Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Íslandsmethafinn Mókolla 230 á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð sem mjólkaði alls 114.644 kg á sinni ævi.
Íslandsmethafinn Mókolla 230 á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð sem mjólkaði alls 114.644 kg á sinni ævi.
Á faglegum nótum 13. mars 2017

Nokkrar tölur úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar 2016

Höfundur: Guðmundur Jóhannsson ábyrgðarmaður í nautgriparækt
Eins og fram hefur komið voru afurðir eftir hverja árskú á síðasta ári þær mestu sem mælst hafa hingað til eða 6.129 að meðaltali. Þetta er mikil aukning en á sér án efa skýringar í m.a. miklum gæðum heyja frá sumrinu 2015. Afurðaaukningin frá árinu áður nemur 4,8%.
 
Hér er hins vegar ætlunin að líta til annarra niðurstaðna úr skýrslu­haldi nautgriparæktarinnar en afurðatalna. Þátttaka bænda í skýrslu­haldi er mjög góð þó ávallt megi gera betur og söknum við allra þeirra sem utan þess standa. 
 
Með nýjum samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar verður þó breyting á þegar skýrsluhald verður skilyrði fyrir greiðslum. Reikna verður með að allir kúabændur muni taka þátt í skýrsluhaldi á árinu 2017. Á síðasta ári skiluðu 93% búanna skýrslum og eru þau bú með 96,5% allrar innleggsmjólkur á landinu. 
Eins og áður hefur komið fram var meðalbústærðin 43,5 árskýr og er það minnkun um 0,5 árskýr frá fyrra ári. Meðalinnlegg þessara búa jókst nokkuð milli ára, eða um 25.905 lítra að meðaltali, þannig að meðalinnlegg á skýrslubú í fyrra nam 259.896 lítrum. Þessar tölur miðast við bú með innlegg allt árið.
 
 
Mjólkurnýting
 
Mjólkurnýting, þ.e. hlutfall skýrslu­færðrar mjólkur sem skilar sér sem innlegg, var 96,4% á síðasta ári samanborið við 95,8% árið áður. Í heildina er áreiðanleiki skýrsluhaldsins mjög mikill og mismunur á skýrslufærðri og innlagðri mjólk mjög lítill og innan ásættanlegra marka. 
 
Í örfáum tilvikum er þó raunin á annan veg og alveg að skekkja er utan þeirra marka sem hægt er að sætta sig við. Í þeim tilvikum þurfa menn að taka sig á en þetta er nánast bundið við bú þar sem óregla er á skráningum og skýrsluskilum. Það er þó algjörlega fráleitt að draga áreiðanleika skýrsluhaldsins í heild sinni í efa þó upp komi einstök tilvik sem betur mega fara. 
 
Þá skulum við horfa á þá staðreynd að í dag skila um og yfir 90% búanna skýrslum mánaðarlega en fyrir aðeins 10 árum síðan var þetta hlutfall milli 60 og 70%. Ég held að þeir sem telja skýrsluhald hérlendis hafa færst til verri vegar ættu að hafa þetta í huga og koma með góð og haldbær rök fyrir því að betra sé að skila sjaldnar en oftar.
 
Efnainnihald
 
Þróun í efnainnihaldi stóð í stað að segja má. Fituhlutfall innleggsmjólkur hækkaði milli ára, úr 4,11% í 4,14%, en próteinhlutfall lækkaði, úr 3,32% í 3,29%. Í sambandi við efnahlutföll í mjólk er ástæða til að nefna það hér að of mikið af kýrsýnum með of háu eða of lágu efnainnihaldi kemur inn til greiningar. Þetta á einkum við um fituhlutfall og mjög brýnt að menn vandi mjög til sýnatöku auk þess að taka ekki sýni úr kúm sem eru mjög stutt frá burði eða nánast orðnar geldar.
 
Aldur við 1. burð
 
Varðandi burðaraldur 1. kálfs kvígna þokuðust mál til betri vegar á síðasta ári og lækkaði burðaraldur milli ára úr 28,6 mánuðum í 27,4 mánuði til jafnaðar. 
 
Þrátt fyrir þetta er ljóst að alltof margar kvígur bera of gamlar hérlendis og kostar þetta greinina gríðarmikla fjármuni í húsnæði, fóðri og vannýttum framleiðslueiningum. Í lækkun aldurs við 1. burð er þó nokkra hagræðingu að sækja sem bætt getur hag kúabænda nokkuð en allir bændur ættu að stefna að því að láta kvígurnar bera 24-25 mánaða eins og síaukinn fjöldi bænda góðu heilli gerir.
 
Ásetningur nautkálfa
 
Á síðasta ári dróst ásetningur nautkálfa saman hlutfallslega en sé horft til fjölda ásettra nauta jókst ásetningur um 2,2%.
 
Skýringin á þessu er sú að skráðum burðum fjölgaði nokkuð milli ára sem er mjög eðlilegt ef fjölgun kúa er höfð í huga. Nokkrar breytingar eru þó að verða í ásetningsmynstrinu og æ fleiri kúabú einbeita sér að framleiðslu mjólkur án kjötframleiðslu með eldi nauta.
 
Förgunarástæður
 
Á árinu 2015 var tekin upp sú nýjung í Huppu að hægt er að skrá tvær förgunarástæður á mjólkurkýr. Í 17,2% tilvika voru skráðar tvær förgunarástæður og er algengast að  þar sé um ræða júgurbólgu með einhverri annarri ástæðu. Af einstökum förgunarástæðum er júgurbólga algengasti förgunarvaldurinn eða í 23% tilvika. Næstalgengast er að kúnum sé fargað vegna ófrjósemi, þ.e. þær festa ekki fang og fara því yfir móðuna miklu af þeirri ástæðu. Þetta á við í um 13% tilvika. Næst í röðinni koma júgur- og/eða spenagallar sem er tilgreind ástæða í 11% tilvika og síðan koma litlar afurðir í 10% tilvika. Aðrar ástæður eru sjaldnar tilgreindar.
 
Æviafurðir
 
Í Bændablaðinu fyrir nokkrum vikum var farið yfir afurðahæstu kýr ársins 2016. Nautgriparæktarkerfið Huppa hefur nú verið í notkun í rúmlega 8 ár og þar er að finna afurðaupplýsingar fyrir einstaka gripi frá árinu 2006. Í kerfinu er því að finna allar afurðir mikils meirihluta núlifandi gripa og því ekki úr vegi að skoða aðeins hvaða gripir hafa mjólkað mest á æviskeiðinu, þ.e. æviafurðirnar. 
 
Þær kýr sem eru skráðar með mestu æviafurðir í Huppu og eru annaðhvort lifandi enn eða voru felldar á árinu 2016 eða síðar eru kýr sem sjá má í töflunni hér að ofan.
 
Að lokum
 
Ástæða er til að óska kúabændum til hamingju með góðan árangur á síðasta ári. Sett voru Íslandsmet í meðalafurðum og afurðum einstakra kúa. Hvort afurðir halda áfram að aukast á þessu ári er erfitt að spá fyrir um og kemur þar margt til. 
 
Nú um áramótin varð skýrslu­hald skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Það hefur óneitanlega í för með sér allmiklar breytingar, m.a. þær að inn í skýrsluhald kemur nokkur hópur búa, ýmist á nýjan leik eða í fyrsta skipti.
 
Guðmundur Jóhannsson
ábyrgðarmaður í
nautgriparækt
mundi@rml.is

 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...