Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Víða hérlendis er um auðugan garð að gresja er kemur að tínslu jurta. Gæta skal þess, eftir tínslu, að ganga sem snarlegast í verkun þeirra og þurrkun þegar heim er komið svo ekki glatist nytjarnar.
Víða hérlendis er um auðugan garð að gresja er kemur að tínslu jurta. Gæta skal þess, eftir tínslu, að ganga sem snarlegast í verkun þeirra og þurrkun þegar heim er komið svo ekki glatist nytjarnar.
Mynd / Jonathan Ybema
Á faglegum nótum 18. júlí 2023

Kraftur náttúrunnar

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Víða um land spretta ýmiss konar töfraplöntur sem gegnum árin hafa með lækningamætti sínum orðið mörgum til góðs, og er bæði tínsla þeirra og notkun auðveldari en mætti halda.

Áætlað er að hérlendis hafi jurta- eða grasatínsla átt sér stað allt frá landnámi og smám saman hafi mönnum lærst eiginleikar hverrar og einnar. Nokkra hluti þarf að hafa í huga við tínslu og eru þeir eftirfarandi. Jurtir skal tína í þurrviðri og ekki má sjá dögg á jörðu. Sumir vilja fylgja tunglstöðunni og tína þá helst á stórstreymi sem þýðir að tungl sé nýtt – eða fullt.

Tínsla skal ekki vera nálægt vegköntum eða þar sem ryk eða önnur mengun getur haft áhrif á jarðveginn. Gott er að hafa í huga að kraftur jurta er mismunandi á ákveðnum vaxtarstigum, sumar skal tína nýsprottnar á meðan aðrar eru kraftmestar í blóma.

Tínslutímabil þeirra geta einnig verið mismunandi enda hefst og helst blómgunartími afar misjafn. Gæta skal þess að nota skæri við tínsluna nema áætlað sé að nýta rótina. Best er svo að tína jurtir þar sem mikið er af þeim því þar eru þær kraftmestar.

Þurrkun

Til þess að hægast sé að brúka jurtirnar sér í hag þarf að þurrka þær þar til hægt er að mylja þær auðveldlega. Við lok tínslu þarf því að snyrta þær og hreinsa vel og vandlega.

Þurrkun þarf svo að eiga sér stað á þann hátt að ekki skíni sól á þær, heldur á hlýjum stað og dreift vel úr þeim á gisinn dúk.

Einhverjir kjósa að þurrka þær á vægum hita í ofni eða binda í knippi og hengja upp til þurrkunar í a.m.k. 5–10 daga.

Hafið í huga

Þessa dagana, þegar grösugt er orðið og flest í blóma má, á sólríkum, eða a.m.k. þurrum degi halda af stað í tínslu. Í bókinni Íslenskar lækningajurtir eftir Arnbjörgu Jóhannsdóttur kemur fram að þegar villtar jurtir eru tíndar:

„...skal ávallt hafa góðar myndir af jurtunum til samanburðar því oft getur ver ið erfitt að greina á milli líkra plantna, enda hérlendis nokkrar eitraðar jurtir, td. ferlaufungur og stóriburkni“.

Samkvæmt sömu bók er mælt með að tína laufblöð að morgni eftir að döggin hefur þornað, en þau séu kraftmest rétt fyrir blómgun.

Blóm skuli tína miðdegis, helst á þurrum sólríkum degi en þau innihaldi hvað mest virkra efna rétt eftir að hafa opnast til fulls. Þau skuli svo sett á dimman stað til þurrkunar sem fyrst og ekki lengur en nauðsynlega þarf.

Ef nota á alla jurtina að rót undanskilinni er best að taka hana rétt fyrir blómgun og gæta þess að taka aldrei meira en þriðjung. Rótin sjálf er svo kraftmest að haustlagi þegar aðrir hlutar plöntunnar visna og deyja og því affarasælast að grafa hana upp þegar vaxtartímabilinu er lokið. Skera þarf þykkar rætur í 2,5 cm sneiðar fyrir þurrkun svo fari best.

Fræ og aldin skuli tína á þurrum degi, gulbrún, brún eða svört að lit – aldrei græn. Börkur er safaríkastur og bestur að vori og hausti og best að taka á rökum degi þegar hann næst sem auðveldast af trjánum. Forðast skal að barkfletta lifandi tré, en taka frekar börk trjáa sem hafa verið felld. Skera skal niður í smáa bita fyrir þurrkun.

Hér má finna nokkur blóm og plöntur sem má tína eftir árstíma og veðrum og til dæmis gera úr þeim te eða seyði sem má drekka þrisvar sinnum á dag börn þó ekki eins oft.

Túnfífill (Taraxacum officinale).

Vor

Túnfífill tínist fyrir blómgun. Mikilvæg og vanmetin lækningajurt, blöðin eru þvaglosandi og kalíumrík, virka vel á bjúg á meðan rótin hefur jákvæð áhrif á sjúkdóma lifrar og gallblöðru, svefn- og þunglyndi og til almennrar styrkingar. Nota margir blöð og rót saman. Te af blöðum og seyði af rót, 1-2 tsk. á móti einum bolla af vatni. Fíflamjólkina þekkja svo margir sem lækningu við vörtum. Rót og blöð nýtt.

Klóelfting styrkir nýru og þvagfæri, talin góð eftir inntöku sterkra lyfja, dregur úr bjúg og næturþvaglátum. Fjarlægir eiturefni úr líkamanum og styrkir ónæmiskerfið. 1-2 tsk. á móti einum bolla af vatni. Ekki skal nýta rótina.

Sumar

Blóðberg, tínsla snemma sumars, við blómgun, gott við kvefi og hósta jafnframt því sem það þykir hafa róandi áhrif. Blóm og lauf notað, 1 msk. á móti einum bolla af vatni. Einnig notað í mat.

Refasmári, styrkir heiladingul og hormónastarfsemi auk þess að hafa áhrif á bætta matarlyst. Mild jurt sem má nota að vild og gjarnan fyrir alla aldurshópa. 1 msk. á móti einum bolla af vatni. Ekki skal nýta rótina.

Kamilla (líkist baldursbrá og stundum nefnd kryddbaldursbrá), tínsla síðla sumars þegar blómin hafa opnast vel, góð við streitu og meltingarerfiðleikum, stillir hita og styrkir ónæmiskerfið. 1 tsk. á móti einum bolla af vatni. Einungis blómin nýtt.

Blákolla græðir sár bæði í meltingarvegi og á húð, góð við minni háttar krömpum, höfuðverk, niðurgangi og kverkabólgu. 1 tsk. á móti einum bolla af vatni. Ekki skal nýta rótina.

Haugarfi mýkir, græðir og kælir, örvar og styrkir lifur og milta. Mikið notaður í húðsmyrsl gegn alls kyns bólgum, sárum og exemi. Þekkt er að tína haugarfa og leggja á svæði þjökuð af gigt. 1-2 tsk. á móti einum bolla af vatni. Nýttir plöntuhlutar, öll jurtin í blóma.

Söl, tínsla fer fram seinni hluta sumars en auk þess að vera mjög næringarrík eru söl auðug að joði. Þau eru talin hafa styrkjandi áhrif á serótónín framleiðslu og því gott gegn þunglyndi og depurð en hafa einnig verið notuð gegn sjóveiki og timburmönnum.Hægt að neyta þeirra þurrkaðra eða smátt saxaðra í mat. Nýttir hlutar – allir.

Skarfakál er mjög C-vítamínríkt og þótti áður fyrr hin besta lækning við skyrbjúgi, en neysla þess er talin góð við annars konar bjúg, gigt og slæmsku. Gjarnan notað í salat.

Beitilyng (Calluna vulgaris).

Haust

Beitilyng er bólgueyðandi, einkum fyrir gigt, gott við sýkingu í þvagfærum og blöðrubólgu, te gott gegn svefnleysi. 1 tsk. á móti einum bolla af vatni. Einungis blómin nýtt.

Berjatínsla, á okkar vel þekktu kræki- og bláberjum fer jafnan fram snemma hausts, í ágúst og um að gera að nýta sér þá auðlind á hvern þann máta er þykir bestur.

Allt árið

Bóluþang, líkt og söl, hefur styrkjandi áhrif á serótónín framleiðslu og því gott gegn þunglyndi, þreytu og depurð. Til viðbótar er það nærandi, blóðhreinsandi, örvar skjaldkirtil og þar með öll efnaskipti líkamans. Þangbakstrar þykja góðir á bólgna liði og vöðva. Hægt að neyta þeirra þurrkaðra eða smátt saxaðra í mat. Nýttir hlutar – allir.

Göngum því í nytjar landsins, okkur til þurfta, eða eins og gamall húsgangur segir:

Helluhnoðri og hænubit, (rjúpnalauf)
hrafnaklukkan rauða,
vallhumall og vatnafit, (horblaðka),
varna meinum dauða.

13 myndir:

Skylt efni: Nytjajurtir | lækningajurt

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...