Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Í góðu ári geta mandarínutré gefið af sér milli sex og sjö þúsund ávexti.
Í góðu ári geta mandarínutré gefið af sér milli sex og sjö þúsund ávexti.
Á faglegum nótum 22. desember 2017

Mandarínur um jólin og annað súrt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Neysla á mandarínum og mandarínublendingum er mest í kringum jólahátíðina hér á landi og ófá börn sem fá mandarínu í skóinn frá jólasveininum. Mandarínur tilheyra ættkvíslinni Citrus sem inniheldur alls kyns yrki og afbrigði sítrusávaxta sem reyndar eru ber ef rétt skal vera rétt.

Áætluð heimsframleiðsla á mandarínum, klementínum, tangerínum, satsúmas og öðrum mandarínublendingum er um 29 milljón tonn, sem er rúmlega 200 þúsund tonnum meira en árið 2015.

Kína ber höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að framleiðslu á mandarínum og mandarínublendingum.

Kína ber höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að framleiðslu á mandarínum og mandarínublendingum og er áætlað að framleiðslan þar árið 2016 hafi verið um 20 milljón tonn. Spánn er í öðru sæti yfir stærstu framleiðendur í heiminum en einungis smá-framleiðandi samanborið við Kína þar sem heildarframleiðslan á Spáni var rétt tæp 2,2 milljón tonn. Tyrkland er í þriðja sæti með 942 þúsund tonn. Þar á eftir koma Brasilía, Egyptaland, Japan, Íran, Suður-Kórea, Marokkó og Ítalía með framleiðslu frá rúmum 942 þúsund tonnum niður í 650 þúsund tonn á ári.

Neysla á mandarínum, mandarínu­blendingum og öðrum sítrusávöxtum hefur verið að aukast undanfarna áratugi og gera spár ráð fyrir að hún muni halda áfram að aukast, ekki síst í safaformi.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands var innflutningur á mandarínum, klementínum og öðru svipuðu til Íslands árið 2016 tæp 1200 tonn. Langmest var flutt inn frá Spáni eða rúm 1000 tonn, næstmest var flutt inn frá Perú, rúm 5,5 tonn, því næst koma Bandaríkin, 3,1 tonn, Suður-Afríka, rúm 2,4 tonn, Marokkó, tæp 1,9 tonn, Fílabeinströndin, rúm 12,5 tonn og Úrúgvæ, rétt rúm 11 tonn.
Sama ár fluttu Íslendingar út 437 kíló af slíkum mandarínum til Grænlands.

Ættkvíslin Citrus

Fjöldi ólíkra tegunda af ættkvíslinni Citrus er óþekktur en talað er um fjóra megintegundir sem til hafa orðið í náttúrunni, pomeló, C. maxima, sítrónur, C. medica, papeda, C. micrantha, og mandarínur, C. reticulata. Af þessum megintegundum er svo til nánast ótölulegur fjöldi manngerðra yrkja, afbrigða, blendinga og staðbrigða. Genamengi ætt-kvíslarinnar er stórt og nánast allar tegundir, afbrigði og yrki geta frjóvgast sín á milli og gefið af sér frjóa blendinga. Dæmi um algenga ávexti sem tilheyra ættkvíslinni er appelsínur, C x sineensis, sem eru blendingur pomeó og mandarínu og greipaldins, C x paradisi, sem er blendingur appelsínu og líklega pomeló og ugli eða ljóta sem er blendingur greipaldins eða pomeló og appelsínu og tandaríu, C. tangerina, sem er staðbrigði mandarína.

Fjöldi tegunda af ættkvíslinni Citrus er óþekktur en talað er um fjórar megintegundir sem til hafa orðið í náttúrunni. Af þessum megintegundum er svo til nánast ótölulegur fjöldi manngerðra yrkja, afbrigða, blendinga og staðbrigða.

Öll þessi fjölbreytni var til vegna 15 milljón ára sameiginlegs forföður í litlu beri annaðhvort í Suðaustur-Asíu eða Ástralíu. Talið er að tegundin hafi farið að þróast í ýmsar áttir fyrir um það bil sjö milljón árum og með tímanum í náttúrunni og löngu síðar með hjálp manna hefur orðið til mikill fjöldi ólíkra sítrusávaxta.

Sítrusar eru stórir runnar eða lítil tré sem eru á bilinu 5 til 15 metrar að hæð og með trefjarót. Greinarnar eru stundum þyrnóttar og bera stakstæð og sígræn blöð sem eru smátennt eða heilrennd, egglaga, ílöng og eilítið bylgjótt. Í blöðunum eru olíur sem gefa af sér sterka lykt séu blöðin nudduð. Blómin stakstæð eða nokkur saman í hnapp, yfirleitt hvít með fimm tveggja til fjögurra sentímetra löngum en grönnum krónublöðum sem eru ilmsterk. Fjöldi fræva og fræfla eru í hverju blómi og sjá skordýr um frjóvgun þeirra. Sítrusar eru sjálffrjóvgandi og eiga ólíkar tegundir, afbrigði og yrki auðvelt með að frjóvgast innbyrðis.

Aldinið er safaríkt ber með þykkri húð, hnattlaga eða ílangt auk þess sem til eru sítrusaldin sem er fingruð, 4 til 30 löng og 4 til 20 sentímetra að ummáli. Húðin leðurkennd í þremur lögum, ytra-, mið- og innralagi. Ystalagið mis hrufótt eftir tegundum, gult, grænt, appelsínugult og allt þar á milli. Fjöldi fræja mismunandi eftir tegundum, afbrigðum og sum yrki eru frælaus.

Aldinið er safaríkt ber með þykkri húð. Húðin leðurkennd í þremur lögum, ytra-, mið- og innralagi.

 

Flestar tegundir sítrusa þrífast best í hitabeltinu en eru ræktaðir milli 40° suðrænnar og 40° norð-lægrar breiddar og að 1000 metrum yfir sjávarmáli.

Sítrónur eru hluti af helgi-haldi gyðinga og kallast etrog og finnast myndir af þeim víða í skreytingum gamalla synagóga við botn Miðjarðarhafsins.

Líkt og í annarri stórræktun er mikið notað af eiturefnum til að varna sveppasýkingum og afföllum vegna meindýra við ræktun sítrusávaxta og ætti því alltaf að þvo aldinin vel ef nota á börkinn af þeim í matargerð.

Sítrónuyrki sem kallast fingur Búdda, Citrus medica var. sarcodactylis.

Mandarínur eru upprunnar í Asíu

Mandarínur eru upprunnar í Suðaustur-Asíu og Filippseyjum og hafa verið ræktaðar í Asíu í að minnsta kosti þrjú þúsund ár en í dag eru þær ræktaðar víða um heim.

Elsta heimild um ræktun mandarína eru frá því um 900 fyrir upphaf okkar tímatals og segir frá aldinberandi mandarínutrjám í hálfyfirbyggðum garði valdsmanns. Fimm öldum síðar er talað um rauðar og gular mandarínur í ræktun í Kína.

Talið er að ræktun á mandarínum hefjist á Indlandi við upphaf júlíanska tímatalsins og hafi borist þaðan frá Yunnan-héraði í Kína. Mandarína er getið í Japan milli 1300 og 1200 fyrir Krist og er talið að þær hafi borist þangað frá Kína.

Uppskera á mandarínum fer víðast fram með höndum. 

Talið er að mandarínur hafi borist til Vesturlanda eftir nokkrum leiðum í mismiklu magni og á mismunandi tíma. Vitað er að tvö yrki bárust til Englands árið 1805 frá Kína og þaðan til Ítalíu og landanna sunnan, norðan og við botn Miðjarðarhafs þar sem ræktun þeirra var almenn eftir miðja nítjándu öld. Ávöxturinn er stundum kallaður Miðjarðarhafsmandarínur vegna mikillar ræktunar hennar þar.

Ítalski konsúllinn í Nýju Orleans við Mexíkóflóa var fyrstur til að rækta mandarínur í Norður-Ameríku skömmu fyrir 1850. Þaðan bárust mandarínur til Flórída og Kaliforníu þar sem þær eru mikið ræktaðar í dag. Auk þess sem japanskar mandarínur sem kallast satsúma bárust til Norður-Ameríku 1878 og skömmu eftir 1900 var búið að planta nærri milljón slíkum trjám í suðurríkjunum í kringum Mexíkóflóa, Texas, Louisiana, Missisippi, Alabama og Flórída.

Mandarínu-grasafræði

Nokkur breytileiki er í hæð mandarínutrjáa efir yrkjum en yfirleitt verða þau ekki meira en sjö metrar að hæð en oftast er króna þeirra umfangsmikil. Greinarnar eru grannar, blöðin sígræn, breiðlensulaga, smátennt og stundum með þrengingu og eins og tveimur minni blöðum við blaðstilkinn. Blöðin hvít, eitt eða fleiri saman í hnapp. Aldinið hnattlaga, grænt eða appelsínugult, fræin lítil og oddmjó í annan endann.
Mandarínur eru þurrkþolnar en miklar kuldaskræfur og þola alls ekki frost nema í stuttan tíma.

Ugli, eða ljóta, er blendingur greipaldins eða pomeló og appelsínu og tandarínu sem er staðbrigði mandarínu.

Helstu ættingjar mandarínunnar eru klementínur, satsúmas, tangerínur og reyndar mörg önnur ræktunarafbrigði auk þess sem til er fjöldi yrkja af hverju afbrigði fyrir sig og ekki skrýtið að þessum blendingum sé iðulega ruglað saman. Öll afbrigðin eiga það sameiginlegt að auðvelt er að flysja börkinn af þeim.

Einfaldast er að líta mandarínur sem yfirheiti á öllum afbrigðunum. 

Munurinn á mandarínum og klementínum

Samkvæmt þriðju útgáfu Íslensku orðabókarinnar eru klementínur steinlaust afbrigði af mandarínum. Sem þýðir að mandarínur og klementínur eru mandarínur en mandarínur ekki klementínur. Sumir segja að auðveldara sé að flysja klementínur en mandarínur og að þær séu sætari á bragðið.

Klementínur eru nefndar eftir franska trúboðanum, Marie-Clément Rodier, sem starfaði á munaðarleysingjaheimili í Alsír. Clément ræktaði meðal annars mandarínur í garði við heimilið. Árið 1902 fann hann frælausa mandarínu og hóf fjölgun hennar með ágræðslu. Munaðarleysingjarnir á heimilinu fóru að kalla ávöxtinn klementínu í höfuðið á trúboðanum og festist það við ávöxtinn. Reyndar segja heimildir að frælausar mandarínur hafi verið ræktaðar í Kína í margar aldir undir heitinu kantónmandarínur.

Klementínur eru nefndar eftir franska trúboðanum Marie-Clément Rodier, sem starfaði á munaðarleysingjaheimili í Alsír.

Satsúmas eru mandarínur sem koma frá Japan. Þær eru safaríkar og ekki eins súrar og margar aðrar mandarínur. Til eru nokkur yrki af satsúmum en algengust þeirra eru okitsu og mihovase. Satsúmur hafa takmarkað geymsluþol. Innflutningur á satsúmum til Bandaríkjanna Norður-Ameríku frá Japan var talsverður á fyrstu áratugum síðustu aldar. Innflutningur var stöðvaður eftir loftárásir Japana á Perluhöfn 1941. Eftir að viðskiptasamband komst aftur á milli Bandaríkjanna og Japan eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar voru satsúmur einn fyrsti varningurinn sem leyft var að flytja til Bandaríkjanna.
Tangerínur er heiti á manda­rínum sem upphaflega voru ræktaðar í Marokkó og kenndar við hafnarborgina Dar Shams Tangier. Að öðru leyti eru þær eins og mandarínur.

Lime-fingur frá Ástralíu, Citrus australasica.

Nafnaspeki

Heitið mandarína er dregið af mandarí sem var tungumál yfir- og menntastéttarinnar í norðurhluta Kína og appelsínugulrar yfirhafnar og hatta sem embættismenn í Kína klæddust og kölluðust mandarín. Um 70% Kínverja tala mandarín í dag og er það opinbert tungumál landsins.

Ræktun og umhirða innandyra

Mandarínutré þrífast í margs konar jarðvegi en best í stórum potti með næringarríkum og vel framræstum moldarjarðvegi með pH 5,5 til 6,5. Þær þola þurrt loft og kjósa góðan stofuhita og henta því ágætlega til ræktunar innandyra hér á landi. Auðvelt er að taka fræ úr aldininu og stinga því í mold og fá upp fallega plöntu. Mandarínutré þurfa bjartan stað en ekki endilega beina sól og þau þola illa að standa í vatni. Gott er því að rennbleyta moldina og láta renna vel af henni og láta hana þorna milli vökvana.

Ekki er víst að fræplöntur gefi af sér ávöxt innandyra, en þess eru samt mýmörg dæmi, en í góðu ári geta mandarínutré erlendis gefið af sér milli sex og sjö þúsund ávexti.

Nytjar

Algengast er að borða mandarínur og skylda ávexti ferska og hráa beint innan úr berkinum eða sem hluta af salati eða í marmelaði. Auk þess sem bragðefni sem unnin eru úr þeim eru notuð í sælgæti, gosdrykki, ís, tyggigúmmí, safa og bökunarvörur. Mandarínuolía er notuð í baðolíur, ilmvatn og ýmiss konar snyrtivörur og ferskur börkurinn er gott krydd.

Kínverjar nota börkinn og aldinið til lækninga á innanmeinum, meltingartruflunum og til slím-losunar í öndunarfærum. 

Mandarínur tengjast kínverska nýárinu sem tákn um allsnægtir og gæfu og sjálfsagt þykir þar að hafa þær á borðum sem skraut og færa vinum og samstarfsmönnum sem gjafir í kringum nýja árið.

Sítrónur eru hluti af helgihaldi gyðinga.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Kanada, Rússlandi og Japan tengjast mandarínur jólunum. Í Norður-Ameríku er algengt að gefa mandarínur í sokkinn um jólin, siður sem tengist upphaflega japönskum innflytjendum til Bandaríkjanna.

Mandarínur á Íslandi

Mandarínur eru meðal þeirra ávaxta sem verslunin Liverpool auglýsir til sölu í Vísi og Ísafold snemma í febrúar árið 1913. Næstu ár á eftir heldur verslunin áfram að auglýsa mandarínur til sölu. Árið 1926 eru mandarínur kallaðar gullaldin í Lesbók Morgunblaðsins í greininni Orð úr viðskiptamáli sem er að stórum hluta orðasafn sem Orðanefnd verkfræðingafélagsins tók saman. Orðasafnið er á margan hátt skemmtilegt og þar er meðal annars lagt til að appelsínur verði kallaðar glóaldin, bananar bjúgaldin, sítróna gulaldin, brjóstahaldari brjóstalindi og lakkrís svertingi.

Um miðja síðustu öld er farið að tengja mandarínur jólunum hér á landi og auglýsa jólamandarínur til sölu og smám saman hafa mandarínur tekið við af eplum sem jólaávöxturinn og ekki er talað um jólalykt af eplum lengur. Þau eru einnig ófá börnin á Íslandi sem hafa fengið mandarínu í skóinn um jólin.

Mandarínur og í seinni tíð klementínur eru í huga margra tengdar jólunum og margir sem kaupa mandarínu- eða klementínukassa eða tvo fyrir jólin en líta ekki við þeim á öðrum árstímum. Ástæða þessa er ekki að mandarínur og klementínur séu ekki á markaði allt árið heldur að fyrstu mandarínurnar og klementínurnar frá Spáni, þaðan sem mest er flutt inn frá, koma á markað í nóvember og verð á þeim hagstætt og þær fluttar inn í hundruða tonnavís.

Líkt og í annarri stórræktun er mikið notað af eiturefnum til að varna sveppasýkingum og afföllum vegna meindýra við ræktun sítrusávaxta og ætti því alltaf að þvo aldinin vel ef nota á börkinn af þeim í matargerð.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...