Matjurtagarðurinn og 7 matlaukar
Heppilegasta svæðið fyrir matjurtagarð er í góðu skjóli og örlitlum halla til suðvesturs. Þessar aðstæður eru sjaldnast til staðar í venjulegum heimilisgarði og því best að velja matjurtareitnum stað í góðu skjóli þar sem hann nýtur sólar.
Fyrsta verkið þegar búa á til matjurtagarð er að stinga upp garðstæðið og hreinsa burt allt grjót og annað sem gæti heft vöxt plantnanna sem þar eiga að vaxa. Hægt er að stinga garðinn upp með gaffli eða nota jarðtætara í verkið, sem er mun auðveldara, sérstaklega ef verið er að brjóta nýtt land. Ef notaður er jarðtætari verður að gæta þess að ofvinna jarðveginn ekki því þá getur hann orðið of þéttur og loftlaus.
Hæfileg blanda af mold, sandi og skít
Jarðvegur í matjurtareitnum þarf að vera hæfilega blanda af mold og sandi og yfirleitt þarf að blanda hann með lífrænum áburði og kalki til að bæta hann. Ekki skal þó setja kalk í kartöflugarða því það eykur hættuna á kartöflukláða.
Hæfilegt magn af lífrænum áburði á tíu fermetra eru tvær til þrjár hjólbörur af hrossaskít eða tveir lítrar af þurrkuðum hænsnaskít sem vinna þarf vel ofan í gróðurmoldina. Ef notaður er tilbúinn áburður er hæfilegt magn tvær matskeiðar af Blákorni á fermetra.
Forræktun og útplöntun
Nauðsynlegt er að forrækta flestar matjurtir inni í 6 til 8 vikur áður en þeim er plantað út í garð. Kjörhiti við spírun er 18 til 20 °C en 10 til 17 °C við áframræktun. Plöntum er síðan dreifplantað þegar komnir eru á þær tveir blaðkransar auk kímblaða. Þeir sem ekki hafa áhuga eða aðstöðu til að forrækta sínar plöntur sjálfir geta keypt þær tilbúnar til gróðursetningar í gróðrarstöðvum.
Áður en plantað er í garðinn er gott að stinga fyrir beðum sem eru höfð 20 til 30 sentímetra há, vegna þess að þá hitna þau fyrr, og um metri á breidd. Til að auðvelda vinnu í garðinum er hæfilegt bil á milli beða tvö fet eða 60 sentímetrar. Þeir sem vilja vanda enn meira til verksins og vera snyrtilegir geta smíðað ramma utan um beðið til að halda jarðveginum á sínum stað. Þar sem rými er takmarkað mælir ekkert með því að rækta matjurtir í keri og innan um sumarblóm.
Algengt er að planta matjurtum út um mánaðamótin maí og júní. Útplöntunartími er háður því að jarðvegurinn sé orðinn sæmilega hlýr, að minnsta kosti kominn yfir 6 °C, og hætta á næturfrosti liðin hjá. Heppilegast er að gróðursetja í skýjuðu veðri og jafnvel svolítilli rigningu. Gott er að breiða akrýldúk yfir plönturnar fyrstu vikurnar til að hjálpa þeim af stað. Dúkurinn heldur hita á plöntunum og hann er líka ágæt vörn gegn kálflugu.
Áburður og næring
Ef borinn er tilbúinn áburður á matjurtagarðinn er æskilegt að skipta áburðargjöfinni í tvennt með um það bil mánaðar millibili. Sé miðað við 10 fermetra garð skal gefa um 1 kíló af alhliða áburði um 15. maí og 0,5 kíló um það bil mánuði síðar. Best er að bera á tilbúinn áburð í þurru og ekki er ráðlagt að gefa of mikið af honum því hann getur brennt plönturnar og þannig gert meira ógagn en gagn.
Við blómkálsrækt getur reynst þörf á að bera á hálft til tvö grömm af natríummólýbdati á hverja 10 fermetra og 10 til 15 grömm af bór. Bór í sama magni er einnig æskilegur þar sem rækta á gulrófur, hreðkur og gulrætur. Yfirleitt er nóg af þessum efnum í húsdýraáburði þannig að ekki þarf að gefa þau aukalega sé hann notaður reglulega.
Umhirða
Allt illgresi sem læðir sér inn í matjurtagarðinn ætti að fjarlægja jafnóðum. Með því móti er komið í veg fyrir að það nái að skjóta rótum. Illgresið keppir við matjurtirnar um næringu og birtu í garðinum, auk þess sem sniglar þrífast vel í skugganum af því. Sé þurrt í veðri verður að vökva matjurtirnar reglulega, sérstaklega hraðvaxta og stórblaða jurtir.
Skiptiræktun
Ólíkar tegundir matjurta nýta næringarefnin í jarðveginum misvel og þess vegna er gott að breyta um ræktunartegundir á hverju ári. Með því að skipta reglulega um tegundir dregur úr líkum á jarðvegsþreytu og að sjúkdómar nái að festa sig í sessi. Einföld skiptiræktun felst í að rækta rótarávexti eitt árið en plöntur þar sem ofanjarðarhlutinn er nýttur það næsta og svo koll af kolli.
Matlaukar
Til laukættkvíslarinnar (Allium) teljast um 500 tegundir og nokkrar þeirra eru meðal mikilvægustu matjurta sem ræktaðar eru. Fornleifarannsóknir sýna að Egyptar og Kínverjar ræktuðu lauk mörg þúsund árum fyrir upphaf kristins tímatals.
Laukar þykja ómissandi við matargerð enn þann dag í dag, auk þess sem þeir tengjast þjóðtrú á margvíslegan hátt. Samkvæmt þjóðtrúnni fælir hvítlaukur burt vampírur og laukur í fóðri hænsna eykur varp þeirra.
Blaðlaukur/púrrulaukur (Allium ampeloprasum var. porrum)
Á uppruna sinn að rekja til landanna við Miðjarðarhaf. Gömul matjurt sem er í miklum metum hjá sælkerum. Er lengi að vaxa en þrífst best á sólríkum stað í vel framræstum, lífrænum og lausum jarðvegi. Hægt að forrækta inni eða sá beint í beð. Æskilegt bil á milli plantna er 10 sentímetrar og 30 til 40 sentímetrar á milli raða. Einnig er gott að gróðursetja plönturnar um 10 sentímetra niður í jarðveginn til að bleikja leggina.
Neró keisari hafði miklar mætur á blaðlauk, taldi að hann hefði góð áhrif á söngröddina og borðaði mikið af honum þess vegna. Á 6. öld eftir Krist gerðu íbúar Wales blaðlauk að tákni sínu. Þeir báru blaðlauk á hjálmum sínum til að aðgreina og trúðu því að hann styrkti þá og yki líkur á sigri í stríði.
Graslaukur (Allium schoenoprasum)
Fjölær og algengur í görðum. Myndar litlar fallegar þúfur með safaríkum blöðum. Fjölgað með sáningu eða skiptingu og er auðveldur í ræktun.
Venjulega eru margar plöntur hafðar saman í nokkuð þéttum brúskum eða hnausum í garðinum og bili á milli hnausa haft um 30 til 40 sentímetrar. Vex í margs konar jarðvegi en gott að vökva hann með áburðarvatni annað slagið yfir vaxtartímann. Ræktaður vegna blaðanna en blómin eru líka æt og með laukbragði. Vex í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku og eina lauktegundin sem finnst villt í gamla og nýja heiminum.
Hjálmlaukur (Allium cepa var. viviparum)
Fjölær og fjölgar sér með smálaukum sem myndast í toppi blómstilkanna í staðinn fyrir blóm og fræ. Smálaukarnir eru settir niður með um 10 til 15 sentímetra millibili og 30 sentímetra bil haft á milli raða. Þarf að grisja og umplanta á nokkurra ára fresti. Góður pæklaður.
Danir kalla hjálmlauk pensionista-lauk vegna þess að gamla fólkið þarf ekki að beygja sig til að ná í hann. Hjálmlaukur er mildur á bragðið og gild, sívöl en hol blöðin eru hressandi saman við grænmetissalöt.
Hvítlaukur (Allium sativum)
Uppruni frá Mið-Asíu, Kasakstan, Kirgistan og þar í kring. Hvítlaukur er ræktaður með því að skipta lauknum í geira og setja þá niður að hausti þannig að mjói endinn vísi upp, á 5 til 8 sentímetrar dýpi með um 18 sentímetra millibili. Dafnar best á sólríkum og vel framræstum stað en er um leið þurftafrekur á vatn.
Mörg og margvísleg yrki af hvítlauk eru til, bæði hvít eða rauðleit. Hvítlaukur þarf kuldatíma til að ná að skipta sér. Ef hann er settur niður á vorin vex geirinn en nær ekki að skipta sér. Helstu skaðvaldar við ræktun á hvítlauk eru mygla og rotnun.
Heimildir eru um notkun hvítlauks í Kína 5.000 árum fyrir Krist og hann hefur fundist í gröfum egypskra faraóa. Geirlaukur er gamla norræna nafnið á hvítlauk. Hann var eina lauktegundin sem Norðurlandabúar þekktu áður en aðrar lauktegundir fóru að berast að eftir að bannfæring vofði yfir þeim vegna lyktarinnar. Geirlaukurinn var tengdur Freysdýrkun og um leið frjósemisdýrkun og illa séður af kirkjuyfirvöldum á Norðurlöndum eftir að kristinn siður komst á. Hvítlauksát og hrossakjötsneysla, sem einnig var heiðinn háttur, var því með öllu siðlaust og bannað. Grasakonur og galdrahyski hélt þó hvítlauknum við svo að enn mun vera hægt að fá víkingahvítlauk sem lifði af í nokkrum héruðum í Svíþjóð.
Matlaukur (Allium cepa)
Gömul ræktunarjurt með óvissan uppruna. Til hvítur, gulur og rauður. Sáð um miðjan mars og forræktaður inni eða litlir útsæðislaukar settir beint í beð með 10 til 15 sentímetra millibili um miðjan maí. Dafnar best á sólríkum stað í moldarríkum jarðvegi og þarf reglulega vökvun.
Sniglar eru sólgnir í laukana og geta valdið skaða við ræktun þeirra. 25 sentímetrar er hæfilegt bil milli raða.
Laukur í draumi stendur fyrir öfund og afbrýðisemi yfir velgengni þess sem laukinn dreymir.
Skalotlaukur (Allium cepa var. aggregatum)
Afbrigði af matlauk en laukarnir skipta sér þannig að margir hliðarlaukar vaxa út frá útsæðislauknum.
Skalotlaukur þykir hafa fyllra bragð en venjulegur matlaukur og er þess vegna vinsæll í pottréttauppskriftum og í franskri matarhefð. Ræktaður á alveg sama hátt og matlaukur.
Vorlaukur/pípulaukur (Allium fistulosum)
Er upprunalega kominn frá Mið- eða Austur-Asíu og hefur verið ræktaður frá upphafi ræktunarsögunnar á þeim slóðum. Afar hraðvaxta og auðveld tegund í ræktun. Sáð inni í mars eða apríl, nokkrum fræjum í hvern pott síðan er knippinu í pottinum plantað út þegar veður leyfir. Sá má í beð utanhúss á svipaðan hátt í lok júní, það gefur uppskeru í september. Æskilegt bil á milli hnausa 20 til 25 sentímetrar. Dafnar best á sólríkum stað í kalkríkum jarðvegi.
Kínverjar segja vorlauk mjög hollan, sótthreinsandi og magahreinsandi, styrkjandi fyrir augun, koma í veg fyrir ígerð og lækna kvef.