Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Morgunstund gefur gull í mund
Á faglegum nótum 17. júlí 2014

Morgunstund gefur gull í mund

Höfundur: Eyjólfur Ingi Bjarnason

Vorið 2014 var mjög gott og sauðburður gekk víðast hvar vel að teknu tilliti til tíðarfars samanborið við undangengin vor.

Núna er það heyskapur sem stendur yfir en hann gengur misvel sökum tíðarfars. Sauðfjárbændur hafa verið duglegir að ganga frá upplýsingum um sauðburð í Fjárvís en rétt er að minna bændur á að nýta rigningardagana til að ljúka við vorskýrsluhaldið. Líkt og gert var fyrir ári var kynbótamat fyrir frjósemi sem tók mið af vorgögnum reiknað áður en haustbækur voru sendar út og mæltist það vel fyrir hjá bændum.

Stefnt er að því að gera slíkt aftur í ár og verður kynbótamatið reiknað fyrstu dagana í ágúst og bændum sem vilja tryggja að þeirra gögn komist inn er bent á að ljúka þarf vorskráningum fyrir næstu mánaðarmót. Af þessum sökum verða engar haustbækur sendar út fyrr en eftir miðjan ágúst. Þurfi einhver á haustbók að halda fyrir þann tíma er hægt að prenta út bók en koma þarf tilkynningu um slíkt til RML í síma 516-5000.

Skýrsluhaldskerfið endurbætt

Unnið er að endurbótum á skýrsluhaldskerfinu og ráðgert er að endurbætt kerfi verið klárt á næsta ári og munu þá margar skráningarvalmyndir breytast frá því sem bændur þekkja í dag. Nú í sumar er unnið að prófunum á endurbættri burðarskráningarvalmynd og í haust verður unnið í endurbótum og prófunum á haustskráningu. Við endurbæturnar er reynt að hafa einföldun að leiðarljósi og notendavænt viðmót en eins þarf að fara eftir settum reglum s.s. merkingarreglugerð. Stefnt er að því að endurbættar skráningarvalmyndir verði aðgengilegar í lok þessa árs.

Lyfjaskráningar

Fyrr í vetur var opnað á að hægt væri að skrá lyfjagjafir í skýrsluhaldskerfin en skráningarviðmótið fyrir sauðfé er í LAMB. Allir bændur sem hafa aðgang að Fjárvís eru jafnframt með aðgang að LAMB. Skráningarviðmótið er samtengt við gagnagrunna MAST sem halda utan um lyfjagjafir og lyfjaávísanir dýrlækna. Með þessu hefur verið stigið stórt skref í þá átt að halda utan um þessi atriði í miðlægum gagnagrunni líkt og kveðið var á um í merkingarreglugerð sem sett var árið 2005. Misjafnt hefur verið hvernig utanumhaldi á þessum upplýsingum hefur verið háttað fram að þessu.

Næsta skref er að aðlaga alla notendur að skráningu lyfjagjafa í þennan gagnagrunn. Það fyrsta sem allir bændur þurfa að gera er að sækja rafrænt um samning við dýralækni þess efnis að dýralækni sé heimilt að afhenda viðkomandi bónda sýklalyf, ekki þarf slíkan samning vegna ormalyfja og vissra bólusetninga.
Dýralæknir þarf svo að samþykkja samninginn til að hægt sé að byrja að skrá. Þetta þarf aðeins að gera einu sinni og samningur er í gildi svo lengi sem annar hvor aðili segir honum ekki upp. Fram að þessu hafa þessir samningar verið skriflegir og utanumhald þeirra óljóst.

Eitthvað hefur verið um að bændur hafa ekki áttað sig á þessu atriði. Sé dýralæknir ekki búinn að ganga frá samningi ætti viðkomandi bóndi að hringja í sinn dýralækni og minna hann á, því hér á við að samstarf er besta lausnin til að hlutirnir gangi snurðulaust fyrir sig.

Þegar kominn er í gildi samningur milli bónda og dýralæknis er hægt að byrja að skrá. Forsenda þess að hægt sé að skrá lyfjagjafir á einstaka gripi er sú að til séu lyf í nægjanlega miklu magni og notuð eru í lyfjaskáp viðkomandi bús. Sauðfjárbændur geta skráð sýklalyf í lyfjaskáp síns bús en aðeins frá þeim dýralæknum sem þeir hafa gildan samning við. Aðeins hef ég orðið var við að bændum finnist þetta kerfi óþjált sérstaklega þegar kemur að hópskráningu þegar margir gripir fá sama magn líkt og við bólusetningar eða ormalyfsgjöf. Allt er þetta mjög þjált og þægilegt í notkun ef menn vinna skýrsluhaldið rétt og sinna því að yfirfara gripalista og skrá út dauða gripi reglulega. Það er líka til samræmis við góða búskaparhætti. Vinna við bókhald eins og skýrsluhald er auðveldari ef hún er framkvæmd reglulega í stað þessa slá henni á frest trekk í trekk.

Við lyfjaskráningu þarf að tilgreina sjúkdómsgreiningu og í listanum sem leitað er eftir er stuðst við almennan sjúkdómalista sem gildir fyrir allar búfjártegundir. Því kann að vera að bændum finnist sjúkdómsgreiningin ekki nægjanlega lýsandi en þá skal bent á að hægt er að skrá athugasemd við sjúkdómsgreininguna með nánari lýsingu á einkennum viðkomandi grips.

Vönduð heilsufarsskráning í miðlægan gagnagrunn líkt og nú er möguleg mun á komandi árum veita margvíslegar upplýsingar og kannski ekki síst í kynbótastarfi, bændum sjálfum til hagsbóta.

Gæðastýring í sauðfjárrækt

Í lok síðasta árs var reglugerð um gæðastýringu í sauðfjárrækt breytt og gildir núverandi reglugerð út árið 2017. Eitt af þeim atriðum sem breyttist í reglugerðinni var að gæðahandbókin yrði í meira mæli á rafrænu formi en hún er í dag. Skráning á lyfjagjöfum í LAMB uppfyllir því núna fyrri skráningar á þar til gerð eyðublöð í gæðahandbókinni. Þeir bændur sem ekki hafa aðgang að Fjárvís geta eftir sem áður skilað þessum upplýsingum inn ásamt fjárbókum til skráningar og þá fellur vinna við skráningar undir gjaldsskylda vinnu skv. gjaldskrá líkt og með fjárbækurnar.

Undanfarnar vikur hef ég aðeins orðið var við að bændur haldi að þeim verið hent úr gæðastýringu standi þeir ekki skil á upplýsingum líkt og lyfjaskráningu. Til áréttingar er skal minnt á 20. gr. gæðastýringarreglugerðar. „Matvælastofnun skal tilkynna framleiðenda eigi síðar en 31. ágúst ár hvert ef hann uppfyllir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og gefa honum kost á andmælum.“ Það er því ekki þannig að bændur séu felldir úr gæðastýringu án þess að þeir geti komið á framfæri andmælum sbr. almenn ákvæði stjórnsýslulaga.

Önnur breyting sem rétt er að minna á varðandi gæðastýringuna og kom til við breytingu á reglugerðinni nú síðast er að skilafrestur skýrsluhaldsgagna færðist fram um einn mánuð og er nú 31. desember. Bændur eru hvattir til að hafa þessa dagsetningu bak við eyrað nú í haust og ganga tímanlega frá skýrsluhaldi ársins 2014. Oft stendur frágangur skýrsluhalds á því að menn eru að bíða eftir að fá fullorðinsnúmer til að setja í ásetta gripi. Með því að panta fullorðinsmerkin tímanlega til dæmis núna áður en haustið gengur í garð verða merkin komin tímanlega þegar þarf að nota þau í október.

Að lokum skal minnt á nauðsyn þess að tilkynna um allar vanskapanir á lömbum undan sæðishrútum, en nokkuð af slíkum ábendingum kom í vor. Horft er til þessara ábendingar þegar farið verður yfir hrútakost sæðingastöðvanna nú í haust ásamt öðrum upplýsingum um hrútana. Liggi einhver bóndi enn á slíkum upplýsingum má senda þær í tölvupóst til undirritaðs eða hringja í síma 516-5013.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...