Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Náttúruauðlindir við Íslandsstrendur
Á faglegum nótum 6. júlí 2022

Náttúruauðlindir við Íslandsstrendur

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Heilnæm nýting náttúruafurða landsins okkar hefur gjarnan verið í umræðunni, bæði er kemur að beinni ræktun, en einnig í formi þeirra auðlinda sem eru sjálfsprottnar og skiptast m.a. í fræplöntur, byrkninga, mosa, fléttur, sveppi og þörunga, en um þá síðastnefndu verður fjallað lítillega hér á eftir.

Undir samheitinu þörungar eru þær plöntur sem lifa helst í vatni, í sjó eða öðru votlendi.

Þörungar hafa löngum verið nýttir til manneldis á Íslandi, þá helst söl, brúnþörungar á borð við marinkjarna auk hrossa og beltisþara ef marka má upplýsingar frá árum áður.

Í dag hafa líftæknifræðingar gert ýmsar jákvæðar rannsóknir sem benda til þess að þörungar innihaldi afar mikið af lífríkum efnum sem hafa jákvæð áhrif á mannslíkamann, þá helst öflugum andoxunarefnum sem geta haft áhrif á krabbamein, minnkað bólgur, sykursýki og lækkað blóðþrýsting svo eitthvað sé nefnt. Þeir eru einnig auðugir af vítamínum á borð við kalk, magnesíum, natríum og sérstaklega af joði.

Rannsókn FNR leiddi í ljós mikið joðmagn í þörungum.

Þegar vel er að gáð

Joð er reyndar afar mikilvægt næringarefni sem einnig stuðlar að vexti og þroska, vexti og starfsemi taugakerfis og vöðva og hefur áhrif á efnaskipti líkamans, vefi og liði.

Caption

Ójafnvægi á joði getur valdið röskun á starfsemi skjaldkirtilsins og getur valdið afar mörgum heilsufarsvandamálum, en hann er lítill, í raun fiðrildalaga, kirtill framan á neðanverðum hálsi.

En þá er nú svo áhugavert að við Íslandsstrendur leynast þeir þörungar sem innihalda afar mikið joð og á vefsíðu Matarauðs Íslands má finna allskemmtilegt þörungakort þar sem hægt er að leita að hinum ýmsu tegundum matþörunga með því að haka við það sem manni hugnast.

Samkvæmt þeirri síðu má hérlendis helst finna beltisþara, dvergþang, hrossaþara, marin- kjarna, purpurahimnu, fjörugrös, söl og þangskegg.

Magn joðs í nærumhverfinu

Í rannsókn sem gerð var af stofnuninni Food & Nutrition Research (FNR) var meðal annars greint frá magni joðs í þörungum og birtu þeir er að rannsókninni stóðu myndræna skýringu á því eins og sést hér að ofan.

FNR stendur annars fyrir veftímariti sem gegnir hlutverks mikilvægs vettvangs fyrir vísinda- menn þar sem þeir geta skipst á nýjustu niðurstöðum rannsókna á næringu manna í heild og matartengdri næringu sérstaklega. (Fyrir áhugasama: www. foodand nutritionresearch.net)

Áhugavert er gífurlegt magn joðs í hrossaþara (Laminaria digitata) og beltisþara (L. saccharina e. sugar kelp) en þeir falla báðir undir brúnþörunga. Hrossaþara má m.a. finna við strendur Íslands, á grjót- eða klapparbotni þar sem skjólsælt er. Hann vex allt niður á 20 m dýpi auk þess að geta myndað þaraskóg neðansjávar.

Beltisþari í allri sinni dýrð. Mynd / Wikipedia-Baralloco

Beltisþarann má einnig finna í fjörum víða hérlendis, en hann vex á malarbotni, niður á allt að tæplega 30 metra dýpi.

Báðar tegundir vaxa neðst í fjörum og því best að nálgast á háfjöru og stórstraumsfjöru.

Þarafóður og hreinsandi smyrsl

Á vefsíðunni Fjaran og hafið má sjá að mælt er með hæfilegu magni af þara í fóðri, en hann mun hafa áhrif á vöxt húsdýra, nyt í kúm og eggjavarp hænsna.

Þessar upplýsingar má líka finna í fyrsta tölublaði Búnaðarritsins árið 1936, en þar er mælst til þess að gefa húsdýrum þarafóður.

„... þá fá dýrin joð, sem er afar nauðsynlegt, sé það hæfilega mikið, og er mjólk úr kúm sem gefinn er þari, álitin mjög holl. Einnig er það talið mjög gott að hænsni fái þara, til þess að eggin fái því meira joðinnihald, og segja ýmsir fræðimenn þetta vera þá réttu leið, til að bæta úr þörf þeirri, er menn hafa fyrir joðefni.“

Auk þeirra ágætu eiginleika sem joð hefur á líkamann innbyrðis – sé þess neytt í hófi – hefur það í gegnum tíðina þjónað hlutverki sótthreinsandi og líknandi áburðar.

Í tölublaði Ægis árið 1920 er joð mært sem sótthreinsandi efni.

„Joðáburður er öflugt sótt- kveikjueitur og kemur því að góðu gagni við sáragræðslu.“

Að sama skapi birtist í „Ráðabálki“ Heimilisblaðsins 1924 að gott sé að bera joð á tannhold ef um veika tönn sé að ræða.

Læknablaðið, gefið út af Læknafjelagi Reykjavíkur árið 1926, kemur þó fram að við sótthreinsun fyrir botnlangauppskurð á mjög ungum börnum skuli joð ekki notað, heldur frekar alkóhól, vegna hættu á ofnæmi.

„Við ungbörn notar höf. ether og alcohol., en ekki joð til hreinsunar hörundsins á undan skurði, vegna hættu á joð-eczema.“

Tryggvi Ámundsson læknir, sem sat fyrir svörum í Fréttabréfi um heilbrigðismál hálfri öld síðar – í júní 1978, bendir hins vegar á að ekki þyki joðið heppilegt sáravatn.

„Joðupplausn sótthreinsar að vísu ágætlega húð, en blóð og blóðvatn minnkar að miklu leyti alla sótthreinsandi eiginleika hennar. Auk þess svíður óþyrmilega undan joði þegar það er borið í sár.“

Dvergþang. Mynd / Wikipedia

Mengun hefur alvarleg áhrif

Varast skal þó að innbyrða of mikils magns af joði. Vitað er til þess að
sjávargróður geti innihaldið málma á borð við blý, ál og aðra þungmálma ef um mengað umhverfi sjávar er að ræða.

Ýmsar rannsóknir hafa svo bent á að of stór skammtur joðs geti haft alveg öfug áhrif á þá sem eiga við skjaldkirtilsvandamál að stríða og valdið algerri vanvirkni hans.

Upplýsingar frá Apótekum Lyfju greina frá svipuðum upplýsingum, en á vefsíðu þeirra kemur eftirfarandi fram:

„Þó að joð sé nauðsynlegt í skjaldkirtilshormónum getur mjög stór skammtur af því fyllt skjaldkirtilinn um of og dregið um leið úr eðlilegri virkni hans.
Mikil neysla á joði getur valdið vanvirkni skjaldkirtilsins. Ráðlegt er að forðast stóra skammta af náttúrulækningarlyfjum og fæðubótarefnum sem innihalda mikið af joði.“

Allt er gott í hófi

Söl. Mynd / Wikipedia

Í raun má því segja að þarna sé fín lína sem þarf að dansa þegar kemur að inntöku joðs.

Guðrún Bergmann, öflugur talsmaður lífsstíls náttúrulegrar heilsu, greinir frá því á vefsíðu sinni að hafa verið greind með vanvirkan skjaldkirtil, en tekist að leiðrétta virkni hans án þess að fara á skjaldkirtilslyf, þá með joðbætiefninu Red Tiger.

Hvað svo sem hverjum finnst er allt gott í hófi og því ekki úr vegi að fá sér gönguferð meðfram strandlengju einhverri og horfa yfir þarabreiðurnar. Söl hafa löngum kætt bragðlauka Íslendinga, sumir smyrja þau smjörklípu eins og gert er við harðfiskinn á meðan aðrir steyta þau úr hnefa eða tyggja með harðfisknum. Sumir saxa niður hvers kyns þara og bæta út í súpur eða hrísgrjónarétti, aðrir þurrka og mylja niður í þeytinga og enn aðrir nýta þessa auðlind joðsins í andlitsmaska.

Hrossaþari í sólskinsbaði. Mynd / Unsplash

Að lokum

Hafa skal í huga varðandi joðneyslu, að rétt er að vera á varðbergi er kemur að skjaldkirtlinum og hika ekki við að biðja heimilislækni að taka blóðsýni ef grunur leikur á truflunum á starfsemi hans.

Tiltölulega auðvelt er að greina slíkt, þá með hormónamælingum í blóði.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...