Lífræn ræktun í flóknu umhverfi
Í ár eru 20 ár síðan lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu voru sett hér á landi. Lífrænum ræktendum og vottuðum fyrirtækjum í úrvinnslu og dreifingu hefur síðan fjölgað jafnt og þétt þótt þróunin hafi ekki orðið jafn hröð og í mörgum nágrannalöndum okkar. Í dag eru vottuð býli 33 talsins og vinnslustöðvar 26.
Í lögunum (162/1994) er mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð þar sem tilgreindar eru lágmarkskröfur sem gerðar eru til vottaðra lífrænna framleiðsluhátta við íslenskar aðstæður í samræmi við grunnreglur Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM), skuldbindingar Íslands skv. I. og II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og skuldbindingar Íslands samkvæmt viðauka F við stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu.] Núgildandi reglugerð er nr 74/2002 en á henni hafa síðan verið gerðar á annan tug breytinga. Matvælastofnun er eftirlitsaðili með reglugerð og lögum um lífræna ræktun. Vottunarstofan Tún ehf. annast vottun fyrirtækja í lífrænni ræktun, og gefur út reglur um lífrænar aðferðir í framleiðslu landbúnaðar- og náttúruafurða. Reglur Túns miðast við íslenskar og evrópskar lagareglur um sama efni.
Eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum
Talsverð eftirspurn er eftir lífrænt vottuðum vörum hér á landi og eru innlendir framleiðendur í sumum tilvikum varla að anna henni. Dæmi um þetta er lífrænt vottuð mjólk en aðeins 3 framleiðendur eru á landinu. ANR úthlutaði í haust opnum tollkvóta fyrir lífrænt vottaða mjólk frá 10.11 2014 til 1.6 2015. M.ö.o. er heimilt að flytja inn frysta lífrænt vottaða mjólk án tolla í ótakmörkuðu magni á tímabilinu.
Bændasamtök Íslands gerðu athugsemdir við þessa fyrirætlun og töldu eðlilegt að kvótinn væri magnbundinn og að gerðar væru skýrari kröfur um vottorð sem fylgja ættu framleiðslunni og að tryggt væri að sömu kröfur væru gerðar til hennar og innlendrar framleiðslu. Einnig að móttakandi vörunnar hefði fullgilda vottun til að vinna úr lífrænt vottaðri mjólk og selja afurðirnar sem lífrænt vottaða framleiðslu.
Styrkir eru mjög takmarkaðir
Nokkrir þættir virðast geta stuðlað að því að aukning í lífrænt vottaðri framleiðslu er ekki meiri en raun ber vitni. Í fyrsta lagi eru styrkir til framleiðenda vegna aðlögunar að lífrænni ræktun mjög takmarkaðir. Sl. 4 ár hefur alls verið deilt út 3,5 mkr. á ári til þessa verkefnis. Fimm framleiðendur nutu þessara framlaga á árinu 2014 en ekki hefur verið auglýst eftir nýjum umsækjendum þar sem þessi upphæð hrekkur aðeins til að greiða ríflega 1/3 af þeim fjárhæðum sem lagðar eru til grundvallar í reglum um úthlutun stuðnings til aðlögunar að lífrænni ræktun.
Í öðru lagi ganga kröfur Vottunarstofunnar Tún ehf. lengra en víða í nágrannalöndunum þegar kemur að nýtingu búfjáráburðar frá öðrum framleiðendum. Samkvæmt reglugerð um lífræna ræktun er óheimilt að nota búfjáráburð frá verksmiðjubúskap í lífrænni ræktun. Hugtakið verksmiðjubúskapur er hins vegar hvergi skilgreint í reglugerðinni né í reglugerðum ESB um lífræna ræktun. Heimilt er að nota aðfluttan búfjáráburð frá hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu ef hann er settur í safnhaug og að hámarki 70 kg N/ha.
Hér á landi notar Vottunarstofan Tún þá viðmiðun að allur alifuglabúskapur þar sem þéttleiki er yfir 25 kg/m2 og/eða eldi fer fram í búrum, og svínabúskapur þar sem dýrin eru inni að staðaldri, teljist verksmiðjubúskapur. Sem dæmi til samanburðar má nefna að samkvæmt þýskum reglum er enginn búskapur þar í landi skilgreindur sem verksmiðjubúskapur. Í Danmörku flokkast allur landlaus búskapur sem verksmiðjubúskapur. Þannig er heimilt að nota búfjáráburð frá svína-, hænsna- og loðdýrabúum (og öðrum búum sem hafa búfé) sem hafa aðgang að landi. Aðfluttur búfjáráburður frá hefðbundnu búi má að hámarki nema 70 kg N/h og þarf að setja í safnhaug fyrir notkun. Stefnt er að því að 2021 verði ekki leyft að nota áburð frá hefðbundnum búskap í lífrænni ræktun. Í Finnlandi er hins vegar heimilt að nota allt að 170 kg N/ha úr búfjáráburði frá öðrum landbúnaði sem er leyfilegt hámark samkvæmt ESB-reglugerðum.
Hátt flækjustig
Flókin staða á innleiðingu reglugerða ESB hér á landi á grundvelli EES-samningsins kann einnig að hafa áhrif. Reglugerð ESB um lífræna ræktun er nr. 834 frá 2007 auk fleiri gerða sem settar eru síðar. Ísland og Noregur hafa óskað eftir nokkrum undanþágum frá henni vegna sérstakra aðstæðna. Má þar nefna heimild til að nota fiskimjöl í fóður og grindagólf í fjárhúsum. Einnig heimild til að hafa meiri þéttleika í bleikjueldi en ESB-reglur heimila á grundvelli sérstakra eiginleika stofnsins sem notaður er hér á landi.
Þrátt fyrir að mikil vinna hafi verið lögð í þetta hefur niðurstaða ekki fengist. Vegna þessa hefur fyrrnefnd reglugerð ekki verið innleidd hér á landi. Þetta skapar fleiri flækjur í framkvæmdinni. Innflutningur lífrænt vottaðra vara frá þriðju löndum fer eftir reglugerðum ESB.
Nú er í gildi hér á landi reglugerð 240/2010 sem er innleiðing á ESB-reglugerð nr. 345/2008. Í viðauka við hana eru tilgreind þau lönd sem ESB hefur viðurkennt að megi flytja inn lífrænt vottaðar vörur frá og markaðssetja sem slíkar. ESB hefur síðan gefið út nýja reglugerð um sama efni þar sem fleiri lönd hafa fengið fyrrnefnda viðurkenningu þar á meðal Bandaríkin og Kanada. Þessi lönd eru hins vegar ekki á listanum sem fylgir íslensku reglugerðinni. Matvælastofnun á að hafa eftirlit með vottun og merkingum á vörum frá þriðju löndum samkvæmt reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu og merkingar. Athugun á því sem gerð var í nóvember sl. leiddi hins vegar í ljós að ekkert slíkt eftirlit er framkvæmt.
Lausleg niðurstaða þessarar samantektar er því sú að styrkja þarf umgjörð lífrænnar framleiðslu. Eftirliti með innflutningi og markaðssetningu innfluttra vara er ábótavant. Þá bráðvantar fjármagn í aðlögunarstuðning til að efla framleiðsluna en skortur er á innlendum afurðum í sumum greinum.