Landbótasjóður Landgræðslunnar
Landbótasjóður Landgræðslunnar hefur verið starfræktur frá árinu 2003. Eitt af markmiðum hans er að hvetja umráðahafa lands til verndar og endurheimtar vistkerfa (lög nr. 155/2018).
Landgræðslan fjármagnar sjóðinn en öðrum er það einnig heimilt. Sjóðurinn hefur frá upphafi styrkt landbótaverkefni, um allt land, hjá landeigendum, félagasamtökum, sveitarfélögum og öðrum umráðahöfum lands.
Vinnulag
Árlega er auglýst eftir umsóknum í sjóðinn en við ákvörðun um styrkveitingu er lögð áhersla á verkefni sem miða að;
- stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og gróðureyðingu
- endurheimt gróðurs og jarðvegs
- sjálfbærri landnýtingu
Innan Landgræðslunnar er starfrækt verkefnanefnd og yfirfer hún allar umsóknir sem berast, metur kostnað við þær og gerir tillögu að úthlutun til landgræðslustjóra. Einstök verkefni geta hlotið styrk til allt að 5 ára enda fylgi tímasett landbótaáætlun með umsókn. Meginreglan er að styrkur getið numið allt að 2/3 hluta af reiknuðum heildarkostnaði við vinnu og kaup á aðföngum.
Að landbótaaðgerðum ársins loknum þarf styrkþegi að skila inn upplýsingum um magn áburðarefna og staðsetningu aðgerða (GPS staðsett) til að styrkur sé greiddur.
Aðgerðir eru skráðar í gagnagrunn sem síðan er skilað inn í loftslagsbókhald Íslands.
Úthlutanir úr Landbótasjóði
Árið 2022 hlutu 94 verkefni styrk úr Landbótasjóði að heildarupphæð 99,3 milljónum króna, auk fræs sem Landgræðslan útvegar þar sem þess gerist þörf. Á mynd 1 má sjá yfirlit yfir styrki frá árinu 2008–2022. Þar má sjá að styrkir úr Landbótasjóði hafa á undanförnum árum hækkað og var stærsta úthlutun úr sjóðnum í fyrra.
Frá stofnun sjóðsins hefur hann styrkt 177 verkefni um land allt og nemur heildarstyrkupphæð um 1.060 milljónum króna frá stofnun hans, á verðlagi ársins 2022. Í þessari tölu er mótframlag styrkþega ekki talið, en gróft má áætla að það sé á bilinu 400–800 milljónir á tímabilinu. Samtals má því áætla að heildarkostnaður við landbótaverkefni sem Landbótasjóður hefur komið að sé á bilinu 1,4 til 1,8 milljarðar króna. Eru þá ótalin gríðarmörg verkefni þar sem landeigendur og aðrir umráðahafar lands hafa unnið að landbótum án aðkomu Landbótasjóðs.
Unnið hefur verið að landbótum á um 72 þúsund hekturum frá stofnun sjóðsins þar sem grædd hafa verið upp rofaborð, moldir og melar svo fátt eitt sé nefnt. Nýttur hefur verið tilbúinn og lífrænn áburður til verksins auk fræs.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Landbótasjóð og er umsóknarfrestur til 22. janúar nk. Frekari upplýsingar um sjóðinn sem og umsóknarform er að finna á heimasíðu Landgræðslunnar land. is, en einnig veita héraðsfulltrúar Landgræðslunnar um land allt upplýsingar um sjóðinn.