Um síðustu áramót var meðalbúið komið í 81,2 kýr og jókst bústærðin frá árinu 2022 um 2,9% eða um 2,3 kýr að jafnaði.
Um síðustu áramót var meðalbúið komið í 81,2 kýr og jókst bústærðin frá árinu 2022 um 2,9% eða um 2,3 kýr að jafnaði.
Mynd / seges
Á faglegum nótum 16. september 2024

Mjólkurframleiðsla Norðurlandanna dróst örlítið saman í fyrra

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Árið 2023 varð 0,4% samdráttur á mjólkurframleiðslu Norðurlandanna í samanburði við fyrra ár, en frá árinu 2020 hefur mjólkurframleiðsla landanna fimm nánast staðið í stað eða farið heldur minnkandi.

Snorri Sigurðsson

Þetta er þó misjafnt eftir löndum og á sama tíma og framleiðslan jókst lítillega á bæði Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð þá varð samdráttur í bæði Finnlandi og Noregi. Norsku fjósin eru einnig enn þá minnst að jafnaði í samanburði við hin Norðurlöndin. Þrátt fyrir að heildar framleiðsluminnkun mjólkur á Norðurlöndunum hafi verið 0,4% þá fækkaði fjósum Norðurlandanna mun meira, eða um 4,9%, úr 16.935 í 16.113, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Með öðrum orðum þýðir það að þau fjós sem stóðu undir mjólkurframleiðslu allra landanna fimm juku framleiðslu sína nokkuð á milli ára.

Norsk mjólkurframleiðsla í vanda

Líkt og undanfarin ár þá er danska mjólkurframleiðslan langumsvifamest innan Norðurlandanna en dönsku kúabúin framleiddu í fyrra 5,7 milljarða kílóa, eða um 47% allrar mjólkur þessara fimm landa. Danska mjólkurframleiðslan jókst lítillega frá árinu 2022 eða um 0,1%. Næstframleiðslumesta landið er Svíþjóð með 2,8 milljarða innveginna kílóa en þar jókst framleiðslan á milli ára um 1,9%. Noregur sker sig svo umtalsvert úr miðað við hin löndin þar sem heildarsamdrátturinn varð 6,4% frá fyrra ári, eða 90 milljónir lítra. Þar hafa afurðastöðvar brugðið á ýmis ráð til að takast á við erfiðar markaðsaðstæður en óljóst er með árangur þeirrar vinnu.

81 kýr að meðaltali

Undanfarin ár hefur meðalbústærð á Norðurlöndunum aukist jafnt og þétt og virðist á engan hátt vera að hægjast á þeirri þróun. Um síðustu áramót var meðalbúið komið í 81,2 kýr og jókst bústærðin frá árinu 2022 um 2,9%, eða um 2,3 kýr að jafnaði. Það er mjög svipuð hlutfallsleg aukning og hefur verið undanfarin ár. Breytingin á þróun bústærðar innan Norður- landanna er þó mjög misjöfn eins og sjá má við skoðun töflunnar þar sem fram kemur að finnsku fjósin stækkuðu hlutfallslega mest, eða um 5,7%, og enduðu árið með 56,2 kýr að jafnaði. Það er einungis örlítið fleiri kýr en eru að jafnaði í íslenskum fjósum. Sem fyrr eru dönsku fjósin langstærst og halda áfram að stækka á milli ára. Þar í landi er meðalbústærðin nú komin í 239,3 kýr og í öðru sæti, yfir stærstu fjós Norðurlandanna að jafnaði, eru sænsku kúabúin með 110,7 kýr. Dönsku fjósin eru s.s. meira en tvöfalt stærri að jafnaði en þau sænsku sem þó eru í öðru sæti!

Í Noregi varð þróunin þveröfug við hin löndin, en þar fækkaði kúm að jafnaði í fjósum landsins og er meðaltalið þar nú 31,2 kýr. Rétt er að vekja athygli á því að flest fjós á Norðurlöndunum eru rekin sem fjölskyldubú sem setur samanburðinn í athyglisvert samhengi þegar dönsku fjósin eru rúmlega sjöfalt stærri en þau norsku. Vart þarf að koma á óvart að hin dönsku kúabú geta framleitt mjólk með mun ódýrari hætti en þau norsku, sem skýrir að hluta til þann mikla vanda sem norsk mjólkurframleiðsla er í um þessar mundir.

1,3 milljónir mjólkurkúa

Eins og áður segir fækkaði fjósum á Norðurlöndunum og meðalframleiðsla þeirra sem eftir voru jókst þar sem búin sem eftir voru stækkuðu. Stækkunin ein og sér var þó ekki næg til að hamla því að kúm á Norðurlöndum myndi fækka á milli ára en alls var 28 þúsund kúm færra í árslok 2023 en árslok 2022.

Ársframleiðsla norrænu kúa- búanna er auðvitað nátengd bústærðinni, en að jafnaði lagði hvert bú inn 751 þúsund kíló á síðasta ári, sem er aukning um 33 þúsund kíló á milli ára. Þessi aukning, rúm 30 tonn á ári, hefur verið nokkuð stöðug í rúman áratug og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun, þ.e. að búin sem halda áfram taka yfir framleiðslu búa sem hætta. Rétt eins og undanfarin ár bera dönsku kúabúin höfuð og herðar yfir önnur kúabú á Norðurlöndunum og raunar í allri Evrópu. Þar var hvert bú að leggja inn að jafnaði 2,5 milljónir kílóa árið 2023 sem er 1,4 milljón kílóum meira en sænsku búin leggja inn að meðaltali og eru þau þó hin næstframleiðslumestu á Norðurlöndum. Minnst er framleiðsla hvers kúabús í Noregi, en þar voru lögð inn að jafnaði 204 þúsund kíló frá hverju búi árið 2023.

Meðalkýrin að skila 9,3 tonnum í afurðastöð

Þegar horft er til afurðasemi kúnna á milli landanna er staðan nokkuð ólík eftir því hvaða land á í hlut, enda hefur þar áhrif bæði kúakynið sem er notað við framleiðsluna og það umhverfi sem kúabúin starfa við. Oftast er það svo að þegar meðalafurðir eru metnar, er oft notast við skráðar skýrsluhalds- afurðir, þ.e. uppgefnar afurðir búa sem taka þátt í skýrsluhaldi. Þá er ekki tekið tillit til heimanota á mjólk eða mögulegra áfalla vegna sjúkdómameðhöndlunar svo dæmi sé tekið. Í samanburði tæknihóps NMSN er hins vegar notast við upplýsingar um alla innvegna mjólk til afurðastöðvanna í löndunum og svo heildarfjölda skráðra mjólkurkúa í löndunum. Þegar þetta er reiknað þannig út kemur í ljós að sem fyrr eru mestar afurðir að finna í Danmörku, þar sem hver kýr er að skila að jafnaði 10.350 kg mjólkur í afurðastöð, þar á eftir koma sænsku kýrnar með 9.520 kg og þá þær finnsku með 9.072 kg, er það í fyrsta skipti sem finnsku kýrnar ná yfir 9 tonna afurðir. Næstafurðalægstu kýrnar eru í Noregi, en að jafnaði eru lögð inn 6.522 kg þar í landi eftir hverja kú og lækkar afurðasemin á milli ára um 2,7%. Þetta er vart hægt að skýra með öðrum hætti en þannig að norskir bændur hafi dregið verulega úr orkufóðrun kúa á síðasta ári, til að draga úr framleiðslu. Sem fyrr eru svo íslensku kýrnar í neðsta sæti þessa lista með 5.947 innlögð kg að jafnaði, eða 57% af afurðasemi danskra stallsystra þeirra.

Byggt á árlegu uppgjöri NMSMt-samtakanna um þróun mjaltaþjónatækninnar á Norðurlöndunum og skýrslunni Þróun fjósgerða og mjaltatækni 2021–2023.

Mjaltaþjónabúum fjölgar á ný í Danmörku

Það virðist vera lítið lát á fjölgun mjaltaþjónabúa á Norðurlöndunum og var fjöldi þeirra kominn í 6.556 í lok síðasta árs og hafði þeim fjölgað um 3,4% á milli ára. Það sem heyrir þó til tíðinda er sú staðreynd að eftir nokkuð stöðuga fækkun mjaltaþjóna í Danmörku undanfarin ár, þá tók salan þar heldur betur við sér árið 2023, eins og sjá má af meðfylgjandi mynd. Aukningin þar nam 7,8% á milli ára og þessa breytingu þarf að skýra þar sem undanfarin ár hefur mjaltaþjónabúum þar í landi fækkað, vegna hinna framangreindu stóru fjósa sem eru í Danmörku. Stóru fjósin hafa síður sótt í mjaltaþjónatæknina enda hafa þeir ekki getað keppt við hefðbundið vinnuafl í slíkum fjósum. Nú hafa mjaltaþjónafyrirtækin, þ.e. þeir sem framleiða og selja slíka gripi, þróað nýjan búnað sem þykir henta mun betur fyrir stærri kúabúin. Þessi búnaður, eða öllu heldur aðferð við rekstur og uppsetningu mjaltaþjóna, byggir á hugmyndafræðinni um hópamjaltir kúa. Í þessu kerfi eru allar kýr settar á sérstakt biðsvæði þar sem þær þurfa svo að fara í gegnum mjaltaþjón til að fara innífjósáný.Þettaerþvííraun svipað og að reka kýr til mjalta í hefðbundum fjósum, tvisvar eða þrisvar á dag. Mjaltaþjónarnir, sem eru settir upp í svona rýmum, eru mun ódýrari en hefðbundnir stakir mjaltaþjónar, sem hefur gert þessa aðferð áhugaverða á ný fyrir stærri kúabúin.

Öll löndin bæta við sig mjaltaþjónum

Hin Norðurlöndin öll bættu við sig skráðum mjataþjónafjósum, nokkuð sem kemur ekki á óvart enda þessi þróun staðið nokkuð óslitið í nærri þrjátíu ár. Í árslok síðasta árs voru mjaltaþjónar á 40,7% kúabúa Norðurlandanna, en hæsta hlutfallið á landsvísu var hér á landi, en um síðustu áramót var þessi mjaltatækni á 56,2% af kúabúum landsins. Í öðru sæti listans eru sænsku búin með 48,6% og þá koma norsku búin með 44,1%.

Fjöldi mjaltaþjóna á Norðurlöndunum var 10.768 um síðustu áramót og skiptist fjöldinn nokkuð bróðurlega á milli landanna utan Íslands. Flestir mjaltaþjónar eru þó í Noregi, 2.998, svo þar eru væntanlega nú þegar komnir yfir 3.000 mjaltaþjónar enda vel liðið á 2024.

Þróun útbreiðslu mjaltaþjóna á Norðurlöndunum frá 1998.

1,6 mjaltaþjónar að meðaltali

Líkt og hér að framan greinir voru 10.768 mjaltaþjónar á 6.556 kúabúum í lok síðasta árs, sem gerir að jafnaði 1,6 mjaltaþjóna á hverju búi. Ekki þarf að koma á óvart að dönsku kúabúin eru að jafnaði með flesta mjaltaþjóna, eða 3,3 að meðaltali. Þar á eftir koma sænsku búin með 2,1 mjaltaþjón að jafnaði og svo þau finnsku með 1,6 mjaltaþjóna að meðaltali. Á Íslandi voru að jafnaði 1,2 mjaltaþjónar á þessum búum í árslok 2023 og 1,0 mjaltaþjónn að meðaltali í Noregi.

Ísland í sérflokki

Undanfarin ár hefur tæknihópur NMSM áætlað hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum og samkvæmt þeim útreikningum er nú svo komið að í öllum löndum nema Danmörku er meirihluti framleiddrar mjólkur frá kúabúum með mjaltaþjóna. Langhæsta hlufallið er á Íslandi, eða 74%, og svo er Noregur þar á eftir með 63%. Þá er talið að 59% allrar framleiddrar mjólkur í Finnlandi sé frá mjaltaþjónafjósum og 56% í Svíþjóð. Langlægsta hlutfallið er í Danmörku eða 29%. Vegna umfangs dönsku mjólkurframleiðslunnar þá heldur hún meðaltali Norðurlandanna enn undir 50% og var þetta hlutfall 45% í árslok 2023 fyrir Norðurlöndin í heild.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...