Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
„Lífrænir bændur eru öðrum fremur að axla þá samfélagslegu ábyrgð að vernda umhverfið um leið og þeir framleiða matvæli í hæstu gæðaflokkum án eiturefna,“ segir Ólafur m.a. í grein sinni.
„Lífrænir bændur eru öðrum fremur að axla þá samfélagslegu ábyrgð að vernda umhverfið um leið og þeir framleiða matvæli í hæstu gæðaflokkum án eiturefna,“ segir Ólafur m.a. í grein sinni.
Mynd / Aaron Blanco
Á faglegum nótum 19. apríl 2024

Íslandsdeild Evrópuhóps IFOAM

Höfundur: Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, hefur verið fulltrúi Íslandsdeildar Evrópuhóps IFOAM síðan 2003.

Skýrsla Ólafs R. Dýrmundssonar vegna starfa í Evrópuhópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM Organics Europe) fyrir árið 2023.

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson.

Það sem einkennir starfsemi skrifstofunnar í Brussel er yfirgripsmikil sérfræðiþekking starfsfólksins á hinu mikla regluverki sem ESB er búið að koma upp í þágu lífræns landbúnaðar. Sem fyrr stýrir Eduardo Cuoco því ágæta starfi í samvinnu við stjórn IFOAM, Organics Europe, og þar með Jan Plagge, formann hennar.

Á meðal skeleggra starfsmanna er Eric Gall, sem sinnir einkum stefnumálum en almennt séð eru samskiptin við starfsfólkið mjög ánægjuleg og ganga greiðlega, mest með tölvusamskiptum. Enn er mikil vinna í gangi vegna innleiðingar reglugerðar ESB um lífræna framleiðslu sem tók gildi 1. janúar 2022, ýmis álitamál eru að koma upp og túlkanir á sumum ákvæðunum eru nokkuð mismunandi, jafnvel eftir löndum, líkt og bent hefur verið á í fyrri ársskýrslum mínum. Sum ágreiningsefnin fara til EGTOP- sérfræðinganefndarinnar hjá ESB (Expert Group for Technical Advice on Organic Production) og eru þar oft lengi til meðferðar, svo sem skilgreining á verksmiðjubúskap sem ekki er enn fullgerð.

Rétt er að geta þess að skrifstofan er flutt úr Rue du Commerce 124, þar sem hún var til húsa í 20 ár, í Organic House, Rue Marie-Thérese 11. Hér verður vikið að nokkrum málum sem hafa verið ofarlega á baugi á liðnu ári.

Unnið gegn eiturefnanotkun – mótmæli bænda í hefðbundnum búskap

Í ársskýrslu minni fyrir 2022 fjallaði ég töluvert um markvissar aðgerðir ESB til að draga úr ýmissi efnanotkun í landbúnaði, þar með á eiturefnum, tilbúnum áburði, lyfjum og plasti. Hefur m.a. EGTOP-nefndin verið að benda á hve mengun eiturefna við plöntuvarnir er umfangsmikil og skaðleg.

Unnið er eftir þeirri stefnu ESB, sem lífræna hreyfingin fagnar, að dregið verði stórlega úr eiturefnanotkun í landbúnaði.

Þessar aðgerðir ESB krefjast verulegra breytinga í búskapar- háttum, sérstaklega á þeim þéttbærari, þar sem mikil uppskera er á flatareiningu akurlendis, og einnig í kjöt- og mjólkurframleiðslu, þar sem verksmiðjubúskpur ræður ríkjum. Greinilegt er að hækkandi framleiðslukostnaður, m.a. vegna aðgerða ESB og stríðsins í Úkraínu, sætir mikilli gagnrýni bænda og hefur jafnvel leitt til mjög beinskeyttra mótmælaaðgerða í ýmsum löndum á meginlandi Evrópu, svo sem í Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi.

Enn og aftur fær sú umræða byr undir báða vængi að bændur þurfa að fá sanngjörn laun fyrir að tryggja fæðuöryggi. Þar við bætist að vaxandi tillit þarf að taka til umhverfis- og loftslagsmála. Lífrænir bændur eru öðrum fremur að axla þá samfélagslegu ábyrgð að vernda umhverfið um leið og þeir framleiða matvæli í hæstu gæðaflokkum án eiturefna.

Ekki hvikað frá andstöðu gegna erfðabreytingum

Á liðnu ári hefur verið mikil umræða í gangi innan stjórnkerfis ESB um notkun á erfðabreyttu fræi, bæði um eldri kynslóðir þess (GMOs) og nýjungar sem fram hafa komið í seinni tíð ( NGTs).

Lífræna hreyfingin, og þar með Evrópuhópurinn, hvikar ekki frá algjöru banni gegn notkun afurða þessarar tækni í matvælaframleiðslu í samræmi við reglugerð ESB um lífræna framleiðslu, enda samrýmist nýting þeirra ekki sjálfbærri þróun. Líftækni- og efnafyrirtæki, flest fjölþjóðleg, reka umfangsmikinn áróður í Brussel og víðar og reyna að hafa áhrif á ríkisstjórnir aðildarríkja ESB, auk þess að tryggja sér einokunarstöðu á fræmarkaði með einkaleyfum.

Því er við ramman reip að draga og aðdáunarvert hve sérfræðingar Evrópuhópsins í Brussel taka rösklega á þeim málum, á liðnu ári sérstaklega gegn nýju erfðabreytingunum (NGTs). Sem betur fer hafnaði Evrópuþingið síðla árs reglugerð sem ætlað var að liðka fyrir notkun á NGTs.

Velferð búfjár og merking afurða

Evrópuhópurinn er stöðugt að fjalla um velferð búfjár af hinum ýmsu tegundum enda mjög miklar kröfur gerðar til meðferðar þess á hinum ýmsu framleiðslustigum. Við sem erum fulltrúar hinna ýmsu þjóða í Evrópuhópnum erum öðru hvoru beðin að senda inn umsagnir um tiltekin efni.

Dæmi um slíkt mál sem ég tók þátt í á liðnu ári var uppkast að velferðarreglum þar sem gert er ráð fyrir heimild bænda í lífrænum búskap til að merkja búfjárafurðir með sérstöku velferðarmerki, auk vottunarmerkja. Þá voru einnig til umfjöllunar í hópnum drög að nýrri ESB-reglugerð um vernd og meðferð búfjár við flutninga sem eru víða mjög langir í Evrópu og úrbóta er greinilega þörf.

Kynningar og upplýsingar um lífrænar afurðir

Þótt lífræna framleiðslan sé í stöðugum vexti í mörgum Evrópulöndum er þróunin hægfara í sumum þeirra, m.a. hér á landi. Innflutningur á lífrænt vottuðum vörum er víða mikill og því er verið að hvetja til meiri staðbundinnar framleiðslu í hverju landi til að styrkja bæði fæðu- og matvælaöryggi.

Miklum fjármunum er varið til ýmiss konar kynningar- og upplýsingastarfsemi í aðildarríkjum ESB þar sem kostum lífrænna framleiðsluhátta er lýst, m.a. með stuttum og markvissum myndböndum á samfélagsmiðlum, svo sem á YouTube. Evrópuhópurinn gefur út vefefni og tekur virkan þátt í þessu starfi, m.a. á Lífræna deginum í Brussel, sem var haldinn þar í þriðja skiptið 22. september í haust.

Varað við grænþvotti og vörusvikum

Stöku framleiðendur landbúnaðarafurða markaðssetja vörur sínar sem lífrænar þótt þær séu ekki vottaðar með lögmætum hætti. Þetta er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál gagnvart bændum, vinnslufyrirtækjum og neytendum.

Yfirvöld sem annast eftirlit þurfa greinilega að taka slík mál fastari tökum, einnig hér á landi, þar sem dæmi eru um blekkingar í þessum efnum. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því áliti hæstaréttar Ítalíu frá liðnu ári að grænþvottur, þar sem markaðssetning meintra lífrænna afurða (óvottaðra) ætti í hlut, væri ekkert annað en svik. Því bæri dómstólum á Ítalíu að taka harðar á slíku misferli sem teldist í raun glæpsamlegt athæfi. Ekki nægði alltaf að afgreiða svikamál af þeim toga með sektum einum.

Þá hefur Evrópuhópurinn varað ESB við ákvæðum í reglugerðum, svo sem varðandi umhverfismál, sem geta verið blekkjandi og jafnvel fallið undir grænþvott. Ljóst er að innan ESB er litið á grænþvott sem alvarlega meinsemd í verslun og viðskiptum. Um liðin áramót var umfjöllun í Evrópuhópnum, m.a. á fjarfundi, um þau vandamál sem fylgja grænþvotti og þær blekkingar sem hann skapar.

Ritstörf o.fl. í þágu lífræns landbúnaðar

Sem fyrr hafa samskiptin við aðila að Íslandsdeild Evrópuhóps IFOAM, bæði VOR-félag um lífræna ræktun og framleiðslu og Vottunarstofuna Tún ehf., verið góð, og öðru hvoru á liðnu ári hef ég verið í sambandi við ýmsa aðra sem láta sig varða lífrænan landbúnað.

Ég var með stutt erindi um Evrópuhópinn á aðalfundi VORs 29. mars 2022 og flutti eitt framsöguerindanna um lífrænan landbúnað á fjölsóttu málþingi að Sólheimum í Grímsnesi 6. október 2022. Öðru hvoru las ég yfir texta um lífrænan búskap eftir aðra, gaf umsagnir nokkrum sinnum og veitti ýmsum upplýsingar um þau efni, svo sem til háskólanema, bæði símleiðis og í tölvupósti.

Helstu tilvísanir í ritað efni eftir mig um lífrænan landbúnað á liðnu ári eru þessar:

  1. Hvað er lífræn ræktun?- grunngildi, skilgreiningar og löggjöf. Málþing um lífræna ræktun og framleiðslu, Vigdísarhúsi, Sólheimum í Grímsnesi, föstudaginn 6. október 2023. Fjölrit 1.
  2. Evrópuhópur IFOAM- Íslandsdeild. Bændablaðið, fimmtudagur 19. október 2023, blað nr. 643, 19. tbl., 29. árg., bls. 48-49.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...