Meðhöndlun vegna slefsýki
Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun árétta að á næstu misserum mun EB reglugerð nr. 6/2019 taka gildi innan EFTA-landanna, sem áréttar bann við fyrirbyggjandi notkun sýklalyfja í afurðagefandi dýr.
Skv. 107 gr. gildir eftirfarandi:
- Ekki skal beita sýklalyfjum reglulega eða nota þau til að bæta fyrir lélega hollustuhætti, ófullnægjandi dýrahald eða skeytingarleysi eða til að bæta fyrir lélega bústjórn.
- Ekki skal nota sýklalyf sem fyrirbyggjandi meðferð (e. prophylaxis) nema í undantekningartilvikum, til inngjafar fyrir stök dýr eða takmarkaðan fjölda dýra þegar hættan á sýkingu eða smitsjúkdómi er mjög mikil og líklegt er að afleiðingarnar yrðu alvarlegar. Í slíkum tilvikum skal takmarka notkun bakteríulyfja sem fyrirbyggjandi meðferð við inngjöf hjá stökum dýrum.
- Einungis skal nota sýklalyf til verndarmeðferðar (e. metaphylaxis) þegar hætta á útbreiðslu sýkingar eða smitsjúkdóms innan hóps dýra er mikil og þegar engir aðrir viðeigandi kostir eru fyrir hendi.
Slefsýki í lömbum er erfiður sjúkdómur sem meðhöndla þarf með sýklalyfjum. Alls ekki á að nota sýklalyf sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn slefsýki. Þess í stað ætti að einbeita sér að aðgerðum sem minnka líkur á að smit berist í nýfædd lömb og aðeins gefa þeim sýklalyf eftir að sjúkdómsgreining liggur fyrir í hópnum það vorið.
Fyrirbyggjandi notkun sýklalyfja felur í sér hættu á auknu sýklalyfjaónæmi því ofnotkun og röng notkun á sýklalyfjum eykur val á ónæmum bakteríum og þ.a.l. tíðni þeirra. Aðeins næst að draga úr útbreiddri notkun lambataflna í nýfædd lömb hér á landi með sameiginlegu átaki dýralækna og sauðfjárbænda. Stefna ætti að því að nota sýklalyf sem minnst og eingöngu þegar nauðsynlegt er og þegar fyrirbyggjandi aðgerðir hafa ekki borið árangur.
Aðrar fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn slefsýki gætu t.d. verið bólusetning. Erfiðlega hefur gengið að nálgast bóluefni sem er sérframleitt fyrir sauðfé, en reynsla Norðmanna bendir til þess að nota megi bóluefni gegn colisýkingum sem skráð eru fyrir svín.
Sigurbjörg Ólöf Bergsdóttir,
sérgreinadýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma