlutfall (Hct= 26%) sem mældist í samanburðarsýnum sem tekin voru úr hryssunum áður en blóðsöfnun hófst, og úr hópi ræktunarhryssna sem ekki eru í blóðsöfnun. Vægt blóðleysi var því skilgreint sem Hct milli 24 og 26%, miðlungsblóðleysi sem Hct milli 20 og 24%, og greinilegt blóðleysi sem Hct undir 20%. Við þessa skilgreiningu voru notuð viðmið sem birt voru af Balan o.fl. (2018) fyrir varmblóðshross (ræktunarkyn sem komin eru út af arabískum hrossum). Í þeirri rannsókn voru 101 heilbrigð varmblóðshross með lægsta Hct 34% og 25 heilbrigð kaldblóðshross (þar innan um voru íslenskir hestar) með lægsta blóðfrumnahlutfall 27%. Einungis voru 25 kaldblóðshross til grundvallar þeirri rannsókn en almennt er litið svo á að eðlileg neðri viðmiðunarmörk blóðfrumnahlutfalls hjá kaldblóðshrossum séu 24% (Lording
2008).
Breytingar í meðalgildum blóðhags yfir tímabilið
Þegar meðalgildi blóðhagsmælinga voru skoðuð í báðum stóðum eftir því sem leið á blóðsöfnunartímabilið kom ýmislegt áhugavert í ljós. Í upphafi blóðsöfnunartímabilsins voru gildin svipuð milli stóðanna tveggja. Einni viku eftir fyrstu blóðtöku sást strax lækkun í
rauðfrumnagildunum (RBC, Hct, Hgb) og lækkunin í RBC hélt áfram í vikum 2-4. Áhugavert var að strax í viku 2 sást að Hct og Hgb í stóðinu á Norðurlandi lækkuðu ekki áfram og fóru frekar hækkandi upp úr viku 4. Sömu gildi fóru frekar lækkandi allt tímabilið í stóðinu á Suðurlandi. Ekki er hægt að alhæfa út frá þessum tveimur stóðum í hverju munurinn liggur og ekki er endilega um landshlutamun að ræða. Það er þó nauðsynlegt að rannsaka þætti eins og snefilefni í jarðvegi, fóðri og blóðsýnum fleiri blóðsöfnunarstóða til þess að greina þetta betur.
Sýni voru einnig tekin vikulega tvisvar til þrisvar sinnum eftir að blóðsöfnun var lokið hjá hverri hryssu (endurheimtartími, vikur +2 og +3). Í viku +2 höfðu RBC, Hct og Hgb gildi beggja hópa hækkað talsvert og hækkuðu áfram í viku +3. Meðalgildið fyrir viku +2 byggir á mælingum frá hryssum tveimur vikum eftir síðustu blóðtöku og skiptir þá ekki máli hvort safnað hafði verið tvisvar eða átta sinnum úr hryssunni en blóði var safnað sjö sinnum eða oftar úr flestum hryssum á Norðurlandi og úr um helming frá Suðurlandi. Fjöldi blóðsöfnunarskipta er einstaklingsbundinn og fer eftir því hversu lengi styrkur hormónsins eCG er yfir lágmarki til vinnslu.
Í báðum stóðum höfðu meðalgildi mæliþátta fyrir rauðfrumur náð lægstu eðlilegu viðmiðunargildum tveimur vikum eftir að síðasta blóðsöfnun var gerð en MCV og MCH gildi voru enn hækkuð (stærri rauðfrumur sem innihéldu meiri blóðrauða). Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir á endurmyndun blóðþátta hjá hrossum sem telst hægvirkari en hjá öðrum dýrategundum og getur tekið MCV allt að tólf vikur að ná grunngildum. Mótvægisviðbrögð í báðum hópum fólust á tímabilinu í því að rauðfrumur stækkuðu (hækkað MCV) og innihéldu meiri blóðrauða (hækkað MCH) og voru þessi viðbrögð meira áberandi í stóðinu á Norðurlandi. Hámark þessara gilda náðist í viku 5, en þau héldust þó há út blóðsöfnunartímabilið og endurheimtarvikurnar. Slík hækkun er algeng vísbending um að hross hafi á undanförnum vikum gengið í gegnum blóðtap og brugðist við því.
Blóðhagsmælingar einstaklinga sem benda til blóðleysis
Þegar einstaka mæligildi voru skoðuð hjá þeim 160 hryssum sem teknar voru inn í tölfræði-greininguna kom mikilvægur munur í ljós á milli blóðtökustóðanna tveggja. Engar hryssur á Norðurlandi flokkuðust undir miðlungs eða greinilegt blóðleysi, en fimm töldust vera með vægt blóðleysi einu sinni eða oftar á tímabilinu. Í stóðinu á Suðurlandi voru 28 hryssur með vægt blóðleysi einu sinni eða oftar á tímabilinu. Tvær hryssur voru enn á þessu bili tveimur vikum eftir síðustu blóðtöku. Nokkuð var um miðlungsblóðleysi í stóðinu á Suðurlandi (tólf hryssur) og auk þess var ein rétt undir mörkum um greinilegt blóðleysi í eitt skipti. Flestar hryssur sem flokkuðust undir miðlungsblóðleysi voru búnar með tvær til fjórar blóðsafnanir. Lægsta Hct sem mældist þegar tvær vikur voru liðnar frá síðustu blóðsöfnun, var 25,5%. Af 160 hryssum sem voru með í tölfræðigreiningunni greindust 7,5% með miðlungsblóðleysi og 0,6% með greinilegt blóðleysi. Auk þess voru tvær hryssur með miðlungsblóðleysi og ein með greinilegt blóðleysi af þeim níu sem ekki voru með í tölfræðigreiningunni. Því mætti segja að í heildina hefðu 8,6% verið með miðlungsblóðleysi og 1,2% með greinilegt blóðleysi.
Af þeim hryssum sem mældust með gildi sem samrýmdust blóðleysi var ein sem sýndi merki þess að halda ekki í við blóðtap, en það sýndi sig með vanlituðum dvergrauðfrumum í blóðstroki, sem annars sáust ekki í slíkum sýnum.
Hvað þýða niðurstöðurnar?
Annað stóðið sýndi að áhrif blóðsöfnunar geta verið mjög væg og skammvinn, þar sem lægsta Hct fór niður í 25 - 26% hjá alls fimm hryssum. Hct gildi tóku svo að hækka eftir fjórðu blóðsöfnun í því stóði. Allar hryssurnar voru með að minnsta kosti 30% Hct þegar tvær vikur voru liðnar frá síðustu blóðsöfnun.
Hitt stóðið, sem beitt er á áhrifasvæði Eyjafjallajökulsgossins þar sem hár styrkur járns og lágur koparstyrkur hefur mælst í jarðvegi og gróðri, átti erfiðara með að bregðast við blóðtapinu og því voru á bilinu 21-37% hryssna á bili vægs blóðleysis eftir þrjú til sjö blóðsöfnunarskipti. Langflestar þessara hryssna lækkuðu þó ekki stöðugt heldur héldust á þessu bili eða náðu sér upp fyrir það. Þó voru tólf hryssur með miðlungsblóðleysi og ein hryssa með greinilegt blóðleysi í eitt skipti. Þetta er vísbending um að í jarðvegi og beitargróðri þessara hryssna sé ójafnvægi í snefilefnum sem, þegar á reynir, veldur erfiðleikum í endurmyndun blóðþátta. Mikilvægt er enn fremur að benda á að mörg uppeldisstóð hrossa, bæði reiðhrossa og keppnishrossa, eru haldin á svæðinu. Vitað er að ungviði, sérstaklega folöld og ung tryppi, eiga frekar á hættu að verða fyrir áhrifum röskunar í upptöku járns og annarra snefilefna í fóðri. Það er því mikilvægt fyrir alla hrossaeigendur á svæðinu að þessi áhrif á blóðmyndun hjá hryssum séu rannsökuð betur. Í framhaldinu verða rannsakaðir þeir járnbúskaparþættir í blóði sem eru að verki hjá stóðunum tveimur, til þess að bæta þekkingu á samspili næringar og blóðmyndunar hjá hrossum.
Ályktanir
- Í báðum stóðum voru lægstu meðalgildi blóðsöfnunartímabilsins yfir blóðleysisviðmiðunum. Blóðfrumnahlutfall (Hct) og blóðrauði (Hgb) lækkuðu mest snemma á tímabilinu í stóðinu á Norðurlandi og hækkuðu svo jafnt og þétt. Í stóðinu á Suðurlandi var lækkun sjáanleg fram eftir tímabilinu og héldust gildi lág þar til alveg í lokin. Í báðum stóðum náðu stærð og blóðrauðainnihald rauðfrumna hámarki í fimmtu viku en þau viðbrögð voru greinilegri í stóðinu á Norðurlandi.
- Engar hryssur á Norðurlandi mældust með gildi sem samrýmdist miðlungs- eða greinilegu blóðleysi. Á Suðurlandi voru 13 hryssur með miðlungs- eða greinilegt blóðleysi í eitt eða fleiri skipti. Í allt greindust 8,6% með miðlungsblóðleysi og 1,2% með greinilegt blóðleysi í einu eða fleiri sýnum. Ein af þessum hryssum sýndi merki þess að halda ekki í við blóðtapið.
- Það var munur á milli stóða hversu hratt og vel mótvægisviðbrögð þeirra unnu gegn blóðtapi en ekki er vitað í hverju munurinn liggur. Rannsóknin sýnir að það er full ástæða til þess að kanna áhrifaþætti á blóðhag, meðal annars áhrif næringar. Mögulega er þörf á að rannsaka sérstaklega styrk og hlutfall snefilefna og annarra þátta sem mikilvægir eru fyrir rauðfrumnamyndun, til þess að búa sem best að hryssum í blóðsöfnun.
- Ástæða er til að kanna frekar áhrif snefilefnastyrks í beitargróðri á blóðmyndun hjá folöldum og tryppum á Suðurlandi, þar sem ungviði er einna viðkvæmast fyrir röskun á upptöku járns.
Áhrif blóðtaps
Blóðtap leiðir af sér nokkuð jafnt tap allra þátta blóðsins, þar á meðal frumur, prótín og önnur efni. Rauðfrumur (RBC) og blóðrauði (Hgb) gegna því hlutverki að taka upp súrefni í háræðum lungnanna og flytja það til annarra vefja, en járn, kopar og fleiri snefilefni eru nauðsynleg til myndunar Hgb. Þó svo járnskortsblóðleysi sé mjög sjaldgæft hjá hrossum, getur mikið blóðtap tæmt járnbirgðir líkamans í lifur og milta, en líkaminn bregst þá við með auknu frásogi á járni úr fóðrinu. Næringartengt járnskortsblóðleysi er sjaldgæft hjá hrossum og er Hgb almennt ekki notaður til þess að greina blóðleysi hjá þeim, heldur er notast við blóðfrumnahlutfall (Hct).
Blóðleysi er klínískt ástand en alvarleiki þess fer meðal annars eftir getu og þörf hrossins til þess að vinna súrefnisháða vöðvavinnu. Algengustu einkenni blóðleysis hjá hrossum eru úthaldsleysi í reið, mæði, slappleiki og fölar slímhúðir. Þau blóðleysisviðmið sem skilgreind hafa verið fyrir heitblóðshross taka mið af því að viðkomandi hross þurfi að afkasta súrefnisháðri vöðvavinnu.
Blóðleysi vegna blóðtaps er að jafnaði endurmyndandi ef ekki er annar sjúkdómur til staðar sem hamlar blóðmyndun, þ.e. hrossið hefur getuna til að mynda nýja blóðþætti í stað þeirra sem tapast en eftir því sem blóðtap stendur lengur, minnkar getan til endurmyndunar vegna þess að birgðir m.a. járns og prótína þrýtur.
Þegar RBC lækkar senda blóðmyndunarvefir út í blóðrásina stærri rauðfrumur, sem innihalda meiri Hgb. Ef allar aðstæður eru hagstæðar fyrir myndun Hgb og rauðfrumna, getur hrossið því viðhaldið Hct og Hgb gildum þó svo rauðfrumum fækki. Meðalrúmtak rauðfrumnanna eykst, sem mælist sem hækkað MCV.