Niðurstöður sauðfjárskýrsluhalds árið 2022
Uppgjör fyrir árið 2022 byggir á 287.974 ám tveggja vetra og eldri og eru skýrsluhaldarar um 1.567 talsins. Þetta er fækkun um 14.628 ær miða við uppgjörið 2021. Fara þarf aftur fyrir árið 2007 til að finna færri skýrslufærðar ær í landinu. Í einstökum sýslum er flestar á á skýrslum í Austur-Húnavatnssýslu eða 27.445 ær. Í Skagafirði eru þær 25.345, í Norður-Múlasýslu eru þær 22.943 og í Vestur-Húnavatnssýslu 20.740. Í öðrum sýslum eru fullorðnar ær á skýrslum færri en 20.000.
Meðalafurðir eftir hverja á voru 27,91 kg sem er talsvert minna en verið hefur síðastliðin tvö ár. Árið 2020 voru meðalafurðir eftir fullorðnar á 28,52 kg og árið 2021 voru afurðirnar 29,46 kg eftir ána og hafa aldrei verið meiri. Það var ekki hægt að búast við að stöðugur stígandi yrði í afurðum eftir ána milli ára en afurðir 2022 eru á mjög svipuðu róli og þær voru árin 2018 og 2019.
Niðurstöður eftir svæðum
Afurðir voru gerðar upp í 125 fjárræktarfélögum. Stærsta félagið er Fjárræktarfélag Sveinsstaðahrepps í Austur- Húnavatnssýslu með 10.343 ær á skýrslum hjá 33 félagsmönnum.
Hjá nágrönnum þeirra í fjárræktarfélagi Svínavatnshrepps eru 30 félagsmenn með 6.636 ær á skýrslum. Fjárræktarfélagið Stefnir við vestanverðan Hrútafjörð er með 6.142 ær hjá 11 félagsmönnum, Fjárræktarfélag Lýtingsstaðahrepps í Skagafirði með 6.120 ær hjá 30 félagsmönnum og Fjárræktarfélagið Tindur í Strandasýslu er með 6.092 ær hjá 25 félagsmönnum. Fæstar eru ærnar í Fjárræktarfélagi Suðurnesja eða 169 ær hjá 8 félagsmönnum en þetta félag er jafnframt yngsta fjárræktarfélag landsins.
Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir sýslum ná Vestur-Húnvetningar mestum afurðum eftir sínar ær eða 30,6 kg eftir hverja. Næst kemur Eyjafjarðarsýsla með 29,9 eftir hverja á, þá Strandasýsla með 29,5 kg eftir hverja og síðan Dalasýsla með 29,3 kg eftir hverja á.
Efstu búin
Þau bú í skýrsluhaldi sem skiluðu uppgjöri fyrir árið 2022 og eru með 100 fullorðnar ær eða fleiri eru samtals 923. Efstu búin á lista yfir kg kjöts eftir hverja á sýna hvað hægt er að ná gríðarlegum afurðum eftir ærnar þar sem frjósemi er góð, mikil vaxtargeta fyrir hendi hjá lömbunum og aðstæður með þeim hætti að sú vaxtargeta er nýtt. Þetta árið eru það þrjú bú sem ná meira en 40 kg eftir hverja á. Efst stendur Gýgjarhólskot í Biskupstungum með 44,6 kg. Þetta bú hefur skipað efsta sætið samfellt frá árinu 2015 og alltaf náð meira en 40 kg eftir ána. Mestar voru afurðirnar árið 2017, 48,1 kg eftir ána. Í öðru sæti árið 2022 er Kiðafell í Kjós með 41 kg eftir ána og í þriðja sæti eru Efri- Fitjar í Fitjárdal með 40,6 kg eftir ána. Hjarðirnar á þessum bæjum eru orðnar hagvanar í grennd við afurðatoppinn.
Frjósemi og lömb til nytja
Afurðir eftir hverja á byggja á fjölda lamba til nytja og fallþunga lambanna. Þetta er því ekki algildur mælikvarði á útkomu sauðfjárbúa þar sem mismunandi framleiðslukerfi henta fyrir mismunandi bú. Sumir sjá hag sinn í því að koma með lömbin snemma til slátrunar en aðrir leggja áherslu á að bata lömbin lengur og nýta vaxtargetu þeirra að fullu. Í þessu sambandi er mikilvægt að allir leggi áherslu á að framleiða góða vöru en lömbin mega hvorki vera of holdlítil né of feit. Alltaf er grundvallaratriði að lömbin séu í góðu standi og framför þegar kemur að slátrun þeirra.
Eitt mikilvægasta atriði m.t.t. afkomu sauðfjárbúa, er að ná sem flestum lömbum til nytja. Frumskilyrði er að ærnar séu frjósamar en síðan eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á lifun lambanna. Meðalfrjósemi árið 2022 var 1,84 lömb eftir ánna. Frjósemin hefur heldur potast upp á síðustu árum þó landsmeðaltalið hreyfist mjög hægt. Meðaltalið frá árinu 2000 hefur sveiflast frá 1,80 til 1,85 lömb en árið 2021 fór meðaltali í 1,85 lömb fædd í fyrsta sinn.
Því ber þó að halda til haga að mörg bú hafa náð þarna frábærum árangri og eru með frjósemi í kringum tvö lömb eftir ánna en það er jú ræktunartakmarkið. Hinsvegar eru búin miklu fleiri sem eiga mikil sóknarfæri í því að bæta frjósemina og hér þyrfti að nást aukinn árangur á næstu árum. Nokkur munur er á milli landsvæða í frjósemi. Best er frjósemi ánna í Vestur-Húnavatnssýslu og Norður- Þingeyjarsýslu þar sem hver ær fæðir 1,92 lömb að jafnaði. Í Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafirði fæðast svo 1,90 lömb að jafnaði hjá hverri á. Afgerandi minnst er frjósemi ánna í Ísafjarðarsýslum eða 1,61 lamb fætt eftir hverja. Í Mýrasýslu eru þau 1,75 og í Barðastrandarsýslum 1,79.
Til nytja eru að jafnaði 1,65 lamb eftir ána en árið 2021 komu 1,66 lömb til nytja og sá árangur náðist einnig árin 2016 og 2017.
Veturgömlu ærnar
Veturgamlar ær eru 63.215 á skýrslum árið 2022. Meðal frjósemi þeirra er 0,95 lömb. 12,7% ánna voru geldar og 12,3% af þeim var ekki haldið undir hrút. Meðalafurðir eftir hverja veturgamla á voru 11,64 kg. Árið 2021 voru meðalafurðir eftir hverja veturgamla á 12,24 kg, fædd lömb 0,97, 12,6% voru geldar en 13% ánna var ekki haldið undir hrút. Ánægjulegt er að sjá að hlutfall áa sem ekki er haldið undir hrút lækkar nú aðeins milli ára. Mestum afurðum eftir veturgamlar ær (miðað við bú með 20 eða fleiri veturgamlar ær) náðu Þorsteinn og Katrín á Jökulsá í Borgarfirði eystri. Þar voru afurðir eftir 48 veturgamlar ær 27,1 kg að jafnaði eftir ánna.
Afurðir eftir allar ær búsins (fullorðnar og veturgamlar)
Nú er í fyrsta sinn birtur nýr afrekalisti í samantektum yfir niðurstöður skýrsluhaldsins. Það er listi yfir mestar afurðir eftir allar ær og veturgamlar ær á búinu þá með í hópnum. Búið í Gýgjarhólskoti stendur á toppnum hér með 41,0 kg eftir hverja á.
Fullorðnu ærnar eru 286 en þær veturgömlu eru 66 og er þetta algerlega frábærar afurðir eftir hjörðina. Í öðru sæti er Kot í Svarfaðardal en þar eru fullorðnar ær 101 en þær veturgömlu 7. Hver ær í Koti skilar 37,6 kg. Svínafell 3 í Öræfum og Efri-Fitjar í Fitjárdal deila svo 3. sætinu með 36,8 kg eftir hverja á. Ragnheiður í Svínafelli er með 239 fullorðnar ær og 51 veturgamla en fjölskyldan á Efri- Fitjum er með 816 fullorðnar ær og 198 veturgamlar. Þegar þessi mælistika á afurðir er notuð skiptir að sjálfsögðu máli hver hlutur veturgömlu ánna er í heildarfjölda áa og vert að hafa það í huga þegar þessi afrekalisti er skoðaður. Hér má einnig sjá hve mikilli framleiðslu er hægt að ná ef tækifærin eru nýtt eins og kostur er og tekst að láta allt ganga vel upp.
Listi yfir bú sem ná góðum árangri (úrvalsbú)
Í nokkur ár hefur verið birtur listi á heimasíðu RML yfir bú sem náð hafa mjög góðum árangri með sína hjörð að teknu tilliti til margra þátta. Þessar viðmiðanir hafa verið í mótun og tekið breytingum og þá ekki síst núna 2022 þar sem þeim var breytt umtalsvert. Hér má sjá hverjar þessar viðmiðanir eru fyrir árið 2022. Eðlilegt er að svona viðmiðanir taki nokkuð örum breytingum í takt við vonandi almennt betri árangur hjá fleirum.
Bú með fleiri en 100 skýrslufærðar ær þar sem fædd lömb eftir fullorðnar ær eru fleiri en 1,90 og lömb til nytja fleiri en 1,71, fædd lömb eftir veturgamlar ær eru fleiri en 0,90 reiknað dilkakjöt eftir allar ær er landsmeðaltal (>25,0 kg), gerðarmat sláturlamba er yfir 9,5, fitumat sláturlamba er 5,4-8,0, hlutfall gerðar og fitu yfir 1,3.
Eins ná inn á listann bú með góðar afurðir, þ.e. reiknað dilkakjöt eftir allar ær (>30 kg) og nytjahlutfall >90% þó frjósemi sé minni en 1,9 lömb fædd.
Að öðru leyti er vísað á þennan lista á heimasíðu RML þar sem hann er að finna meðal annara niðurstaðna skýrsluhalds í sauðfjárrækt árið 2022.
Niðurstöður fyrir flokkun sláturlamba
Í skýrslum fjárræktarfélaganna fyrir framleiðsluárið 2022 eru upplýsingar um 431.703 sláturlömb á 1.533 búum. Meðalfallþunginn var 17,0 kg, einkunn fyrir holdfyllingu 9,39 og einkunn fyrir fitu 6,51. Árið 2021 voru sláturlömbin 453.589. Meðalfallþungi var þá 17,7 kg , einkunn fyrir holdfyllingu 9,47 og einkunn fyrir fitu 6,77. Það er því talsverður munur milli þessara ára hvað varðar framleiðslumagnið, fallþungann og fituna en munur á gerðinni er minni en ætla mætti miða við 700 grömmum minni fallþunga 2022.
Um þriðjungur skýrsluhaldara hafa náð því marki sem sett hefur verið fram fyrir fjárstofninn í ræktunarmarkmiðum. Þar er miðað við að ná öllum lömbum í R eða hærri holdfyllingaflokk og þaraf60%íUogE.Þaðbúsem nær40%lambaíRog60%íU fær 9,8 í gerðareinkunn. Ef horft er til búa með upplýsingar um 100 sláturlömb eða fleiri, þá eru það 31 % sem ná þessari einkunn.
Fitan er eiginleiki sem er bestur á ákveðnu bili. Til þessa hefur markmiðið verið að sem stærstur hluti framleiðslunnar fari í fituflokka 2 og 3. Bú sem fær helming framleiðslunnar í hvorn flokk fengi fitueinkunn upp á 6,5 og stendur landsmeðaltalið reyndar um það bil í þeirri tölu í ár. Þyngstu lömbin voru í Norður-Ísafjarðarsýslu 18,2 kg að meðaltali. Sláturlömb í Eyjafirði voru að meðaltali 17,9 kg og í Strandasýslu voru þau 17,8 kg. Best gerðu lömbin voru á Ströndum (holdfyllingareinkunn 10,35). Næst þeim komu slátur- lömb á Snæfellsnesi með 9,92 í holdfyllingareinkunn og í þriðja sæti eru sláturlömb í Vestur- Húnavatnssýslu með 9,84.
Bú með besta holdfyllingu lamba
Miðað við 100 sláturlömb eða fleiri eru það 23 bú sem ná þeim frábæra árangri að holdfyllingareinkunn sláturlambanna sé 11,5 eða hærri. Árið 2021 voru þessi bú 17 talsins en fallþungi var meiri en áður hefur þekkst. Hæst gerðarmat var hjá Sigurfinni Bjarkarssyni í Brattholti í Árborg en 108 dilkar frá honum fengu að meðaltali 12,92 í gerð. Næst í röðinni koma lömbin hjá Elínu Önnu og Ara Guðmundi á Bergsstöðum í Miðfirði. Þau lögðu inn 1.019 sláturlömb og er meðalgerð þeirra 12,30.
Þriðju í röðinni eru sveitungar þeirra, Ólafur og Dagbjört á Urriðaá. Þau lögðu inn 1.027 sláturlömb og er meðalgerð þeirra 12,29. Frábær árangur hjá þessum bændum sem standa í fylkingarbrjósti sauðfjárbænda, hvað gerð sláturlamba varðar
Vaxtarhraði
Líklega er það draumur flestra sauðfjárbænda að fá lömbin rígvæn úr sumarhögum, tilbúin til til slátrunar.
Hér skiptir að sjálfsögðu máli að eðliseiginleikarnir séu góðir í stofninum, að ærnar sé mjólkurlagnar og lömbin búi yfir mikilli vaxtargetu. Umhverfisáhrifin vega hér einnig þungt, bæði atlætið og gæði beitilandsins. Hvergi á landinu uxu lömbin hraðar sumarið 2022 en á Búrfelli í Svarfaðardal, en þau þyngdust að meðaltali um 166 g/dag.
Meðal vaxtahraði á landsvísu var um 120 g/dag. Í töflu 5 má sjá lista yfir bú þar sem lömbin náðu mestum vaxtarhraða. Líkt og þar kemur fram eru þessir lambahópar yfirleitt með lágan meðalaldur, langt undir meðalaldri sláturlamba haustið 2022 sem voru 140 dagar ef skoðuð eru bú með 100 eða fleiri sláturlömb. Gefur það til kynna að þessi lömb hafi haft það gott í sumarhögum og komið rígvæn af fjalli.
Að lokum
Niðurstöður skýrsluhaldsins hjálp okkur til að greina hvað má bæta. Listar yfir hæstu bú hjálpa okkur að sjá hvaða árangri er hægt að ná og eiga að virka sem hvatning. En til að ná góðum árangri þarf margt að spila saman, s.s. öflugar kynbætur, góðir búskaparhættir, haglendið og tíðarfarið. Nánari upplýsingar varðandi niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir árið 2022 má finna á heimasíðu RML.