Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Langan tíma tekur að rækta skóg
Á faglegum nótum 16. apríl 2014

Langan tíma tekur að rækta skóg

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Vaxandi áhugi er hér á landi fyrir ræktun ávaxtatrjáa; garðyrkjustöðvar selja slík tré og freista margir þess að rækta þau í görðum sínum með misjöfnum árangri. Lokaritgerð Hraundísar Guðmundsdóttur skógfræðings á Rauðsgili í Borgarfirði við Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um ræktun ávaxtatrjáa á Íslandi, en hún segir að aðalmarkmið hennar hafi verið að draga saman á einn stað allt það sem vitað er um ræktun ávaxtatrjáa hér á landi um tíðina.

Í ritgerðinni skoðaði Hraundís lifun og þrif plantnanna eftir tegundum og landshlutum en að auki fór hún í gegnum allt það sem ritað hafði verið um ræktun ávaxtatrjáa um tíðina og nýtti sér í þá vinnu heimildir sem aðgengilegar eru inn á vefnum tímarit.is sem og greinasafn Landbúnaðarháskólans.

160 manns tóku þátt í tilraunaverkefni

Garðyrkjufélag Íslands og Landbúnaðarháskólinn hófu vorið 2011 tilraun með ræktun nokkurra ávaxtatrjáa, þ.e. epla-, peru,-plómu,- og kirsuberjatrjáa og fór hún fram víða um land. Alls tóku um 160 manns þátt í tilrauninni og dreifðust þeir um landið. Upplýsingar voru að sögn Hraundísar skráðar í gagnagrunn. „Ég var ein af þátttakendum í verkefninu og er með 12 ávaxtatré í garðinum hjá mér,“ segir hún.

Hraundís segir að ná megi viðunandi árangri í ávaxtarækt á skjólgóðum og sólríkum stöðum hér á landi með ýmis yrki miðað við núverandi veðurfar. Frumniðurstöður úr ávaxtatilrauninni frá árinu 2011 voru þær að góð lifun var á flestum yrkjum en tíðni kals hafi reyndar verið nokkuð mikil. Eplatré voru lægri eftir því sem vestar og norðar dró á landinu og því hærra yfir sjó sem þau voru. Lifun var betri á Suður- og Norðurlandi en á Vesturlandi. „Það er enn of snemmt að kveða upp úr um hvaða yrki ávaxtatrjáa henta best hér á landi og í mismunandi landshlutum. Gögn og reynsla eru enn of takmörkuð og of skammur tími liðinn frá upphafi skipulegra tilrauna, en það er nauðsynlegt að halda vel utan um allar skráningar um ræktun ávaxtatrjáa hér á landi næstu árin til að niðurstöður fáist,“ segir Hraundís.

Elstu heimildir frá árinu 1777

„Elstu heimildir sem ég fann um ræktun ávaxtatrjáa voru frá árinu 1777, þar sem talað var um eplatré sem gróðursett voru í Viðey tveimur árum fyrr og var frá því greint að trén döfnuðu vel,“ segir Hraundís. Þá nefnir hún að Levetzau Kammerjunkur sem hafi verið á ferð um Akureyri hafi lýst því árið 1779 að hann hafi séð tvö perutré í garði þar í bæ og hafi annað þeirra verið með fullþroska peru á. Heimildir eru til um að fröken Jónína Möller, dóttir Edvals verslunarstjóra á Akureyri hafi sáð eplakjarna og náði hann að spíra. Eplatréð stóð inni í stofu í fyrstu en var svo fært út í garð við Höepfnersverslun þegar það varð of stórt fyrir stofuna. Þegar eplatréð var orðið 30 ára gamalt, árið 1910 blómstraði það og flykktust bæjarbúar og gestir að til að líta það undur augum að sjá eplatré í fullum blóma.

Hraundís nefnir að Jóhann Rögnvaldsson garðyrkjumaður hafi í grein sem hann skrifaði árið 1969 greint frá því að hann myndi eftir trénu þar sem það hefði staðið við Höepfner þakið eplum, þá ungur drengur. Áskell Löve skrifaði hins vegar grein í Náttúrufræðinginn árið 1939 þar sem fram kemur að einungis hafi verið fimm epli á trénu og þau öll óæt. Höepfnershúsið brann árið 1912 og eplatréð góða þar með.

„Ég fann margar greinar um ræktun ávaxtatrjáa og uppskeru aldina á liðinni öld, en flestar voru frá árunum 1920 til 1960. Mér sýnist að árið 1946 hafi verið einstaklega gott veður á landinum og fengu margir ávexti úr görðum sínum það sumar, bæði Akureyringar og Reykvíkingar. Sama ár eru áhugamenn um skógrækt á ferðinni í Múlakoti í Fljótshlíð og sáu þeir nokkur eplatré þar, greinar trjánna svignuðu undan ávöxtunum að sögn,“ segir Hraundís.

67 ára gömul eplatré

Hún segir að elstu eplatrén hér á landi séu að líkindum í Furulundi í Reykjavík. Þá hafi Jón Dungal og Elísabet kona hans gróðursett eplatré í gróðurhúsi sínu við Hvamm þar sem þau bjuggu í kringum árið 1947. Reykjavíkurborg eignaðist það land síðar og seldi það til fyrirtækisins BM Vallár árið 1985 með því skilyrði að garður hjónanna fengi að standa áfram. Gróðurhúsið þar sem eplatrén voru gróðursett í fyrstu eru löngu horfin, en 67 árum síðar standa eplatrén enn.

Hraundís segir að hún hafi raða fjölda frétta af ávaxtatrjám í tímaröð og til samanburðar tók hún veðurfar á Stykkishólmi á tímabilinu 1830 til ársins 2000.

Veðurfar hefur greinilega áhrif

„Það er greinilegt að hitafar hefur mikil áhrif á ræktun ávaxtatrjáa, það kemur berlega í ljós þegar skoðaðar eru fréttir af ávaxtatrjám og veðurfari á síðustu öld,“ segir Hraundís. Fréttir af ávaxtatrjám hafi verið mjög fáar á 19. öld og á framanverðri 20. öld en í kjölfar hlýindaskeiðs sem hófst um 1920 hafi fréttum fjölgað til muna. Á fjórða, fimmta og sjötta áratug liðinnar aldar var meðalhiti að jafnaði yfir 4° en þegar kemur fram yfir árið 1960 fór að kólna verulega. „Fréttir af ræktun ávaxtatrjáa eru flestar á fimmta áratug síðustu aldar þegar ársmeðalhiti er hár, en svo fer þeim hratt fækkandi þegar á fór að kólna í veðri,“ segir Hraundís. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...